02.04.1968
Neðri deild: 89. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

179. mál, vegalög

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég skal ekki þreyta hv. þm. á langri ræðu; ég geri það sjaldan. En þegar ég las þetta frv., datt mér í hug konungur í Gyðingalandi hinu forna, sem Salómon hét. Hann var talinn spekingur að viti og glæsilegur konungur, en honum varð það á, að hann skildi aldrei gjaldþol þegna sinna og lagði á þá þyngri skatta en þeir voru færir um að bera, byggði hallir og átti stór kvennabúr og glæsileg hesthús og annað slíkt. En það er nú aukaatriði. En aðalatriðið var, að hann skildi aldrei, hvað þegnar hans voru færir um að bera. Af þeirri ástæðu þreyttust þeir á honum, og þegar sonur hans kom til valda, fóru þeir fram á það við hann, að hann létti af þeim byrðunum. Þegar hann tók því illa, yfirgáfu þeir hann, þannig að með sinni eyðslu og yfirborðsmennsku eyðilagði hann — eða átti mikinn þátt í að eyðileggja — sitt ríki. Mér datt þetta í hug, þegar ég sá þetta vegafrv.

Við erum allir sammála um það, að við þurfum fé í vegi og jafnvel meira fé heldur en nú er. Hitt er svo annað mál, að ég hef aldrei getað tekið undir þessar þrotlausu kröfur um, að allt eigi að gera í einu. Við vitum það mjög vel, að það er ekki hægt. Ég veit það, að menn úr þéttbýlum löndum, þar sem fleiri hundruð búa á hverjum ferkm. undrast, hvað við erum búnir að gera mikið í þessu landi, þar sem 200 þús. menn búa. Þeir skilja það ekki, að 200 þús. manns geti lagt vegi, þótt lélegir séu, um þetta land. Og þegar tekið er tillit til þess, á hve stuttum tíma þetta hefur verið gert, þurfum við ekkert að undrast, þótt við höfum ekki steyptar brautir um allt. Við skulum ekkert vera að gera lítið úr því, sem gert hefur verið síðustu tvö kjörtímabil. Það er engin ástæða til þess. Það hefur verið steypt braut suður á Reykjanesið, og það er búið t.d. að koma vegi til Siglufjarðar, sem engum hefði dottið í hug fyrir 30–40 árum, gegnum klettana þar, og það er búið að vinna víðar vel. Hitt verðum við að viðurkenna, að það væri æskilegt að geta gert miklu meira.

Svo er annað, sem er töluvert athugavert, og það er það, að það hefur alls ekki verið tekið tillit til burðarþols veganna, þegar bílarnir eru fluttir inn. Það hafa verið fluttir inn stórir og þungir bílar, en þeim hefur verið bannað að hafa nema vissan hlassþunga, og þetta er í raun og veru hrein vitleysa. Ef á að takmarka hlassþungann, sem ég efast ekki um, að þurfi, á ekkert að vera að leyfa mönnum að kaupa nema bíla fyrir þann þunga, sem þeir mega hafa eða rúmlega það. Það er gott að hafa bílinn dálítið sterkari. En ég hef heyrt marga bílstjóra vera vonda yfir þessu. En hitt verðum við að gera okkur ljóst, að það er ekki hægt að heimta stórar fjárhæðir í vegi og vilja engan veginn bera byrðarnar. Við verðum að fara einhverjar leiðir til að afla fjárins, því að það er alveg sama, af hvaða flokki ráðh. væri, enginn getur lagt vegi án þess að hafa fjármagn til þess. Einhverjar leiðir verður að fara.

Hitt er svo annað mál, að ég held, að það sé ekki búið að undirbúa nægilega vel, hvernig eigi að snúa sér að þessum svokölluðu hraðbrautum. Ég var að ræða við mann norður á Sauðárkróki. Hann var þar að olíubera veg — ég held það hafi verið s.l. sumar, og hann taldi engan vafa á því, að það væri framtíðarlausnin að olíubera vegina. Hann sagði, að hitt væri allt of dýrt fyrir okkur. Ég skal ekkert fullyrða um þetta. Ég er ekki fagmaður í þessu og er ekki fær um að leiðbeina í því efni. En við getum ekki borið okkur saman við þjóðir, þar sem mörg hundruð manns búa á sama ferkm, þar sem frostin hafa miklu minni áhrif heldur en hér og vatnsgangur er minni, en hann á mikinn þátt í að skemma vegina fyrir okkur. Þess vegna er eðlilegt, að við séum ekki færir um að hafa jafnfullkomna vegi. En ég var ofurlítið hissa á stjórninni að koma með þetta frv. nú. Við vitum það, að það, sem m.a. gerði, hvað bílstjórarnir voru reiðir yfir þessari breytingu á umferðinni — að víkja til hægri — á mikinn þátt í því, að þeir vissu, að þeir þurftu að borga. Það voru margir bílstjórar, sem töluðu við mig og sögðu, að þeir kærðu sig ekkert um að vera borga þennan skatt; þetta væri alveg óþarfi. Ég skal ekki fullyrða um það. Ég held, að okkur hafi ekkert legið á þessari breytingu. Það má vel vera, að það hefði orðið dýrara síðar. En hitt skulum við gera okkur ljóst, að því verður ekki vel tekið af bílstjórunum að verða fyrst að borga þessa breytingu og fá svo á sig þarna í raun og veru þrefaldan skatt af benzíni, gúmmíi og þungagjaldi sama árið. Nú er mér það alveg ljóst, að vegamálastjóra vantar peninga, þó að ekki sé minnzt á neinar hraðbrautir. Hann vantar peninga til að geta gert það, sem þarf að gera til þess að halda við vegunum og halda þeim nokkurn veginn í lagi, þó að ekki sé lagður eyrir í hraðbrautir. Það út af fyrir sig er nú til þess m.a. að fegra málið, að við eigum að fá svo og svo miklar hraðbrautir. En okkur er það alveg ljóst á þeim upplýsingum, sem við höfum fengið, að það vantar fé til að geta framkvæmt það sem búið er að ákveða, halda við vegunum og borga vexti og afborganir af þessum lánum.

Á þeim árum, þegar framsókn réð miklu í þessu landi, var oft skrifað um það í blað sjálfstæðismanna hér í bænum, að það væri eyðsla hjá þeim flokki og ráðleysi í fjármálum. Ég vil ekkert vera að gera hlut núv. ríkisstj. verri í þeim efnum heldur en hann er. En ég hef reynt að reikna þetta alveg hlutlaust út, og ég hef komizt að þeirri niðurstöðu, þótt tillit sé tekið til alls — gengisbreytingar, fólksfjölgunar og alls, sem eðlilegt er að taka tillit til, hafi útgjöldin á þessu árabili frá því, að þessi ríkisstj. tók við — eða 1959 skulum við segja, tvöfaldazt raunverulega, þannig að ég held, að væri vel leitað — fyrst framsókn stjórnaði alltaf illa að þeirra dómi og framsóknarmenn voru litlir fjármálamenn — þá held ég, að það hljóti að vera hægt að finna einhvers staðar möguleika á að spara á þessari viðbót, sem hefur komið frá því að þessir lélegu fjármálamenn stjórnuðu. Og sannleikurinn er sá, að það er tekið stórfé í ríkissjóðinn af umferðinni. Hitt verðum við aftur að játa og gera okkur ljóst, að það er ekki hægt að taka þetta fé til veganna nema annaðhvort með því að afla ríkissjóði tekna á annan hátt eða draga eitthvað úr útgjöldunum.

Ég held satt að segja, að ríkisstj. geri sér ekki ljóst, hvað gjaldþol fólks er orðið lítið í landinu. Gjaldeyrissjóðurinn er farinn. Hann var um tveir milljarðar fyrir rúmu ári. Nú er hann raunverulega, ef miðað er við sama gengi, kominn í um 700 millj. kr. Og ástæður ríkissjóðs eru ekki glæsilegar. Ég skal játa það. Mér virðist á þeim hagskýrslum, sem við fáum nú, að á einu ári hafi breytzt til hins lakara ástæður hans við Seðlabankann sem svarar 450 millj. kr., þ.e. skuldin sé orðin 23 millj. kr. nú við síðasta uppgjör, en innistæðan var um 430 millj. kr. við áramótin 1966–1967. Því, sem búið er að eyða, verður ekki eytt aftur. Ég sé ekki, að það verði mikill möguleiki á að flytja inn jafnmarga bíla á þessu ári eins og var s.l. ár eða yfirleitt að eyða jafnmiklu á neinu sviði. Við vitum allir, að það er svo að segja greiðsluþrot hjá flestum fyrirtækjum í landinu og hvar kemur þetta gjald niður. Vitanlega hækka bílstjórarnir sína taxta, og það er reynslan, að séu lagðir á nýir skattar, þá er alltaf hækkað meira en sköttunum nemur. Bílstjórarnir fara ekki að borga þetta. Þetta kemur niður á atvinnuvegunum og fólkinu í landinu, og sannleikurinn er sá, að bílar hér á Íslandi eru ekki nein óþarfa eign fyrir heimilin. Þetta eru einu samgöngutækin, og það er búið að hlaða svo ofboðslega á þau kostnaði, að það er hreint ekki fyrir fátæka menn að eiga bíl. Hæstv. ráðh. var að tala um benzínið, að það væri eins dýrt í öðrum löndum. En það eru bara fleiri skattar en benzínið, sem Íslendingar borga. Það er þungaskattur og gúmmígjald og svo þessi smávægilegu innflutningsgjöld eða skattar, sem verður að borga, þegar bíllinn er fluttur inn. Það er helmingur af bílverðinu með söluskatti og öllu saman. Og þessu öllu er hlaðið á fólkið og atvinnuvegina. Og vitanlega fer mikið af þessu beint í ríkissjóðinn. Eðlilegasta leiðin væri sú að minnka það, draga úr því og reyna þá að spara eitthvað annað fyrir ríkissjóðinn.

Ég vildi alls ekki taka undir það um daginn, þegar var verið að deila á hæstv. fjmrh. fyrir sparnaðarfrv. svokallaða. Vitanlega var ekki nema brot af því sparnaður, en það verður ekki bæði átt og útilátið, og það varð náttúrlega annaðhvort að fresta framkvæmdum, taka lán til þeirra eða það að leggja fé fram. Þetta var þó viðleitni og í raun og veru virðingarverð viðleitni. Þarna var þó verið að reyna að stinga við fótum. Hitt verðum við að gera okkur ljóst, að það er ekki hægt að spara neitt, sem máli skiptir, nema með því að breyta löggjöf, og það þarf sinn undirbúning. Það veit náttúrlega enginn betur en fjmrh., og það verðum við að gera okkur ljóst. Þetta er hér um bil allt saman bundið í lögum. En það þarf að halda áfram á þeirri leið.

Það hefur verið þannig, að alltaf þegar einhver lög hafa verið endurskoðuð, hefur þess verið gætt af fremsta megni, að ekkert væri sparað heldur meira eytt. Ég benti hér einu sinni á, að það væri bezt að spara til kirkjumála — ekki það, að ég vildi hafa þessar messur af fólkinu. Það hlustar nú raunar lítið á þær. Það mætti koma þeim miklu betur fyrir. Það væri hægt að fá prestunum meira verkefni, þannig að of lítið verkefni eyðilegði þá ekki. Það væri hægt að spara annan hvorn prest úti í dreifbýlinu. Svo var skipuð nefnd. Auðvitað voru meira og minna prestar í henni. Útkoman varð, að það var eytt meira, og þannig hefur þetta verið á öllum sviðum. Af því kemur þenslan. Ráðherrarnir eru eins og Salómon konungur; það er meira og meira eytt án tillits til þess, hvort gjaldþolið er fyrir hendi eða ekki. Svo eru lögregluþjónar rápandi út um allt land. Það er búið að fjölga þeim mikið og maður má ekki senda unglinga með traktor í kaupstað, án þess að þeir séu að hlaupa á eftir þeim, þótt þeir aki miklu betur en „löggan“ sjálf, til að vita hvort allt sé nú í lagi með merkið á traktornum, hann tryggður og drengurinn með öll réttindi. Þetta er orðin hálfgerð plága á manni. Þegar mennirnir hafa ekkert að gera, eru þeir eltandi mann alls staðar út af öllu — hvaða smámunum, sem er. Ég held, að það mætti fækka þeim víðar en á Keflavíkurflugvelli og væri hægt að fækka þeim meira þar en gert er.

Svo eru náttúrlega fjöldamargir liðir; það þarf að strika út fleiri hundruð millj. kr. Það þarf að taka almennilega á þessu. Það þarf að nota hagsýni í hlutunum. Það eru sumir menn, sem eyða helmingi meira heyi en aðrir bara af hreinni glópsku og eiga ekkert betri kindur. En það er ekki hægt að kenna fjármennsku. Það þarf hagsýni við sérhvert hneppi, sem maður gefur, og það þarf að nota hverja stund, sem gott er veður til þess að spara. Það er ómögulegt að gera fjármálaglópa að fjármálamönnum. Það er ekki hægt að gera latan hest að gæðingi. En það eru alls staðar möguleikar, ef reynt er að nota hagsýni og einhver samtök eru um það. Hitt er mér alveg ljóst, að það er ekki þægilegt, ef tveir flokkar eru ráðandi, jafnvel þó að einn sjái rétt og vilji koma góðum hlutum fram, þá er það ekki auðvelt í mörgum tilfellum, því að það eru stundum skrýtnir menn í skutnum, og því gengur illa að róa skipinu þess vegna.

Það eru t.d. fjölskyldubætur. Það er ekki nokkur ástæða til þess að vera að borga með tveimur fyrstu börnum hjá fólki, ef fólkið hefur sæmileg laun. Ég efast um, að það sé nokkur kostnaður við þau, því að foreldrarnir tolla betur heima og eyða minna í ferðalög og skemmtistaði, ef þau eiga einhverja krakka og hafa eitthvað til að hugsa um. Þá eru atvinnuleysistryggingar. Þær kosta líklega upp undir 100 millj. kr., þjóðin er skattlögð um þá upphæð á ári. En það mundi alveg nægja fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð að hafa vextina, og það væri m.a.s. hagnaður, ef ríkisstj. þóknaðist að vera ekki að fella gengið annað hvert ár. Það væri miklu betra, ef gengið fengi að vera í friði, að hafa bara vextina heldur en vera að skattpína fólkið á þennan hátt. Það er meira en framlög ríkisins. Það eru bæjarfélög og öll fyrirtæki í landinu, gjaldþrota fyrirtæki, sem eru pínd. Þarna eru stórir liðir. Það væri hægt að endurskoða öll menntamálin og gera þau miklu hagkvæmari og hagnýtari heldur en þau eru. Það væri, held ég, lítill skaði, t.d. að þessi kennsla í hagfræði væri lögð niður við Háskólann.

Ég veit eiginlega ekki, hvað verður af þessum fuglum, sem læra hagfræði þar. Ekki eru þeir í atvinnulífinu. Við heyrum aldrei til þessara spekinga, því þessir hagfræðingar, sem eru aðalmenn hér, hafa farið til útlanda, lært eitthvað þar og koma svo með vizkuna þaðan. Hún er innflutt, og raunar hefur aldrei neitt staðizt af því sem þeir hafa reiknað út, en það er nú annað atriði.

Hvað á það að þýða t.d. með lögfræðinga að láta alla vera 6 ár við lögfræðinám, einnig þá, sem ætla að verða óbreyttir rukkarar í bænum, stunda útlánastarfsemi eða gera skattskýrslur fyrir menn. Ég hélt, að það þyrfti ekki 6 ár til þess að læra þetta. Ég held, að það væri hægt að hafa einhver þrep á þessu og láta 3 ár nægja handa þessum mönnum, en hafa svo aftur lengra nám fyrir dómara. Þannig er þetta á ýmsum sviðum. Það þarf að endurskoða þetta allt saman.

Það þýðir ekkert fyrir stjórnarandstöðuna að skammast út af þessu, að það sé eytt of miklu í hlutina og þora svo aldrei að benda á neitt. Ég er algerlega á móti því. Ég álít, að séum við að tala um það, að það eigi að lækka útgjöldin, sé skylt að benda á það. Ég væri oft búinn að koma með till. í þessa átt, ef ég væri ekki alveg fyrir fram viss um, að þær yrðu kolfelldar. Það er alveg sama, þó að við færum að koma með eitthvað, hvort það væri heldur ég einn eða fleiri, það yrði auðvitað fellt. Og það var t.d. búið að benda á sumt af þessum sparnaðarliðum, sem hæstv. fjmrh. kom með í þessum bandormi sínum eða hvað hann var kallaður. Það var búið að benda á það áður, en það var auðvitað ekkert hlustað á það, þannig að við höfum afsökun, þó að við séum ekki að leggja fram sparnaðartill., því að það er ómögulegt að spara neitt, nema það komi við einhvern. Það er útilokað. Það var réttilega tekið fram af hæstv. fjmrh., þegar hann var að ræða um þetta mál. Það er ekki hægt að spara peninga, án þess að það komi einhvers staðar óþægilega við. Við verðum að athuga, að nú er gjaldþolið lítið. Það var hægt að greiða þessa skatta 1965 og 1966, en þjóðin getur ekki greitt jafnmikið í ár. Og svo á að bæta ofan á alla þá kássu, sem fyrir er. Það er raunar liðið á árið, en það er gert ráð fyrir því, að þessir skattar verði hátt á annað hundrað millj. kr. á ári. Ég vil ekki fara þá leið. Ég er ekki að deila á þá, sem frv. hafa lagt fram. En ég álít ekki skynsamlegt að knýja það fram og alls eigi skynsamlegt fyrir ríkisstj. Ég held satt að segja, að ríkisstj. sé nógu illa liðin nú hjá bílstjórunum, þó að hún bæti þessu ekki við. Ég hef alltaf látið mér annt um hana, af því að ég er mannvinur. Ég álít, að ríkisstj. sé alls ekki of vinsæl hjá þeim.

Svo er náttúrlega annað, hvernig á að byggja upp þessa varanlegu vegi. Við verðum að gera það upp við okkur. Þetta er alveg rétt, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. var að tala um hér áðan. Fólkið, sem ekki nýtur beztu veganna, er látið borga þá. Það er búið að fara inn á þá leið að skattleggja mennina, sem aka um vegina, með vegaskattinum suður á Reykjanes. Út af fyrir sig var ég í vafa um; hvort sú stefna væri rétt, þó að ég viti, að það borgar sig fyrir þá að borga vegagjaldið. En það kemur mönnum í illt skap að þurfa að stoppa til að taka upp peningana. En úr því að þeir stoppa og borga skiptir það ekki miklu, hvort þeir borga 10 kr. meira eða minna. Þetta er aðallega sálrænn hlutur. En ég veit, að þeir vinna þetta upp einungis með benzínsparnaði. En er þá ekki rétt að halda þessu áfram, láta þá, sem nota vegina, greiða þá, leggja veg austur fyrir fjall og láta umferðina borga hann. Ég hygg, að þeir spari það í benzíninu, þegar lítrinn kostar á tíundu krónu. Það er fljótt að koma, að maður tali nú ekki um slitið á bílunum. Og það þarf ekki að leggja þetta á fólkið, sem aldrei nýtur þess að fara þessa vegi. Svo gæti Seðlabankinn lánað, og það væri ekkert illa til fundið, þó að hann léti t.d. í þetta þessa okurvexti, sem hann tekur af hinum bönkunum. Það verða anzi margar millj. kr. í ár. Hann lánar þeim yfirdráttinn fyrir 16%.

Svo er annað, sem talsvert er búið að tala um, og það eru þessar skuldir. Satt að segja þurfum við mjög að vara okkur á að taka ekki óhófleg lán í vegi, því að vextirnir eru drjúgir. Ég er ekki að álasa ríkisstj. fyrir þau lán, sem hún hefur tekið. Það skiptir miklu máli að geta lokið Reykjanesbrautinni og framkvæmdum eins og t.d. Strákagöngunum. Það var verk sem þurfti að taka í einu, og í þannig tilfellum getum við sætt okkur við að taka lán, og þáð getur verið skynsamlegt og rétt. En að fara að taka fleiri hundruð millj. kr. að láni til þess að leggja vegi og þurfa svo að borga vexti af því, ef það er ekkert sérstakt sem knýr á með að ljúka vissum hluta í einu, tel ég það mjög mikið vafamál. Við verðum að athuga það, að tökum við stórlán, verðum við að hafa möguleika til þess að standa í skilum með það. Ég hefði haldið, að það væri réttara að fara hægara í bili. Það gerir ekkert til, þó að frv: sé lagt fram og rætt, en ég held, að það væri rétt að láta það ekki fara í gegn á þessu þingi, heldur athuga málin betur. Ég skil það vel, að einhvern veginn þarf að fá peninga til þess að geta staðið við þá áætlun, sem búið er að gera á næsta ári. Mér skilst, að það sé ekki hægt nema fá meira fé á einhvern hátt. Það er ekki hægt að breyta fjárl. héðan af. Það er varla hægt að búast við, að það verði hringlað meira í þeim eða þeim breytt svo, að sparað verði fé fyrir ríkið í þetta sinn.

En það væri hægt að taka lán, og vitanlega getur Seðlabankinn hjálpað með brbl., ef vill, og væri þá ekkert of góður til þess að lána vaxtalaust, finnst mér, einhverja upphæð. Hann getur þá búið til pínulítið meira af seðlum; það ætti ekki að gera neitt. Hann þarf ekki að borga vexti af þeim. Það er eðlilegt, að seðlaveltan aukist eitthvað, þegar alltaf er að minnka verðgildi hverrar krónu. En það má ekki ganga of langt í því. Hann hefði einhver ráð með svona 50–60 millj. kr. En í versta tilfelli, ef ráðh. telur ógerning annað en að fá einhvern veginn meira fé, þá yrði t.d. einn liðurinn tekinn núna og hitt fátið bíða og athugað, hvort ekki væri hægt að fá ríkissjóð til þess að gefa eitthvað eftir af því, sem hann fær af umferðinni, og draga þá úr öðrum útgjöldum og gera það meira en gert var með þessum bandormi.

Það þarf að gera miklu stærri átök, ef gagn á að vera að því. Það þarf að spara hundruð millj. kr. Í versta tilfelli þarf að samþykkja einn liðinn af þessum þremur, sem í frv. eru. En ég er á móti því að bæta þessu fyrst á bifreiðaeigendur, og svo velta þeir því yfir á atvinnulífið nema þeir, sem eru með einkabílana; þeir geta það náttúrlega ekki. Og þá kemur það á launafólkið í landinu, sem ekki þykist vera of vel haldið. Ég held, að það sé of langt gengið að knýja þetta fram eins og þetta er. Ég held, að það sé ekki hyggilega gert, og ég held, að ríkisstj. geri sig ekki vinsæla á því.

Ég veit vel, að menn vilja vegi. Það er hægt að heimta og heimta. Þegar ég var að byggja íbúðarhús, þá varð ég að flytja bæði sementið og mölina á klökkum. Og við, sem vöndumst þessum erfiðleikum getum ómögulega verið að vanþakka þá breytingu, sem orðin er. Ég veit vel, að það er æskilegt að hafa betri vegi, en það eru takmörk fyrir, hvað fólkið getur borgað. Það eru takmörk fyrir, hvað hægt er að leggja á það þunga skatta. Það þýðir ekkert að heimta hluti nema geta bent á einhver a leið til að afla fjármagnsins til framkvæmdanna. Ég álít, að við ættum að athuga vel, hvort leiðin á ekki að vera sú sama og var farin suður á Reykjanesi, þ.e. að láta þá greiða vegina, sem nota þá. Sanngjarnast væri það, því að hinir, sem aldrei nota þá, verða annars að borga skattana, en njóta ekki neins af ávöxtunum af því, að þessar vegabætur eru gerðar.