22.03.1968
Neðri deild: 80. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Frsm. 2. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Eins og þegar hefur komið fram í þessum umr., má líta á þetta frv. ríkisstj. sem einn lið í tillagnagerð hennar á þessum vetri um sérstakar ráðstafanir í efnahagsmálum, en um þau atriði hefur ríkisstj. flutt hér á Alþ. allmargar till. Það var í upphafi þings í októbermánuði, að ríkisstj. lagði fram fjárlagafrv. fyrir árið 1968, og um leið gerði hún grein fyrir þeim ráðstöfunum, sem hún taldi, að nauðsynlegt væri að gera eins og komið var í efnahagsmálum. Það vakti þá strax nokkra athygli, að till. ríkisstj. í þingbyrjun miðuðust við að auka enn allverulega tekjur ríkissjóðs og við það, að ríkisstj. teldi óhjákvæmilegt að auka talsvert enn á hin almennu ríkisútgjöld.

Efnahagstill. ríkisstj. fólu það í sér, að lagðir yrðu á allmargir nýir skattar eða nokkrar álögur í nýrri mynd, sem talið var, að mundu nema í kringum 350 millj. kr. á ársgrundvelli, en enn fremur fólu þessar till. í sér það, að ríkissjóður drægi úr greiðslum sínum til lækkunar á vöruverði, sem næmi rétt rúmum 400 millj. kr. á ári. Það var svo að skilja á hæstv. ríkisstj., þegar hún lagði fram þessar till., og þegar hún lagði fram sitt fjárlagafrv. fyrir árið 1968, að hún teldi, að komast mætti yfir þá efnahagserfiðleika, sem þá höfðu komið fram, ef farið yrði að þessum ráðum hennar. Í till. ríkisstj. var gert ráð fyrir því, að launþegar í landinu yrðu að taka á sig talsverða kjaraskerðingu. Miðað við þá vísitölu, sem þá var enn í gildi, var talið í útreikningum ríkisstj. sjálfrar, að kjaraskerðingin mundi nema í kringum 71/2%. Ríkisstj. lagði á það mikla áherzlu í sínum málflutningi í sambandi við þessar ráðstafanir, að þjóðarbúið sem heild hefði orðið fyrir miklu áfalli á árinu 1967, þjóðartekjurnar yrðu miklu minni en áður og þess vegna yrðu allir að sætta sig við nokkru minni tekjur en áður, því að slíkt væri óhjákvæmilegt. En þó að ríkisstj. hefði uppi þennan málflutning, þá miðaði hún sínar till. við það, að ríkissjóður ætti að fá meiri tekjur en nokkru sinni áður og hann þyrfti að hafa hærri útgjöld en áður.

Bent var á af hálfu okkar stjórnarandstæðinga, að þetta væri mjög óeðlilegt, að ríkisstj. — og alveg sérstaklega fjmrh. — stæði að till. um að krefjast þess, að launþegar allir í landinu, og helzt allir landsmenn, tækju á sig verulega kjaraskerðingu og yrðu að sætta sig við lægri ráðstöfunartekjur en áður, en hann gerði jafnt kröfur um það að fá meiri tekjur til þess að spila burt á vegum ríkissjóðs. En þó að hér væri fundið að þessum till., hnikaði ríkisstj. ekki til sínum ásetningi. Hún hélt sínu striki og fékk fjárl. afgreidd á þeim grundvelli, að gengið var út frá því, að tekjur ríkissjóðs ættu enn að hækka frá því, sem áður var, og útgjöldin enn að aukast. Þegar við Alþb.-menn bentum á það, að miðað við þær aðstæður, sem þá höfðu skapazt, væri alveg óhjákvæmilegt að horfast í augu við þann vanda að reyna að færa nokkuð niður ríkisútgjöldin, sem höfðu farið mjög hækkandi á undanförnum árum, þá komu þau svör frá hæstv. ríkisstj. og alveg sérstaklega frá hæstv. fjmrh. við þessum ábendingum okkar, að ekki væri unnt að koma fram neinum sparnaði í ríkisrekstrinum og till. af okkar hálfu um að reyna að færa niður kostnaðinn á ýmsum sviðum væru óraunhæfar og óframkvæmanlegar.

Í sambandi við þessar umr. benti ég m.a. á það, að útgjöld ríkissjóðs hefðu farið ört hækkandi á undanförnum árum. Þannig má t.d. á það benda, að ríkisútgjöldin öll voru árið 1962 talin 1752 millj. kr. samkv. fjárl., árið 1963 voru þau komin upp í 2198 millj. kr., 1964 upp í 2696 millj. kr., 1965 upp í 3529 millj. kr., 1966 upp í 3800 millj. kr., 1967 upp í 4711 millj. kr. og fjárlagafrv. ríkisstj. fyrir árið 1968 voru útgjöldin komin nokkuð yfir 5000 millj. kr. — allt á sambærilegum grundvelli. Þó má segja, að á þessum árum hafi hækkunin á ríkisútgjöldunum verið enn meiri en þessar tölur segja til um, því að þýðingarmiklar greiðslur á vegum ríkisins, sem voru taldar með hinum almennu útgjöldum ríkisins árið 1962, eins og öll framlög til vegagerðar og brúarsmíði, sem nú eru í kringum 300 millj. kr. á ári, hafa verið felldar brott; þær voru sem sé taldar með í heildarútgjöldunum 1962, en eru ekki taldar með í útgjöldunum nú 1968, þegar þau eru komin yfir 5000 millj. kr. En á þessu tímabili frá t.d. 1962 til 1968 er því augljóst, að heildarútgjöld ríkissjóðs eins hafa meira en þrefaldazt.

Það hefur lengi verið mín skoðun, að þenslan í ríkissjóði hafi í þessum efnum verið mun meiri en undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar gátu staðið undir með góðu móti. Og þegar það kom einnig til, að undirstöðuatvinnuvegirnir urðu fyrir miklu áfalli, erfiðleikar sóttu að og tekjurnar minnkuðu, var það að mínum dómi alveg fráleitt að ætla sér að halda uppi þeirri stefnu, að enn þá skyldu ríkisútgjöldin almennt séð eiga að hækka. En við þessa meginstefnu var afgreiðsla ríkisstj. á fjárlagafrv. fyrir árið 1968 miðuð. Það skal ég fúslega viðurkenna, að það er alltaf erfitt, eftir að búið er að hækka útgjöld og miða ýmsar ráðstafanir á vegum hins opinbera við há útgjöld, að koma því fram að lækka útgjöldin. En það þurfti að viðurkenna það einmitt við þessar aðstæður, að vinna ætti að lækkun ríkisútgjalda en ekki taka ábendingu okkar Alþb.- manna á þann hátt, sem ríkisstj. því miður gerði, þ.e. að segja, að þetta væri tal um óraunhæfa og óframkvæmanlega hluti, og vísa till. okkar í þessum efnum frá; það var röng stefna.

Ég tel fyrir mitt leyti, að það frv., sem hér liggur nú fyrir frá hv. ríkisstj. um nokkra lækkun á ríkisútgjöldum miðað við það, sem ákveðið var á fjárl., stefni því út af fyrir sig í rétta átt, og frv. sé að þessu leyti lofsvert. Þar sé réttilega tekið á málum, að svo miklu leyti, sem þetta frv. miðar að því að reyna að færa ríkisútgjöldin niður á raunhæfan hátt, en það gerir þetta frv. að talsverðu leyti. Það er að vísu mín skoðun, að í þessu frv. felist engan veginn sú niðurfærsla á útgjöldum ríkisins, sem látið er í veðri vaka af hálfu ríkisstj. í sambandi við flutning þessa máls. Lækkunin á ríkisútgjöldunum er engan veginn svo mikil sem þar er gert ráð fyrir. Auk þess er það auðvitað alltaf svo, að það kann að vera erfitt að fá fulla samstöðu um, á hvaða liðum skuli sparað og á hvaða útgjaldaliðum sé ekki hægt að spara. Þar greinir mig líka nokkuð á við hv. ríkisstj., en þó get ég samþykkt margar af till. hennar, sem koma fram í þessu frv.

Ég gat þess hér í upphafi míns máls, að það mætti í rauninni líta á þetta frv. sem einn lið í tillagnagerð ríkisstj. á þessum vetri í efnahagsmálum. Ég held, að það verði ekki deilt um, að svo sé. Það væri því auðvitað full ástæða til þess að rifja það upp í sambandi við þetta frv. hverjar hafi verið till. ríkisstj. í efnahagsmálum á þessum vetri. Þar hefur gætt mikils stefnuleysis og fálms að mínum dómi – ekki síður en í sambandi við afgreiðslu fjárl. Það kom undir eins í ljós, að óraunhæft reyndist hjá ríkisstj., að till. hennar, sem hún kallaði frv. um efnahagsráðstafanir, dygðu til að leysa þann efnahagsvanda, sem við blasti. Því var það skömmu eftir að ríkisstj. hafði komið þeim till. á framfæri í þinginu — að hún sá, að þær dugðu ekki, þá var horfið að því ráði að samþykkja hér allmikla gengislækkun. Með þeirri gengislækkun taldi ríkisstj., að allur vandi væri leystur, en það átti auðvitað eftir að koma í ljós tiltölulega fljótlega, að einnig þær till. stjórnarinnar voru ekki nógu traustar.

Skömmu eftir að gengislækkunin var ákveðin til viðbótar við fyrri efnahagsmálatillögur — því að gengislækkunin var ekki látin koma í stað efnahagsmálatill., sem áður höfðu verið lagðar fram kom í ljós, að vandinn varð ekki leystur með gengislækkunartillögunum, eins og að framkvæmd þeirra var staðið af hálfu ríkisstj. Ríkisstj. var svo viss í sinni sök, þegar hún hafði lagt fram till. um gengislækkun og fengið þær samþykktar, að hún taldi mögulegt að taka af sjávarútveginum — sem gengislækkunin var auðvitað fyrst og fremst gerð fyrir eins og málum var komið — sannanlega og óumdeilanlega eign hans, þ.e. um 400 millj. kr., sem fengust við gengisbreytinguna, og taldi rétt að ráðstafa þessari upphæð til ýmissa aðila, af því að hinn rétti eigandi þyrfti ekki á þessu að halda. Og í þessum efnum gerði ríkisstj. jafnvel till. um það, að nokkuð af þessum svokallaða gengishagnaði ætti að renna til ríkissjóðs. Á það vildi Alþ. auðvitað ekki fallast og breytti þessum till. hennar, þannig að frá því var fallið, að nokkuð af gengishagnaðinum ætti að renna beint í ríkissjóð. En skömmu eftir að þetta hafði verið samþykkt, varð ríkisstj. að takast beinlínis á við vandamálið og eiga samninga við útflutningsatvinnuvegina. Komst hún þá að raun um það, að hennar fyrri uppsetning á dæminu reyndist alröng. Þá varð hún að semja um að greiða nokkrum þáttum útflutningsframleiðslunnar ekki allri útflutningsframleiðslunni, heldur þeim þáttum, sem eru bundnir við vetrarvertíð — 320 millj. kr. í beint framlag á árinu 1968, og auðvitað röskuðust áætlanir ríkisstj. enn meir við þetta.

Um þetta leyti hafði hv. fjmrh. lýst því yfir hér á Alþ., að hann teldi eftir gengislækkunina, að fjárhagur ríkissjóðs yrði með þeim hætti, að hægt yrði að lækka tolla í landinu um upphæð, sem næmi 250 millj. kr., og hann gaf fyrirheit um það, að svo skyldi verða, vegna þess að auðvitað var augljóst, að tekjur ríkissjóðs áttu að stórhækka vegna hækkandi tolltekna við gengisbreytinguna. En aðeins nokkrum vikum eftir að hv. ráðh. hafði gefið þetta loforð hér á Alþ. varð hann að koma hér fram aftur og játa það, að ekki væri hægt að lækka tollana nema um upphæð, sem næmi 159 millj. kr., vegna þess að fyrri áætlanir stæðust ekki. Ríkisstj. hafði gert áætlanir um, að hægt yrði með þeim almenna rökstuðningi, að þjóðarbúið hefði orðið fyrir áföllum á s.l. ári, að koma fram almennri kauplækkun hjá launþegum í landinu, sem næmu ekki minna en 12%. Hún hafði gert sér vonir um þetta, og við þetta var öll hennar áætlun miðuð. Þetta var auðvitað alveg fráleitt miðað við þær aðstæður sem launafólk í landinu bjó við, en verulegur samdráttur var í atvinnulífinu og minnkandi tekjur af þeim ástæðum.

Auðvitað var það algjör fjarstæða að ætla sér að koma fram beinni kauplækkun miðað við tímaeiningu, sem næmi í kringum 12%. Þessi 12% voru í stórum dráttum þannig til komin, að fyrst hafði verið gert ráð fyrir því, að kaupmáttur launa mundi lækka með efnahagsráðstöfunum ríkisstj. um 71/2%, en ríkisstj. féllst á það nokkru síðar að skila til baka af því með hækkun á kaupgreiðsluvísitölu 3,4%; þá voru eftir raunverulega af þessum ráðstöfunum um 4%, allt miðað við gömlu kaupgjaldsvísitöluna. Síðan áætluðu efnahagssérfræðingar ríkisstj., að bein verðhækkun í landinu af gengislækkuninni væri ekki undir 8–9%, og ríkisstj. ætlaði að haga framkvæmd mála þannig, að launþegar fengju enga verðlagsuppbót á laun vegna þeirrar verðhækkunar, sem yrði af gengislækkuninni, og heldur ekki neinar verðlagsuppbætur vegna þess, sem á skorti á vísitölugreiðsluna, sem greidd var 1. des. og nam þá 3,4% eða tæplega því. Hún hafði því gert sínar áætlanir um það, m.a. að því er varðaði framleiðsluna í landinu, að hægt væri að koma fram almennri kauplækkun, sem næmi í kringum 12%.

Afleiðingarnar af þessum ráðstöfunum ríkisstj. urðu svo þessi löngu og kostnaðarsömu verkföll, sem eru nú nýleyst, vegna þess að í þessum efnum var ríkisstj. að reyna að knýja fram það, sem í rauninni var alveg ómögulegt, að hún gæti komið fram. Forystumenn verkalýðssamtakanna í landinu höfðu lýst því yfir bæði hér á Alþ. og utan Alþ. að verkalýðshreyfingin mundi ekki una slíkum ráðstöfunum sem þessum og þetta fengi ekki staðizt, en ríkisstj. skellti skollaeyrum við þessu og hélt sínu striki; afleiðingarnar urðu þau miklu verkföll, sem allir þekkja. Það er alveg augljóst, að vegna verkfallanna hafa framleiðsluatvinnuvegirnir í landinu tekið á sig fjárhagsbyrðar, sem líklega nema ekki lægri upphæð en þeim styrkjum, sem ríkisstj. var búin að lofa framleiðslunni með samningunum, sem áttu sér stað í janúarmánuði. Þessi dæmi lýsa því auðvitað mjög vel, hve illa hefur yfirleitt tekizt til með ráðagerðir ríkisstj. í efnahagsmálum á þessum vetri. Áætlanir hennar hafa steypzt um koll hver eftir aðra, og fjármunir, sem hún hefur lagt fram til stuðnings framleiðslu, hafa eyðzt upp á örstuttum tíma vegna þeirra ráðstafana, sem ríkisstj. sjálf hefur borið ábyrgð á.

En svo að ég víki aftur beint að þessu frv., sem hér liggur fyrir og ég fyrir mitt leyti tel spor í rétta átt, þó að sporið sé ósköp lítið, þá tel ég, að það, sem ríkisstj. er að byrja á með þessu frv., sé út af fyrir sig rétt og óhjákvæmilegt. Ég held, að það þurfi að draga úr útgjöldum ríkissjóðs miðað við efnahagsástand, sem nú er í okkar landi — og það þurfi að draga þar verulega úr og miklu meira en lagt er til í þessu frv. Ég held einnig, að ríkisstj. ætti í fleiri tilfellum að taka hér tillit til þess, sem við í stjórnarandstöðunni höfum verið að benda henni á. Það er t.d. enginn vafi á, að það væri miklu þýðingarmeira fyrir útflutningsatvinnuvegina, að ríkisstj. féllist á það sjónarmið okkar að reyna að færa nokkuð niður ýmis útgjöld, sem hvíla á útflutningsframleiðslunni og íþyngja henni, heldur en lofa henni því, að hún skuli fá vinnuaflið á lægra verði heldur en ríkisstj. getur raunverulega staðið við að veita útflutningsatvinnuvegunum. Ég hef margsinnis bent á, að það er vitanlega hægt að lækka útgjöld þau, sem á framleiðsluatvinnuvegunum hvíla, í mörgum greinum frá því sem verið hefur, og það er sérstaklega brýn þörf á því að gera það, eins og nú er komið. Framleiðslan gat miklu fremur búið við þessar álögur allar og þessi háu gjöld, meðan allt lék í lyndi, meðan verðlagið var hátt á erlendum mörkuðum og meðan aflinn var í hámarki, en þegar samdráttur verður og þegar erfiðleikarnir vaxa, fær útflutningsframleiðslan vitanlega ekki risið undir þessum háu gjöldum. Það er auðvelt mál fyrir ríkisstj. að vinna að því að létta verulega á útflutningsframleiðslunni með því að lækka vexti til hennar til mikilla muna frá því, sem verið hefur. Þetta væri hægt að gera, og það er í rauninni óhjákvæmilegt að gera þetta. Það væri líka hægt að létta á útgjöldum útflutningsframleiðslunnar með því að lengja ýmis lán, sem útflutningsframleiðslan verður nú að standa skil á, vegna þess að lánstíminn er óeðlilega stuttur og hefur beinlínis verið styttur af hv. ríkisstj. með sérstökum lögum hér frá Alþ. Það eru auðvitað margvísleg önnur útgjöld, sem á útflutningsframleiðslunni hvíla, eins og útflutningsgjaldið á sjávarafurðum, sem er mjög óeðlilegt. Auðvitað ber að lækka slík gjöld, og það mundi hafa miklu meiri áhrif til stuðnings útflutningsframleiðslunni heldur en þær till. ríkisstj., sem ganga í þá átt að lækka hið almenna kaupgjald, sem hún síðan hefur ekki afl til að sjá um að lækki.

Ég vildi þá víkja nokkuð nánar að einstökum liðum í þessu frv. til þess að gera betur grein fyrir afstöðu minni til þeirra og þá um leið gera grein fyrir þeim brtt., sem ég flyt hér við frv.

Í 1. gr. frv. er að finna samtals 30 tölul., sem allir eiga að miða að því að lækka ríkisútgjöld. Fyrsti liðurinn er um það að lækka nokkuð kostnað í stjórnarráðinu og risnu ráðh., og þar er talað um að lækka þessa kostnaðarliði um 2 millj. kr. Það er mín skoðun, að hér væri hægt að gera mun betur. Hægt væri að lækka þarna allmiklu meir, og það væri vandalítið. Ég hef samt ekki flutt till. um að hækka þennan lið. Ég tel þetta sem sé spor í rétta átt, að dregið sé úr þessum kostnaði sem nemur 2 millj. kr., en ég held, að vandalítið væri að draga úr þessum kostnaði miklu meir en gert er ráð fyrir í frv.

Þá er næst að finna í þessari grein frv. nokkur framlög til ýmissa framkvæmda, eins og til Byggingarsjóðs stjórnarráðshúss, kaupa á Viðeyjarstofu o.fl. Að mínum dómi kemur fyllilega til greina að lækka útgjöld af þessu tagi, þegar harðnar í ári, og það verður að reyna að draga nokkuð úr útgjöldum ríkissjóðs. Ég viðurkenni, að það sé mikil þörf á því að byggja nýtt stjórnarráðshús. Hins vegar er það nokkurn veginn vitað mál, að ekki verður ráðizt í þá framkvæmd strax, og því tel ég fyrir mitt leyti, að það komi vel til greina að lækka þessa liði eitthvað. Ég tel sjálfsagt að lækka áætlunarliðinn í sambandi við kaupin á Viðeyjarstofu. Það sýnir sig, að sá liður á fjárl. var óþarflega hár. Engin þörf var á því að hafa hann jafnháan og gert var ráð fyrir. Ég tel því, að vel megi á þessu ári lækka þessa liði.

Þá er samkv. 5. lið þessarar greinar gert ráð fyrir nokkrum sparnaði í rekstri skóla almennt. Boðað er, að hægt sé að gera þetta án þess að draga úr starfsemi skólanna í sjálfu sér og hægt sé að koma við þessum sparnaði með vissri hagræðingu. Ég hef ekki aðstöðu til þess að dæma um það, en tek þessu fagnandi fyrir mitt leyti og tel alveg sjálfsagt að reyna að koma þessu fram. Ég vona, að það muni takast. Hér er um svo gífurlega mikinn kostnað af hálfu ríkisins að ræða í sambandi við rekstur skóla, að mér þykir ekki ótrúlegt, að það megi takast og með aukinni hagkvæmni megi spara þarna nokkur útgjöld. Hins vegar mæli ég ekki með því, að dregið sé úr framkvæmd kennslumálanna almennt, og tel, að það beri að skoða marga aðra útgjaldaliði, áður en farið er að hreyfa við slíkum liðum.

Þá er samkv. 6. lið gert ráð fyrir því að lækka framlög til skólabygginga um 5 millj. kr. Þar er ekki um háa fjárhæð að ræða, og mér skilst, að þetta eigi ekki að koma að neinni sök, svo að ég er ekki andvígur þessum lið miðað við það ástand, sem ríkjandi er.

Þá er samkv. 7. tölul. gert ráð fyrir því að spara í rekstri fræðslumálaskrifstofunnar, á störfum námsstjóra og fræðslustjórans í Reykjavík upphæð sem nemur rúmum 2 millj. kr. Ég vil ekki leggja dóm á það, að hve miklu leyti námsstjórakerfið hefur komið að gagni að undanförnu. Ég dreg þó nokkuð í efa, að það hafi skilað tilætluðum árangri, og ég tel einnig, að það sé ástæðulaust, að ríkið standi undir kostnaði af fræðslustjóraembætti í Reykjavík upp á 800 —900 þús. kr. á ári, en mér hefur skilizt, að svo væri. Ég held, að þarna sé um hagsmunamál Reykjavíkurborgar að ræða, svo að það sé ósköp eðlilegt, að hún kosti þessa starfsemi, af því að ég held, að starf hans komi líka Reykjavíkurborg fyllilega að fjárhagslegu gagni, og því sé ekki bein ástæða til þess að amast við því, þó að þetta falli niður. Ég lít með fullum skilningi á þessa till., sem er undir 7. tölul.

Þá er samkv. 8. tölul. gert ráð fyrir því, að spara á Kennaraskólanum 1 millj. kr., og sú skýring hefur verið gefin á þessu, að hér sé um það að ræða að fresta greiðslu á kaupum á bókasafni, en greiðslan þurfi ekki nauðsynlega að fara fram á þessu ári. Ég fyrir mitt leyti get — miðað við þessa skýringu vel fallizt á, að það sé réttmætt að taka upp þennan lið.

Þá er samkv. 9. tölul. lagt til að fella niður framlag til Byggingarsjóðs safnahúss, 11/2 millj. kr., en nú hefur verið gerð brtt. í samráði við ráðh. um það, að þarna verði spöruð aðeins 1 millj. kr. og eftir standi fjárveiting í þessu skyni upp á 500 þús. kr. Ég tel miður, að hæstv. ráðh. skuli halda fast við það, að þörf sé á því að taka upp þennan lið í frv. Ég tel, að hér hafi í rauninni verið um stefnuákvörðun að ræða af hálfu þingsins. Hún hafi verið tekin, og það hafi því verið eðlilegt, að þessi fjárveiting hefði staðið. Ríkissjóður hefði ekki þurft að greiða þessa upphæð út, því að ekki hefði verið ráðizt í þessa framkvæmd á árinu; þetta hefði því ekki haft nein áhrif út af fyrir sig á rekstur ríkissjóðs eða hina beinu afkomu á árinu. En þó tel ég mikils um vert, að ráðh. hefur fallizt á að halda þó nokkurri fjárhæð þarna áfram á fjárl. og viðurkenna þar með, að fyrr eða síðar þarf að ráðast í þessa framkvæmd.

Í 11. tölul. er gert ráð fyrir því að spara um 2 millj. kr. á lögreglustjóraembættinu á Keflavíkurflugvelli. Um þetta hef ég flutt hér till. nokkrum sinnum á Alþ. við afgreiðslu fjárl., en þá hafa menn ekki verið við því búnir að fallast á að draga úr þessum löggæzlukostnaði, sem hefur farið hækkandi frá ári til árs, og er nú svo komið, að ríkissjóður er farinn að greiða í löggæzlukostnað á Keflavíkurflugvelli innan girðingar um 9 millj. kr. á ári — bara í löggæzlukostnað — en samtals í tollgæzlu og löggæzlukostnað þar á vellinum rétt um 19 millj. kr. Ég tel, að í þessum efnum sé um algera óþarfaeyðslu að ræða, sem ekki nái nokkurri átt og eigi að færast niður. Ég geri því till. um það, að á þessum lið verði ekki aðeins sparaðar 2 millj. kr., heldur verði sparaðar 4 millj. kr., og teldi það ekki mikið átak fyrir hæstv. ráðh. að koma því fram.

Þá er samkv. 12. lið þessarar gr. lagt til að spara um 3 millj. kr. á utanríkisþjónustunni, en fallið frá þeirri hugmynd að leggja niður sendiráð eða sameina sendiráð, t.d. á Norðurlöndum. Ég geri till. um það, að samkv. þessum lið verði sparaðar 6 millj. kr. í stað þriggja eins og lagt er til í frv. Ég held, að enginn vandi sé að spara á þessum lið það sem ég legg til, og ég álít, að það væri auðveldast að gera það á þann hátt að leggja niður 5 millj. kr. sendiráð hjá NATO í Brüssel, sem að mínum dómi er algerlega óþarft og óeðlilegt. Þurfi að hafa þar sendimann, sýnist mér, að það mjög svo dýra sendiráð, sem við höfum í París, ætti að geta sinnt þeim störfum. Ég held því, að það sé vel hægt eða mjög auðvelt að koma fram mun meiri sparnaði í utanríkisþjónustunni en hæstv. ríkisstj. leggur til með þessu frv., og það væri því fyllilega ástæða til þess að samþykkja mína till. um það.

Þá er gert ráð fyrir því í þessari 1. gr. að spara allverulegar fjárhæðir í sambandi við fiskmat ríkisins og síldarmat ríkisins - eða samtals um 4 millj. kr. Ég skal líka segja það sem mína skoðun, að ég held, að spara megi á þessu þessa upphæð eða nálægt því, en ég hef þó ekki getað fylgzt nákvæmlega með þessu á undanförnum árum. Það er mín skoðun, að vissir þættir fiskmatsins þurfi verulegrar endurskoðunar við. Ég held, að ferskfiskmatið hafi kostað allt of mikið miðað við þann árangur, sem þar hefur fengizt og það þurfi að endurskipuleggja það verulega. Ég býst líka við, að spara megi nokkuð á síldarmatinu miðað við allar aðstæður, en ég skal nú ekki um það segja, hvort hægt er að spara þar 1 millj. kr. af 2,4 millj. kr. strax á þessu ári. Það dreg ég nokkuð í efa. Þess ber að gæta, að helzt er hægt að koma við sparnaði í ferskfiskmatinu, en það hefur nú sérstakan tekjustofn, þar sem um er að ræða ákveðin útflutningsgjöld af sjávarafurðum, og samkv. fjárlagafrv. þessa árs er gert ráð fyrir, að þessi tekjustofn gefi um 91/2 millj. kr. í ríkissjóð til þess að standa undir þessum framkvæmdum. Ég tel það auðvitað alveg fráleitt að ætla að leggja áfram þetta útflutningsgjald á útfluttar sjávarafurðir umfram það, sem kostað verður til ferskfiskmatsins. Sjávarútvegurinn þarf á öllu sínu að halda, eins og reynslan hefur sýnt ekki sízt eins og nú árar. Vitanlega þarf að vinna að því að létta af ýmsum þeim álögum, sem á honum hvíla, að svo miklu leyti sem þær álögur eru óeðlilegar. Það er mín skoðun, að þetta ferskfiskútflutningsgjald hafi að verulegu leyti verið óþarft og ætti að hverfa.

Þá er hér lagt til í 16. og 17. lið, að spara skuli útgjöld til Aflatryggingasjóðs sjávarútvegsins, 11 millj. kr. og til Fiskveiðasjóðs Íslands, 30 millj. kr. Í þessum efnum get ég ekki talað um neinn sparnað. Hér er aðeins um það að ræða, að ríkið ætlar sér að svíkjast um að greiða þær fjárhæðir, sem það á að greiða samkv. l. til þessara þýðingarmiklu stofnana sjávarútvegsins, en það er einmitt þessi undirstöðuatvinnuvegur okkar, sem stendur nú höllum fæti og þarf á öllu sínu að halda. Ég tel, að þessar till. séu óeðlilegar, og ég er á móti þessum till. Ég vil benda á það, að Aflatryggingasjóður mun hafa greitt til sjávarútvegsins á s.l. ári nokkuð yfir 120 millj. kr. í bætur. Í fjárlagafrv. er hins vegar ekki gert ráð fyrir því, að greiðslur á árinu 1968 verði nema rétt í kringum 60 millj. kr. Ég held, að það verði lítill sparnaður í því, þegar til á að taka, ef sjávarútvegurinn verður fyrir einhverjum áföllum eða erfiðleikum, að taka af honum þetta framlag, sem hann átti að hafa samkv. I. Sjávarútvegurinn leggur sjálfur til með ákveðnu útflutningsgjaldi mikið fé í þennan sjóð á hverju ári, og m.a.s. hluti af því, sem hinn almenni sjávarútvegur — bátaútvegurinn — hefur lagt í þennan sjóð, hefur verið tekinn úr sjóðnum til þess að hjálpa togaraútgerðinni yfir þann vanda, sem hún hefur átt við að glíma og hefur verið í rauninni allt annars eðlis heldur en sá vandi, sem stafar einkum af aflaleysi, enda hafa bætur til togaranna verið greiddar eftir allt öðrum reglum. Þessir tveir liðir, 16. og 17. liður í 1. gr. frv., þ.e. greiðslur til Aflatryggingasjóðs og Fiskveiðasjóðs, eru ekki um neinn sparnað í rekstri ríkisins og eru ekki af þeirri tegund, sem ég tala um, þegar ég ræði um sparnað.

Þá er gert ráð fyrir því í 18. tölul. að spara um 41/2 millj. kr. á framlögum til Orkustofnunar og Orkusjóðs, og þær upplýsingar hafa verið gefnar, að þessi sparnaður eigi aðallega að koma fram í því, að leggja eigi minna í rannsóknir í sambandi við virkjunarmál, jarðboranir, vatnsmælingar og annað þess háttar. Ég er á móti þessum sparnaði. Ég álít, að við eigum allra sízt að spara fé, sem við leggjum fram til undirstöðurannsókna, sem eru þess eðlis, að þær hljóta að skila okkur verðmætum mjög fljótlega. Ég efast ekkert um að rannsóknir í sambandi við virkjunarframkvæmdir eru þess eðlis, að þær þarf að framkvæma, og ég álít, að við hefðum miklu fremur þurft að eyða meira fé en minna í jarðboranir og reyna jafnframt að losa okkur úr því ófremdarástandi að kaupa til landsins dýr og mikil tæki eins og hinn margumtalaða stóra bor og láta hann svo liggja verkefnalausan tímunum saman. Ég er andvígur þessari till. Ég tel, að hún eigi ekki rétt á sér.

Samkv. 19. tölul. er gert ráð fyrir því að lækka kostnað við löggæzlu í landinu um 6,8 millj. kr., og það er sagt, að þar sé um að ræða um 5% lækkun á löggæzlukostnaðinum. Ég er fyrir mitt leyti samþykkur þessari till., en tel, að þarna ætti að reyna að spara mun meira. Ég tel löggæzlukostnaðinn, sem nú er kominn nokkuð yfir 130 millj. kr. á ári, vera orðinn allt of háan og að vinna eigi að því að færa hann niður. Einnig tel ég, að við vitum mörg dæmi þess, þar sem um er að ræða óeðlilegan kostnað við löggæzluna í landinu. Ég hef því gert till. um það, að sparnaður á þessum lið verði 13,6 millj. kr. í stað 6,8 millj. kr.

Tuttugasti og fyrsti tölul. þessarar gr. er um sparnað í sambandi við hægri umferð, 18,4 millj. kr., þar sem nú er gert ráð fyrir, að tekið verði lán í þessu skyni en ríkissjóður leggi ekki fé til þessa á þessu ári. Ég er samþykkur þessum lið. Ég álít, að hann eigi líka að falla niður á fjárl. og það hljóti að vera hægt að komast yfir þennan vanda eftir öðrum leiðum.

Tuttugasti og annar liður er um Almannavarnir. Til þeirra er varið samkv. fjárl. 3,9 millj. kr., en lagt er nú til að lækka þessa fjárveitingu um 3 millj. kr., þ.e. spara þarna um 3 millj. kr. Ég er fullkomlega sammála þessari till. Hún er í samræmi við þær till., sem við Alþb.-menn höfum flutt hér ár eftir ár, um að lækka nokkuð framlag til hinna svonefndu Almannavarna, en það er búið að eyða nokkrum tugum millj. kr. á undanförnum árum í þessa starfsemi, sem enginn veit til, að hafi verið til nokkurs gagns. Ég held því, að það sé fullkomlega frambærilegt að draga úr fjárveitingum í þessu skyni um 3 millj. kr. á þessu ári.

Þá er hér lagt til samkv. 24. lið að leggja niður tvö prestsembætti, annað á Keflavíkurflugvelli og hitt í Danmörku. Bæði þessi embætti hafa verið stofnsett með einhliða ákvörðun ríkisstj., og ég tel, að það sé sjálfsagt að leggja þessi tvö embætti niður.

Í 25. og 26. lið, sem eru um framkvæmd orlofslaga og skyldusparnað, er gert ráð fyrir því, að Póstur og sími taki á sig þann vanda, sem þar er um að ræða án sérstakra greiðslna. Á þann hátt er hægt að lækka útgjöldin um 8,1 millj. kr. Ég tel þetta líka rétt. Ég veit, að þetta jafngildir því í sjálfu sér, að Póstur og sími verði að huga að sínum fjármálum. Þetta jafngildir því, að þeir hafi úr rúmlega 8 millj. kr. minna að spila en áður, en ég efast ekkert um það, að í sambandi við þann mikla rekstur hlýtur að vera hægt að draga úr útgjöldum, sem því nemur, án þess að starfsemi stofnunarinnar þurfi á nokkurn hátt að líða við það.

Þá er 27. tölul. um að lækka framlag til Ríkisábyrgðasjóðs um 10 millj. kr. Ég hef ekki aðstöðu til að dæma um það, hvort þetta er raunhæft, en held þó, að miklar líkur ættu að vera á því, að ríkið geti þar sloppið með nokkru lægri upphæð en gert var ráð fyrir í fjárl. og þannig geti þetta fyllilega staðizt.

Þá er 28. tölul. um að lækka framlag til ríkisbifreiða um 1 millj. kr., en samkv. upplýsingum er lagt í svonefndan ríkisbifreiðasjóð nærri 4 millj.kr. á fjárl. Ég held, að það væri alveg vandræðalaust að hækka þennan sparnaðarlið nokkuð, t.d. eins og ég legg til, að sparaðar verði 2 millj. kr. í stað 1 millj. kr. og að þeir ágætu menn, sem njóta þess að hafa bifreiðar ríkisins, geti sætt sig við það, að framlög til bifreiðasjóðs þessa verði ekki nema 21/2 millj. kr. á þessu ári.

En samkv. 29. tölul. er lagt til að spara á vitamálum um 560 þús. kr., og samkv. upplýsingum kemur það í ljós, að þessi sparnaður á að vera í því fólginn að fresta enn að koma upp á suðurströnd landsins svonefndum ratsjárspeglum, sem jafngilda vitaþjónustu fyrir sjófarendur og Alþ. hefur gert hér sérstaka samþykkt um, að koma þurfi upp — og hefur í rauninni dregizt alveg óhæfilega hjá vitamálastjórninni og ráðh. vitamála að sjá um að framkvæma. Ég tel með öllu ósæmilegt að leggja til að fella niður þennan lið. Það á að vinna að því að koma sem allra fyrst upp þessum gagnlegu vitum, og það er í rauninni skammarlegt að gera ráð fyrir því miðað við þær samþykktir, sem gerðar hafa verið hér á Alþ. um þetta, að ætla sér að fella niður þennan lið.

Ég hef nú vikið að flestum þeim liðum, sem máli skipta að mínum dómi í þessari tillagnagerð, og lýst minni afstöðu til þeirra, en ég legg til í mínum till., að auk þessa, sem ég hef vikið að, verði teknir þarna upp tveir nýir sparnaðarliðir. Annar er um það, að hið fasta tillag til Atlantshafsbandalagsins og Þingmannasambands NATO, 2 millj. 652 þús. kr., verði fellt niður. Við þm. Alþb. höfum flutt árlega till. í þessa átt, og ég tel, að við höfum rökstutt það svo, að ekki þurfi að fara um það mörgum orðum þ.e. að engin ástæða sé til þess, að við séum að greiða þessar upphæðir til þessara stríðssamtaka.

Þá legg ég einnig til, að tekinn verði upp nýr liður svo hljóðandi: Lækka skal almennan rekstrarkostnað ríkisins og ríkisstofnana frá því, sem áætlað er í fjárl. 1968, um 50 millj. kr. Ég vil sem sé leggja þann vanda á hæstv. fjmrh., að hann glími við það að færa niður hin almennu rekstrarútgjöld hjá ríkinu og ríkisstofnunum um 50 millj. kr. á þessu ári. Þetta nemur ekki 1% af heildarútgjöldunum, og ég efast ekkert um það, að sé í þetta verk gengið, er auðvelt að koma þessum sparnaði við. Það er hægt að draga úr hinum almenna skrifstofukostnaði og margs konar óþörfum rekstri bæði á vegum opinberra stofnana ríkisins og hjá ríkinu sjálfu, sem þessu nemur, án þess að gagnleg þjónusta við borgara landsins þurfi á nokkurn hátt að líða neitt við það. Það er að vísu mín skoðun, að menn hefðu átt að færa þessa útgjaldaupphæð niður um mun hærri fjárhæð en þetta. Þegar það gerist, að þjóðarbúið verður fyrir miklum áföllum og heildartekjurnar minnka verulega, álít ég, að óhjákvæmilegt sé að huga sérstaklega að því að færa niður ríkisútgjöldin a.m.k. á öllum þeim sviðum, þar sem þau eru ekki alveg knýjandi nauðsyn. Þegar það liggur alveg óumdeilanlega fyrir, að ríkisútgjöldin hafa hækkað meira frá ári til árs á undanförnum árum en annar kostnaður í landinu, þá hvílir þessi skylda með alveg sérstökum þunga á þeim, sem á því bera ábyrgð. Eins og ég segi í mínu nál., geri ég ekki till. um, að þessi niðurfærsla á árinu 1968 verði meiri en 50 millj. kr., af því að ég hef ekki trú á því, að það fáist samþykkt stærri upphæð en þetta. Ég mundi líka sætta mig mjög vel við það, að slík till. fengist samþykkt, því að ég teldi, að hún boðaði nokkuð gott í þessum efnum. Hefði ég hins vegar gert tillögu um hærri upphæð og myndarlegra átak, óttast ég, að menn hefðu alveg bognað fyrir vandanum og ekki treyst sér út í það. En ég hef sem sé von um, þar sem ríkisstj. er farin að hugleiða alvarlega að draga úr ríkisútgjöldum, sbr. þetta frv., að hún kunni að verða til viðtals um að samþykkja till. eins og þessa.

Þá er að víkja hér að nokkrum öðrum gr. þessa frv. Um þær get ég verið fáorður. Ég tel þó, að í þessu frv. séu nokkur atriði, sem þar eigi í rauninni alls ekki heima og mjög óviðfelldið sé að hafa í þessu frv. Undir það flokka ég t.d. 7. gr. Ég tel hana alveg ástæðulausa með öllu í þessu frv. Samkv. henni sparast hvorki eitt né neitt á þessu ári. Ef ríkisstj. vill lýsa því yfir, að það sé hennar stefna að breyta skipulaginu á fræðslumálaskrifstofunni, á störfum íþróttafulltrúa og annarra slíkra, á ríkisstj. að gera það. Hún getur boðað það, og síðan á hún auðvitað að leggja fram frv. um þessi mál á næsta hausti og lögfesta þau frv. fyrir næstu áramót. Það er að taka á þessum málum á eðlilegan hátt. En að vera að flækja inn í þennan bandorm, sem hér liggur fyrir, till. um, að fræðslumálaskrifstofan skuli vera deild í menntmrn., er vægast sagt mjög óeðlilegt. Einnig hefur verið bent á í þessum umr., að eigi þetta að standa óbreytt um einhvern tíma, koma upp margvísleg vandamál.

Samkv. l., sem hafa lengi verið í gildi, hefur fræðslumálastjóri mjög þýðingarmikil, tiltekin verkefni með höndum, og hans embætti hefur um áratugaskeið verið mjög sjálfstætt embætti. Það má segja, að fræðslumálastjóri hafi heyrt beint undir ráðh. Ráðuneytisstjórinn í menntmrn. hefur ekki í raun verið eiginlegur yfirmaður fræðslumálastjóra. Samkv. l. og reglum er það t.d. þannig, að fræðslumálastjóri á að gera sjálfstæðar till. til menntmrh. um skipun kennara í embætti, svo að við tökum aðeins það dæmi. Slíkar till. koma að jafnaði frá hinum ýmsu fræðsluráðum. Og síðan stendur menntmrh. frammi fyrir till. fræðsluráðanna um val á mönnum í embættin, og hann stendur einnig frammi fyrir sjálfstæðum till. og áliti fræðslumálastjóra um það, hvern skuli velja í embættin. En ráðh. hefur útslitavald til að ákveða, hverjir skuli settir og hverjir skuli skipaðir í embætti. Nú er allt í einu gert ráð fyrir því í þessu frv. á þennan stuttaralega hátt, að embætti fræðslumálastjóra í þeirri mynd, sem það hefur verið, skuli lagt niður, skuli færast inn í menntmrn. og hann skuli starfa þar sem sérstakur fulltrúi og þá væntanlega sem undirmaður ráðuneytisstjórans í menntmrn. Mér sýnist, að þá sé búið að rugla öllu þessu máli frá því, sem gert hefur verið áður ráð fyrir í lögum um stöðu hans og starfssvið, þetta fái í rauninni ekki staðizt og það hljóti að verða ráð fyrir því gert, að lög verði sett um störf fræðslumálastjóra eftir þessa skipulagsbreytingu. En ég vil hins vegar taka það fram, að ég hef ekkert á móti því, að þessi skipulagsbreyting sé gerð. Ég tel, að það komi fyllilega til mála, þó að ég hafi ekki gert mér neina fullnaðargrein fyrir því. En ég tel þann hátt, sem á er hafður í þessu frv., mjög óviðfelldinn og óeðlilegan, og því ætti í rauninni að fella 7. gr. niður.

Ég hef nú gert grein fyrir minni afstöðu til þessa frv. í aðalatriðum. Ég tel sem sé, að frv. stefni í rétta átt, að svo miklu leyti sem það felur í sér ákveðna niðurfærslu á beinum ríkisútgjöldum og miðar að sparnaði. Ég fagna frv. að þessu leyti. En í frv. eru nokkrir liðir, sem ég get ekki fallizt á og ég er andvígur, og einnig er blandað inn í frv. nokkrum öðrum efnisatriðum, sem ég er líka óánægður með. Ég hef gert hér grein um leið fyrir þeim till., sem ég flyt hér á sérstöku þskj.þskj. 415, og vænti þess, að fyrst upp er kominn nokkur áhugi á því að spara í útgjöldum ríkisins, geti menn nú fallizt á það að samþykkja þær till., sem ég flyt þar, ekki stærri eða meiri en þær eru.