06.04.1968
Neðri deild: 92. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

179. mál, vegalög

Frsm. minni hl. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Efni þessa stjfrv. er í aðalatriðum það, að afla Vegasjóði tekna umfram þær tekjur, sem hann hefur nú. Áætlað er, að þessar viðbótartekjur, sem Vegasjóður mundi fá samkv. þessu frv., muni nema 109 millj. kr. á yfirstandandi ári, en 180–190 millj. kr. á næsta ári. Eins og hv. frsm. meiri hl. n. drap á, eru alþm. hvar í flokki, sem þeir standa, sammála um það, að mikil þörf sé á aukningu á tekjum Vegasjóðs, enda er það sýnilegt, að verði það ekki. gert, þá muni þjóðvegirnir að meira eða minna leyti ganga úr sér og jafnvel grotna niður vegna skorts á viðhaldsfé annars vegar og hins vegar vegna þess að þá verði ekki haldið áfram uppbyggingu vegakerfisins, eins og þó allir vilja.

Um þetta frv. er hins vegar ágreiningur, en ágreiningur er aðeins um það, hvernig eigi að afla fjár til vegamálanna. Ég veit ekki, hvað hv. frsm. meiri hl. n. hefur átt við, þegar hann talaði um það hér áðan, að það væri yfirborðslegt að vilja fá betri vegi, en vilja ekki samþykkja till. um fjáröflun. Ef hann hefur átt við þetta frv., þá er þetta á misskilningi byggt hjá honum, því að brtt. minni hl. n. fela í sér alveg jafnmikla tekjuöflun fyrir Vegasjóð eins og er í frv. sjálfu, þegar frá er liðið þetta ár. Það skortir ekki á vilja okkar í minni hl. n. að afla Vegasjóði eða vegakerfinu í landinu tekna. Við viljum aðeins gera það með öðrum hætti en ríkisstj. og stuðningsmenn hennar.

Þarna er stefnumunur á afgreiðslu máls. Ríkisstj. og hennar stuðningsmenn vilja afla Vegasjóði fjár eingöngu með bifreiðasköttum, sköttum á bifhjólum, hjólbörðum, varahlutum og benzíni. Við teljum, að það sé ekki hægt að ganga, a.m.k. eins og sakir standa, lengra í þessu en búið er að gera. En eins og mönnum er kunnugt, þá eru allar tekjur Vegasjóðs nú fengnar með þessum hætti — með slíkum sköttum sem þessum. Við teljum hins vegar, að eins og nú er komið verði ríkissjóður í einu eða öðru formi að taka við og fara að leggja Vegasjóði fé, sem hann nauðsynlega þarf á að halda. Og það eru fleiri en við, sem eru þessarar skoðunar, eins og sést á bréfi frá Landssambandi vörubifreiðastjóra, sem birt er með nál. minni hl. n. Segja þeir þar sitt álit á þessu máli og mótmæla harðlega þessu frv.

Þar að auki kom annað bréf í dag svipaðs efnis, þar sem sérleyfishafar hafa margt við þetta frv. að athuga, og ég get ekki látið hjá líða að skýra frá því, að vörubifreiðaeigandi sagði mér, þegar ég var að leggja af stað á þennan fund, að nú stæði til athugun á því, hvort vörubifreiðaeigendur ættu ekki að stöðva akstur og leggja bifreiðum sínum, ef ekki fáist viðunandi breytingar á þessu stjfrv. Ég vil af þessu tilefni leyfa mér að spyrja hæstv. samgmrh.: Hefur hann orðið var við, að slík hreyfing sé á ferðinni, eða er þetta einhver misskilningur hjá þessum vörubifreiðaeiganda, sem skýrði mér frá þessu áðan? Ég get endurtekið það, að þessi vörubifreiðaeigandi skýrði mér frá því áðan, þegar ég var að fara af stað hingað á fundinn, að það væri núna í athugun hjá þeim að stöðva akstur, ef ekki fengjust viðhlítandi breytingar á þessu frv. Ég hef ekkert fyrir mér annað í þessu en þetta, sem þessi eini bifreiðaeigandi skýrði mér frá.

Minni hl. n. vill auka tekjur Vegasjóðs ekki síður en ríkisstj. og hennar stuðningsmenn, en hann vill gera það með þeim hætti að þessu sinni, að ríkistekjur af bifreiðum, þ.e. leyfisgjöld, sem gengið hafa til ríkissjóðs hingað til, verði nú afhentar Vegasjóði frá og með 1. jan. 1969. Þá mundi Vegasjóður fá með þeim hætti á því ári og síðar engu minni tekjur en hann á að fá með þessu frv. með þessum skattaálögum, sem felast í þessu frv. Við höfum því fullan hug á því, að að því sé unnið að afla Vegasjóði tekna. Á fundi samgmn. í fyrradag, þar sem hæstv. samgmrh. var viðstaddur, spurði ég hann að því, hvort hann gæti ekki hugsað sér að leita samkomulags um fjáröflun handa Vegasjóði þetta eina ár — 1968, en láta bíða frekari fjáröflun til næsta þings, og hún verði ákveðin þar, um leið og vegáætlun verður gerð til fjögurra ára, og láta þetta fylgjast að. En þessu harðneitaði hæstv. ráðh. Þegar svo var komið, að ekki varð um þokað, hvað þetta snertir, gátu nm. ekki orðið samferða um afgreiðslu þessa máls.

1963 tókust samningar milli ríkisstj. og stjórnarandstöðuflokkanna á Alþ. um ný vegalög. Bifreiðaskattar voru þá hækkaðir, en því fylgdi önnur ráðstöfun, sem var lögð mikil áherzla á af hálfu stjórnarandstæðinga þá og ríkisstj. féllst á. Hún var sú, að ríkissjóður skyldi leggja fram fé til vegamálanna árlega á fjárl., og um þetta var sett sérstök gr. í l., 89. gr. vegal., og þessi gr. er í fullu gildi enn þann dag í dag, því að henni hefur ekki verið breytt. Skyldan hvílir á ríkissjóði að leggja fram þetta fé engu síður en 1964, þegar honum var gert að leggja fram fé samkv, vegáætlun, sem gilti fyrir eitt ár, og nokkru síðar í vegáætlun, sem sett var til fjögurra ára. Fjárframlagið úr ríkissjóði eftir þetta samkomulag 1963 var um 47 millj. kr. á fjárl. 1964 og jafnhátt á fjárl. 1965, en þá gerist það á þessu ári 1965, að þetta framlag er fellt niður úr fjárl. þrátt fyrir samninginn um vegal., þrátt fyrir yfirlýsingu hæstv. samgmrh. á Alþ. um, að þetta framlag yrði alls ekki lægra á næstu árum en þarna var þá ákveðið, og þrátt fyrir það, að Alþ. samþykkti vegáætlun til fjögurra ára með 47 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði hvert ár, og ætti það því að standa svo enn þann dag í dag, því að vegáætlunin er enn í gildi. Ákvæði vegal., hvað þetta snerti, stóð því ekki lengi. Það er að segja í framkvæmd, þó að það standi á pappírnum enn þann dag í dag.

Ég býst við, að það hefði komið sér vel nú, hefði þessari reglu verið fylgt, eins og samið var um og sett voru l. um. Þetta var að vísu ekki há upphæð þá — 1965 — 47 millj. kr. miðað við heildartekjur Vegasjóðs þá. Þó nam þetta sem svaraði 1/4, af þeim tekjum Vegasjóðs, sem hann fékk með sköttum. Ef Vegasjóður ætti nú kost á hlutfallslega svipuðu framlagi, þ.e. sem svaraði 1/4 hluta af sköttunum, sem til hans renna, ætti þetta að nema um 111 millj. kr. á næsta ári miðað við, að þessir skattar samkv. frv. verði samþykktir, en náttúrlega minna, ef þeir verða ekki samþ., en há upphæð samt.

En hvers vegna féll þetta framlag ríkisins til Vegasjóðs niður? Var það bara vegna þess, að ríkissjóður hafði ekki efni á að greiða þetta til veganna. Nei, það er ekki af því, því að sama árið og ríkisstj. felldi niður þetta framlag var mörg hundruð millj. kr. tekjuafgangur hjá ríkissjóði — mörg hundruð millj. kr. tekjuafgangur, þ.e. á því ári, sem það féll niður — árinu 1966. Ef ég man rétt, ætla ég, að þessar tekjur ríkissjóðs umfram fjárl. hafi numið milli 800 og 900 millj. kr., svo að það hefði ekki verið neitt kraftaverk að leggja fram 47 millj. kr. til Vegasjóðs, eins og upprunalega var ætlazt til. Ég er því þeirrar skoðunar, að það sé ekki ástæðan, að hæstv. ríkisstj. telji ríkissjóðinn ekki færan um að leggja nokkurt fé til vegamála í landinu, heldur hljóti þetta að stafa af því, að hún telur þetta óheppilega leið. Hún telur miklu eðlilegra og æskilegra að leggja allt saman sem skatta á umferðina, skatta á bifreiðarnar og benzínið og það annað, sem til akstursins þarf. En eins og ég gat um áðan, telur minni hl. n., að það sé mjög viðsjárvert að fara slíka leið nema að einhverju ákveðnu marki. Eftir það verði að koma til framlag úr ríkissjóði eða annað, sem jafngildir því. Þess vegna leggur minni hl. n. til, að leyfisgjöld af bifreiðum gangi hér eftir til Vegasjóðs, en fjárþörfinni þetta ár verði mætt með lántöku, og er önnur till. okkar um þetta efni á þskj. 528, þar sem lagt er til, að ríkisstj. verði heimilað að taka lán til greiðslu á kostnaði við vegaframkvæmdirnar 1967 og 1968 allt að 109 millj. kr. eða sömu upphæð og gert er ráð fyrir í þessu frv., að til þess þurfi.

Við lítum auk þess svo á, að eins og nú er ástatt í landinu — ekki aðeins hjá einstaklingum og atvinnufyrirtækjum, heldur almenningi — eins og árferðið er núna, sé það mjög varasöm stefna að leggja enn skatta ofan á það, sem fyrir er, á bifreiðar eða á umferðina í landinu, því að allir vita, að þeir, sem stunda akstur, hvort sem það er með vörubifreiðum eða öðrum bifreiðum, borga ekki þessa skatta úr eigin vasa. Auðvitað leggja þeir alla þessa skatta á þjónustuna, á flutningsgjöldin, og þetta kemur þar af leiðandi niður á öllum þeim, sem þurfa á flutningum að halda, og það eru nú orðið æðimargir landsmenn, ef ekki flestir, þar sem vöruflutningar á landi færast nú mjög í vöxt — svo mjög, að það eru orðnir miklu meiri flutningar með vörubifreiðum út um landið en með skipum Skipaútgerðar ríkisins. Afleiðingar af því að stórhækka skatta á þessum farartækjum hljóta því að verða þær að auka á rekstrarkostnað atvinnufyrirtækja, hækka verðlag nauðsynja og auka verðbólguna. En manni hefur skilizt, að það væri frekar þörf á því að sporna við slíku, eins og nú er ástatt.

Hæstv. samgmrh. lét orð um það falla við 1. umr. þessa máls, að ætti ríkið að fara að leggja fé til Vegasjóðs, yrði að hækka aðra skatta til þess að hæta ríkissjóði það upp. Hvernig fór ríkissjóður þá að 1964 og 1965, þegar hann lagði fram fé til vega? Einhvern veginn gat hann það þá, og það var ekki á hæstv. ríkisstj. að heyra, þegar hún samdi um þetta atriði við andstöðuflokkana, að ríkissjóður gæti það ekki. Nei, þvert á móti. Fjárl. voru þó ekki nema 2.700 millj. kr. 1964, þegar þetta framlag var á fjárl. til Vegasjóðs. Þau voru ekki nema 3.500 millj. kr. árið eftir — 1965, þegar þetta framlag var einnig á fjárl. En núna — 1968 — þegar fjárl. eru orðin um 6 þús. millj. kr., er ekki hægt að fá neitt framlag úr ríkissjóði. Ég held það séu heldur veik rök að halda því fram, að þessar skattaálögur þurfi að koma til, vegna þess að ríkissjóður geti ekki lagt fram einhvern hluta af því fé, sem Vegasjóður þarf. Eins og ég nefndi, voru umframtekjur ríkissjóðs svo miklar eitt árið og reyndar fleiri ár, að það hefði ekki þurft að koma til neinnar sérstakrar skattlagningar á almenning til fjáröflunar fyrir ríkissjóð, þó að þetta framlag hefði haldizt í vegáætlun eins og það var ákveðið.

Að lokum hvað þetta snertir, má enn minna á það, að hæstv. ríkisstj. hefur talið sig geta lækkað ríkisútgjöld á þessu ári um 139 millj. kr. Það bendir til þess, að hún hafi alltaf getað það og ekki síður á velgengnisárunum, sem voru hér áður. Hún hlýtur því að hafa vanrækt þennan sparnað, sem hún hefur tekið upp nú, og sennilega má alltaf spara eitthvað og meira en enn er komið fram. Auðvitað verður að reyna að lækka ríkisútgjöld til þess að geta fullnægt brýnustu þörfum eins og því að koma á viðunandi vegakerfi í landinu.

Hæstv. samgmrh. ræddi nokkuð um þær stórframkvæmdir í vegamálum, sem átt höfðu sér stað á undanförnum árum. Þetta er alveg rétt hjá honum. Það hafa átt sér stað mikilsverðar framkvæmdir í vegamálum á einstökum vegarköflum í landinu á undanförnum árum, og eru það fyrst og fremst Reykjanesbraut, Siglufjarðarvegur, Ennisvegur, Múlavegur og nokkrir vegakaflar á Vestfjörðum. Þetta voru mikilsverðar framkvæmdir og til stórbóta. En fyrir hvaða fé var þetta gert? Var það fyrir ríkisframlag? Var það ríkissjóður, sem byggði upp þessa kafla með sínu eigin fé? Nei, þetta var svo að segja allt geit fyrir lánsfé — svo að segja allt. Nú getur verið nauðsynlegt, eins og ég hef áður sagt, og mjög hagkvæmt að taka lán til vegagerðar, enda verða þau væntanlega tekin að einhverju leyti framvegis eins og á undanförnum árum. En það verður að hafa það jafnframt í huga, að með því er verið að fresta til næstu ára greiðslu þessara framkvæmda, og það verður að sjá það fyrir, um leið og lán eru tekin, að möguleikar séu til þess að greiða vexti og afborganir af þessum lánum. Vegaskuldir um síðustu áramót voru um 390 millj. kr., þegar með eru taldar þær hækkanir á lánunum, sem stafa af gengislækkuninni, því að sum lánin eru í erlendri mynt. Önnur lán eru vísitölutryggð, og vextir og afborganir af þeim hækka í samræmi við það, sem vísitala byggingarkostnaðar hækkar. Við vitum því ekki, hvað þarna getur komið til viðbótar við þær fyrri greiðslur, sem verið hafa á þeim lánum. En hvaða fé hefur Vegasjóður til þess að greiða með vexti og afborganir af lánum? Hann hefur ekkert fé til þess annað en nýbyggingaféð, fjárveitinguna til nýrra þjóðvega. Af henni verður að taka þessar greiðslur, hverjar sem þær eru, vexti og afborganir af lánum.

Þegar vegaskýrslan var til umr. hér fyrr á þessu þingi, spurði ég hæstv. ráðh. m.a. um það, hversu miklar mundu verða afborganir og vextir af vegalánum á árinu 1968. En því miður fékk ég ekkert svar við því. Ég varð því að gizka á þetta og taldi, að þær mundu verða 64–67 millj. kr. á þessu ári. Nú hefur komið svar við þessu hjá hæstv. ráðh. í ræðu hans við 1. umr. þessa máls. Og þá segir hann, að þessi upphæð sé 641/2 millj. kr. En fjárveitingar til nýbygginga vega, sem á að greiða þessa upphæð með, eru á þessu ári ekki nema 571/2 millj. kr. Hún er 7 millj. kr. minni en skuldin, sem á að greiða. Ég sagði það þá, og ég segi það enn, að það þarf sérstakan snilling til þess að geta borgað 641/2 millj. kr. með 571/2 millj. kr. M.ö.o., allt nýbyggingaféð fer til þess að borga vexti og afborganir af skuldum — og dugar ekki til. Þannig er ástandið orðið núna. Og af hverju er þetta? Af því að menn freistuðust til þess að taka lán til vega án þess að auka fjárveitinguna til nýbygginga vega til þess að geta staðið undir öllum þessum greiðslum og nýbyggingunum að auki. Vegna þess að þetta var ekki gert, er nú allt komið í sjálfheldu, og þetta frv. er m.a. til þess að losna úr þessari sjálfheldu.

Þm. spurðu hæstv. ráðh. að því í vetur, þegar vegaskýrslan var til umr., hvað mundi verða unnið fyrir mikið lánsfé í vegum á yfirstandandi ári. Var þá jafnvel spurt um einstaka vegi, hvort yrði unnið í þeim fyrir það lánsfé, sem ráðgert var í vegáætluninni, en hæstv. ráðh. kvaðst ekki geta svarað þessu á því stigi málsins. Þegar ég kom á fund samgmn. í fyrradag og hæstv. ráðh. var þar staddur, spurði ég hann enn að þessu, því að ég taldi það mikils virði að fá að vita það, hvað yrði unnið um landið allt fyrir mikið lánsfé að byggingu nýrra vega. Hæstv. ráðh. svaraði því, að hann gæti enn ekki svarað þessu, af því að framkvæmdaáætlun ríkisstj. lægi ekki fyrir. En svo kom hæstv. dómsmrh. í sjónvarpið í gærkvöldi. Þeir komu nú reyndar tveir ráðh. í sjónvarpið í gærkvöldi; þeir eru nefnilega farnir að verða þar álíka tíðir gestir og steinaldarmennirnir. Hæstv. dómsmrh. skýrði svo frá í viðtali í sjónvarpinu, að framkvæmdaáætlunin lægi fyrir og hún yrði lögð fyrir þingið núna eftir páskana. En þótt ekki hafi fengizt enn svör við því, fyrir hvað mikið lánsfé verði unnið á komandi sumri við nýbyggingu vega, felst samt svar í öðrum upplýsingum hæstv. ráðh. sem fram kom í umr. um daginn. Hann sagði nefnilega, að vextir og afborganir af vegalánum mundu fara lækkandi á komandi ári. Hvað þýðir það? Það þýðir það, að það verða ekki tekin fleiri lán eða a.m.k. ekki meiri lán en sem nemur afborgunum, því að vextir og afborganir geta ekki lækkað, ef lánin hækka.

Ég held, að með þessum upplýsingum hæstv. ráðh. hafi þm. fengið svar við því svona í aðalatriðum, hvort það verði unnið að vegum í kjördæmunum þeirra fyrir lánsfé 1968, eins og ráðgert var í vegáætluninni, eða ekki. Mér skilst, að það muni verða af skornum skammti, svo að ekki sé tekið dýpra í árinni. En vonbrigðum hlýtur það að valda, þegar menn hafa það fyrir sér í vegáætlun, að í þessum og þessum vegi skuli unnið fyrir 1–11/2 millj. kr., 2–3 millj. kr. sumarið 1968, og svo verður það alls ekki gert. Til hvers er nú þessi kafli vegáætlunarinnar orðinn, ef þannig verður haldið á málunum hér eftir, eins og nú fer að verða. Ég held það hefði verið miklu nær að vera ekki með þessar samþykktir í vegáætlun í fyrra; það er nefnilega ekki nema tæpt ár, síðan hún var samþ. — vegáætlunin endurskoðuð. Það hefði verið betra að vera ekki með þessar áætlanir, að unnið skyldi við nýja vegi fyrir lánsfé upp á 288 millj. kr. á tveimur árum, þegar útkoman er svo að verða þessi.

Hæstv. ráðh. gat þess, eins og ég hef áður nefnt, að á næsta ári mundi sú tekjuviðbót, sem Vegasjóður fengi samkv. þessu frv., verða um 180–190 millj. kr. Nú liggur ekkert fyrir um það, hvernig á að nota það fé eða neitt fé Vegasjóðs, því að vegáætlun verður ekki samin fyrr en á næsta þingi. En hæstv. ráðh. var samt með nokkrar hugleiðingar um það, hvernig sér dytti í hug, að þessi tekjuviðbót skiptist á milli framkvæmdanna. Hann fullyrti ekkert um það. Hann nefndi þetta sem sínar hugmyndir um, hvernig maður gæti hugsað sér að skipta þessum 190 millj. kr., sem nú ættu að koma til viðbótar á næsta ári. Og hann nefndi, að til hraðbrauta færu 110 millj. kr., en til stórframkvæmda annars staðar, eins og ég held hann hafi orðað það, færu um 80 millj. kr. Ég verð að segja það, að það er auðvitað hægt að gera þetta. Ég sé ekki, að það sé neitt til fyrirstöðu, að hraðbrautir fái af þessari upphæð 110 millj. kr., og ég álít, að það væri mjög æskilegt, að það væri hægt, því að svo aðkallandi er það að koma á hraðbrautum, þar sem umferðin er mest í landinu. En hitt er mér óljósara, hvað er átt við með 80 millj. kr. til stórframkvæmda annars staðar. Hvað verður þá til hinna smærri framkvæmda annars staðar, ef öll viðbótin á að fara í þetta og þegar jafnframt verður að taka af þessu nýbyggingafé 65–70 millj. kr. á ári í afborgun og vexti af lánum? Mér er þetta ekki ljóst.

Ég er alls ekki að andmæla þessari hugmynd hæstv. ráðh. — alls ekki. En maður verður náttúrlega að gera sér grein fyrir því samt, hvort þetta kemur þá eitthvað óþægilega við aðrar aðkallandi og nauðsynlegar vegaframkvæmdir í landinu, því að ekki eru hraðbrautirnar þó nema sáralítill hluti af vegalengd þjóðveganna alls. Samkv. þessum upplýsingum um tekjuaukninguna með þessu frv. ættu heildartekjur Vegasjóðs á næsta ári að geta orðið um 530 millj. kr., eins og hæstv. ráðh. nefndi réttilega. Við skulum hugsa okkur, að þetta verði gert — 110 millj. kr. verði látnar í hraðbrautir. Þá eru 420 millj. kr. eftir til allra annarra framkvæmda í vegamálum á því ári. Mönnum finnst nú þetta kannske allsæmileg upphæð, en við skulum gera okkur grein fyrir henni með því að bera það saman við fjármagnið, sem var úr að spila á árinu, sem leið; ég held við áttum okkur bezt á því. Á árinu, sem leið, voru tekjur Vegasjóðs samkv. vegáætlun 427.6 millj. kr., en auk þess voru notaðar umfram vegáætlun 30 millj. kr., sem nú eru í skuld og á að greiða með þeim tekjum, sem hér eru ráðgerðar, og loks var unnið fyrir lánsfé í vegum í fyrra fyrir 571/2 millj. kr. Raunverulega var þá varið til vegamála á árinu í fyrra 515 millj. kr. En það fór sama og ekkert af því í hraðbrautir. Ég held ég muni það rétt, að það hafi verið um 10 millj. kr. Það fór í allt annað.

En hvernig lítur dæmið þá út 1969? Eigum við þá að verja 420 millj. kr. í framkvæmdir utan hraðbrauta næsta ár, sem við höfðum 505 millj. kr. til í fyrra? Eigum við virkilega að hafa 85 millj. kr. minna fé úr að spila á næsta ári? Þetta sýnir ekkert annað en það, að hraðbrautir eru það mikil fyrirtæki og það dýr fyrirtæki, að það verður að afla miklu meira fjár en jafnvel er gert ráð fyrir í þessu frv., svo að viðunandi sé, því að ég hugsa, að enginn okkar vilji minnka framkvæmdir annars staðar á landinu, þó að við byrjun á hraðbrautum. Og hvernig á þá að fara að, ef við viljum ekki minnka framkvæmdirnar annars staðar — utan hraðbrautanna? Erum við þá ekki komnir í sama farið aftur, þ.e. að taka lán; ég er hræddur um það.

Það hefur nokkuð borið á góma, hvað muni kosta hver km í hraðbraut, og hæstv. ráðh. nefndi við 1. umr. þessa máls upphæðina — 5 millj. kr. Það væri hægt að hugsa sér, að það kostaði 5 millj. kr. hver km. Hann fullyrti ekkert annað en það, að það mætti gera áætlun um það. Vegamálastjóri var um þetta spurður á fundi samgmn., og hann vildi engu um þetta svara. Hann sagði, að það gæti vel farið svo, að það kostaði ekki nema 5 millj. kr. hver km, en kostnaðurinn gæti líka orðið miklu meiri en þetta. Og eftir því sem mér skilst, mun hver km í Reykjanesbraut hafa kostað eitthvað yfir 7 millj. kr., og þó er hún byggð, þegar allt var ódýrara en nú er. Ég held, að það sé mjög óvarleg áætlun að hugsa sér km á 5 millj. kr. að meðaltali í hraðbraut. Það væri nær að áætla 7 millj. kr. ef ekki meira.

Ég minnist þess líka úr vegaskýrslu ríkisstj. fyrir 1967, að þar er sagt frá undirbúningi hraðbrautar milli Blesugrófar og Breiðholts, það hafi verið undirbyggður 1 km og hann muni hafa kostað 8 millj. kr. — undirbyggingin að 1 km hafi kostað 8 millj. kr. Annars get ég ekki látið hjá líða að drepa á það um leið, að mér kemur það einkennilega fyrir sjónir, að vegur úr Blesugróf upp í Breiðholt tilheyri Vegasjóði. Hvernig sem á því stendur, er í vegáætluninni, sem nú er í gildi, heimild til að taka 8 millj. kr. lán til þessa vegar. Blesugróf er sannarlega ekki annað en partur af Reykjavík, og Breiðholt er heldur ekkert annað en partur af Reykjavík. Hvernig getur vegur milli Blesugrófar og Breiðholts komið Vegasjóði við? Reykjavík og allir kaupstaðir landsins fá sitt fé úr Vegasjóði sérstaklega — 121/2%, sem þeir eiga að leggja fyrir sína þjóðvegi. Ég get ekki skilið það á annan veg en svo, að hér sé hreinlega um gatnagerð að ræða í Reykjavík. En það á ekki að koma Vegasjóði við.

Ég vil þá víkja með örfáum orðum að viðhaldsfénu, viðhaldskostnaði á þjóðvegum. Í því frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til, að á árinu 1968 verði viðhaldsféð aukið um 17.3 millj. kr. frá því, sem það er í vegáætlun. Vegamálastjóri upplýsti það á fundi samgmn., að þessi hækkun — þessar 17.3 millj. kr. — mundu ekki endast meira en sem svarar þeim verðhækkunum, sem stafa af gengislækkuninni. Þetta er því ekki raunveruleg hækkun. Þetta er aðeins til þess að mæta áhrifum gengislækkunarinnar. Við megum reikna með því, að viðhaldsféð á yfirstandandi ári miðað við sama verðlag og í fyrra verði eins og það er sett upp í vegáætluninni, þ.e. 145.2 millj. kr. Þarna er því ekki um raunverulega hækkun að ræða nema til að mæta dýrtíð. En í fyrra var þó varið til vegaviðhalds 160 millj. kr., þ.e. 139 millj. kr. á vegáætlun og 21 millj. kr. er var greidd þar að auki. Ég fæ því það út úr þessu dæmi, að viðhaldsfé eigi að verða raunverulega um 15 millj. kr. minna á þessu árí en það reyndist í fyrra. Þetta finnst mér heldur slæm tíðindi, því að ég veit ekki annað en menn séu yfirleitt sammála um það, að viðhaldi þjóðveganna í landinu sé ákaflega ábótavant, svo að þjóðvegir, sem heita svo, eru lítt færir, ef rigningar ganga, og slíkra vega þarf ekki lengi að leita t.d. á Vestfjörðum. En verður þá viðhaldsféð aukið á næstunni? Mér sýnist nú erfiðar horfur um það, en það getur enginn um þetta sagt, fyrr en kemur að því að semja vegáætlun. Mín persónulega skoðun er sú, að það mundi ekki veita af að auka viðhaldsféð um 40% — ég vil segja 50%, ef vel ætti að vera til þess að hafa viðhlítandi þjóðvegi í landinu. En þá fer vandinn að vaxa og möguleikarnir að rýrna fyrir því, að við getum lagt í stórvægilegar framkvæmdir í hraðbrautum, eins og við viljum þó og þurfum að gera.

Ég mun ekki, herra forseti, orðlengja þetta mikið meira. Ég get skilið það, að það er óheppilegt, að málið verði lengi til meðferðar hér í þinginu. Þáð er þess eðlis. En ég vil endurtaka það álit okkar í minni hl. n., að við getum ekki fallizt á að samþykkja þetta frv. í því formi, sem það er. Við teljum, að skattaálögur umfram þær, sem nú ganga til Vegasjóðs, geti ekki komið til greina eins og árferðið er nú og ástand yfirleitt. Slíkar álögur mundu auka á verðbólguna. Þær mundu auka rekstrarkostnað atvinnufyrirtækja og hækka verðlagið og þar með framfærslukostnað manna. Við teljum hins vegar, að það beri að láta Vegasjóði í té leyfisgjöld af bifreiðum, sem mundu strax frá byrjun næsta árs nema álíka mikilli upphæð og nú er ætlazt til að auka við með sköttum. Við teljum, að þetta sé vel fært — ekkert síður nú en fyrir 5 árum, en fjárframlag úr ríkissjóði kom til, og auk þess eru þessi leyfisgjöld ekki meira en 1/5 til 1/4 hluti af þeim 700–800 millj. kr. tekjum, sem ríkissjóður tekur nú af innflutningi bifreiða, benzíni, hjólbörðum og varahlutum — og í söluskatti þar að auki, eins og öllum er kunnugt. Fjárþörf Vegasjóðs á þessu ári teljum við hægt að leysa í bili með lántöku að því leyti, sem það er nauðsynlegt eða aðkallandi, og er þetta innihaldið í brtt. okkar á þskj. 528.