06.04.1968
Neðri deild: 92. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (954)

179. mál, vegalög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Mig langar til þess að koma með eina fsp. til hæstv. samgmrh.: Hvers vegna er bifreiðaeigendum ekki gefinn kostur á því ári tillits til stærðar bifreiðarinnar að setja í bifreið sína ökumæli og greiða eftir honum? Hvers vegna þarf að miða við, að bifreiðar þurfi að vega yfir 5 tonn? Það er vitað, að bæði ýmis fyrirtæki og bændur eiga dísilbifreiðar, sem eru 2–4 tonn og þessar bifreiðar eru margar hverjar ekki mikið notaðar. Ég get ekki séð annað en það sé í raun og veru brotinn á þeim réttur með þessu móti. Hvers vegna þarf að miða þarna við 5 tonn? Sannleikurinn er sá, að einmitt stærri bifreiðar eru þær bifreiðar, sem yfirleitt keyra gegn gjaldi eða eru í flutningum og koma þessu gjaldi í raun og veru yfir á aðra með hækkuðum töxtum á flutningsgjöldum en þessi minni fyrirtæki og t.d. bændur verða alveg að bera þetta sjálfir, og ég sé ekki annað, ef þessi lög verða samþ. svona, en þá verði þeir beinlínis neyddir til þess að leggja sínum bifreiðum. Og hvað hefst út úr því? Ég vil hérna mælast til þess í fullri vinsemd, að ráðh. athugi þetta. Þarna er kannske ekki um mjög stóran hóp að ræða, en þó nokkuð marga, og þetta kemur mjög illa við þá a.m.k. í mínu héraði. Það munu vera hér á Suðurlandi líka ýmsir bændur, sem eiga svona bifreiðar og nota þær að mestu leyti á túnum, og þetta er tilfinnanlegur skattur, þegar þetta er komið upp undir 30 þús. kr. gjald fyrir svona bíla. Það hefur komið fram og þarf ekki um það að ræða mikið, að það er mikil óánægja hjá þeim mönnum, sem eiga þessa bíla, yfir þessu frv. Þetta er þungt gjald, sem á þeim lendir. Það er t.d. gúmmí, sem kostar nú 10 þús. kr. Það mun kosta, eftir að þessi lög öðlast gildi, 12.500 kr., og þá kostar gangurinn undir þessa stærri bíla a.m.k. 15 þús. kr. meira en áður. Við þetta bætist svo það, að því er mér skilst, að menn, sem hafa borgað um 20 þús. kr. í skatta af þessum bílum, eiga að borga fast að eða yfir 40 þús. kr. núna, þannig að þetta virðist vera allmikill skattur á þessa menn, en auðvitað fer þetta allt saman — eða að miklu leyti — aftur út í verðlagið. Ég verð að segja það, að mér finnst ekki ára þannig, að það komi í raun og veru til mála að koma með nýja skatta á þjóðina, eins og útlitið er í dag.