04.04.1968
Efri deild: 81. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

140. mál, ríkisreikningurinn 1966

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka hv. fjhn. fyrir, hvað hún hefur brugðizt vel við ósk minni um að afgreiða ríkisreikninginn skjótt frá sér, svo að hægt væri að ljúka afgreiðslu hans, áður en þ. lýkur. Ég veit, að það var kannske til nokkuð mikils ætlazt, að n. gerði það svo fljótlega, en á hitt var þó að líta, sem ég vakti athygli á í framsöguræðu minni hér fyrir reikningnum við 1. umr., að yfirskoðunarmenn ríkisreiknings vísa ekki til sérstakrar athugunar Alþ. á neinu atriði reikningsins. Það má vitanlega ganga út frá því eins og yfirskoðunarmenn eru valdir til starfa, þ.e. þeir túlka hin ýmsu sjónarmið bæði stjórnar og stjórnarandstöðu og eru valdir af flokkunum, að það muni koma fram í þeirra aths., ef þeir telja eitthvað sérstaklega athyglisvert við reikningsfærslur.

Varðandi það, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði, þá er það rétt hjá honum, að það er ekki nýtt, að á það hafi verið bent hér, eftir að farið var að hraða meðferð Alþ. á afgreiðslu ríkisreiknings, að hjá svo og svo mörgum embættum hafi ekki verið lokið endurskoðun, þegar ríkisreikningurinn er endanlega samþykktur á Alþ. Vitanlega er þetta allt álitamál. Æskilegast er auðvitað, að allri endurskoðun sé lokið og ríkisendurskoðunin hafi yfir því starfsliði að ráða, að hún geti innt þetta af höndum með fullnægjandi hraða. Sem betur fer, hefur þó þróunin verið sú, að þetta hefur færzt í þá átt, að það hefur tekizt að ljúka endurskoðun reikninga hraðar en áður. Það hafa ekki safnazt fyrir verkefni hjá ríkisendurskoðuninni síðustu árin, en hins vegar er hitt rétt, að það hefur ekki heldur þótt fært að efla svo starfslið ríkisendurskoðunarinnar, að hún gæti komið þessu í lag svo sem æskilegt væri. Ég tel því ekkert undarlegt út af fyrir sig, þó að þessi aths. komi fram, og það má e.t.v. segja, að það sé eðlilegt að láta þá ríkisreikninga bíða í eitt ár, jafnvel þangað til þessari endurskoðun er lokið. Ástæðan til þess, að þetta hefur ekki verið gert, er sú, sem ég álít, að sé miklum mun veigameiri, þ.e. að sé ekki dregið lengi að leggja reikninginn fyrir Alþ., eru meiri líkur til að menn hafi í fersku minni þau fjármálalegu atvik, sem voru að gerast á því tiltekna ári. Það var oft hér áður kvartað yfir því, þegar reikningurinn kom kannske þremur árum of seint fyrir Alþ., að það hefði ekki nokkur maður áhuga á þessu, þetta væri bara úrelt plagg og menn gætu ekki í rauninni komið neinni gagnrýni við, því að horfið væri úr minni manna margt af því, sem þeir helzt hefðu viljað gera aths. við eða kunnað að vilja gera aths. við. Ég álít því, að sú stefna sé rétt að reyna að leggja reikninginn sem fyrst fyrir Alþ., meðan það er ljóst í huga hv. þm., hvernig fjármálaþróunin var á því tiltekna ári, og þeir geta þá haft betri aðstöðu til þess að bera saman einstakar tölur.

Ég held, að það skipti ákaflega litlu máli í sambandi við þessa efnislegu meðferð reikningsins hér á Alþ., hvort lokið er nákvæmlega talnalegri endurskoðun hjá hverri einustu ríkisstofnun. Sannast sagna verður sjaldan breyting, svo að neinu nemi, á reikningum þessara stofnana, frá því að þeir eru gerðir upp og þangað til þeir eru birtir í ríkisreikningi. Það eru því að minni hyggju a.m.k. meiri þægindi fyrir hv. þm. að fá reikninginn fyrr til meðferðar heldur en að bíða, þangað til lokið er endurskoðun hjá hverri stofnun, sem aftur mundi kosta það, að það drægist töluvert mikið meira á langinn að fá reikninginn til meðferðar. Það er nauðsynlegt, að mönnum sé það alveg ljóst, að komi fram breytingar eða eitthvað athugavert við þá reikninga, sem ekki er lokið endurskoðun á, þegar ríkisreikningur er lagður fram, þá vitanlega kemur það fram síðar hjá yfirskoðunarmönnum ríkisreiknings. Þeir hafa alla aðstöðu til og eiga að fylgjast með því, hvort athuganir komi fram eða aths. hjá ríkisendurskoðuninni við þá reikninga, sem hafa verið óendurskoðaðir frá fyrra ári eða árum — athugasemdirnar eiga að sjálfsögðu að koma frá þeim, þegar þar að kemur. Þess vegna held ég, að þetta út af fyrir sig skipti efnislega ekki neinu máli og eigi ekki að geta orðið þess valdandi, að Alþ. í raun neiti að fallast á ríkisreikninginn eins og hann hefur verið lagður fram. Það væri of mikil formsástæða, og mér finnst efnisástæðurnar, sem liggja því til grundvallar, að æskilegt sé, að Alþ. fái reikninginn sem fyrst til meðferðar, vera sterkari heldur en þessar formsástæður. Það er auðvitað Alþ. að gera upp sinn hug um það. Það hafa komið fram aths. við þetta, eins og ég segi, á liðnum árum, síðan var farið að leggja reikninginn svona fljótt fram, en hins vegar hefur aldrei það sjónarmið ráðið svo miklu um afstöðu manna til reikningsins, að þeir hafi neitað að staðfesta hann af þeim ástæðum, fyrst og fremst vegna þess að menn hafa talið, að það væri æskilegt að fá reikninginn svo snemma til meðferðar, meðan menn hafa getað athugað hann með hliðsjón af því, sem þeim var í fersku minni um þróun viðkomandi árs.

Ég hef ekki, herra forseti, ástæðu til þessa að hafa um þetta fleiri orð. Ég er ekki á neinn hátt að mótmæla þeim aths., sem komu fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., og það er að sjálfsögðu skylt og rétt að hraða endurskoðun, svo sem frekast má vera, en ég er þó ekki reiðubúinn til þess að auka það mikið starfslið endurskoðunarinnar, að hægt sé að lagfæra þetta með skyndingu, heldur verði þetta að þróast smám saman í þá átt, og a.m.k. verður að sjálfsögðu að sjá til þess að ekki verði vaxandi dráttur á því, að endurskoðun reikninga sé lokið.