18.03.1968
Efri deild: 71. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (772)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Pétur Benediktsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir í dag væntanlega til endanlegrar afgreiðslu í þessari d., er ekki líklegt til að valda stórbyltingum í þjóðlífi Íslendinga. Mér skilst, að árangur þess gæti orðið sá, að fjórða hvert ungmenni í þessu landi fengi að greiða atkv. við alþingiskosningar einu ári fyrr en ella hefði orðið. Þetta er sjálfsagt til bóta og er sízt að lasta það. Ég ætla ekki að fjölyrða um sjálft frv., en mig langar til, fyrst stjórnlög landsins eru á annað borð á dagskrá hjá okkur, að nota tækifærið til að minnast á önnur atriði í sambandi við endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Ég ætla þó ekki að fara að krefja hæstv. ríkisstj. um skýrslu um árangur af starfi þeirra lærðu nefnda, sem settar hafa verið á undanförnum áratugum til almennrar endurskoðunar stjórnarskrárinnar, og þurfa þeir, sem þar eiga hlut að máli, ekki að óttast neitt fjölmæli af minni hálfu í því efni. Ég held líka, að heppilegasta leiðin við endurskoðun stjórnlaga sé ekki sú, sem gefin var bending um með þeirri nefndaskipun, að láta fara fram allsherjarendurskoðun stjórnlaganna, heldur eigi að fara sér hægt, breyta ekki nema einu eða fáum atriðum í senn og taka þau atriði fyrir, þar sem þjóðin finnur, að skórinn kreppir. Ég mun nefna þrjú atriði.

Hið fyrsta var það, að í upphafi Alþ. var á það minnzt að ríkisstj. mundi hefja athugun á því, hvort rétt væri að koma hér á því skipulagi, að Alþ. yrði ein þingdeild í stað tveggja deilda, sem við nú höfum. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. hafi haft í ýmis önnur horn að líta, svo að hún hafi ef til vill átt erfitt með að koma þessu máli á dagskrá hjá sér. Herra forseti. Ég sé ekki neinn úr ríkisstj. hér á fundi, og ég er að beina máli mínu til hennar. (Forseti: Já, já. Ég skal láta ráðh. vita.) Mun ég gera hlé á máli mínu, meðan einhver þeirra er sóttur. (Forseti: Það er verið að gera ráðstafanir, til að ráðh. viti um ósk hv. ræðumanns.)

Herra forseti. Það gleður mig að sjá, að stjórnarbekkirnir eru ekki lengur auðir í þessari háu deild, og þess vegna mun ég snúa mér aftur að þeirri fsp., sem ég ætlaði fyrst að gera hér, þ.e. að spyrja hvort nokkuð hafi gerzt í því máli, sem minnzt var á í upphafi funda Alþ. í haust, að athugun yrði látin fara fram á því, hvort henta þætti að koma því skipulagi á, að ein þingdeild yrði hér á Alþ. í stað tveggja, sem við eigum við að búa nú að sinni. Ég er í sjálfu sér ekki að reka á eftir málinu, og ég skil það, að hæstv. ríkisstj. hefur haft í mörg önnur horn að líta, en mér og sumum öðrum er nokkur forvitni á því að vita, hvort flokkarnir hafi skipað fulltrúa til viðræðna um þetta mál.

Annað atriði, sem ég vildi gjarnan minnast á, er það, að endurskoðun á ákvæðum stjórnarskrárinnar um kjördæmaskipunina verður æ meira aðkallandi. Vissulega ávannst mikið með breytingunni 1959, en engan veginn nóg, ef við lítum á borgara þessa lands sem fólk, sem eigi jafnan rétt, hvar sem það er fætt og hvar sem það er búsett.

Kjósendum landsins hafði fjölgað úr tæpum 100 þús. við kosningarnar 1963 í rösklega 107 þús. við síðustu alþingiskosningar eða nákvæmar tiltekið um 7303 kjósendur. Af þessari fjölgun féll langmestur hlutinn á tvö kjördæmi, fyrst og fremst Reykjavík, en þar næst — og ekki langt á eftir — Reykjanes. Reykjavík hygg ég, að fjölgunin hafi verið sem næst því, að kjósendum í landinu hefði fjölgað almennt um nærri 7,5%, en í Reykjaneskjördæmi yfir 22%. Í öðrum hlutum landsins var fjölgunin nauðalítil og jafnvel í tveimur kjördæmum minni en engin. Tala kjósenda á hvern kjördæmakjörinn þm. var við síðustu kosningar hér í Reykjavík 3785, á Reykjanesi 3345, í Norðurl. v., á Vestfjörðum og Vesturlandi að meðaltali 1168, og ef við tökum meðaltalið af Suðurlandi, Austurlandi og Norðurl. e., var það nokkru hærra eða 1368. M.ö.o.: íbúarnir í kjördæmunum þremur vestanlands, Norðurl. v., Vestfjörðum og Vesturlandi hafa þrefaldan kosningarrétt á við okkur, sem erum hér á suðvesturkjálkanum, og í eystri kjördæmunum, þar sem við köllum hér „austan fjalls“, á Austurlandi og á Norðurl. e., hafa kjósendur 21/2 atkv. hver á móti 11/2 hér.

Geta menn fært nokkra skynsamlega ástæðu fyrir þessari mismunun? Geta menn sagt mér, svo að ég taki dæmi af ágætum bónda í mínu kjördæmi, sem fluttist hingað norðan úr hinu fagra Húnaþingi: Hvers vegna á hann að hafa 1 atkv., en fermingarbræður hans, sem búa álíka góðum búum í Þingi eða Vatnsdal, að hafa 3 atkv. miðað við hið eina, sem hann hefur? Þetta er ekki mælt til að hallmæla því fólki, sem býr á þessum stöðum. Það er hvorki verra né betra en við, sem hérna erum. Það er alveg sama fólkið, sama þjóðin. Það, sem ég vil halda fram í þessu efni, er, að það er ekki landslag, sem á að greiða atkv., heldur menn. M.ö.o. allt annað en jafnrétti í þessu efni er trú á stokka og steina — það eru stokkar og steinar, sem eiga að greiða atkv. í staðinn fyrir hið lifandi fólk.

Þetta mál verður að leysa, og því verður haldið vakandi, hvort það verður leyst með því að breyta þingmannafjölda þeirra kjördæma, sem nú eru, eða með því að skipta landinu í einmenningskjördæmi, kann að vera álitamál. Ég væri fyrir mitt leyti til viðtals um hvora leiðina, sem er, en þarna er nauðsyn, að hæstv. ríkisstj. hafi forystuna um endurskoðun, áður en hið nýja ranglæti, sem er að myndast og fer vaxandi með hverju árinu, verður þannig, að með engu móti verði við unað.

Þriðja atriðið, sem ég vil minnast á, er mjög ofarlega á baugi í umræðum manna á meðal þessa stundina. Það er í sambandi við forsetakjör það, sem fer í hönd innan nokkurra mánaða. Við forsetaembættið er, eins og við vitum, mikill tilkostnaður, og koma þó ekki öll kurl til grafar, þegar við lítum í þá grein í landsreikningi, sem kölluð er æðsta stjórn landsins; ef ég kann að lesa reikninginn — og vona ég, að það verði leiðrétt, ef ég hef mislesið — eru kýrnar á Bessastöðum á hærri launum en forsetinn, og það svo miklu munar.

Við höfum verið heppin í þessu landi með þá tvo ágætu menn, sem fyrstir hafa valizt til að gegna þessu virðulega embætti. Þetta eru vitrir og kurteisir menn, sem hafa sómt sér vel á þessum stað og haldið uppi virðuleik hans. En því verður ekki neitað, að verkefnin, sem stjórnarskrá Íslands ætlar forsetanum, eru nauðalítil og sú hætta vofir yfir, að erfitt verði til frambúðar að fá færa menn — og að fá æskilega menn — til að gegna því embætti. Mér er sagt, að að þessu sinni megi þó búast við því, að við fáum að velja um tvo unga og röska sveina, sem munu vera tilbúnir til að fórna sér fyrir þjóðina, en höfum við athugað, hvað við erum að heimta af þessum aumingja mönnum með því að loka þá þarna inni verkefnalausa? Og nú vill svo illa til með báða þessa menn, að þeir hafa báðir lokið doktorsprófi og geta því ekki einu sinni haft það sem tómstundaiðju að búa sig undir þá vegtyllu — hvor þeirra, sem situr þarna næstu árin.

Í þessu sambandi langar mig til að minna á það, að á seinni árum hefur sá — að mínum dómi heppilegi síður — komizt á, að í langflestum tilfellum hefur forsrh. ekki sinnt öðrum rn., og á þetta við, ef ég man rétt, um fjóra forsrh., sem embættinu hafa gegnt síðustu áratugi. Ég tel þetta, eins og málum er farið nú, mjög heppilega aðferð, ekki sízt þegar um samsteypustjórnir er að ræða eins og hætt er við, að við munum eiga við að búa næstu áratugi. Undir þessum kringumstæðum mundi ég álíta, að forsrh. væri engin ofætlun að taka á sig jafnframt þau störf, sem nú eru ætluð forseta landsins.

Ég ber ekki fram á þessu þingi till. um breytingu á stjórnarskránni í þessa átt, en ég álít, að slíka till. þurfi að undirbúa. Það eru fáein vandamál í því sambandi einkum vegna ástands, sem gæti stundum skapazt í stjórnarkreppu eða við fráfall forsrh. o.s.frv., og það ber að skoða í góðu tómi, hvernig heppilegast væri að leysa þau vandamál. Með góðum vilja er ég þess fullviss, að hinu háa Alþ. tækist það vel, og ég skora á hæstv. ríkisstj. að beita sér fyrir því og í sem beztri samvinnu við alla flokka þingsins.

Að svo mæltu er ég tilbúinn, herra forseti, til að leggja mitt litla lóð á vogarskálina, til þess að hið litla frv., sem fyrir deildinni liggur, komist úr deildinni.