25.03.1968
Efri deild: 74. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

137. mál, dráttarbrautir og skipasmíðastöðvar

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Á síðustu árum hefur verið unnið að mjög umfangsmikilli uppbyggingu skipasmíðaiðnaðarins í landinu og í sambandi við það að uppbyggingu skipasmíðastöðva og dráttarbrauta. Hefur verið unnið að þessu eftir áætlun, sem um þessa uppbyggingu var gerð fyrir nokkrum árum, og ýmsar ráðstafanir gerðar til þess að greiða fyrir fjáröflun til framkvæmdanna. Einn þáttur þeirrar aðstoðar er fólginn í ríkisábyrgðum, sem veittar hafa verið vegna byggingarframkvæmda þessara. Með l. frá 1965 var ríkisstj. heimilað að ábyrgjast allt að 30 millj. kr. lán í þessu skyni.

Nú hefur komið í ljós, að þörf muni vera ríkisábyrgðarheimildar til viðbótar, þar eð framkvæmdir þessar hafa orðið kostnaðarsamari en gert var ráð fyrir í upphafi, og er áætlað miðað við þær tölur, sem nú liggja fyrir, að þörf muni vera á um 35 millj. kr. viðbótarábyrgðarheimild, þó að gert sé ráð fyrir, að ábyrgðir yrðu veittar eftir sömu reglum og gert var eftir hinum fyrri l., sem ég nefndi. Það hefur hins vegar komið í ljós, að komið hafa fram óskir um að veita aukna fyrirgreiðslu í vissum tilvikum, þar sem við allverulega erfiðleika hefur verið að stríða við að koma þessum mannvirkjum upp. Var því af hálfu samtaka eigenda dráttarbrauta og skipasmíðastöðva leitað eftir því við ríkisstj. eða fjmrn., að það beitti sér fyrir því að hækka ábyrgðarheimildarfjárhæðina úr 60% í 80% af kostnaðarverði framkvæmda, en þó öllu fremur, að veittur yrði beinn styrkur til þeirra fyrirtækja í þessari grein, sem ekki falla undir hafnal., þ.e. þær dráttarbrautir, sem ekki falla undir hafnargerðir. Það hefur ekki þótt mögulegt að mæla með því að veita einkafyrirtækjum slíkan ríkisstyrk. Hins vegar þótti rétt, að skoðað væri nánar, hvort ástæða þætti til að hækka ábyrgðarhlutfallið. Ég lagði á það áherzlu í hv. Nd., að ég teldi mikils um vert, að það skapaði ekki fordæmi og áfram yrði sú almenna regla að veita 60% ríkisábyrgð. Fallizt var á það í meginefnum í hv. Nd., en talið rétt að veita samt ríkisstj. heimild til þess að hækka þessa tölu í 80%, ef sérstakar ástæður væru fyrir hendi að dómi ráðh. og hægt væri að setja fullnægjandi tryggingar, en tekið var fram af talsmanni n. í Nd.n. stóð sameiginlega að þessari till. — að ætlazt væri til, að þetta yrði notað með varúð.

Þá var jafnframt hækkuð ábyrgðarheimildin úr 40 millj. kr. í 50 millj. kr. Það út af fyrir sig skiptir engu máli. Segja má, að það saki ekki að hafa ábyrgðarheimildina eitthvað rýmri, ef kostnaður kynni enn að fara fram úr áætlun. En ég tók það fram í Nd. og vil einnig láta það koma fram hér, að ég lít svo á, að enda þótt þessi tala hafi verið hækkuð, verði lög þessi fyrst og fremst miðuð við að veita aðstoð þeim dráttarbrautum og skipasmíðastöðvum, sem eru í byggingu samkv. áætlun, sem gerð hefur verið um það og ég vék að. Með því er ekki sagt, að fleiri aðilar geti ekki komið til greina, en ég álít, að það sé tvímælalaust nauðsyn, að það mál sé skoðað rækilega niður í kjölinn. Það verður að reyna að tryggja það, að þær dráttarbrautir og skipasmíðastöðvar, sem nú eru byggðar eða er verið að ljúka, hafi nægileg verkefni til að geta staðið undir skuldbindingum sínum og það tjóar ekki að hleypa af stað viðbótarframkvæmdum, nema sýnt sé, að það verði ekki til þess að grafa undan þeim fyrirtækjum í þessari grein, sem nú er verið að koma upp. Það er þjóðfélagsleg nauðsyn.

Ég vonast til að hv. Ed, geti fallizt á að afgreiða frv. með því sniði og þeirri breyt., sem á því var gerð í hv. Nd. Það liggur nokkuð á að afgreiða málið, vegna þess að ríkisábyrgðarheimildin, sem til var í l. — 30 millj. kr., er þrotin, og stendur þegar á því að geta afgreitt viðbótarheimildir. Þess vegna vildi ég leyfa mér að beina því til hv. n., sem fær þetta til meðferðar, að freista þess að afgreiða málið, svo fljótt sem verða má.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.