23.11.1967
Neðri deild: 21. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

46. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs síðast þegar þetta mál var til umr. næst liðinn þriðjudag út af ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e. Ég verð að segja það, að mér kom sú ræða dálítið á óvart, vegna þess að ég hafði ekki orðið var við ágreining í landbn., þegar hún afgreiddi þetta frv. shlj. Og þau atriði, sem hv. þm. dró inn í sína ræðu í sambandi við þetta mál, fannst mér naumast eiga heima í þessari umr.

Hann tók nokkuð mikið upp í sig og var með getsakir í garð hæstv. landbrh. og þess manns, sem valinn var í yfirdóm til að úrskurða landbúnaðarvöruverð á þessu hausti, sem mér fannst vera með öllu óviðeigandi, a.m.k. á meðan ekki er fallinn neinn dómur. Og í sjálfu sér lít ég svo á, að slíkar getsakir, sem þar komu fram, eigi naumast rétt á sér í umr. En þar sem hæstv. landbrh. mun hafa fært þessum hv. þm. nægilega heim sanninn um það í ræðu sinni þá, að svona ræðumennska er a.m.k. ekki líkleg til þess að vinna málum gagn, mun ég ekki fara frekar út í það.

Hafi ég skilið rétt ræðu þessa hv. þm., er hann með öllu andvígur grg. frv., sem skýrir það, hvers vegna þessi brtt. er gerð, þ.e.a.s., að ekki sé þörf á fyllri gögnum varðandi vinnumælingar þær, sem notaðar eru við ákvörðun grundvallarins heldur en fyrir séu frá fyrri árum frá búreikningaskrifstofu landbúnaðarins. Þetta liggi allt fyrir þar í skjölum.

Fjarri fer, að ég vilji gera lítið úr þeirri skrifstofu. Hún hefur verið starfrækt í mörg ár og fyrir henni hefur staðið mjög gegn og góður maður, en ég ætla þó, að það sé hægt að afla öruggari gagna um vinnu á viðmiðunarbúi heldur en þar hafa enn komið og sérstaklega gagna, sem síður verði vefengd. Hins vegar færði hann rök fyrir því, hvers vegna hann hefði skrifað undir nál. án ágreinings og það voru út af fyrir sig sæmileg rök, sem sé þau, að hann teldi það óvarlegt fyrir bændur, að landbúnaðarvöruverð, eða grundvöllurinn réttara sagt, væri nokkurn tíma ákveðinn nema fyrir eitt ár í senn.

Það kom fram í ræðu hv. 5. þm. Austf., að hann leit á þetta mál mjög svipað og raunar algerlega eins og ég. Hann taldi, að þó að fyrir lægju allmikil gögn, væri hægt að fá þau enn fyllri og öruggari með því að styðja sig við það, sem hin nýja skrifstofa, búreikningaskrifstofa ríkisins, mundi geta lagt á borðið, þegar heilt ár væri liðið frá því að hún tók til starfa. Sjálfsagt geta framtalsúrtök þau, sem búreikningaskrifstofa Búnaðarfélagsins hefur, gefið miklar vísbendingar og verið allgóð gögn að því er snertir þessi mál undanfarin ár, en alltaf eru að breytast viðhorfin í þessu máli, og þess vegna þarf að sjálfsögðu alltaf að afla nýrra og nýrra gagna. Ég tel vafalaust, að á þessu hausti, þegar Sexmannanefnd hefur verið að fjalla um þessi mál, hafi hún haft þessi gömlu gögn til stuðnings sér og byggi sína niðurstöðu á þeim, svo og sá dómur, sem þetta mál nú hefur verið lagt í. En aðalatriðið fyrir mér er að fá þau gögn, sem séu sterkari en þau, sem fyrir eru og verði síður vefengd. Þetta kom einnig fram í ræðu hv. 5. þm. Austf., sem er einmitt mjög virkur maður í þessum málum öllum saman og hefur kynnt sér þau mjög vel. Og það mun ekki hafa verið neinn ágreiningur um það af hálfu neytenda og framleiðenda, að það væri æskilegt og raunar nauðsynlegt að ákveða ekki búvöruverðið í haust nema fyrir eitt ár, vegna þess að þessi mikilsverðu gögn væru enn ekki nægilega fyrir hendi. En ef þessi gögn, sem hv. ræðumaður var að tala um, væru nægileg og þau væru samhljóða eins og mér skildist á hans ræðu, að væri niðurstaða þess, sem enn hefur komið fram frá búreikningaskrifstofu ríkisins, er það mjög gott. Þá verður miklu sterkari aðstaða fyrir þá, sem verða að úrskurða um þessi mál, ef þeir hafa hvort tveggja í höndum samhljóða. Búreikningaskrifstofa ríkisins hefur nú 46 bú til athugunar með það fyrir augum, að því er mér skilst, að vera viðmiðunarbú. Allir vita, að aðstaða bænda er ákaflega mismunandi í þessu landi. Það fer eftir því, hvað búið er mikið að byggja, hvað búið er mikið að rækta og hvar búin eru sett og í hvaða landshlutum og þetta getur verið dálítið mismunandi frá ári til árs, meira að segja hvað snertir tíðarfarið. En það er hugmyndin að fá út úr þessum 46 viðmiðunarbúum nokkurs konar meðaltal á því, sem gildir fyrir þá bústærð, sem miðað er við.

Með þessum vinnumælingum, sem gert er ráð fyrir og búreikningaskrifstofa ríkisins á að hafa eftirlit með, er verið að reyna að finna svar við því, hversu mikil vinna liggur að baki þeirrar framleiðslu, sem meðalbúið skilar á ári. Áreiðanlega munu ellar skýrslur sýna mikinn vinnustundafjölda, þegar allt er saman talið. Vinna bóndans, vinna hjúa hans, vinna barna hans og vinna húsfreyjunnar, sem í flestum tilfellum vinnur meira og minna á sveitabúinu. Búið á Íslandi þarf enn margs með eins og á dögum Sturlu og Sighvats. Ég treysti því, að búreikningaskrifstofan fái góðu til leiðar komið að því er þetta snertir og verði leiðbeinandi um, hvað hagkvæmast sé, hvaða búgrein sé hagkvæmast að reka á hverjum stað og hvaða aðstöðu þurfi að skapa, til þess að viðunanleg útkoma fáist. Og hún geti einnig látið í té sem allra sannastar og réttastar upplýsingar um það, hvað kostar raunverulega að framfleyta þessu búi á hverjum tíma. Og ég vil bíða rólegur eftir því, að þau gögn komi sem fullkomnust, og hef ég þá í huga ekki síður sveitamanninn en aðra, svo að hans hlutur komi sem réttastur út samkv. þeim lögum, sem gilda á meðan á annað borð framleiðsluráðslögin eru látin gilda til þess að finna hið réttasta verð á landbúnaðarvörum. Ég ætla, að þegar búreikningaskrifstofan er búin að starfa a.m.k. eitt ár, verði sá liður, vinnuliðurinn, miklu nær sanni og ekki eins ágizkanakenndur eins og hann hefur raunar að mínu áliti verið hingað til oft og tíðum, og það er mín skoðun, að ekki skaðist bóndinn á því, að hið allra réttasta komi fram.