22.02.1968
Neðri deild: 65. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

137. mál, dráttarbrautir og skipasmíðastöðvar

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Á síðustu árum hafa verið gerð veruleg átök í þá átt að koma upp dráttarbrautum og skipasmíðastöðvum í senn til þess að geta veitt skipastól landsmanna þjónustuviðgerðir og þó ekki síður til þess á síðustu árum að koma hér fótum undir skipasmíðaiðnað. Einkum hefur þar verið um að ræða að koma upp aðstöðu hér og þar um landið til þess að byggja stálskip og raunar einnig fiskiskip af öðrum gerðum. Að þessu hefur verið unnið eftir fastri áætlun síðustu árin og ákveðnar fyrirætlanir gerðar um það, hvernig auðið væri að koma þessum fyrirtækjum upp, og ýmiss konar aðstoð verið veitt til fyrirgreiðslu í sambandi við lántökur og ríkisábyrgðir.

Á árinu 1965 var leitað heimildar Alþ. til að ábyrgjast 30 millj. kr. lán vegna byggingar dráttarbrauta og skipasmíðastöðva í samræmi við þá áætlun, sem lá fyrir um eflingu þessara mannvirkja, og var sú heimild samþ. hér á Alþ. Var þá miðað við það, að ábyrgzt væri allt að 60% af kostnaðarverði þessara framkvæmda. Síðan þetta gerðist, hefur kostnaður við þessi mannvirki farið verulega fram úr áætlun af ýmsum ástæðum, og það er því þannig ástatt nú, að það vantar verulega á, að hægt sé að veitaríkisábyrgð, þótt byggt sé á grundvelli þeirrar hugsunar, sem í umræddu l. fólst, þ.e. um 60% af kostnaðarverði og hefur því ríkisstj. ákveðið að leggja til við Alþ., að veitt verði viðbótarábyrgðarheimild allt að 40 millj. kr., sem er nokkru hærri fjárhæð en áætlað hefur verið, að kosta muni að koma þessum mannvirkjum upp, þ.e. miðað við þau 60% fjárhæðarinnar, sem lagt er til að veita ábyrgð fyrir. Það er jafnframt rétt að taka það fram, að þessi tala er miðuð við það eitt að ljúka þeim mannvirkjum á sviði dráttarbrauta og skipasmíðastöðva, sem nú er í framkvæmd, og er þar fyrst og fremst um að ræða þær stöðvar, sem eru á vegum einkaaðila og raunar eingöngu, vegna þess að dráttarbautir, sem eru á vegum hafnargerða, sem er allvíða á landinu, njóta aðstoðar samkv. hafnalögum, og þarf þess vegna ekki að koma til nein sérstök heimild til ríkisábyrgðar fyrir þær.

Mér þykir hins vegar rétt, að það komi fram hér við þessa 1. umr. málsins, að því var komið á framfæri af samtökum eigenda skipasmíðastöðva og dráttarbrauta — en eigendur þessara mannvirkja hafa nú myndað sameiginlegt félag, sem var mjög æskileg og skynsamleg ráðstöfun, vegna þess að hér er raunverulega um sambærilegar framkvæmdir og samkynja að ræða, — að það væri ekki nægilegt fyrir þessa aðila að fá umrædda 60% ábyrgð, heldur þyrfti meira að koma til, og var þá vitnað til þess, að þær dráttarbrautir, sem væru byggðar á vegum sveitarfélaga sem hafnarmannvirki, fengju miklu meiri aðstoð. Var því í erindi til fjmrn. um þetta mál óskað eftir tvennu, sem má segja, að væri hægt að velja á milli: 1) að þessar stöðvar fengju 20% ríkisstyrk eða 2) að ábyrgðarheimildin yrði hækkuð í 80%. Mér sýnist það augljóst mál, að það væri, eins og til þessara mannvirkja er stofnað, óeðlilegt með öllu og skapaði enda mjög hættulegt fordæmi, ef ætti að fara að veita beinan ríkisstyrk til framkvæmdanna, þannig að það komi ekki til álita. Hins vegar getur það vitanlega verið álitamál, hvort rétt væri að teygja sig lengra, þannig að veitt væri ábyrgð — ríkisábyrgð — fyrir eitthvað hærri fjárhæð en 60%, jafnvel allt að 80%. Fyrir því eru viss fordæmi, t.d. í sambandi við vissar síldarverksmiðjur, þó ekki nema stöku síldarverksmiðjur, þ.e. þær, sem hafa átt við mesta erfiðleika að stríða og hafa verið byggðar á smástöðum á nokkrum stöðum á landinu. En hins vegar er það meginregla, sem gildir um ríkisábyrgðir almennt og er t.d. um ríkisábyrgðir í þágu fiskvinnslustöðva, sláturhúsa og annarra slíkra mannvirkja, að miðað er við 60%. Af þessum sökum þótti ekki rétt á þessu stigi málsins að miða frv. við annað en venjulega prósentutölu — 60% eins og gert er í l. frá 1965 um ríkisábyrgðarheimildina, sem þá var veitt í sambandi við skipasmíðastöðvar og dráttarbrautir. Ég tel hins vegar rétt, að sú hv. n., sem fær mál þetta til athugunar, rannsaki það, hvort það gætu verið rök fyrir því að veita hér eitthvað hærri ábyrgð, og hefði þá um það samráð við fjmrn. og Ríkisábyrgðasjóð eftir atvikum. En ég legg á það ríka áherzlu, að menn geri sér grein fyrir því um leið, að það er ekki auðið — þó að mönnum kunni að þykja sem það væri rétt að ganga þarna lengra til móts við eigendur skipasmíðastöðva til að leysa hinn brýna vanda þeirra, sem tvímælalaust er fyrir hendi hjá ýmsum þeirra a.m.k. — nema því aðeins að menn séu reiðubúnir til þess að taka þetta mál út úr, og tel ég það ekki réttlæta það, að farið verði yfir 60% almennt í ríkisábyrgð, því að það tel ég mjög óvarlegt og ekki hægt að taka slíka áhættu á ríkissjóð almennt. En ég vil sem sé gjarnan beina því til n., að hún taki ábyrgðarprósentuna til sérstakrar athugunar.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess, herra forseti, að orðlengja frekar um málið. Það er mjög einfalt í sniðum, og vildi ég mega leyfa mér að vænta þess, að hv. d. mundi hraða því eftir föngum, vegna þess að tilmæli um ábyrgðir frá skipasmíðastöðvunum bíða afgreiðslu, og það er ekki hægt að veita þær, vegna þess að fyrri ábyrgðarheimildin er þrotin. Æskilegt væri því að leitast við að afgreiða málið sem fyrst frá deildinni.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að að umr. þessari lokinni verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.