22.03.1968
Neðri deild: 82. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (814)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í tilefni af ummælum hv. 4. þm. Reykv. vil ég láta það koma alveg skýrt fram, að það er ekki tilætlunin, að neinar breytingar verði á raunverulegu starfsmannahaldi í menntmrn. eða á vegum þess eða á stöðum einstakra starfsmanna innan rn. eða í tengslum við það í framhaldi af þeirri lagabreytingu, sem hér er um að ræða. Og jafnframt vil ég taka alveg skýrt fram, að það er ekki heldur tilætlunin að gera neinar breytingar á tilhögun embættaveitinga eða undirbúningi þeirra frá því, sem verið hefur. Eftir sem áður mun fræðslumálastjórinn heita fræðslumálastjóri og gegna nákvæmlega sams konar störfum í þágu íslenzkra skólamála og hann gegnir nú í dag. Og ég mun eftir sem áður þrátt fyrir þessa lagabreytingu fylgja nákvæmlega sama hætti og ég hef fylgt varðandi undirbúning að veitingu embætta innan íslenzka skólakerfisins, þannig að í þessum efnum verður engin raunveruleg breyting frá því, sem verið hefur. Sú breyting, sem verður, verður breyting á vinnutilhögun.

Það er eflaust öllum hv. þm. kunnugt, hvernig menntmrn. og skrifstofur í tengslum við það eru nú skipulagðar. Þetta rn. hefur vaxið mjög ört á undanförnum árum og áratugum, eins og eðlilegt er, með vaxandi skólakerfi og vaxandi þýðingu skólanna í landinu. Allir þm. vita væntanlega, að menntmrn. sjálft er til húsa í gamla stjórnarráðinu, en það má segja, að aðalstarfsþættir menntmrn. séu fjórir. Fyrst má nefna gamla rn. sjálft, þ.e. starfsmenn, sem vinna beint undir forystu ráðuneytisstjórans. Annar stærsti þátturinn í starfi rn. er það starf, sem fram fer á fræðslumálaskrifstofunni; hún er inni í Borgartúni. Þá er mikilvæg skrifstofa á vegum rn., sem er fjármálaeftirlit skóla; það er uppi á Laugavegi. Síðan er mjög mikilvæg deild, sem nýlega hefur verið komið á fót, byggingadeild skóla; hún er á Hverfisgötu. Og ráðherrann situr svo í Arnarhvoli — á fimmta staðnum. Það verður að segja, að þessi húsaskipun eða þessi tilhögun er ekki alveg eins og hún gæti hentugust verið. Að því hefur verið unnið um nokkurt skeið undanfarið að sameina allar stofnanir, sem undir rn. heyra og í tengslum við það vinna, á einum stað. M.ö.o. að hætta því fyrirkomulagi, að rn. skrifi fræðslumálastjóra, sendi honum bréf í pósti og fái bréf frá honum aftur í pósti með ýmiss konar tillögugerð. Ætlunin hefur verið, að fræðslumálastjórinn starfi í sams konar beinum tengslum við sinn ráðh. á hverjum tíma eins og ráðuneytisstjórinn og deildarstjórar gera nú. Að þessu hefur verið unnið og að þessu er verið að vinna núna og sú breyting, sem hér er lagt til að gera, er í raun og veru að lögheimila þessa skipulagsbreytingu, þessa nýju vinnutilhögun, sem verið er nú að undirbúa. Það er enginn vafi á því, að að þessu verður stórkostlegur bæði beinn og óbeinn sparnaður, þó að í frv. sé engin tala nefnd um það, hversu mikill sparnaður muni hljótast af þessari breyttu vinnutilhögun, þ.e. að sameina allar deildir rn. á einn stað og hætta bréfaskriftum á milli einstakra deilda í rn.

Ég skal fúslega játa það, að það er ekki venjulegt og það er í sjálfu sér ekki æskilegt að gera breytingar á mörgum l. — jafnvel fella heila lagabálka úr gildi — með þeim hætti, sem gert er ráð fyrir, að á verði hafður í þessu frv. Það er víðs fjarri mér að gera nokkra tilraun til að bera á móti því; þetta er mjög óvenjuleg aðferð og í sjálfu sér ekki æskileg. En við stöndum hér frammi fyrir mjög óvenjulegum vandamálum — mjög óvenjulegu viðfangsefni — að þurfa snemma á ári að framkvæma lækkun á ríkisútgjöldum um nokkuð á 2. hundrað millj. kr. Slíkt verður ekki gert nema með óvenjulegum aðferðum hvað form lagasetningar snertir.

En eins og hæstv. fjmrh. hefur tekið skýrt fram, er hér um að ræða, að því er mig snertir í þessum efnum, stefnuyfirlýsingu fyrst og fremst — þá stefnuyfirlýsingu, að allar stofnanir, sem starfa fyrir menntmrn., á vegum þess og í tengslum við það, skuli verða ein heild og komast allar undir eitt þak, eins fljótt og mögulegt er. Verði þetta frv. samþ., er þessi stefna viðurkennd af Alþ. sem stefna Alþ. í skipulagi menntmrn., og þá mun ég að sjálfsögðu gera ráðstafanir til þess, að hlutaðeigandi lög verði endurskoðuð og þeim komið í það horf, sem samrýmist þessari stefnu. Langæskilegast, held ég, að sé að setja heildarlöggjöf um stjórnarráðið allt, og yrðu þá að sjálfsögðu þessi ákvæði um menntmrn. aðeins einn þáttur í henni. Ég held, að gera þurfi hliðstæðar skipulagsbreytingar í fleiri rn. heldur en menntmrn. einu. En kannske er rétt að gera tilraun með það og sjá, hvernig hún gefst. Ég er viss um, að hún kemur til með að gefast mjög vel, enda eru allir aðilar í rn. algerlega á einu máli um, að þessi breyting yrði mjög til bóta, og hyggja allir mjög gott til þess að starfa undir því skipulagi, sem felst í þessari stefnumörkun.