15.03.1968
Neðri deild: 76. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (788)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Aðalverkefni hæstv. ríkisstj. undanfarin missiri hefur verið að ýta á undan sér verkefnum og leysa málin til bráðabirgða í það og það skiptið. Hefur þá lítt verið um það hugsað, hvort sú lausn yrði til þess að gera önnur úrlausnaratriði erfiðari síðar. Frv. það á þskj. 359, sem hér liggur fyrir til 1. umr., er einn þáttur í því starfi hæstv. ríkisstj. að ýta vandamálunum á undan sér, en horfast ekki í augu við þau og reyna að leysa þau. Í þessu frv. er ekki að finna neina stefnubreytingu hjá hæstv. ríkisstj. í fjármálum ríkisins, og hér er um engan raunhæfan sparnað að ræða, svo að teljandi sé. Góðæri síðustu ára hefur veitt hæstv. ríkisstj. 2 milljarða kr. í tekjur umfram fjárl. á síðustu 7 árum. Þegar þetta er haft í huga, kemur í ljós, að þessar umframtekjur, sem ríkisstj. hefur haft á þessum síðustu 7 árum, eru sem nemur rúmlega tvennum fjárlögum áranna næst á undan. Á rúmlega 80 árum, eftir að Íslendingar fóru að setja sér fjárl. og fram undir 1960, hækkuðu fjárl. ekki meira en svo, að þau náðu fyrst 1 milljarði við fjárlagaafgreiðslu 1959, en á þeim tíma, sem síðan er liðinn, hafa fjárl. hækkað svo ört, að þau eru nú komin á 7. milljarð kr.

Hver er ástæðan fyrir því, að hér er verið að gera hálfgerðar neyðarráðstafanir? Ástæðan er sú stefna, sem ríkisstj. hefur fylgt. Stjórnarstefnan, sem hefur verið í því fólgin, að fjármagnið — en ekki maðurinn — hefur ráðið ferðinni. Afleiðingar þessarar stefnu hæstv. ríkisstj. hafa orðið verðbólga og útþensla í ríkiskerfinu. Þetta keyrði þó um þverbak með fjárlagaafgreiðslu 1967, eins og við í stjórnarandstöðunni höfum oft og mörgum sinnum bent á. Við vöruðum við þeirri fjárlagaafgreiðslu, og það hefur sýnt sig, að ekki var vanþörf á, þar sem stórfelldar ráðstafanir voru gerðar í sambandi við fjárl. 1968 og enn á ný er verið að gera ráðstafanir vegna þróunar mála á síðustu árum.

Frv., sem hér liggur fyrir til 1. umr., má skipta í fjóra flokka. Í fyrsta flokknum eru framkvæmdir, sem taka þarf lánsfé til þess að hrinda í framkvæmd. Þessi flokkur er stærstur eða sem svarar 81 millj. kr. eða 40% af heildarmálinu. Í öðrum flokki má nefna framkvæmdir og nauðsynlegan stuðning við atvinnuvegina, sem frestað er með þessu frv., en síðar verður að leysa. Þetta eru sem svarar 78 millj. kr. eða 38,8% af málinu. Í þriðja flokkinn má færa óraunhæfan sparnað eða sýndarmennsku, sem fólgin er í því að breyta áætlun, og mun það hafa mjög lítil áhrif á niðurstöður á útgjöldum fjárl. Þetta eru um 25 millj. kr. eða 12,1% af málinu í heild. Í síðasta flokknum er svo það, sem ég mundi vilja vona, að horfði til sparnaðar. Það eru 16 millj. kr. eða 8,6% af þessu 200 millj. kr. frv. eða 0,3% af rekstrarútgjöldum ríkissjóðs, eins og þau eru áætluð í fjárl. fyrir 1968. Þetta minnir á, þegar smáfuglar eru að tína ber úti í mýri. Í frv., eins og ég áðan sagði, er ekki að finna neinn raunhæfan sparnað. Honum verður ekki komið til leiðar nema með breyttu skipulagi, þar sem stofnunum og starfsmönnum verður fækkað frá því, sem nú er, og algerlega horfið frá þeirri stjórnarstefnu, sem fylgt hefur verið í tíð núverandi valdhafa. En áður en ég vík að frv. frekar vil ég minnast nokkuð á þau vinnubrögð, sem farið er að hafa við fjárlagaafgreiðslu.

Þetta er í þriðja skipti nú á þessu tímabili frá 1964, sem sá háttur er hafður á, að fjárl. er breytt tveimur eða þremur mánuðum eftir að þau eru afgreidd frá hv. Alþ. Þessi háttur í fjárlagaafgreiðslu er með öllu óviðunandi. Það er af því gumað, að fjárl. hafi verið afgreidd fyrir áramót í hvert sinn. En hvað þýðir að afgreiða fjárl. fyrir áramót, þegar hæstv. ríkisstj. tekur sig til nokkrum dögum eftir að þau hafa verið afgreidd og lætur breyta þeim í verulegum atriðum. Það er mikill misskilningur, sem fram kom í ræðu hjá hæstv. fjmrh. hér fyrir nokkrum dögum í sambandi við þál., sem hér var til umr., að þm. mundu ekki fetta fingur út í slík vinnubrögð m.a. vegna þess, að þá væri venjulega horfið að því að skera niður útgjöld fjárl. Hv. þm. er ekki sama, hvernig að fjárlagaafgreiðslu er staðið. Þeir vilja fá að ráða að svo miklu leyti, sem þeir geta, til hvers fjárveitingar fara og reyna að gera það í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna, en þessu er öllu gerbreytt með þeim kálfi, sem á eftir kemur.

Ég hef áður vikið að því, að það eru óþolandi vinnubrögð, eins og hér er farið að hafa um hönd ár eftir ár, þar sem svo virðist vera sem beinlínis séu tekin inn á fjárl. ýmis útgjöld, sem síðan er ætlunin að skera niður. Þetta var gert 1965, 1967 og nú aftur 1968, svo að það er að verða fastur liður í störfum hæstv. ríkisstj. að breyta fjárl. tveimur til þremur mánuðum eftir að þau hafa verið afgreidd. Myndin, sem fæst af fjárlagaafgreiðslunni, verður á engan hátt rétt með slíkum vinnubrögðum, og Alþ. á ekki að þola það, að þannig sé með fjárlagaafgreiðsluna farið.

Ég verð líka að segja það, að það hlaut að vera skylda hæstv. ríkisstj. þegar á s.l. hausti að leita svo sem kostur var að leiðum, sem færar væru til þess að draga úr ríkisútgjöldunum, þegar hæstv. ríkisstj. stóð frammi fyrir þeim vanda að fara í verulegan niðurskurð í sambandi við fjárlagaafgreiðslu, þar sem m.a. var stefnt að því að skera niður fjárveitingar til niðurgreiðslna um 410 millj. kr. og vitað var, að slík ráðstöfun mundi hafa gífurleg áhrif á allt efnahagslíf landsins. Þetta virðist ekki hafa verið gert, fyrst hæstv. ríkisstj. hælir sér af því nú að finna sparnaðarleiðir, sem ekki hafa áður verið fundnar, en ég mun víkja frekar að síðar.

Ég vil líka benda á það í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna fyrir síðustu áramót, að þá var því heitið af hæstv. ríkisstj. að lækka tollana um 250 millj. kr. Hæstv. ríkisstj. taldi sig vera búna að gera sér grein fyrir því, að ríkissjóður mundi þola það, að þessi tekjustofn væri af honum tekinn. Því til sönnunar, að þetta væri framkvæmanlegt, vil ég minna á það, að það var tekið fram af stjórnvöldum, þegar gengisbreytingin var gerð síðast í nóvember, að aldrei hefði gengisbreyting, sem gerð hefði verið á Íslandi, verið jafn vel undirbúin og sú, sem þá var verið að framkvæma. Þetta var síðustu dagana í nóvember, sem gengisbreytingin var gerð, og hvernig á með nokkrum rökum að halda því fram, að síðar hafi komið upp vandi, sem þá var ekki þekktur? Er hægt að halda því fram samtímis, að gengisbreytingin hafi verið vel undirbúin — eins og var látið í veðri vaka — og jafnframt að síðar hafi þurft að gera þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið. Þetta hlýtur að sanna það, að svo illa var frá gengisbreytingunni gengið, að hún þoldi ekki tveggja mánaða tímabil án þess að stórfelldar breytingar yrði að gera í efnahagsmálum, eða þá að hæstv. ríkisstj. hefur við fjárlagaafgreiðsluna stefnt að því að framkvæma það, sem síðan hefur verið gert, þó að því hafi þá verið leynt. Það er með öllu óhugsandi að halda því samtímis fram, að gengisbreytingin hafi verið vel undirbúin og síðan hafi þurft að gera þessar breytingar, sem gerðar hafa verið. Annað tveggja er, að kastað hefur verið í meira lagi höndunum til málsins eða að stefnt virðist að því að framkvæma þetta, eins og síðan hefur verið gert.

Eins og ég sagði hér áðan, hef ég flokkað þetta mál í fjóra þætti. Fyrsti þáttur málsins felur í raun og veru engan sparnað í sér. Eins og ég segi, er aðeins verið að skjóta málum til framtíðarinnar með því að leysa þau með lánum. Það er aðeins verið að geyma seinni tíma að greiða fyrir þau verk, sem fjárl. gerðu ráð fyrir, að yrðu greidd með þeim tekjum, sem nú féllu til. Í þessum flokki eru Landspítalinn með 27 millj. kr., menntaskólarnir með 25,6 millj. kr. og framkvæmd laga um hægri umferð með 18,4 millj. kr. eða samtals 81 millj. kr. Það er yfirlýst af hæstv. ríkisstj. að þessum málaflokkum á að hrinda í framkvæmd, en það á að leysa þau með lánsfé. Í sambandi við þennan þátt vil ég geta þess, að við stjórnarandstæðingar lögðum fram till. um lánsheimildir fyrir ríkisstj. til framkvæmda á vissum málaflokkum, þegar fjárlagaumr. fóru hér fram fyrir síðustu áramót. Hæstv. fjmrh. svaraði því þá til, að það væri nauðsynlegt að draga úr því nú, að ríkissjóður leysti verkefni sín með lántökum, vegna þess að það mundi þrengja að þeim lánamarkaði, sem atvinnuvegunum veitti ekki af. Það var skoðun hæstv. fjmrh. þá, að ekki mætti ganga of langt inn á lánsfjármarkaðinn vegna fjárfestinganna, til þess að atvinnuvegirnir gætu setið að lánsfé því, sem í umferð væri.

Um þennan þátt málsins vil ég segja það, að á því hefur orðið veruleg breyting í tíð núv. valdhafa, hvernig leysa ætti þau framkvæmdaverkefni, sem ríkissjóði ber að fjármagna, eins og vegamál, hafnamál, sjúkrahús, skólamál og fleiri þess háttar málaflokka. Það var yfirleitt fylgt þeirri stefnu hér áður fyrr að leysa þessi mál nokkuð með samtímis tekjum. T.d. var það föst regla í vegamálunum, að ekki var framkvæmt hraðar en svo, að ríkið gæti lagt til tekjur jafnharðan. Á síðari árum hefur meira og meira verið horfið frá þessari stefnu. Nú er hver framkvæmdin á fætur annarri leyst með lánsfé og það eru orðnar miklar fjárhæðir, sem framtíðin verður að greiða vegna þeirra framkvæmda, sem nú er verið að koma í verk.

Samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef getað aflað mér í sambandi við ýmsa fjárfestingarliði, hef ég það fyrir satt, að skuldir vegna Landspítalabyggingarinnar verði orðnar eftir þær lánveitingar, sem nú er veitt heimild til, a.m.k. um 70 millj. kr. Þetta er þó verk, sem ekki er lokið og verður að veita áfram fé til, og sjá hv. þm., hversu það muni vera fyrir framtíðina að endurgreiða þessi lán og veita fé til aukinna framkvæmda. Um héraðssjúkrahús og læknabústaði úti um land er svipaða sögu að segja. Þar eru stórar fjárhæðir ógreiddar af hálfu ríkisins, svo að tugum millj. kr. skiptir. Þá orkar ekki tvímælis, að þeir erfiðleikar, sem nú eru í heilbrigðismálum þjóðarinnar, og sú bylting, sem á sér stað m.a. til að fá lækna til þess að sitja í héruðunum, mun leiða til þess, að venjulega skipulagsbreytingu verður að gera í þeim málum. Það er ekki hægt að koma þeirri skipulagsbreytingu í framkvæmd, nema ríkissjóður geti lagt verulega fjármuni fram til þess að leysa þau verkefni. Sjá allir, hvernig horfir með lausn þeirra mála, þegar hag ríkissjóðs er nú svo komið, að hann getur ekki lagt fram neina krónu til Landspítalabyggingarinnar, heldur verður að taka það allt að láni.

Það sama er að segja um menntaskólabyggingar. Menntaskólabyggingar hafa að verulegu leyti verið fjármagnaðar með lánsfé á undanförnum árum. Hæstv. ríkisstj. lýsti því yfir við fjárlagaafgreiðslu á s.l. hausti, að hér yrði að breyta um og ríkið yrði að leggja meira fé fram. Nú er hins vegar horfið að því ráði á árinu 1968, að eingöngu á að byggja fyrir lánsfé í menntaskólunum. Það vita allir, sem til þekkja, að menntaskólar eins og Menntaskólinn í Hamrahlíð og Menntaskólinn á Laugarvatni eru ekkert lokatakmark í byggingum þessara skólastofnana. Skuldir vegna menntaskólanna munu eftir þessa lánsfjárheimild vera orðnar a.m.k. 50–60 millj. kr. Þannig halda áfram að hrúgast upp verkefni handa framtíðinni, þar sem verkin eru nú unnin eingöngu fyrir lánsfé, sem ríkissjóður útvegar sér.

Ef við höldum áfram með skólamálin, vil ég minna á það, að Alþ. hefur samþ. við afgreiðslu fjárl. að veita fé til um 40 skólabygginga og að hefja skuli framkvæmdir við þær flestallar. Þessar skólaframkvæmdir bíða þess, að verkin séu hafin, og það eru hundruð millj. kr., sem ríkissjóður þarf að greiða til þess að koma verkum þessum í framkvæmd. Ég hygg, að það muni ekki oftalið, þó að það sé áætlað, að það sé um 1/2 milljarður, sem þarf til þess að reisa þær skólabyggingar, sem Alþ. hefur nú samþ. að taka á fjárlög.

Og hvaða afleiðingar hefur þetta í skólakerfi landsins? Á hv. Alþ. fyrir nokkrum árum var allveruleg deila í sambandi við framhaldsskólana, héraðs- og gagnfræðaskólana. Hæstv. menntmrh. hélt því þá fram, að það stæði eingöngu á héruðunum að leysa þessi verkefni, en ekki á ríkissjóði. Hann gaf síðar út tilskipun um það, hvernig farið skyldi með kennsluna í skyldunáminu, þ.e. unglingastigið. Og hvernig var tilskipunin? Hún var þess efnis, að barnaskólar skyldu leysa þennan þátt. En hver er afleiðingin af þessari tilskipun? Afleiðingin er sú, að í flestum heimavistarbarnaskólum a.m.k. hefur þetta orðið til þess að stytta námstíma barnanna í barnaskólunum, sem þó er ekki og var ekki nema helmingur af þeim námstíma, sem börn í þéttbýlinu njóta. Það var stefnt að því í mörgum héruðum að bæta við byggingar heimavistarskólanna til þess að geta aukið þar kennslu og lengt kennslutímann, eins og fólkið í þeim byggðarlögum þráir. En þessi ávörðun hæstv. menntmrh. hefur hins vegar orðið til þess, að sú von hefur að engu orðið og æ meir þrengist að námi barna í heimavistarskólum. Í sumum héruðum landsins er það svo, að enginn skóli er til að kenna unglingastigið. Þrátt fyrir þetta eru hundruð millj. kr., sem ríkið á vangreitt til þess að koma þessum verkefnum áfram, og sjá allir hvert stefnir, þegar þannig er haldið á fjármálum ríkisins, eins og hér hefur verið og er gert.

Það sama er að segja um Kennaraskólann. Skólastjóri Kennaraskólans í Reykjavík kom á fund fjvn. s.l. haust og sýndi með rökum, sem ekki urðu hrakin, að yrði ekki bætt úr húsakosti Kennaraskólans, væri sú stofnun komin í þrot og gæti ekki tekið við nýjum nemendum. Það var álit nm. eftir þann fund, að hér væri mjög alvarlegt mál á ferðinni og að skólastjóri Kennaraskólans, sem væri enginn flysjungur, hefði lagt mál sitt þannig fyrir, að engin ástæða væri til að draga orð hans í efa. En samt er nú horfið að því ráði að reyta af þessari stofnun 1 millj. kr., sem hún átti að nota til þess að koma upp bókasafni handa kennaraefnum í landinu. Það er reisn í framkvæmdum íslenzka ríkisins, þegar þarf að tína ber, eins og 1 millj. kr., hjá eina kennaraskólanum í landinu á fjárl., sem eru á 7. milljarð.

Ég gæti haldið áfram að tala um málefnaflokka, sem ríkið skuldar stórfé til og framtíðin verður að greiða. Það munu vera um 70 millj. kr., sem ógreiddar eru af ríkissjóðsframlögum til þeirra hafna, sem ríkissjóður tekur þátt í að reisa með héruðunum. Auk þess eru stórar fjárhæðir í landshöfnunum, sem ríkissjóður verður einnig að greiða. Sama er að segja um flugvellina. Flugvallaframkvæmdirnar á síðustu árum hafa að verulegu leyti verið unnar fyrir lánsfé. Einnig er svo um raforkuframkvæmdirnar. Þar eru líka verulegar skuldir. Og hvað er verið að gera hér vegna framkvæmdar laga um hægri umferð? Það á að taka lán til þess að leysa það verkefni á árinu 1968, en á fjárl. 1968 eru tekjur, sem teknar eru með skatti og eingöngu ætlaðar til þessarar breytingar, en þær tekjur eiga nú að verða að eyðslueyri hjá ríkissjóði. Það á að nota sér breytinguna til hægri umferðar með því að láta ríkissjóð taka til sín 16–18 millj. kr. 1968. Og hver er afleiðingin? Afleiðingin er engin önnur en sú, að þessi skattur verður framlengdur og bílaeigendur í landinu verða að borga breytinguna til hægri umferðar og leggja ríkissjóði jafnframt til nokkra tugi millj. í eyðslueyri.

Þannig er í öllum greinum sótt eftir nýjum sköttum og þeir misnotaðir á hinn herfilegasta hátt, því að ríkissjóður er búinn að hirða þá í almennan eyðslueyri, fyrr en varir, þó að þeir hafi verið lagðir á í einhverju ákveðnu skyni. Og stórfelldast í þessu öllu saman eru þó kannske vegamálin í landinu. Þar hafa hv. alþm. verið að leggja á nýja skatta undanfarin ár einmitt til handa þessari ríkisstj., eins og ég vék að hér fyrir tveimur dögum. En hvernig er ástandið í vegamálunum í landinu? Ég hafði hugsað mér að ræða þann þátt í sambandi við skýrslu vegamálastjóra, sem var til umr. hér fyrir nokkrum vikum, og ég hafði þá beðið um orðið, en framhald þeirrar umr. hefur ekki farið fram enn. Því ætla ég að víkja að þessu í sambandi við þennan þátt í ráðstöfunum ríkisstj. til að leysa verkefnin með lánsfé.

Nú skuldar Vegagerðin vegna vegaframkvæmda 347 millj. kr. Þessi skuld hækkar um 31 millj. kr. vegna gengisbreytingarinnar. Þá eru skuldirnar alls orðnar 379 millj. kr., og samkv. upplýsingum hæstv. samgmrh. eru vextir af þessum skuldum 28 millj. kr. á árinu 1968. Hvað þýðir þetta? Það þýðir það, að fjárveitingarnar, sem við höfum á vegaáætlun til hraðbrauta, til þjóðbrauta og til landsbrauta, eru 57,6 millj. kr. Það er 8 ára fjárveiting til þeirra, sem fer í að greiða skuldir, sem hvíla á Vegagerðinni núna. Gera menn sér grein fyrir, hvernig ástandið er? Það tekur 8 ár að greiða skuldir vegna þeirra framkvæmda, sem lokið er. Og hafa menn gert sér grein fyrir ástandinu í vegamálunum? Hvar í heiminum er höfuðborg, sem álíka vegur liggur út úr og nú er upp Ártúnsbrekkuna? Og hafa hv. þm. gert sér grein fyrir því, hvað hefði gerzt hér á höfuðborgarsvæðinu, ef flóðin um daginn hefðu rutt Elliðaárbrúnni af? Það munaði ekki miklu, að svo færi. Ástandið í vegamálum okkar kom greinilega í ljós nú í flóðunum, þegar heilir landshlutar hafa verið algerlega einangraðir vegna ástands veganna. Og hafið þið gert ykkur grein fyrir því, hv. alþm., að á árinu 1968 kostuðum við af eigin tekjum þess árs lagningu 1/2 km úr varanlegu efni. En hvað þýðir þetta? Það þýðir það, að nú eru taldir vera í landinu um 400 km, sem samkv. lögum á að leggja úr varanlegu efni. Það tekur 8 aldir að gera þessa vegi úr varanlegu efni, ef stefna núv. hæstv. ríkisstj. og hæstv. samgmrh. ríkir áfram í landinu. Það tekur hvorki meira né minna en 8 aldir að leysa þessi verkefni. (EystJ: Eru það ekki 800 ár?) Það eru 800 ár, og svo kemur hæstv. samgmrh. hér á hv. Alþ. og segir, að það hafi mikið verið gert á árinu 1967.

Svona er ástandið í vegamálunum. Svona er ástandið í hinum ýmsu framkvæmdamálum íslenzku þjóðarinnar eftir mesta góðæristímabil í sögu þjóðarinnar, þegar hæstv. ríkisstj. hafði tvo milljarða úr að spila umfram það, sem hún ætlaði sjálfri sér. Þannig er á málunum haldið, og það þarf því engan að undra, þó að það komi bandormur eftir bandorm til þess að gera bráðabirgðaráðstafanir í þessu eða hinu málinu, þegar svona hefur verið stjórnað.

Þetta var um framkvæmdaflokkinn, sem hæstv. ríkisstj. leysir, hefur leyst og ætlar í auknum mæli að leysa með lántökum.

Þá kem ég næst að þeim þætti, sem felur í sér að fresta fjárveitingu til framkvæmda og atvinnuveganna. Þar verður fyrst fyrir mér bygging stjórnarráðshúss. Það mun hafa verið í upphafi viðreisnartímabilsins, sem hæstv. fyrrv. forsrh., Ólafur Thors, flutti hér á hv. Alþ. till. við fjárlagaafgreiðslu um 1 millj. kr. til stjórnarráðshúss eina fremur en tvær. Þessi fjárveiting hefur haldizt síðan. Að vísu hefur hún verið skert nokkuð með niðurskurði, 20% niðurskurði og 10% niðurskurði, og nú fyrir nokkrum dögum var hér á hv. Alþ. rætt um það, hvað liði þessari framkvæmd. Svarið við þessu er svo það, að nú á algerlega að strika út af fjárl. þessa fjárhæð. Það vita allir, að þetta er söfnunarfé. Það vita allir, að verði stjórnarráðshús byggt, kostar það stóra fjárhæð. Þess vegna var talið skynsamlegt að standa að málum með þeim hætti að safna fé á fjárl. frá ári til árs til þess að byggja þannig upp sjóð, sem notaður yrði til að reisa stjórnarráðshúsið.

Á árunum kringum 1930 var íslenzka þjóðin svo efnuð, að hún gat byggt Arnarhvol. Síðan var við þá byggingu bætt nokkuð, en þessi framkvæmd er búin að borga sig oft og mörgum sinnum fyrir hið íslenzka ríki. Nú hefur íslenzka ríkið ekki efni á því að láta 1440 þús. kr. standa á fjárl. til stjórnarráðshúss. Mikil er neyðin, en þessi litla upphæð bætir mikið úr!

Þá var það ein framkvæmd, sem átti að verða til þess að halda í heiðri sögu þjóðarinnar, þ.e. að ríkið keypti Viðeyjarstofu og endurbætti það hús. M.a. voru kaupin gerð vegna þess, að húsið væri í niðurníðslu og þjóðinni ekki sæmandi. Nú er ekki rúm fyrir þá fjárhæð, sem átti að verja til þess að bæta þetta hús, á íslenzkum fjárl. í ár og á að fella hana niður.

Eitt af vandamálum okkar eru fangelsismálin. Það er á allra vitorði, að þar er um að ræða neyðarástand, sem þjóðinni er ekki sæmandi. Raunverulega hefur ekkert verulegt komizt í framkvæmd í fangelsismálum, síðan Litla-Hraun var keypt að undanteknu því húsi, sem byggt er hér inni í Síðumúla í Reykjavík. Það hefur verið nokkrum sinnum rætt hér á hv. Alþ., að úr þessu yrði að bæta, og var álit hæstv. dómsmrh., að hjá því verði ekki komizt að gera verulegar úrbætur í því efni. Veittar voru þó 1360 þús. kr., en ég veit, að það verður ekki mikið byggt af fangelsum fyrir þá fjárhæð. Ég veit einnig, að það verður ekki byggt fangelsi eða bætt úr þeim málum nema fjár verði aflað, annaðhvort með söfnunarfé eða stórátaki, og vel má vera, að ráðamenn síðari tíma haldi það betur á málum að úr þessu megi bæta.

Ég hef rætt um skólabyggingarnar og kennaraskólabygginguna hér fyrr í ræðu minni og þarf ekki að bæta neinu þar við, því að ástandið blasir við augum.

Eitt af því, sem gerðist við fjárlagaafgreiðsluna nú fyrir áramótin síðustu, var það, að komið var inn lítilli fjárhæð til byggingar safnahúss. Það var 11/2 millj. kr., og það var ekki laust við, að mönnum fyndist verulega til um, að þarna væri þó verið að vinna að nytsömu og góðu máli, sem nauðsyn væri til að hrinda í framkvæmd. Og þó að hér væri byrjað með lítið væri það spor í rétta átt, og ég man, að hæstv. fjmrh. lét orð falla um þetta. Tveir hv. þm., hv. 4. þm. Reykn. og hv. 6. þm. Reykv., gengu mjög fram í þessu máli og litu á þetta sem sitt afkvæmi. Nú hefur þetta afkvæmi þeirra og annarra áhugamanna um þetta málefni ekki átt lengri framtíð en það á þessu ári, að það mun eiga að deyja í móðurkviði. Það má segja, að það skipti kannske ekki sköpum fyrir málið, hvort fé er veitt til þess 1968 eða 1969. En það var þó talið við fjárlagaafgreiðsluna fyrir 1968 að hér væri gott mál á ferðinni, sem nauðsyn bæri til að veita fé til, til þess að sýna að hverju væri stefnt. Þetta hefur hins vegar ekki hlotið náð fyrir augum hæstv. ríkisstj. nú, þegar hún fór að nota skurðarhnífinn. En þessi og fleiri verkefni bíða framtíðarinnar, og það verður enginn sparnaður fyrir þjóðina, þó að hún geti ekki leyst þau með þeirri tekjuöflun, er hún hefur nú yfir að ráða.

Sama er að segja um lögboðna sjóði eins og Aflatryggingasjóð og Fiskveiðasjóð. Þeir eru stofnsettir með lögum, sem hafa verið afgreidd hér á Alþ. fyrir stuttu, og hefur mikið verið gumað af, hversu vel væri verið að búa að atvinnuvegunum. Og það var ætlun Alþ. þá, að þetta væri lögbundið framlag, sem ríkissjóður ætti að leggja þessum atvinnuvegi til samkv. lögum á hverju ári. Það er út af fyrir sig ekki hægt að rökstyðja það, að gengishagnaðinum, sem atvinnuvegirnir áttu að fá, hafi verið ráðstafað á þann hátt, að það geri það að verkum, að ríkið geti komizt hjá því að greiða þessi framlög nú. Það vita allir hv. þm., að ríkisstj. hæstv. gerði tilraunir til þess að ná verulegum hluta af gengishagnaðinum — meira heldur en henni tókst vegna áhrifa Alþ. En þarna er leið til þess að sækja það aftur að nokkru leyti, sem Alþ. hafði haft af henni.

Sömu sögu er að segja um Landnám ríkisins. Hér er um lögboðið framlag að ræða, og hér er ekki annað að gerast heldur en það, að ríkisstj. er að taka sér heimild til þess að breyta lögum, sem Alþ. hefur sett, og draga úr fjárveitingum til framkvæmdaflokka, sem hefur þó ekki verið stefna Alþ., að gert yrði.

Þá kem ég að Orkustofnuninni. Það er alveg vitanlegt, að Orkusjóður getur ekki leyst aðkallandi verkefni vegna fjárskorts, og við fjárlagaafgreiðsluna fyrir 1968 gerðum við stjórnarandstæðingar tilraun til þess að fá meira fé handa Orkusjóði vegna brýnna verkefna heldur en fjárl. gerðu ráð fyrir. En hvað hefur svo gerzt? Það, sem er að gerast nú, er það, að hæstv. ríkisstj. er að draga úr þessum litlu fjárveitingum, sem Orkusjóður hefur.

Þriðji þáttur þessa lagafrv., sem hér er til umræðu, var sá, sem ég kallaði, að væri óraunhæfur og sýndarmennska, og þar var um að ræða 24–25 millj. kr. Þar verður fyrst fyrir mér risna hæstv. ríkisstj. og sparnaður í stjórnarráðinu. Nú er mér sagt, að það hafi verið túlkað þannig einhvers staðar úti í frá, að hér væri eingöngu átt við risnu ríkisstj., sem taka ætti þessar 2 millj. kr. af, en svo mun ekki vera, heldur mun hér vera um að ræða það, sem áður hefur verið fært undir annan kostnað rn., og risnuna þar með. Nú má því um það segja, að hefði hæstv. ríkisstj. farið að sýna hyggindi og sparnað í framkvæmd, kom það að fullum notum, þó að þessar 2 millj. kr. hefðu ekki verið settar þarna, því að hér var um áætlaða tölu að ræða, og hefði það þó orðið minna eitt heldur en til var ætlazt. En ég vil líka benda á það, að á s.l. ári — 1966 — jókst gestrisni eða kostnaður við gestrisni ríkisstj. Kostaði hún 50% meira heldur en 1965. Og ég hef litla trú á því, að úr þessu verði dregið, nema það komi af sjálfu sér, að hingað komi færri þjóðhöfðingjar heldur en áður hefur verið, og þannig getur þetta hreyfzt eitthvað til á milli ára. En ég vil geta þess, að þegar ríkisendurskoðendur hafa gert aths. við annan kostnað rn., sem venjulega hefur farið 50–80% og jafnvel 100% fram úr áætlun, þá hefur svar rn. alltaf verið á þessa leið, eins og kemur fram í svari rn. við aths. endurskoðenda ríkisreikningsins 1966, sem er birt hér neðst á bls. 283, með leyfi hæstv. forseta, en þar segir svo:

„Annar kostnaður ráðuneytanna hefur verið vanáætlaður.“

Og hvað halda hv. alþm., að gerist á árinu 1968, þegar búið er að eyða þessum 2 millj. kr. Þá kemur klausa um það, að annar kostnaður ráðuneytanna hafi verið vanáætlaður og óraunhæft sé að ætla sér að koma sparnaði þar við. Þessu til viðbótar vil ég svo geta þess, að á fjárl. 1968 hefur fjmrn. 10 millj. kr., sem er óráðstafað og rn. hefur ekki haft fyrr til þess að mæta því, sem upp á kynni að koma, og væri þar hægt að jafna þessar 2 millj. kr., sem ríkisstj. ætlar sér að spara. En reyndar er það svo, að þetta er sett þarna efst á blaðið til þess að gera það bragðbetra, er á eftir kemur, og annað er ekki á bak við það.

Annar liðurinn í þessum málaflokki, sem ég tel óraunhæfan, er áætlun í sambandi við rekstur skólanna skólaárið 1967–1968. Á það er langt liðið og með fjárveitingum þeim eða áætlun í fjárl. 1968 vegna þessara útgjalda á að greiða þennan rekstur. Það er sem sé kostnaðurinn við skólaárið frá 1. sept. 1967 til vors. Það verður engin breyting gerð á þessu, sem hefur veruleg áhrif á þennan útgjaldalið til sparnaðar. Ef þessar 6,6 millj. kr. verða afgangs, er það af því, að áætlunin hefur verið það rúm, að hún leyfir þetta, og það hefði komið nákvæmlega sama út, hvort sem þessi tala var sett hér eða ekki. Það er næstum því furðulegt að halda, að fjárhæð eða áætlun í fjárlagalið, sem er hátt í 200 millj. kr., eins og þessi liður er, sé það nákvæm, að hún geti ekki hreyfzt til um 1–2 millj. kr., en breytingin verður engin, þó að þessi tala sé sett þarna, því að það verður engin skipulagsbreyting gerð á þessu skólaári, sem getur dregið úr kostnaði.

Þá er það utanríkisþjónustan. Það er út af fyrir sig mjög gleðilegt, að hæstv. ríkisstj. skuli nú vera orðið ljóst að draga mætti úr kostnaði þar.

En hvað halda hv. þm., að hæstv. fjmrh. hefði sagt, ef við í minni hl. hefðum komið með þá till. í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna að leggja til, að utanríkisþjónustan í heild lækkaði um 3 millj. kr.? Hæstv. ráðh. hefði sagt, að ekki þýddi að vera með svona sýndarmennsku. Það verða að vera raunhæfar till., sem hv. alþm. leyfa sér að bera fram. Það hefði verið sýndarmennska og óraunhæft, ef við hefðum slegið fram öðru eins og þessu. Og nú er sagt, að það eigi að flytja nokkra sendiráðsritara heim. Mér er spurn: Hvað hefur þetta fólk verið að gera í sendiráðunum? Er búið að setja í sendiráðin fullt af fólki, sem er alveg ónauðsynlegt, og flytja má heim, af því að ríkisstj. langaði til þess að sýna einhverja sparnaðarviðleitni eða í auglýsingaskyni, en sendiráðin starfa áfram eftir sem áður. Þetta er nú meiri játning heldur en ég hefði gert ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. mundi gera, þ.e. að búið væri að setja inn í sendiráðin fólk, sem ætti þar ekkert erindi og hefði þar ekkert starf, og það gerði ekkert til, þó að það væri tekið heim og látið vera hér á kaupi án vinnu. Því er haldið fram, að það, sem eigi að sparast með þessu, sé staðaruppbótin. Nú mun það hins vegar gleymast, að það kostar nokkuð að flytja þetta fólk til. Á árinu 1966 voru nokkrir starfsmenn utanríkisþjónustunnar fluttir landa á milli, héðan að heiman vestur til Ameríku og austur til Rússlands, og það kostaði 150–160 þús. kr. að flytja hvern einstakan til, svo að nokkrir fjármunir fara í að flytja þetta fólk. En ég dreg það í efa, að hér geti verið um raunhæfan sparnað að ræða. Eða er ef til vill þannig komið, að það sé fullt af fólki úti í okkar sendiráðum, sem hafi þar ekkert að starfa, og flytja megi það hingað heim, og láta það vera verklaust og greiða því kaup. Það sé hagkvæmara til að losna við staðaruppbótina. Ef þetta er svona, er nú ekki að undra, þó að fjármálum íslenzka ríkisins sé illa farið.

Út af sparnaði í sambandi við mötin vildi ég spyrja um það, áður en lengra væri farið, hvort það sé búið að gera þær ráðstafanir, sem þurfi til þess, að hér geti verið um raunhæfan sparnað að ræða. Ég sé ekki enn þá, að það sé búið, og dreg því í efa. að um raunhæfan sparnað verði að ræða.

Í sambandi við orlofs- og skyldusparnaðinn vil ég segja það, að út af fyrir sig hef ég ekkert við það að athuga, þó að pósthúsin séu látin inna þessa þjónustu af hendi án endurgjalds. Hins vegar hefur það ekki áhrif á fjárhag ríkisins í heild, því að tekjur þær, sem pósthúsin hafa haft af þessu, hafa verið færðar Póstsjóði til tekna. Það, sem gerist, er að útgjöldin falla niður í þeim lið, þar sem þetta hefur verið fært, en tekjurnar koma á hinni síðunni í ríkisreikningnum, þar sem Póstsjóður er. Raunverulegur sparnaður er þetta ekki, heldur tilfærsla á milli ríkisfyrirtækjanna.

Um Ferðaskrifstofu ríkisins er það að segja, að hún hefur haft þá aðstöðu í nokkur ár, sem hæstv. fjmrh. gat um, að hún hefði. Hún hefur haft sína verzlun á Keflavíkurflugvelli, en þrátt fyrir þetta var hallinn á skrifstofunni 1966 tæpar 700 þús. kr., þó að hún hefði ríkisframlagið og þá aðstöðu, sem hún hefur nú. Það verður þá að verða einhver veruleg breyting á rekstri þessarar stofnunar, ef hún á að þola það að tapa styrknum frá ríkinu, án þess að hallarekstur hennar aukist. Ég verð að segja það, að ég er ekki enn þá farinn að sjá þá breytingu, sem mun leiða þetta af sér. Þess vegna verð ég að segja um þessi atriði, sem ég hef talið hér, að þau eru í meira lagi óraunhæf og heyra undir sýndarmennsku.

Þá kem ég að þeim þættinum, sem ég vona, að sé sparnaður — raunverulegur sparnaður. Hann er að vísu minnstur — 16 millj. kr. Það munar um allt. Allt er hey í harðindum. Þar verður fyrst fyrir mér Háskólinn. Það á ekki að skipa í tvö prófessorsembætti, sem ákveðin voru með lögum fyrir nokkrum árum samkv. 10 ára áætlun um uppbyggingu Háskólans. Það þótti á þeim árum mjög gott mál og var mikið auglýsingamál fyrir hæstv. ríkisstj. Nú er aftur mikils virði að geta sparað þessar 600 þús. kr.

Þá er það fræðslumálaskrifstofan eða námsstjórarnir. Ég vil segja það sem mína skoðun — og það hefur komið fram í ræðum okkar stjórnarandstæðinga hér áður fyrr — að nauðsyn bæri til að endurskoða þetta kerfi og draga mætti úr útgjöldum að okkar dómi í sambandi við þennan lið. Þess vegna er þetta einn af þeim liðum, sem ég viðurkenni sem raunverulegan sparnað. Hins vegar hefði ég álitið, að námsstjórar, sem margir eða sumir hverjir eru búsettir úti á landi, ættu að vera með smáskrifstofu fyrir sitt svæði. Þeir ættu að endurskoða skólareikningana í sínu umdæmi, og ekki ættu aðrir þættir skólamálanna úr þessum byggðarlögum að fara til yfirstjórnarinnar í Reykjavík heldur en þeir, sem ágreiningur gæti verið um. Það væri hægt að nýta þessa starfskrafta betur með því að skapa þeim aðstöðu úti um land án þess að auka þann kostnað, sem því væri samfara.

Um kostnaðinn við þjóðgarðinn á Þingvöllum og 500 þús. kr., sem þar á að spara, vil ég segja það, að ég er ekki það kunnugur þeim málum, að ég geti sagt um, hvort það sé framkvæmanlegt, en hef gert ráð fyrir því, að svo væri, ef það gengi ekki á það, sem Þingvallanefnd er ætlað að gera.

Þá kem ég að máli, sem er ekki að koma fram hér í fyrsta sinn. Það varðar lögregluna á Keflavíkurflugvelli. Alþb.-menn hafa flutt þing eftir þing brtt. við fjárl. um að draga úr þessum kostnaði eða jafnvel leggja hann niður og hefur hv. þm. Geir Gunnarsson skýrt það mál. Þá hefur það alltaf verið talið glæframál og álitið, að þeir, sem fyrir þessu stæðu, vildu koma á lögleysu og það væri í andstöðu við NATO og annað því um líkt, ef menn væru að þessu. Þetta hefur ekki verið talið gott mál og óraunhæft í meira lagi. Það gleður mig stórum, að það skuli hins vegar vera orðið raunhæft nú, því að kostnaðurinn við framkvæmd á löggæzlu og tollgæzlu þarna var orðinn herfilega mikill, eins og ég mun síðar skýra og kom fram í aths. okkar í minni hl. í haust.

Sama er að segja um löggæzlu í landinu. Hún hefur bólgnað ár frá ári og er orðin geysilega fyrirferðarmikil í fjárl. Nú telur fjmrn., að hægt sé að spara þarna um 6,8 millj. kr. Ég gleðst yfir því, en verð að segja, að ég bjóst við, að á þessu ári yrði það notað til þess að rökstyðja, að þörf væri á þessari fjárhæð. T.d. yrði kostnaður við löggæzlu vegna breytingar á umferðinni frá vinstri til hægri. Til þessarar löggæzlu er ekkert ætlað sérstaklega í fjárl. Taldi ég því, að á þessu ári væri óhægara um vik að draga úr þessum kostnaði við löggæzlu, en það gleður mig stórum að sjá, að sú gagnrýni, sem við höfum haldið uppi, hefur verið á rökum reist og hér hefur verið um algera ofrausn að ræða, fyrst hægt er á því ári, sem á þó að leggja á löggæzluna meira starf en ella, að draga úr kostnaði við hana. Ég verð líka að segja það, eins og komið hefur fram í ræðu hjá mér og í ræðum hér áður á hv. Alþ., að dómsmrn. er orðið of rausnarlegt bæði í sambandi við setudómara og gjafsókn í málum. Ég þykist hafa fyrir því rök, að mat hæstv. dómsmrh. á gjafsókn sé ekki byggt á því, sem lögin segja um það, að meta eigi efnahag og málavöxtu, þegar gjafsókn sé ákvörðuð.

Það gleður mig líka stórum, að hæstv. ríkisstj. fellst nú á það að lækka fjárveitingu til Almannavarna. Þetta var eitt af óskabörnum við fjárlagaafgreiðsluna 1967. Þá hækkaði fjárveiting til þessa fjárlagaliðs um 50%, og var þetta mjög gagnrýnt af okkur. Nú er svo hraustlega að þessu vegið, að af 3,9 millj. kr. fjárveitingu eru þrjár teknar aftur. Það sýnir, að hér hefur verið komið í algert óefni, verið farið að hruðla með ríkisfé og því þörf á leiðréttingu.

Þá eru hér tveir síðustu liðirnir í sparnaðartillögunum á forsíðu þessa frv., þ.e. að fella niður framlag ríkisins til þess að eyða meindýrum, og er þar átt við rottur. (Gripið fram í: Hvaða meindýr eru það?) Það eru rottur fyrst og fremst. En um þetta er það að segja, að í aths. við 10. gr. kemur það fram, að það er ekki hægt að láta þetta koma til framkvæmda á árinu 1968, og ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp aths. við 10. gr., sem hljóðar svo:

„Lagt er til, að þátttaka ríkissjóðs í kostnaði við eyðingu á rottum verði lögð niður, en kostnaðurinn framvegis borinn af viðkomandi sveitarfélögum. Á fjárlögum 1968 er gert ráð fyrir 755 þús. kr. fjárveitingu til þessa málefnis, en þar sem kostnaðarhlutdeild ríkissjóðs er gerð upp eftir á, verður ekki um neinn sparnað að ræða fyrr en á árinu 1969.“

Þetta var eitt af þeim atriðum, sem ég hafði fært undir raunhæfan sparnað og verð víst að fara að biðja afsökunar á. En mér er spurn: Af hverju var þá verið að taka þetta inn í 1. gr., fyrst það kemur ekki til framkvæmda 1968? Og svo er með fleiri liði í þessum sparnaðartillögum upp á 138 milljónir, að þeir koma ekki til framkvæmda fyrr en á árinu 1969, þegar ný fjárl. hafa verið samin. Mér segir svo hugur um, að málum sé háttað, eins og ég hef leitt rök að hér á undan, en sennilega eru þó meiri brögð að því en mér virtist í fljótu bragði vera.

Og þá er komið að síðasta þættinum, og það eru prestarnir í Keflavík og í Danmörku. Prestsembættið í Kaupmannahöfn var einu sinni verulegt deiluatriði hjá okkur í sambandi við fjárlagaafgreiðsla. Því var haldið fram af okkur stjórnarandstæðingum, að hér væri hæstv. ríkisstj. að fara inn á verksvið, sem hún ætti ekki að fara inn á. Það væru engin lög til fyrir því að setja þennan prest úti í Kaupmannahöfn. Það væri heldur ekki farið að þessu máli, eins og venja væri til með presta, þ.e. að þeir væru kosnir af sínum söfnuði, heldur væri hann settur þarna niður af hæstv. ríkisstj. án nokkurs tilefnis og til kostnaðarauka. Því var haldið fram af hæstv. ríkisstj. að verulegur kostnaður væri þessu ekki samfara, en málið væri gott.

Nú vil ég ekki í sambandi við þetta mál fara að hnýta í þann mann, sem er prestur í Kaupmannahöfn. Mér er sagt, að hann hafi kynnt sig þar vel og hafi sinnt sjúkum mönnum betur en aðrir starfsmenn sendiráðsins þar ytra. Það getur vel verið, að maðurinn sem slíkur hafi sinnt sínu starfi vel, en framkvæmdin af hálfu hæstv. ríkisstj. var fráleit. Það var fráleitt að vera að búa til prestsembætti, án þess að lög væru um það á Alþ. Það var fráleitt að vera að auka á kostnað við utanríkisþjónustuna en sú var raunin — með því að búa til þetta starf þarna úti. Og svo sé ég á þessu frv., að að auki hefur verið kominn prestur á Keflavíkurflugvöll, sem mér var ekki áður kunnugt um, svo að hæstv. ríkisstj. sér þá að sér í þessu, þ.e. í því að hætta við — a.m.k. í bili — að búa til óþörf embætti og greiða embættislaun og annan kostnað við embætti, sem ekki eiga sér stoð í lögum og engin heimild er fyrir að setja á stofn. Þó að þetta séu ekki stórar fjárhæðir, er þó hér spor í rétta átt, sem ber að meta, enda verður að segja, að það er ekki svo mikið, sem út úr þessu frv. kemur, sem hæstv. ríkisstj. á lof skilið fyrir, að hún verður að njóta þess, sem hægt er að láta hana njóta.

Um frv. þetta að öðru leyti vil ég segja það, að ég tel það afar óeðlilegt, að í lögum, sem í daglegu tali hv. þm. eru kölluð bandormur, þ.e. þegar verulegur hluti og meginmál laganna á ekki að gilda nema eitt ár, þar sem þau eru bundin við fjárlagaár, skuli vera teknar inn greinar þar sem breytt er gömlum stofnunum í þjóðfélaginu og þær meðhöndlaðar, eins og þær hafi ekki haft veruleg áhrif. Þar á ég við fræðslumálaskrifstofuna, fjármálaeftirlit skóla, námsstjórakerfið og fræðslumyndasafnið, íþróttafulltrúa og bókafulltrúa. Út af fyrir sig hef ég ekki uppi aths. um það, að þessar stofnanir verði sameinaðar menntmrn., heldur um hitt, hvernig að þessu er farið. Ég álít, að slíkar stofnanir, eins og fræðslumálaskrifstofan, fjármálaeftirlitið og námsstjórakerfið eigi að heyra undir heildarlöggjöf um skólana í landinu og menntamálastofnanirnar. Það er afskaplega óeðlilegt og beinlínis móðgandi fyrir forráðamenn þessara stofnana, að þeim skuli vera slátrað í lögum, sem almennt eru kölluð bandormur og hv. þm. telja, að ekki eigi að standa nema árið, sem þau eru afgreidd. Það eru engin vinnubrögð að fara þannig að.

Nú vil ég samt segja — þó að ég hafi ekkert á móti því að sameina þetta — að það er ekki þar með sagt, að ég treysti því, að í höndum núv. valdhafa verði sparnaður af þessari breytingu enda finnst mér það koma fram í grg. frv., að þeir, sem frv. hafa samið, eru heldur ekki trúaðir á það, því að þeir telja, að af þessari framkvæmd geti ekki orðið, fyrr en búið er að fá það stórt húsnæði, að það hýsi alla þessa starfsemi. Og ef við vitnum eða lítum til annarra sameininga eða skipulagsbreytinga, sem hafa orðið eða átt að verða til sparnaðar, nægir að minna á skattstofurnar til þess að sanna, að það er fjarri því, að um sparnað hafi verið að ræða.

Þess vegna er þessi skipulagsbreytingin trygging fyrir því, að af sparnaði verði, þó að ég skuli ekki fortaka, að það gæti orðið, ef skynsamlega og vel væri á málum haldið og á annan hátt en gert hefur verið hjá núv. hv. valdhöfum. Þetta er með öllu óþolandi, og hv. Alþ. á ekki að leyfa sér að leggja niður svo gamlar og grónar stofnanir í þjóðlífinu eins og fræðslumálaskrifstofuna með jafnómerkilegum lögum.

Ég vil undirstrika það, að ekki verður um sparnað að ræða í sambandi við þetta lagafrv. og ekki getur orðið um sparnað að ræða í ríkisrekstrinum nema með skipulagsbreytingu, þar sem embættum og stofnunum er fækkað — ekki sízt þeim, sem hafa orðið til á síðari árum. Það hefði verið hægt að koma við sparnaði í sambandi við sendiráð, m.a. þegar þau voru laus og enginn sendiherra í þeim og skipa þurfti nýja og það var hægt að komast hjá að fjölga sendiráðunum eins og gert hefur verið síðustu árin. Það voru aðgerðir, sem leiddu til sparnaðar. En engan þarf að undra, þó að fjármál þjóðarinnar séu komin í þann vanda, sem ég gat um í upphafi máls míns, vegna þeirrar útþenslustefnu, sem ríkisstj. hefur fylgt, og vegna þess sparnaðarleysis, sem gætt hefur í störfum hæstv. ríkisstj.

Ég gat þess í sambandi við fjárlagaafgreiðslu fyrir 1967, að þar væri fjármálum þjóðarinnar stefnt í voða, og það hefur sýnt sig, að svo var. Og ég vil benda á máli mínu til sönnunar, hvernig þróunin hefur verið síðustu árin. Nú er ég löngu hættur að vitna til þess ágæta árs 1958, vegna þess að það er orðið svo fjarlægt og svo erfitt að vitna til þess, því að þá voru svo langtum lægri tölur en nú eru. Ég ætla aðeins að vitna til ársins 1965 til þess, að hv. alþm. geti gert sér grein fyrir því, að það er ekki óeðlilegt, að við stöndum frammi fyrir miklum vandamálum í fjármálum ríkisins. Ég tek hér sem dæmi nokkur embætti til þess að sýna, hvernig þróunin hefur orðið — einmitt nokkur af þeim embættum, sem við gagnrýndum við fjárlagaafgreiðslu 1967, að hefðu fengið of rausnarlega fjárveitingu.

Þar verður fyrst fyrir mér saksóknari. Kostnaður við það embætti var 2,1 millj. kr. 1965, en 1968 er hann 3,6 millj. kr. Hækkunin er 71%. Borgardómaraembættinu í Reykjavík voru ætlaðar 3,7 millj. kr. 1965, en 7,7 millj. kr. 1968. Hækkunin er 108% á þessum þremur árum. Fjárveiting til borgarfógetaembættisins var 3,1 millj. kr., en er 5,3 millj. kr. 1968. Hækkunin er 71%. Sakadómaraembættið fær 6,4 millj. kr. 1965, en 9,5 millj. kr. 1968. Hækkunin er 48%. Bæjarfógetaembættið í Hafnarfirði kostaði 1965 3,8 millj. kr., en 1968 8,8 millj. kr. Hækkunin er 132%. Lögreglustjóraembættið í Reykjavík kostaði 3 millj. kr. 1965, en 7,3 millj. kr. 1968. Hækkunin er 143%. Löggæzla og tollgæzla á Keflavíkurflugvelli kostaði 7,5 millj. kr. 1965, en 19 millj. kr. 1968. Hækkunin er 154%. Þarf nokkurn að undra, þótt fjárl. hafi hækkað síðustu árin. Löggæzlan, sem nú á að fara að taka til athugunar, hækkaði. Hún kostaði 40 millj. kr. 1965, en 80 millj. kr. 1968, og hefur hækkað um 100%. Ef við höldum áfram með þetta dæmi og komum að skattstofunum, kemur í ljós að fjárveiting til þeirra var 21 millj. kr. 1965, en 45,7 millj. kr. 1968. Hækkunin er 117%. Tollgæzlan hefur hækkað úr 25,5 millj. kr. 1965 í 44 millj. kr. 1968 eða 73%. Og ýmis kostnaður við löggæzlu, eins og málskostnaður, laun meðdómara og setudómara, hefur hækkað frá 1965 úr 3,3 millj. kr. í 9 millj. kr. 1968 eða 173 %.

Eru hv. alþm. nokkuð hissa á því, þegar kostnaðarliðir hækka frá 70 –170% á 3 árum, þó að farið sé að þrengjast á jötunni hjá ríkissjóði? Nei, enginn þarf að efast um það, sem horfði með opnum augum á fjárl. 1967, að svona mundi fara, og ef við höldum áfram að kynna okkur útþensluna í ríkiskerfinu og snúum okkur beint að fjmrn., þá hefur kostnaður við rn. sjálft hækkað um 111% síðan 1965.

Ef menn muna nokkur ár aftur í tímann, þá var fjmrn., eins og það er nú, nokkrar skrifstofur með nokkra starfsmenn. Það hafði sér til aðstoðar hagstofustjóra og síðasta ár vinstri stjórnarinnar efnahagsráðunaut. En hvað hefur nú gerzt í fjmrn.? Þegar verið var að semja fjárl. á þessum árum, kom ráðuneytisstjórinn í fjmrn. og gerði grein fyrir tekjuáætlun og öðru því, er að fjárl. lýtur.

En hvað hefur nú gerzt? Fjmrn. heldur sínum starfskröftum uppi í rn., en komnar eru ótal stofnanir út frá fjmrn. Hagstofan er áfram, en það er komin efnahagsstofnun, sem er stór stofnun með mikið af starfsliði. Á hennar vegum er nú orðið gerð grein fyrir tekjuáætlun fjárl. Það er kominn Seðlabanki, sem er líka stór stofnun, og starfslið hans er kvatt til þegar ráða þarf stærri fjármálum ríkisins til úrslita. Það er komin hagsýslustofnun, sem einnig er að verða stór stofnun. Það er komin tollskrárn., sem búin er að starfa í mörg ár. Það er komin launamálan., og það er kominn Ríkisábyrgðasjóður. Allar þessar stofnanir eru í tengslum við fjmrn. og starfa með rn., gera þessa áætlun og hina, en gamla kerfið, sem ráðh. notuðust við fyrir tíu árum, heldur áfram eftir sem áður.

Eru hv. þm. nokkuð hissa, þó að bandormur þurfi að koma til, eftir að búið er að setja fjárl. fyrir tveim mánuðum, til þess að reyna að draga eitthvað úr því, sem ríkissjóður á að borga, og það er svo gert með því að dreifa verkefnunum til framtíðarinnar? Það er eina lausnin, sem hæstv. núv. ríkisstj. kemur auga á, sér til framdráttar. Og getur svo hæstv. ríkisstj. leyft sér að tala um, að nú fyrst sé kerfisbundið og markvisst unnið að því að draga úr útgjöldum ríkissjóðs og gæta hagkvæmni í rekstri ríkisins. Er hægt að tala um slíkt á sama tíma og embætti og stofnanir fá auknar fjárveitingar frá 70–170% og einni nýrri stofnun er hlaðið ofan á aðra við hlið fjmrn. Þetta er ekki hægt, og þjóðin vill ekki una því, að slíkt geti átt sér stað.

Herra forseti. Í ræðu minni hér að framan hef ég gert grein fyrir efni þessa frv., sem hér er til 1. umr. Ég hef sýnt fram á það með rökum, að hér er að verulegu leyti um sýndarmennsku að ræða, en þó er málunum að mestu leyti skotið til framtíðarinnar. Ég hef einnig sýnt fram á þá þróun, sem hefur orðið í fjármálum ríkisins — þróun, sem hefur leitt til þess, að nú þarf að vera á ferðinni með hvert vandræðamálið á fætur öðru þrátt fyrir góðæri undanfarinna ára.

Þetta, sem ég hef sagt hér, hefur sýnt, svo að ekki verður með rökum hrakið, að það eina, sem getur leyst úr vandanum, er að endurskoða ríkiskerfið sjálft með það fyrir augum að reyna að draga úr rekstri þess og leggja niður óþarfastofnanir og embætti, sem hafa orðið til á síðustu árum, og reyna að breyta þeim hugsunarhætti, sem hefur skapað það ríkisbákn, sem við eigum nú við að stríða.

Hæstv. fjmrh. sagði hér í framsöguræðu sinni í gær, þegar hann talaði fyrir þessu frv., að erfiðleikarnir væru nokkrir nú, en það mundi þó verða enn erfiðara — verulega erfitt — að koma saman fjárl. fyrir árið 1969. Ég er sannfærður um, að þetta er rétt. Ég er sannfærður um það, að það eru miklir erfiðleikar fram undan í fjármálum íslenzka ríkisins, og það er ekkert nema algjör breyting á stjórnarstefnunni, sem getur leyst þann vanda, sem þar er á ferð.