01.04.1968
Efri deild: 79. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

140. mál, ríkisreikningurinn 1966

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. um staðfestingu á ríkisreikningnum fyrir árið 1966 hefur verið afgr. frá hv. Nd. Frv. er samið í samræmi við niðurstöður ríkisendurskoðenda og felur í sér sundurliðaðar þær niðurstöðutölur, sem orðið hafa á einstökum greinum fjárl. fyrir árið 1966. Ríkisreikningnum hefur verið útbýtt fyrir alllöngu síðan, og hefur hv. þm. gefizt kostur á að kynna sér hann. Með honum eru birtar aths. yfirskoðunarmanna, svör rn. við aths. þeirra og að lokum úrskurðir yfirskoðunarmanna, þar sem er að finna niðurstöður þeirra, eftir að þeir hafa tekið til athugunar svör rn. Engum af aths. er vísað til aðgerða Alþ., heldur eru þær allar taldar eiga að vera til athugunar eftirleiðis. Verður að sjálfsögðu farið eftir þeim ábendingum.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fara að gera ríkisreikninginn að umtalsefni við þetta tækifæri, nema tilefni gefist til. Í sambandi við meðferð fjárl. hefur verið gerð rækilega grein fyrir öllum ástæðum þess, þar sem um breytingar hefur verið að ræða frá því, sem fjárl. gerðu ráð fyrir, og hafa þær skýrslur verið ræddar í sambandi við fjárlagaafgreiðslu.

Ég leyfi mér því, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.