25.03.1968
Neðri deild: 81. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (871)

152. mál, dýravernd

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Það kemur greinilega fram af þeim fskj., sem frv. þessu fylgja, hvernig eða af hvaða ástæðu það er fram borið. Samband dýraverndunarfélaga Íslands hefur farið fram á það, að lög yrðu sett um það, að rekstur hvala á land yrði bannaður, en þar er án efa átt við hinn svokallaða grindhval eða grindhvalarekstur. Sjútvmrn. telur þetta ekki heyra undir verksvið sitt, þar sem rn. fjalli aðallega um þau lög sem kveða á um hvalveiðar sem fastan atvinnurekstur og bann við rekstri hvala á land heyri undir dýraverndunarl. Sjútvmrn. hefur því sent þetta til menntmrn. Umsögn, sem menntmrn. hefur fengið frá dr. Finni Guðmundssyni, er á þann veg, að hann mælir ekki með því, að rekstur hvala á land sé bannaður, heldur leggur það til, að nokkuð vægara verði farið í þetta og leyfilegt verði að reka hval á land, ef ljóst liggi fyrir, að hægt sé að nota hann í mat eða vinna afurðir úr honum, eins og fram kemur í grg. hans.

Ég verð að segja, að ég hef ekki áttað mig á því til fulls, hvort nokkur ástæða er til annars heldur en banna rekstur hvala á land, eins og Samband dýraverndunarfélaganna fer fram á. Ég hef einu sinni séð vöðu af grindhval reka á land í Vestmannaeyjahöfn, eins og vitnað er til í erindi dýraverndunarfélaganna. Ég hygg, að hvorki ég né aðrir, sem á þær aðfarir horfðu, mundum vilja sjá það aftur. Eins og ég vitnaði til, kemur það fram hjá dr. Finni Guðmundssyni, að hans umsögn byggist á því, að hann vill ekki láta banna mönnum að reka hval á land og nýta hann sér til matar eða kannske vinna eitthvað úr honum. En það, sem ég hygg, að þarna komi ekki fram, er það, sem sennilega fæstum er kunnugt um, sem ekki hafa séð grindhvalavöðu rekna á land, að það er ákaflega erfitt að dæma um það, þó að menn vilji kannske reka eitt, tvö eða þrjú dýr á land og nýta þau til matar eða slíks, hvað menn raunverulega eru að gera. Þegar grindhvalavaðan var á sínum tíma rekin inn í Vestmannaeyjahöfn, héldu allir, að þar væri aðeins um fáeina hvali að ræða. Það voru þeir hvalir sem mönnum sýndust vaða, og mennirnir í bátunum héldu, að þeir væru að reka inn. Þegar vaðan kom inn í höfnina, voru þetta ekki fáein stykki, heldur fleiri hundruð — ef ekki þúsundir — hvala, sem kom í ljós, að voru í þessari vöðu. Ég hef síðar kynnzt því, að svona er það, þar sem vöður eru reknar á land eins og t.d. við Færeyjar. Það er aðeins lítill hluti, sem menn raunverulega sjá eða verða varir við. Vaðan er venjulega mörgum sinnum stærri heldur en hún sýnist vera. Náttúrlega þekkja Færeyingar þetta, þar sem þeir eru þessu vanir, en ég hygg, að íslendingar eigi ákaflega erfitt með að átta sig á því, hvað þeir raunverulega eru að gera, ef þeir takast á hendur að reka grindhval á land. Ég get svona í fljótu bragði ekki áttað mig á því, hvort rekstur grindhvala á land hér geti verið mikilvægur fyrir okkur atvinnulega séð, þ.e. að þær afurðir, sem kynnu að fást af honum, séu svo aðkallandi búbót, að þetta sé nauðsynlegt. Það gefst nú tími til að skoða málið betur fyrir 3. umr., en ég hygg, að það væri langsamlega skynsamlegast af Alþ., að verða hreinlega við beiðni dýraverndunarfélaganna og banna rekstur hvala á land — að banna það algjörlega, að hvalur yrði rekinn hér á land.

Um deyðingaraðferðina skal ég ekki dæma. Ég hef ekki næga þekkingu á því, hvort það er hægt að nota aðrar aðferðir heldur en voru þekktar, þ.e. að deyða hval með lagvopni. Þetta var gert í það skipti, sem ég vitnaði hér til áðan í Vestmannaeyjahöfn, þegar hvalur var rekinn þar inn. Þá var ráðizt á þau dýr, sem voru landföst og jafnvel þau, sem á sundi voru, með lagvopnum. Ég verð að segja það, að það þyrfti að vera hægt að lóga þessum dýrum á annan hátt. Þetta er einhver sú ógeðslegasta aðferð, sem ég hef nokkurn tíma séð við að aflífa nokkurt dýr, og það er, eins og farið er að, þegar verið er að aflífa stóra grindhvalavöðu með eggjárnum eða lagvopnum. Ég tel, að vissulega þurfi að skoða einmitt kannske þetta betur, ef það á að leyfa að reka þessi dýr á land, þ.e. hvort það eru ekki til aðrar mildari aðfarir heldur en að ráðast á þessar skepnur, sem eru með heitu blóði, eins og allir vita, með lagvopnum og aflífa þær þannig eða ætla að aflífa þær þannig, því að raunin verður náttúrlega sú í þeim handagangi, sem í sambandi við hvalavöður verður, að þau dýr eru miklu fleiri, sem sleppa kannske særð undan þessum vopnum, heldur en þau, sem lógað er eins og ætlazt var til. Ég vildi vekja máls á þessu við þessa umr., af því að ég hef, eins og ég sagði í upphafi, einu sinni séð þessar aðfarir, og mig langar ekki að upplifa þær aftur.