21.03.1968
Neðri deild: 79. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

129. mál, verkfræðingar

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Með þessu frv. er gert ráð fyrir að rétta nokkuð hlut þeirra manna, sem hafa hlotið menntun sem byggingafræðingar, en undanfarið hefur staðið nokkur deila um það, hvað þeir mættu kalla sig, og einnig um réttindi þeirra til þess að skila teikningum að byggingum og standa fyrir þeim. Þegar breytingin var á sínum tíma gerð — eða þessi lög voru sett — og tæknimenntaðir menn fengu réttindi til að kalla sig tæknifræðinga, stóð þannig á, að hér voru nokkrir sérmenntaðir iðnfræðingar, en það hefur orðið svo, að það heiti þykir ekki taka nægilega til þeirrar menntunar, sem byggingafræðingar hafa nú fengið, og það er í samráði við félag þeirra, sem þetta frv. er flutt, og einnig er það í samráði við félag tæknifræðinga eða með samþykki þeirra. Þeir höfðu látið í ljósi óskir um að kalla sig tækniarkitekta, en af hálfu rn. var álitið, að það væri ekki heppilegt og mætti skilja orðið þannig, að það merkti raunverulega meira en venjulegir arkitektar. En hins vegar er það svo, að hér eru í landinu húsgagnaarkitektar og skrúðgarðaarkitektar. Um þessar nafngiftir eru nokkuð skiptar skoðanir og hafa orðið deilur fyrir dómstólum, sem hefur hins vegar lyktað með því, að þeir hafa fengið heimild til þess að kalla sig þessum starfsheitum. Var þá litið svo á, að það væri síður en svo, að það hefði bein áhrif á merkingu orðsins arkitekt, og þetta mundi ekki valda ágreiningi. En af hálfu rn. var hinsvegar litið svo á, að veldu byggingafræðingar sér nafnið tækniarkitektar, gæti verið um nokkuð annað að ræða.

Með þessu, sem hér er lagt til, held ég, að geti fengizt friður um þetta mál og byggingafræðingar fái það heiti, sem þeir sætta sig vel við, og einnig þau réttindi, sem menntun þeirra áskilur þeim. Ég vildi svo mega leggja til, að málinu yrði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. iðnn.