23.11.1967
Neðri deild: 21. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

46. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Þetta eru nú talsverðar umr., sem hafa orðið um þetta frv., og mér hafði nú ekki komið til hugar, að til þess kæmi, að við hér í hv. Alþ. ættum að fara að ræða um það, hvernig yfirnefndin hagar sinni vinnu við verðlagninguna. Ég hafði haldið það, að yfirnefndin mundi haga sínum vinnubrögðum í samræmi við l. og það kæmi ekki til greina, að hún fengi um það fyrirmæli hér frá hv. Alþ. eða annars staðar frá, hvernig vinnunni skyldi hagað. Og þegar hv. 5. þm. Norðurl. e. er að ræða um það, að það eigi að nota vinnumælingar og þau rök, sem fyrir liggja, sem standa undir vinnuliðnum, þá veit ég í rauninni ekki, við hvern hann er að deila hér í hv. Alþ.

Ég reikna með því, að yfirnefndin fari eftir l. og ég vildi gjarnan spyrja hv. 5. þm. Norðurl. e., hvernig stendur á því, að þetta frv., sem við erum hér að ræða, var flutt? Ef allt hefði verið í lagi með rökstuðning fyrir verðlagningunni, væri engin þörf á því að vera að flytja þetta frv., og grg., sem fylgir frv., er samin í samræmi við þær forsendur, sem liggja fyrir óskinni um það, að þetta frv. er flutt, því að eins og ég hef tekið hér fram áður, lýsti ég því yfir við fulltrúa bænda, að ég mundi ekki flytja þetta frv., nema það væri samkomulag um það. Og með leyfi hæstv. forseta segir hér í grg. fyrir frv.:

„Á vinnumælingum var byrjað sumarið 1966, og þeim hefur verið haldið áfram á þessu ári. Þær ná þó enn aðeins til fárra búa og aðeins nokkurs hluta landbúnaðarvinnu.“

Er þetta ekki rétt, sem hér er skrifað? Ef það væri rangt, væri það vitanlega mjög slæmt. En ef það er rétt, að vinnumælingar nái ekki nema til nokkurs hluta landbúnaðarvinnu, er náttúrlega ekki hægt að ætlast til þess, að það sé eingöngu farið eftir vinnumælingunum. Og m.a. vegna þess, að þær ná ekki nema til nokkurs hluta landbúnaðarvinnu, var þetta frv. flutt. Þá segir enn fremur:

„Þannig eru t.d. vinnumælingar vegna heyvinnu það fáar og ófullkomnar, að telja verður þær ónothæfar.“

Er þetta rangt? Ef þetta er rangt, er það mjög slæmt, að það skuli vera á þskj. En ef þetta er rétt, eru náttúrlega andmæli hv. 5. þm. Norðurl. e. alveg út í bláinn. Og svo er dregin ályktun af þessu: „Illframkvæmanlegt er að ákvarða grundvöll til tveggja ára nú í haust af þessum ástæðum.“ Skyldi þetta vera rétt ályktað? Ja, ef þetta væri ekki rétt ályktað, hefði ekki þurft að flytja þetta frv. með samkomulagi við viðkomandi aðila. Og ekki hef ég tekið dýpra í árinni heldur en það, sem hér er sagt í grg. fyrir frv. Hv. þm. talar um 46 bú og segir, að ég hafi sagt í minni ræðu, að það væri ekki nóg að miða við 46 búreikninga. Ég sagði, að það væri ekki nóg að miða við 46 búreikninga fyrir hálft ár, því að það eru aðeins 46 búreikningar fyrir hálft ár, sem nú liggja fyrir frá búreikningaskrifstofunni, eftir að hún var endurskipulögð og gerði reikningana með það fyrir augum, að það skyldi verðlagt eftir þeim. En eins og kom fram í ræðu hv. 5. þm. Austf., höfðu búreikningarnir áður í rauninni ekki verið gerðir þannig, að þeir skyldu notaðir við verðlagningu, enda hefur það ekki verið gert. Það hafa legið fyrir búreikningar frá gömlu búreikningaskrifstofunni, en þeir hafa ekki verið notaðir við verðlagninguna, vegna þess að þeir voru ekki þannig gerðir. Ég er ekki þar með að segja, að þeir hafi verið skakkir eða illa gerðir, en þeir voru ekki þannig upp byggðir, að þeir væru notaðir við verðlagninguna. Og það er dálítið undarlegt, að hv. 5. þm. Norðurl. e. skuli belgja sig út hér út af þessu frv. og út af því, að ég hef, þegar ég talaði fyrir frv., fært fram ástæðurnar fyrir því, að það væri flutt. Nú er það svo, að það eru til nokkrar vinnumælingar. Það eru til búreikningar frá búreikningaskrifstofunni fyrir 1/2 ár. Það eru til gamlir búreikningar. Og vitanlega getur yfirnefndin, ef hún vill og telur stuðning að því, notazt við það við verðlagninguna að þessu sinni. Og það má vel vera, að hún geri það. Hv. 5. þm. Norðurl. e. las hér kafla úr ræðu, sem ég flutti, annars vegar og ræðu, sem hv. 5. þm. Austf. flutti, hins vegar og bað hv. alþm. að bera saman, hvað sagt væri í þessum ræðum. Nú vil ég spyrja þá, sem á hlýddu: Hver er munurinn á þessum ræðum? Var það ekki satt, sem báðir sögðu, þegar verið var að lýsa aðdraganda að verðlagningunni og undirbúningnum að verðlagningunni á s.l. hausti? Var það ekki satt, sem hv. 5. þm. Austf. sagði? Var eitthvað rangt í því, sem ég sagði, þegar ég var að lýsa því, hvernig þetta hafði skeð? Ég held, að það sé engum vafa bundið, að við sögðum báðir satt og þess vegna ber harla lítið þar á milli.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. talaði um það, að þau orð, sem ég viðhafði hér, þegar ég talaði fyrir þessu frv., gætu hafa haft einhver áhrif á yfirnefndina, af því að ég hafði tekið fram, að það vantaði gögn, það vantaði rökstuðning til þess að verðleggja til tveggja ára. Ég vil þá segja: Ef mín orð ættu að hafa áhrif á yfirdóminn til ills, er það flutningur þessa frv., sem hefði valdið því, að yfirnefndin liti svo á, að ekki væri hægt að verðleggja til tveggja ára vegna þess, að það vantaði gögn og rök, ekki það, sem ég hef sagt, heldur það, að frv. var flutt. Nú er ég alls ekki að segja það, að þetta hafi áhrif á n. til þess að gera hlut bænda verri. Ég skil yfirnefndina mætavel. Þegar hún fer að vinna að þessu máli og vill finna sem sanngjarnasta niðurstöðu, kemur í ljós, að það er æskilegt að hafa meiri gögn. Það er æskilegt að hafa vinnumælingar yfir allar búgreinarnar. Það er æskilegt að hafa búreikninga frá nýju búreikningaskrifstofunni fyrir heilt ár, en ekki hálft ár. Og það er þá ábyrgðarminna að verðleggja til eins árs eftir veikari gögnum heldur en til tveggja ára. Þetta finnst mér liggja alveg í augum uppi, og ég held, að það sé að vera að deila hér um keisarans skegg, þegar hv. 5. þm. Norðurl. e. er að draga hér upp alls konar strik, sem gætu orðið til þess að vekja tortryggni í þessu máli. Ég held, að hv. þm. ætti að bíða og sjá, hver útkoman verður, áður heldur en hann fer að draga upp þessar ljótu myndir, sem virðast hafa tekið sér bólfestu í hans huga.

Ég held, að það sé engin ástæða fyrir hv. þm. að láta sér það til hugar koma, að yfirnefndin brjóti lög á bændum. Og þess vegna eru það nú alveg óþarfar spurningar, sem hv. þm. leggur fyrir mig. Hann kemur hér með spurningar í þremur liðum, sem hann biður mig um að svara. Hvaða skilning ég leggi í 4. gr. framleiðsluráðsl.? Mér finnst þessi spurning ekki svara verð. Þessi gr. er svo skýr og ótvíræð, að hv. 5. þm. Norðurl. e. getur lesið hana, og að spyrja þm. eða ráðh. að því, hvort hann ætlist til þess, að l. séu virt, það finnst mér ekki svara vert.

Það sama má segja um 2. og 3. spurninguna. Það leiðir af sjálfu sér. Hv. þm. spyr um það, hvort ég telji eðlilegt, að farið sé með málefni bænda samkv. lögum eða hvort ég gæti þolað það, að á þeim væru brotin lög. En svo bætir hv. þm. dálítið úr þessu, áður en hann hættir hér í ræðustólnum. Hann segist treysta því, að þessi ráðh. vilji nú ekki draga hlut bænda niður. Og það er út af fyrir sig kannske frá vissu sjónarmiði þakkarvert. En það er nú ekki frá mínu sjónarmiði neitt þakkarvert, þó að þessi hv. þm. segði þetta, því að ég þykist alveg eiga kröfu á því að njóta sannmælis eins og ég vildi láta þennan hv. þm. njóta sannmælis. Mér kemur ekki til hugar, að hv. 5. þm. Norðurl. e. vilji annað heldur en það bezta fyrir bændur, og mér dettur ekki heldur í hug, að hann vilji, um leið og hann vill tryggja hlut bænda, þá jafnframt í leiðinni niðast á öðrum. Og það er það, sem allir hv. þm. ættu að hafa efst í huga, að um leið og þeir tileinka sér það að vinna fyrir eina stétt, má ekki heldur gleyma hagsmunum annarra. Því er það, að ég tel alveg nauðsynlegt, að hlutur bænda að þessu sinni verði tryggður eins og áður og við verðlagninguna að þessu sinni sé það haft í huga, að niðurstaðan í verðlagningunni verði af sanngirni gerð og það í huga haft, að á engum verði níðzt. Og ég trúi því, að þannig verði þessi niðurstaða. En það skyldi nú ekki vera, að hv. 5. þm. Norðurl. e., sem var áðan að tala um áróður frá minni hendi í þessum málum og jafnvel með dökkum strikum að gefa það í skyn, að ég hefði með því viljað hafa áhrif á yfirnefndina, það skyldi nú ekki vera, að fyrir þessum hv. þm. vekti nú eitthvað slíkt, að hefja áróður og láta röddina heyrast frá — hvað sagði hv. þm. áðan — nýgræðingnum að norðan? En það vil ég segja hv. þm., að ég hef ekki aðeins samúð með nýgræðingnum að norðan. Ég vil miklu heldur hlúa að honum, og ég vil, að nýgræðingurinn að norðan nái að vaxa og þroskast þannig, að sú rödd, sem þaðan kæmi, mætti vera bætandi og þroskandi. Og ég vil óska þessum hv. þm., sem er nýr hér í þinginu, að hann geti orðið bændastéttinni að liði og unnið að framgangi góðra mála.