28.03.1968
Efri deild: 76. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Þó að ég óski síður en svo eftir því að lengja þessar umr. meira en nauðsynlegt er, get ég samt ekki látið hjá líða að svara í stuttu máli einstökum atriðum í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v., sem hér talaði á undan mér, þar sem mér fundust þau á misskilningi byggð. Það vakti nokkra athygli mína, að mér fannst, að hv. þm. túlkaði ræðu hv. 11. þm. Reykv. á óhugðnæmari hátt en ég hafði gert í minni ræðu. Það er að vísu rétt, að ég minntist hér á höftin og færði rök fyrir því, að ekki væri ráðlegt að grípa til þeirra eins og aðstæður eru nú í efnahagsmálum okkar, og tilefnið var það, að hv. 11. þm. Reykv. hafði talað um að stjórna þyrfti neyzlunni. Hins vegar setti ég ákveðið spurningarmerki við það, hvort hann hefði þar haft innflutningshöft í huga, en svo virðist sem hv. 3. þm. Norðurl. v. hafi lagt þann skilning í orð hv. þm., því að hann flutti hér varnarræðu fyrir innflutningsnefnd og aðrar úthlutunarnefndir, sem hér hafa starfað. Einmitt í því sambandi vil ég leiðrétta það, að það bar engan veginn að skilja orð mín þannig, að það hefði verið venja í úthlutunarnefndum að gera það., að menn greiddu blöð flokksins, leggðu fram í flokkssjóði o.s.frv., beinlínis að skilyrði fyrir því, að menn fengju leyfi fyrir innflutningi eða öðru slíku.

Hitt stend ég við, og það finnst mér ekki óeðlilegt með tilliti til þess, að það voru yfirleitt pólitískir fulltrúar, sem sátu í þessum nefndum, að þeir höfðu allmikla hliðsjón af því, hvern lit þau fyrirtæki og einstaklingar bæru, sem um leyfin sóttu. Ekki þannig að skilja, að þessir menn hafi sagt við umsækjendurna: Góði minn. Þú verður að sýna kvittun fyrir því, að þú hafir greitt blað flokksins o.s.frv. Það býst ég ekki við, að hafi verið gert. En af því að almenningur hafði grun um það, að pólitík væri þarna á ferðinni, hafa flestir talið það vænlegast til þess að fá sínum erindum framgengt að minna þessa menn á það, hvað þeir hefðu gert fyrir sinn flokk, og sagt: Ert þú ekki fulltrúi okkar flokks í þessu ráði eða þessari nefnd? Get ég vænzt trausts af öðrum heldur en þér? Ef þetta beit ekki á viðkomandi nm., þá var það úrræði fyrir hendi að snúa sér til einhvers ráðherra eða frammámanns fyrir flokkinn, minna hann á gott starf í þágu flokksins og biðja hann að beita áhrifum sínum við þessa pótintáta, sem þarna sátu í nefnd., og ég hugsa, að margir hafi orðið við þeirri beiðni.

Hins vegar vil ég taka það fram, að þegar um þetta er rætt, þá er það fjarri mér að leggja nokkurt mat á það, hvort fulltrúi eins flokks eða annars hafi sýnt þar meiri pólitíska hlutdrægni. Ég hugsa, að hér hafi allir fylgt nokkurn vegin sömu leikreglu. Nú er auðvitað erfitt að færa fyrir því tölulegar sannanir, hvað mikilli pólitískri hlutdrægni hafi verið beitt við úthlutun þessara leyfa, en ég vil nú samt henda hv. 3. þm. Norðurl. v. á gagnmerkt rit eftir ekki ómerkari mann en hv. 1. þm. Norðurl. e., Gísla Guðmundsson, en það er saga Sambandsins, sem gefin var út í tilefni af 40 ára afmæli þess 1942 eða svo. Þar eru tölur, sem sýna það, hversu stórkostlegur vöxtur var í viðskiptaveltu Sambandsins á árunum skömmu fyrir heimsstyrjöldina síðari jafnhliða því, sem samdráttur var í öllum öðrum greinum atvinnulífsins, og mér finnst, að þetta hljóti að verða ákaflega örðugt að skýra á annan hátt heldur en þann, að Samband íslenzkra samvinnufélaga hafi á þessum tíma notið algerrar sérstöðu, hvað snerti veitingu innflutningsleyfa. Ekki má taka þetta þannig, að ég sé í sjálfu sér að ásaka þá, sem þá höfðu meiri hl. í þessum nefndum, fyrir það að hafa sýnt þar meiri hlutdrægni heldur en aðrir. Þetta var sem sé leikregla, sem allir fylgdu.

Þetta er að mínu áliti óskylt máli því, sem hv. þm. nefndi í sambandi við lánveitingar bankanna. Hann sagði sem svo, að þá mætti alveg eins segja, að bankastjórarnir og aðrir þeir, sem veita lán, hlytu að sýna samsvarandi pólitíska hlutdrægni, en hér er í rauninni óskyldu saman að jafna. Það eru ekki til neinar vísindalegar reglur, sem hægt er að fylgja við úthlutun innflutningsleyfa, a.m.k. þekki ég þær ekki. Þar er það, eins og hv. 11. þm. Reykv. komst réttilega að orði fyrir nokkru hér í hv. d., brjóstvitið eitt, sem verður að ráða. En hvað snertir ákvörðun um, hvort lána skuli vissum aðilum, þá eru — og ég vænti þess ekki að bankastjórar, sem hér eiga sæti, mótmæli því — fastar reglur, sem fylgt er um það, að viðkomandi aðili setji viðunandi tryggingu fyrir láninu, og aðrar reglur, sem þar eru til, svo að hér er óskyldum hlutum saman að jafna.

Að vissu leyti kom mér þá á óvart, að svo virtist sem hv. 3. þm. Norðurl. v. teldi, að stjórn á innflutningi og neyzlu hlyti að vera fólgin í því að haftakerfið yrði tekið upp að nýju. Nú má stjórna slíku að mínu áliti á annan og miklu betri hátt eftir öðrum leiðum. Ég mundi frekar vilja tala um óstjórn á innflutningi í sambandi við haftakerfið, eins og það hefur verið framkvæmt hér á landi, og mér finnst, að það komi að ýmsu leyti í bág við það, sem af hálfu hv. Framsfl. hefur verið haldið fram áður í þessum efnum. Einu sinni var talað um hina leiðina svonefndu, en þegar því var haldið fram af sumum andstæðingum Framsfl., að með því væri átt við að endurvekja haftakerfið að nýju, þá var tekið upp nafnið „þriðja leiðin“ til þess að undirstrika það, að hin leiðin þýddi ekki, að það ætti að hverfa að haftakerfinu að nýju. Eins og ég minntist á í framsöguræðu minni, hafa hv. framsóknarmenn eins og aðrir staðið að því að samþykkja heimild til handa ríkisstj. til þess, að Ísland gerist aðili að GATT, en möguleikarnir á því að beita innflutningshöftum eru mjög takmarkaðir, ef fylgja á reglum þeirrar stofnunar. En það er auðvitað mál hv. framsóknarmanna, hvernig þeir túlka sína stefnu.

Að lokum vildi ég aðeins minnast á verðtryggingu launa, sem hv. þm. gerði hér að umtalsefni, vegna þess að þar þótti mér gæta allmikils misskilnings hjá honum. Það var síður en svo mín hugsun að halda því fram, að með því að láta lög um verðtryggingu launa — eins og þau eru að mínu áliti ranglega nefnd — standa óbreytt, þá hefði verið komið í veg fyrir, að nokkur kjaraskerðing gæti átt sér stað. Ef svo væri, teldi ég, að það hefði verið misráðið að afnema þessi lög nokkurn tíma. En ég benti aðeins á það, að minnki rauntekjur þjóðarinnar, er heldur ekki hægt að halda uppi rauntekjum einstaklinganna í þjóðfélaginu, hvorki með því að hafa í gildi lög um svokallaða verðtryggingu eða með öðru móti. Einnig fannst mér það misskilningur hjá hv. þm.,

þegar hann talaði um það, að þar sem verðtrygging launa væri miðuð við ákveðna vísitölufjölskyldu, gæti það vel samrýmzt að afnema þá verðtryggingu og það, að skert væru kjör þeirra, sem hefðu meiri tekjur heldur en vísitölufjölskyldan. Nú er rétt að hafa það í huga, að hin svokallaða vísitölufjölskylda — miðað við núverandi grundvöll — er mjög sæmilega efnum búin eða hefur um það bil 20 þús. kr. tekjur á mánuði — um það bil tvöfaldar þær tekjur, sem verkamaður, sem aðeins lifir af dagvinnu, hefur yfir að ráða. Þannig að nú er svo komið, að ýmis útgjöld, sem almennt hafa verið kölluð óþarfi hingað til, eins og útgjöld vegna einkabifreiða, skemmtiferðalaga til útlanda o.fl., vega sitt í vísitölunni að ógleymdu áfengi og tóbaki, sem nú er orðið þar allstór liður. Þetta er þó kannske ekki aðalatriðið, heldur hitt, að vísitöluákvæðin, eins og þau voru áður en samningarnir voru gerðir, gengu yfirleitt út á það, að öll laun áttu að hækka í sama hlutfalli, einnig laun þeirra, sem höfðu meira en 20 þús. kr. í laun á mánuði.

Þó að fleira væri í rauninni í ræðu hv. þm., sem tilefni gæfi til aths., þá læt ég þetta nægja.