23.11.1967
Neðri deild: 21. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

46. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Út af ræðu hv. 11. landsk., sem hann var að flytja áðan, vil ég aðeins segja, að hann taldi, að hann hefði ekki orðið var við það í n., að þar væri neinn ágreiningur. Það er alveg rétt, það var enginn ágreiningur í n., en samt sem áður kom ég inn á það, að ég væri ákaflega óánægður með þann rökstuðning, sem hefði verið hér fluttur fyrir þessu máli og mundi ræða þetta mál undir þessum lið, vegna þess að ég taldi, að það hefðu komið þarna fram ýmsir hlutir, sem væri hægt að misskilja. Ræðumaður taldi, að ég hefði verið með getsakir á oddamann yfirdómsins. Það er alls ekki rétt. En ég tel, að ef vinnuliðurinn verður ekki tekinn þarna inni og ef skoðun oddamanns er sú, sem væri hægt að ætla af orðum ráðh., þá væri það að hans frumkvæði einnig, að þessi breyting hefði verið hér flutt við þetta frv. Það gaf til kynna, að oddamaðurinn liti þannig á, að það ætti ekki að fara eftir því, sem fulltrúar bænda hafa komið fram með, en það kom greinilega fram í ræðu hv. 5. þm. Austf. í fyrradag, að bændurnir hefðu gert kröfu til þess í n., að verðlagt yrði eftir þessum vinnulið. Hins vegar mun það vera rétt, að þeir hafa fallizt á og talið rétt að verðleggja til eins árs, þar sem sú skoðun hefur komið fram hjá neytendaparti n., að það bæri ekki að verðleggja nú eftir þessum lið.

Hv. ræðumaður sagðist vilja bíða rólegur eftir því, að það kæmu fram fyllri gögn. Ja, hvað vill hann lengi bíða rólegur? Hæstv. landbrh. taldi í sinni ræðu um daginn, að 46 búreikningar væru alls ekki til þess að byggja á. Væntanlega verður þá ekki hægt að byggja á svona fáum búreikningum við verðlagningu næsta ár eftir því, sem kom fram í ræðu hæstv. landbrh. En hvað vill hv. þm. bíða rólegur lengi?

Ég mun svo ekki fara frekar út í hans ræðu að sinni.

Ég verð að segja það, að mér fannst vera allmikill gustur á hæstv. landbrh. í fyrradag, þegar hann kom hér upp í ræðustólinn á eftir mér. Hann hefur haldið, að nýgræðingurinn mundi þola gustinn verr en hinn gamli gróður. Norðlenzkur nýgræðingur er ýmsu vanur og þarf meira til en þetta, til þess að hann láti á sjá. Það má vera, að öðru máli gegni um þann nýgræðing, sem er í næsta nágrenni við hæstv. ráðh.

Fyrst eftir að hæstv. ráðh. hóf mál sitt, var ég farinn að halda, að ég hefði misskilið hann, er hann flutti sína fyrri ræðu um þetta mál og dregið því af ummælum hans ranga niðurstöðu. En eftir að hæstv. ráðh. hafði lokið máli sínu, var ég í sömu óvissunni og áður, hver tilgangur hans hefði verið. Það eru fáir, sem fara upp í ræðustól aðeins til þess að segja eitthvað. Það er vissulega gert í einhverjum vissum tilgangi. Hæstv. landbrh. lagði fram frv. til l. í umrætt skipti, sem fól í sér, að í þetta sinn skyldi verðleggja landbúnaðarvörur til eins árs í stað tveggja. Hann rökstuddi framkomna breyt. á l. með því að segja það, að vinnuliður verðlagsgrundvallarins væri ekki nógu vel undirbyggður. Var hann ekki með þessu að leggja dóm á þær upplýsingar og á þær niðurstöður, sem á þeim eru byggðar um þetta mál? Var nokkuð undarlegt, þó að ég hrykki við, þegar svo var komið, að hæstv. landbrh. hér á hinu háa Alþ. lýsti því yfir sem sinni skoðun, að vinnuliðurinn væri ekki nógu vel undirbyggður, og hann gerði þetta á meðan yfirdómurinn sat að störfum? Það hefur nú stundum áður nokkuð mátt ráða í það, hvers væri að vænta í ýmsum málum af umræddum ráðh. eða af blöðum þeirra. Hæstv. landbrh. virtist hneykslaður á því, að eftir að ég hlýddi á umrædda ræðu hans, hefði læðzt að mér sterkur grunur, eð nú mundu landbúnaðarvörur ekki verða verðlagðar lögum samkv. Nú er það á hans valdi að eyða þessum grun, en það verður ekki gert á þann hátt, sem hann talaði í fyrradag.

Það kom fram í ræðu hv. 5. þm. Austf., en sem kunnugt er á hann sæti í Sexmannanefnd, að fulltrúar bænda í n. telja vinnuliðinn það vel rökstuddan, að ekki komi til mála annað en verðleggja eftir honum nú. Að því kem ég betur síðar.

Hæstv. landbrh. talaði um þekkingarleysi mitt á málum landbúnaðarins. En það var eitt, sem honum láðist alveg í þessari ræðu, og það er e.t.v. ekki mikil yfirsjón í hans augum, en aftur á móti töluverð í mínum. Hann gleymdi að rökstyðja mál sitt. Ég rakti það, ég sýndi fram á, að öll rök styddu það, að vinnuliður verðlagsgrundvallarins væri það vel undirbyggður, að ástæðulaust væri með öllu að taka ekki niðurstöðutölur búreikningaskrifstofunnar sem grundvöll til að byggja á, eftir að vinnumælingar á öllum stærstu vinnuliðunum hafa sýnt það, að þeir eru eins nákvæmir og hægt er að búast við með þessu móti. Ég sýndi fram á það, að 3/4 hlutar vinnuliðarins væru það rökstuddir, að ekki væri líklegt, að þann hluta hans yrði hægt að undirbyggja betur. Þá er eftir 1/4 hluti vinnunnar, eða 1266 klst. til alls annars en skepnuhirðingar, koma öllum búfjáráburði á tún, dreifing á tilbúnum áburði, viðhald á túnum, girðingum, skurðum, gripahúsum, allt í kringum garðrækt og heyskap og hirðingu og viðgerð á verkfærum og vélum. Og nú vil ég spyrja hæstv. landbrh., þar sem hann er vel að sér í þessum málum: Er það líklegt, að öll sú vinna, sem á bak við þessa þætti búskaparins liggur, sé oftalin á 1266 klst., þegar miðað er við þá tækni, sem í verðlagsbúinu felst, þ.e.a.s. 80 þús. kr. í öllum vélum og verkfærum? Ég óska eftir svari, hæstv. landbrh. Það er ekki nóg að segja, að vinnuliðurinn sé ekki nógu vel undirbyggður. Menn þurfa að færa rök fyrir sínu máli, jafnvel þótt ráðh. eigi í hlut.

Hæstv. landbrh. sagði í sinni fyrri ræðu um þetta mál, með leyfi forseta:

„En þegar ekki liggja nú fyrir að þessu sinni nema 46 búreikningar fyrir 1/2 ár, er það náttúrlega ekki nóg til þess að byggja á verðlagsgrundvöll til tveggja ára.“

Hvernig á að skilja þetta? Veit hæstv. landbrh. eins lítið um þetta mál og þarna kemur fram, eða var ráðh. að leyna því af ásettu ráði, að frá árinu 1966 voru til um 150 búreikningar og úrtök, þó að því sé sleppt, sem Stéttarsamband bænda er með sjálft, sem tveir aðilar hafa gert, Hagstofan og búreikningaskrifstofan, ag þeir búreikningar, sem ráðh. gat um, að gerðir hafa verið á þessu ári, renna fullkomlega stoðum undir það, að niðurstöðutölur þær, sem fengust úr úrtökum Hagstofunnar á búreikningunum frá fyrra ári, væru réttar. Ég játa það, að ég þekki landbrh. mjög lítið og tel í einfeldni minni, að hann hafi mikla þekkingu á öllu, sem landbúnaðarmálum viðkemur, og af þeirri ástæðu taldi ég, að hann hefði þarna í frammi ósæmilegan áróður, meðan yfirdómur situr enn að störfum, sem gæti haft áhrif á niðurstöður dómsins, því að lái mér það hver sem vill, þó að ég teldi, að ummæli ráðh. um, að búreikningarnir væru svo ófullkomnir, að ekki sé á þeim að byggja, gætu haft áhrif, jafnvel á valinkunna menn. Hæstv. landbrh. vænti þess af hv. 5. þm. Austf., að hann styddi við bak sitt, en það fór nú á annan veg. Það kom greinilega fram í ræðu hv. 5. þm. Austf., að hann leit sömu augum og ég á þessi mál og taldi vinnulið verðlagsgrundvallarins það vel rökstuddan, að ekki kæmi annað til mála en verðleggja nú samkv. því. Það væri mjög gagnlegt, ef farið væri vel niður í það, hvernig nýja vísitalan er undirbyggð og bera það saman við það, hvernig vinnuliður verðlagsgrundvallarins er undirbyggður. En þar sem hæstv. landbrh. ætti að vera þessum málum kunnugri en ég, læt ég þann samanburð bíða betri tíma. En ekki vil ég ætla það að óreyndu, að hæstv. landbrh. hafi ekki fullan hug á, að bændur haldi hlut sínum miðað við aðra þegna þjóðfélagsins, en reynsla liðinna ára sýnir, að full ástæða er til þess að vera vel á verði, ef það á að takast nú. Ef bændurnir balda ekki sínum hlut nú, heldur landbrh. heldur ekki sinni reisn.

Ég vil láta þetta nægja að sinni, en áður en ég lýk máli mínu, vil ég lesa upp hér kafla úr ræðu hv. 5. þm. Austf. og úr ræðu hæstv. landbrh., sem þeir fluttu hér í fyrradag um þessi mál, til að gefa hv. alþm. kost á því að bera þær saman og þá dregur hver og einn væntanlega sínar ályktanir af þeim samanburði. Þá les ég fyrst úr ræðu hv. 5. þm. Austf., með leyfi forseta:

„Út af orðaskiptum, sem hér fóru fram áður milli hv. 6. þm. Norðurl. e. og hæstv. landbrh., vil ég aðeins upplýsa í sambandi við verðlagninguna í haust, að þetta gekk þannig til: Framleiðendur lögðu fram sínar till. 5. sept. Það var í raun og veru óhæfilega seint og orsakaðist af því, að þeir höfðu ekki í höndum þau gögn, sem þeir töldu sér óhjákvæmilegt að hafa. En síðan liðu vikur og raunar heill mánuður án þess að nokkuð kæmi fram hjá neytendum. Og það var áður en nokkrar till. lágu fyrir frá þeim, að framleiðendur óskuðu þess, að sáttasemjari kæmi í málið. Fyrst eftir að sáttasemjari er búinn að hafa málið með höndum rúma viku — hann setti þann frest — skiluðu neytendur sínum tillögum.“

Þetta segir hv. 5. þm. Austf. um þetta mál, og þá vil ég, með leyfi forseta, lesa hér um sama mál úr ræðu landbrh.:

„Nú var það svo í haust, að það komu till. fram um verðlagningu í septembermánuði af hálfu bændanna. Vitanlega var ekki hægt að verðleggja fyrr heldur en þær till. komu fram. Eftir að þær voru komnar fram, óskuðu fulltrúar neytenda eftir því að fá að athuga þær, og nokkru seinna komu þeir með till. Síðan munu hafa verið haldnir margir fundir í Sexmannanefnd til þess að reyna að ná samkomulagi. Það tókst ekki. Eftir að samkomulagsumleitanir höfðu farið út um þúfur þeirra á milli, var málinu samkv. l. vísað til sáttasemjara. Ekki veit ég, hversu lengi sáttasemjari var með málið, hversu langan tíma það tók hjá honum að ganga úr skugga um það, að það væri ekki hægt að sætta fulltrúa neytenda og bænda. Það tókst ekki. Þegar það var ljóst, var málinu vísað til yfirnefndar.“

Þetta segir aftur á móti hæstv. landbrh. Ekki ber nú ræðumönnum alveg saman, og það væri nú full ástæða til að álykta af þessu, að ráðh. mætti fylgjast ögn betur með málum landbúnaðarins en þessi ræðukafli bendir til, að hann geri. En þar sem misskilningur er sá versti skilningur, sem ég þekki, vil ég reyna að trúa því, þar til annað kemur fram, að hæstv. landbrh. hafi ekki verið með þennan áróður að yfirlögðu ráði, til að réttlæta það eða koma í veg fyrir, að vinnuliðurinn, eins og hann nú hefur verið rökstuddur, yrði tekinn til að byggja á honum verðlagningu búvara að þessu sinni. Og til að taka af öll tvímæli vil ég leyfa mér að leggja fram fyrir hæstv. landbrh. eftirfarandi spurningar:

1. Telur hæstv. landbrh. ekki, að 4. gr. framleiðsluráðsl. frá 13. maí 1966 feli það í sér, að verðleggja beri landbúnaðarvörur þannig hverju sinni, að bændum landsins séu tryggðar svipaðar tekjur og viðmiðunarstéttirnar hafa haft árið á undan verðlagningunni?

2. Er ekki hæstv. landbrh. sammála mér, að þar sem fram hefur komið, að vinnuliður verðlagsgrundvallarins er mun betur undirbyggður en t.d. nýja vísitalan, þá beri samkv. eðli málsins að verðleggja nú samkv. honum? Og ef það er ekki gert, er 4. gr. framleiðsluráðslaganna þá ekki brotin niður?

3. Þar sem nú mun í ráði að fella verðgildi íslenzku krónunnar og nú mun standa yfir könnun á stöðu útflutningsatvinnuveganna með hliðsjón af því og þar sem ekki er enn búið að verðleggja landbúnaðarvörur fyrir yfirstandandi verðlagsár, telur þá ekki ráðh. alla sanngirni mæla með því, að ekki beri að ljúka nú verðlagningunni, úr því sem komið er, fyrr en hægt er að taka verðhækkanirnar, sem ef verðfellingunni leiðir, inn í verðið, enda fordæmi fyrir slíku frá 1959? Hlutur bændanna mun ekki of góður fyrir því miðað við aðrar stéttir.

Ég vona svo, að hæstv. landbrh. sjái sér fært að svara þessum spurningum.