29.03.1968
Neðri deild: 85. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (892)

140. mál, ríkisreikningurinn 1966

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Fjhn. þessarar hv. d. hefur haft til athugunar frv. til l. um samþykkt á ríkisreikningnum fyrir árið 1966. N. hefur orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ., en þrír nm. skrifa þó undir þetta nál. með fyrirvara. Með nál. er prentuð, eins og hv. þm. sjá, skýrsla ríkisendurskoðunar til yfirskoðunarmanna ríkisreikninga, og af þessari skýrslu má sjá, hvað ólokið var að endurskoða af reikningum þann 22. des. s.l. og enn fremur, hvað endurskoðað hefur verið af þessum reikningum fram til 21. marz í ár. Eins og sjá má, er hér um nokkra reikninga að ræða, en mér þykir rétt að benda þó á það, að af samanburði við sams konar eldri skýrslur má sjá, að hér er um færri reikninga að ræða en hefur verið á undanförnum árum, og er þetta vel, því að að sjálfsögðu er það æskilegast, að reikningar ríkisstofnana og hinna ýmsu embætta, sem heyra undir ríkið hafi verið endurskoðaðir, áður en Alþ. þarf að fjalla um ríkisreikninginn hverju sinni. Mér sýnist, að þetta horfi allt til betri háttar, og vonandi verður það innan tíðar, að endurskoðun verði lokið að fullu, áður en óskað er eftir því, að þingið samþykki ríkisreikninginn: