22.02.1968
Neðri deild: 65. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1006 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

140. mál, ríkisreikningurinn 1966

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þær umr., sem hér hafa farið fram, en aðeins beina einni fsp. til hæstv. fjmrh. Ég sé hér á rekstrarreikningi, að tekjur hafa orðið verulega hærri á árinu heldur en áætlað var í fjárl. Mér sýnist, að tekjurnar hafi farið nær 900 millj. kr. fram úr áætlun. Það staðfestir það, sem oft hefur verið haldið fram hér, að það er veruleg tilhneiging til þess að áætla tekjurnar lægri heldur en þær verða í raun og veru, en um það atriði ætla ég ekki að ræða nánar að þessu sinni. Þá leiðir rekstrarreikningurinn það einnig í ljós, að það hefur orðið verulegur rekstrarhagnaður á árinu, sem stafar af því, hve miklar umframtekjurnar urðu eða nálægt 800 millj. kr. Það, sem mig langar til að fá upplýst hjá hæstv. ráðh., er það, hvort hann gæti gefið upplýsingar um það nú, hvernig þessum rekstrarhagnaði hefði verið ráðstafað, hvort það sé búið að ráðstafa honum að mestu eða öllu leyti eða hvort eitthvað af honum sé geymslufé og einnig samkv. hvaða lögum eða heimildum honum hefði verið ráðstafað, ef búið væri að því. Ég veit það að vísu, að verulegum hluta af þessum afgangi hefur verið ráðstafað til niðurborgana á síðasta ári, en ég reikna þó ekki með því, að allur afgangurinn hafi runnið þangað. En mér þætti sem sé æskilegt, ef hæstv. ráðh. gæti upplýst það nú, hvernig þessum rekstrarafgangi hafi verið ráðstafað og hvort búið sé að gera það að fullu og öllu.