22.03.1968
Neðri deild: 80. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Frsm. meiri hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. S.l. ár var að sumu leyti mjög erfitt ár fyrir okkur Íslendinga. Miklir erfiðleikar steðjuðu að einum okkar höfuðatvinnuvegi, sjávarútveginum, vegna mjög minnkandi afla og stórkostlegrar lækkunar á verðlagi sjávarafurða á erlendum vettvangi. Þar sem yfir 90% af útflutningi okkar Íslendinga eru sjávarafurðir, hljóta slík áföll að koma mun víðar niður og segja meir til sín heldur en ef útflutningur okkar væri fjölbreyttur og ekki einn atvinnuvegur meginundirstaða útflutningsins.

Þegar Alþ. kom saman s.l. haust, voru ekki orðin ljós öll áhrif þeirrar óheillaþróunar, sem átt hafði sér stað hjá sjávarútveginum frá því síðari hluta árs 1966. Ríkisstj. lagði hins vegar fyrir Alþ. till. í efnahagsmálum, sem fyrst og fremst miðuðu að því, að kleift yrði að afgreiða hallalaus fjárl. En samtímis því var öllum ljóst, að þeir erfiðleikar, sem sjávarútvegurinn hafði átt í, kröfðust sérstakra athugana, og fóru þessar athuganir þá fram á vegum aðila sjálfra og Efnahagsstofnunarinnar. Gert var ráð fyrir því, að að öllu óbreyttu yrðu lagðar fram sérstakar till. til úrlausnar á vanda sjávarútvegsins, þegar hann lægi ljósar fyrir við lok s.l. árs. Jafnvel eftir að Alþ. kom saman, var mikil óvissa í efnahagsmálunum á næstu mánuðum — ekki aðeins hjá okkur íslendingum, heldur og hjá ýmsum af okkar miklu verzlunar- og viðskiptaþjóðum. Þegar svo Alþ. fjallar um till. ríkisstj., fellur sterlingspundið. Við það breytast mjög allar okkar ráðagerðir, og þá var jafnframt ákveðið að breyta gengi íslenzku krónunnar og miða að því, að gengisfellingin nægði til þess að sjávarútvegurinn og fiskiðnaðurinn yrði rekinn án styrkja. Afgreiðsla Alþ. á fjárl. þessa árs bar þess tvímælalaust merki, að árferðið hafði verið annað 1967 en árin á undan. Alþ. var ljóst, að ýmislegt varð að sitja á hakanum, sem menn ella hefðu óskað, að hægt hefði verið að framkvæma á þessu ári, og gera varð fjárl. þannig úr garði, að greiðsluafgangur yrði fyrir hendi og hægt yrði að nota sem mest af honum til þess að gera þá gengisfellingu, sem í varð að ráðast, léttbærari fyrir landsmenn — sér í lagi þá, sem mest þurftu á því að halda. Gerði ríkisstj. ráð fyrir að leggja fyrir Alþ. frv. til lækkunar á tollum á nauðsynjavörum, sem nú hefur verið gert, og hefur það verið lögfest.

Upp úr áramótum lágu fyrir fullnaðarathuganir á málefnum sjávarútvegsins svo og fyrstu áhrif gengislækkunarinnar, og þá kom í ljós, að ekki varð hjá því komizt að veita fiskvinnslustöðvunum og bátaútveginum sérstaka fjárhagsaðstoð á þessu ári. Féllst ríkisstj. á að beita sér fyrir aðstoð, sem nam 320 millj. kr., til þessara aðila á þessu ári. Því hefur verið haldið fram, að gengisfelling sú, sem gerð var, hafi alls ekki verið nægjanleg. Hins vegar hafa þeir, sem ráðizt hafa á stjórnarstefnuna á þessu þingi, ekki verið sammála um þetta. Sumir hafa talið, að gengisfellingin hefði ekki átt að nema meiru heldur en gengisfellingu pundsins, en aðrir hafa hins vegar talið, að hér hafi ekki verið nóg að gert og meiri gengisfellingu hefði þurft til að koma málum sjávarútvegsins í viðunandi horf. Því er til að svara, að nokkur atriði hafa komið í ljós, eftir að gengið var ákveðið, sem ekki hafði verið hægt að gera sér grein fyrir við ákvörðun gengisins. Hafa þessi atriði töluvert mikil áhrif á stöðu sjávarútvegsins nú og m.a. orðið þess valdandi að grípa verður til þess að gera sérstakar ráðstafanir vegna sjávarútvegsins á þessu ári.

Í fyrsta lagi var gert ráð fyrir því við gengisfellinguna, að gengisfelling sterlingspundsins hefði ekki áhrif á verðlag á fisksölu til Sovétríkjanna og þar gæti haldizt óbreytt verð reiknað í pundum. Þetta hefur ekki tekizt og orðið mikil verðlækkun, sem hefur að sjálfsögðu mikil áhrif á íslenzkan sjávarútveg með tilliti til þess magns, sem við seljum til Sovétríkjanna. Í öðru lagi var reiknað með því, að verð á mjöli og lýsi væri í algeru lágmarki og færi fremur hækkandi, en þær vonir hafa brugðizt. Og í þriðja lagi var í bráðabirgðauppgjöri því frá frystihúsunum, sem fyrir lá í nóv. á s.l. ári fyrir árið 1966, ekki gert nægjanlega ráð fyrir því verðfalli, sem átt hafði sér stað, og staða frystihúsanna var því mun lakari heldur en jafnvel þeir sjálfir höfðu gert ráð fyrir.

Þegar heildarathugunum var lokið, eins og ég gat um áðan, upp úr áramótum, lá ljóst fyrir, að frekari aðstoðar var þörf, og ríkisstj. féllst á að beita sér fyrir sérstakri aðstoð að upphæð 320 millj. kr. Þá vaknaði sú spurning, hvernig afla bæri þess fjár. Á fjárl. 1968 voru áætlaðar um 250 millj. kr. í greiðsluafgang, en síðan afgreiðsla fjárl. fór fram hefur Alþ. samþ. tollalækkun, sem nemur um 160 millj. kr., þannig að aðeins er um að ræða 90 millj. kr. af greiðsluafganginum 1968 til ráðstöfunar í þessum efnum. Á það skorti 230 millj. kr. Ákvörðun um verðhækkun á áfengi og tóbaki er talin gefa af sér 40 millj. kr., þannig að um 200 millj. kr. skortir til þess að geta staðið við áðurnefnt loforð ríkisstj. um að beita sér fyrir 320 millj. kr. aðstoð.

Tvær leiðir voru þá færar — sú fyrri skattahækkun, en sú síðari að draga úr útgjöldum ríkisins, þannig að hægt væri að reka ríkissjóð hallalaust, en samt láta í té fyrrgreinda upphæð. Ríkisstj. hefur með frv. því, sem hún hefur lagt fyrir Alþ., lagt til, að síðari leiðin yrði farin, og gerir till. í frv. á þskj. 359 um ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda. Hæstv. fjmrh. gerði hér við 1. umr. ítarlega grein fyrir því, í hverju þessar ráðstafanir væru fólgnar, þannig að ég mun aðeins í stuttu máli rekja þær svo og gera grein fyrir brtt., sem meiri hl. fjhn. flytur á þskj. 405, en meiri hl. fjhn. leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem þar eru fluttar. Minni hl. fjhn. mun gefa út sérstök nál. og gera þar grein fyrir sinni afstöðu til málsins.

Í frv. er sumpart gert ráð fyrir beinni lækkun á rekstrarliðum, þ.e. útgjaldaliðum fjárl., svo og gert ráð fyrir að fjármagna sumar þær framkvæmdir, sem ætlunin er að ráðast í á þessu ári, með lántöku innan framkvæmda- og fjáröflunaráætlunar ríkisstj. fyrir árið 1968.

Við 1. gr. frv., þar sem flestir liðir til lækkunar rekstrarútgjalda eru, leggur meiri hl. fjhn. fram eina brtt., þ.e. við 9. tölul., þar sem stendur: Byggingarsjóður safnahúss — 1,5 millj. kr. Þetta er fjárframlagið, sem Alþ. hafði samþ. á fjárl. 1968 til byggingar safnahúss. Hér er um að ræða fyrsta framlag í Byggingarsjóð safnahúss, eins og bent var á hér við 1. umr., en þar voru lögð fram þau rök, að með því að fella algerlega niður þetta framlag væri Alþ. að afturkalla ákvörðun sína. Aðrar lækkanir í byggingarsjóði, sem lagðar eru til í 1. gr., eru hins vegar við framkvæmdir, sem þegar hafa verið ákvarðaðar og þar sem sjóðsmyndanir hafa átt sér stað. Því hefur meiri hl. fjhn. lagt til, að í stað þess að fella niður þennan lið úr fjárl. verði hann lækkaður um 1 millj. kr. og eftir standi 500 þús. kr. sem ákvörðun Alþ. um stofnun sjóðs til safnahúss.

Í öðrum greinum frv er gert ráð fyrir töluverðum skipulagsbreytingum á sviði fræðslumála og m.a. gert ráð fyrir því — þ.e. í 4. gr. — að dregið verði örlítið úr fjárveitingum í sambandi við skólamálin á árinu 1968 og sérstaklega lögð áherzla á betri skipulagningu. Einnig verði við samningu fjárlagafrv. 1969 gerðar athuganir á því fjármagni, sem nú þegar hefur verið lagt til skóla barna- og unglingastigsins, sem gert er ráð fyrir, að hafi ekki fleiri nemendur en 30 og ekki komi til sameining hreppa í skólahverfi. Við flytjum á þskj. 405 brtt. við 4. gr. Það er nánast umritun á síðari málsl. 4. gr., en merkingarmunur er enginn. Hins vegar töldu nm. réttara að gera þessa breytingu, þar sem skýrar kæmi fram, við hvað væri átt.

Í 7. gr. er ákvæði um, að fræðslumálaskrifstofan verði gerð að deild í menntmrn., svo og skulu heyra undir menntmrn. aðrir þeir starfsmenn ríkisins, sem starfa á fræðslumálaskrifstofunni að vísu samkv. öðrum l., svo sem íþróttafulltrúi, bókafulltrúi ríkisins og starfsmenn fræðslumyndasafns ríkisins. Í niðurlagi þessarar gr. er gert ráð fyrir því, að lagabreytingar samkv. þessari gr. komi til framkvæmda, þegar unnt verður að sameina þessar stofnanir og embætti í húsnæði í sömu byggingu. Meiri hl. fjhn. hefur í samráði við hæstv. fjmrh. og menntmrh. flutt brtt., þar sem stendur: „Skipulagsbreytingar samkv. gr. þessari skulu koma til framkvæmda, þegar menntmrh. ákveður.“ Það er að sjálfsögðu engin ástæða til þess að binda slíkar skipulagsbreytingar við það, að hægt sé að hafa húsnæði fyrir þessar stofnanir í einni og sömu byggingu, og því er þessi brtt. flutt.

Aðrar gr. frv. gera m.a. ráð fyrir að fella úr l. þá kvöð á ríkissjóði að ætla árlegt framlag sem eins konar endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna eyðingar meindýra.

Í 11. gr. er gert ráð fyrir, að Póstur og sími annist um skyldusparnað án þess að fá fyrir það sérstaka greiðslu, og í 12. gr. er gert ráð fyrir, að framlag til ferðamála falli niður.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv. Í nál. á þskj. 406 kemur fram afstaða meiri hl. fjhn., sem leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem fluttar eru á þskj. 405 og ég hef nú gert grein fyrir.