28.03.1968
Efri deild: 76. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (837)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég get lýst mikilli ánægju minni yfir þeirri ræðu sem hv. 4. þm. Sunnl. flutti hér, og það er vissulega allt rétt, sem hann sagði um reynsluna af þeim manni, sem gegnt hefur prestsþjónustustarfi úti í Kaupmannahöfn fyrir Íslendinga á vegum sendiráðsins, og ekki nema ánægjulegt að heyra, að menn hafi fundið fyrir því, að þar hafi verið unnið gott starf. Ekki hvað sízt er ánægjulegt að heyra slíka ræðu, vegna þess að ég man ekki til, frá því að þetta embætti var sett á laggirnar, að ég hafi lent í fjárlagaumr. eða nokkrum umr. um fjármál ríkisins, án þess að það væri nefnt sem glöggt dæmi um bruðl ríkisstj. og fásinnu í myndun nýrra embætta að setja upp prestsembætti í Kaupmannahöfn. (Gripið fram í: Það var aðeins í fyrstu.) Ja, það kann að vera og betur að svo væri. Hins vegar hefur þá sú skoðun ekki verið afturkölluð fyrr en hjá hv. þm. hér í dag, og má segja, að það sé betra seint en aldrei. Og ég hef sem sé síður en svo neitt við ræðu hans að athuga, því að allt er þetta áreiðanlega hárrétt. Og þetta getur auðvitað gefið okkur nokkra hugmynd um það, að margvísleg þjónusta — og ég vil segja flest sú þjónusta, sem ríkið heldur uppi jafnvel þar, sem mönnum finnst fráleitast í fyrstu — hefur auðvitað sitt gildi, og þegar menn eru farnir að venjast einni og annarri þjónustu, þá sjá auðvitað margir eftir henni. Hefði aldrei verið sett upp prestsembætti í Kaupmannahöfn, hefði náttúrlega enginn sennilega um það talað og þá ekki komið í ljós, að þarna væri hægt að vinna mikið og gott starf sem vissulega hefur verið þar unnið. Og það er alveg hárrétt, sem hv. þm. sagði, að starf eins og það, sem þarna hefur verið unnið, byggist auðvitað að svo að segja öllu leyti á því, hvaða maður það er, sem í það velst.

Enda þótt ég geti fallizt á öll þessi sjónarmið, verð ég því miður að segja, að ég get ekki fallizt á til1. Það er auðvitað alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að það er endalaust hægt að spyrja, af hverju ekki sé hægt að spara á einhverjum öðrum lið.

Sumir hv. þm. hafa sagt, að þetta frv. hafi sýnilega verið sett saman af lítilli yfirvegun. Ekki skal ég gera of mikið úr því starfi, sem hjá okkur liggur að baki því. Það situr ekki á mér að gera það. En ég vil aðeins segja það eitt, að það hefur ekki verið einfalt mál að koma því saman og mæta þeirri gagnrýni, sem auðvitað kemur alltaf úr öllum áttum, jafnt frá stjórnarliði sem annars staðar að. Af hverju þurfti að taka þennan lið? Af hverju var ekki hægt að taka einhvern annan? Þetta er kannske það, sem erfiðast er við að koma við sparnaði, jafnvel þó að það séu ekki stærri upphæðir en hér er um að ræða. Það er þetta óendanlega vandamál, að einn ber þetta fyrir brjósti og annar annað, og það er svo ákaflega fátt — ég vil segja sem betur fer — í okkar fjárl. í dag, sem enginn ber fyrir brjósti, enda væri það mjög slæmt og sýndi þá, að hér væri alger óreiða, ef svo væri. A.m.k. hefur ekki tekizt í sambandi við þennan sparnað yfirleitt að finna neinn lið, sem nokkru máli skiptir, sem einhver ber ekki fyrir brjósti. Þess vegna verð ég því miður að segja það, eftir að þetta mál hefur verið allt skoðað niður í kjölinn, að það er ákaflega erfitt að koma við nokkrum breytingum á því og allra sízt þannig, að hægt sé á síðustu stundu að fara að gera breytingu með það í huga að mæta slíkri breytingu með því að nema burtu einhvern annan útgjaldalið. Það er ástæðan fyrir því, að ég tel ekki annað auðið en framkvæma þennan sparnað, sem um er að ræða.

Auðvitað má líka segja, að á erfiðleikatímum sé ákaflega erfitt að koma því við að hafa starfandi presta erlendis, þó að það geti verið ágætt að geta veitt Íslendingum þjónustu á þessu sviði sem öðrum, og reynslan er sú — og ég veit, að það er rétt hjá hv. þm., að það er auðvitað viðkvæmnismál, að þessi mæti maður hefur veitt fjölda manna hina prýðilegustu þjónustu. En ég orðlengi ekki frekar um þetta. Mér þykir vænt um, að þessi ræða hefur verið flutt og viðurkenning fengizt fyrir því, að það hafi síður en svo verið neitt glapræði að stofna þetta embætti, en því miður sé ég ekki möguleika á því, að við förum að breyta þeim fyrirætlunum, sem hafa verið gerðar í þessu efni, enda hafa ráðstafanir þegar verið gerðar til þess, að þessi skipulagsbreyting nái fram að ganga.