18.03.1968
Efri deild: 71. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (773)

2. mál, stjórnarskipunarlög

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður spurði, hvað hæstv. ríkisstj. hefði aðhafzt varðandi það atriði stefnuyfirlýsingar sinnar að stefna að því, að Alþ. yrði framvegis ein þingdeild.

Ríkisstj. hefur rætt þetta mál nokkrum sinnum og ákveðið að hafa um undirbúning þess samráð við formenn þingflokkanna og forseta Alþ. Af þeim viðræðum við formenn stjórnarandstöðuflokkanna og forseta Alþ. hefur enn ekki orðið sakir margvíslegra anna ríkisstj. og þings, en gera má ráð fyrir, að þessu þingi ljúki ekki, án þess að stofnað verði til þessara viðræðna.