08.04.1968
Efri deild: 84. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

179. mál, vegalög

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég mun ekki ræða þetta mál verulega hér við 1. umr. Hæstv. samgmrh. sagði, að sér hefði þótt afstaða framsóknarmanna og stjórnarandstæðinga í Nd. raunaleg, og ég verð því miður að auka enn á raunir hæstv. ráðh. Mér þykir það að vísu ekki skemmtilegt, því að ég veit, að þær munu vera nægar fyrir. En ég kemst ekki hjá því að lýsa því yfir hér strax, að ég tel ekki fært að leggja á þessa nýju skatta, sem þetta frv. ráðgerir, og ég skal færa nokkur rök að þeirri skoðun.

Eins og hæstv. ráðh. gat um, er hér um að ræða hækkun á sköttum á bifreiðir, þ.e. benzínskatturinn á að hækka um 1 kr., sem gerir 1.13 kr. í útsölu þegar það er komið til kaupandans, gúmmígjaldið á að hækka og þungaskatturinn til samræmis við benzínhækkunina. Samkv. útreikningi, sem ég sé, að gerður hefur verið í hv. Nd., eru samanlagðar hækkanir á þessum sköttum frá 1958 þær, að benzínlítrinn hækkar um 313%, þ.e. skatturinn á benzíni gúmmígjaldið hækkar um 500% og þungaskatturinn þetta frá 312–437% á þessu 10 ára tíma bili. Þegar var verið að semja um það við stjórnarandstöðuna árið 1963 að koma hér á nýrri skipan vegamála með nýjum vegal., var talið sjálfsagt, að hluti af tekjum Vegasjóðs kæmi úr ríkissjóði eins og verið hafði. Mig minnir, að þarna væri um að tefla 47 millj. kr. fjárhæð. En þetta var ekki gert nema einu sinni, að ég held, síðan var þetta ríkisframlag fellt niður, en í staðinn lögð ný gjöld á umræddar vörutegundir, benzínið óg gúmmíið, og svo þungaskatturinn hækkaður til samræmis við það, og nú er sem sé lögð fram till. um hækkun á þessum liðum enn. Þessar hækkanir eiga að gera samkv. útreikningi þeim, sem er í aths., um 109 millj. kr. á þessu ári miðað við gildistöku nú, þegar þingi lýkur, en um 150 millj. kr. á heilu ári. Hér er því ekki um neina smáræðis hækkun að ræða. Auk þess hefur mér verið sagt, án þess að ég þori neitt að fullyrða um það, að þessar tekjur muni vera nokkuð vantaldar, a.m.k. að því er benzínið snertir. Ég get ekkert fullyrt um það, en þær upplýsingar hef ég frá olíufélögunum. Náttúrlega má segja, að um það geti enginn sagt; það fer að sjálfsögðu eftir notkuninni. En mér skilst, að miðað við notkun s.l. árs mundi þessi benzínhækkun verða nokkuð hærri en hér er reiknað út, en það skiptir auðvitað ekki miklu máli.

Það er vissulega hægt að taka undir allt, sem hv. samgmrh. sagði um ástand vega. Það er mjög slæmt, og það er auðvitað mikil nauðsyn á að gera stórátak í vegamálunum. Það er auðvitað mál allra landsmanna ekki síður Reykvíkinga en annarra. Þar að auki er ástand veganna mjög augljóst Reykvíkingum, því að það þarf ekki annað en reyna að komast út úr borginni til þess að sjá, í hvaða ástandi aðalumferðaræðar landsins eru. Það má heita, að það sé næstum því ófært til Reykjavíkur hér austan úr sveitum vegna þess, hvernig brúin á Elliðaánum og vegakaflinn þar í kring er, og þegar ílóðin komu, sem skemmst er að minnast, þá mátti sannarlega ekki tæpara standa, að brúin færi ekki og borgin yrði vegasambandslaus. Þetta getur vitanlega ekki gengið. Það er alveg rétt. En jafnframt vil ég segja það, að mér finnst heldur ekki hægt að hækka verð á benzíni og gúmmíi og hækka þungaskatt eins og nú standa sakir, enda viðurkenndi hv. ráðh. það, að hér væri langt gengið í skattlagningu, og það er vissulega rétt. Og ég minnist þess, að þegar verið var að fjalla um sparnaðarfrv. svokallaða hér fyrir nokkru — og raunar miklu fyrr, eiginlega þegar fyrst var farið að fjalla um efnahagsmálaráðstafanir hv. ríkisstj. á þessu hausti, þá var því — og jafnan síðan — lýst yfir a.m.k. af hálfu hv. fjmrh., að nýjar skattaálögur kæmu ekki til greina. En hér virðist það vera svo, að vinstri höndin viti ekki, hvað sú hægri gerir, vegna þess að þegar hv. fjmrh. rökstyður sparnaðarfrv. sitt, þá er það fyrst og fremst á þeim forsendum, að ekki sé fært að leggja á þjóðina nýja skatta. Þegar svo er búið með harmkvælum að samþykkja svokallaðan sparnað, sem raunverulega var ekki sparnaður nema að litlu leyti, eins og áður hefur verið rakið, upp á nokkra tugi millj. kr., þá kemur hv. samgmrh. með þetta frv. — 150 millj. kr. nýjar álögur á þjóðina, þar af 109 millj. kr. á þessu ári, sem verða svo 150 millj. kr. miðað við heilt ár. Mér finnst lítið samræmi í þessu, ég verð að segja það.

Hv. ráðh. talaði um það, að þrátt fyrir þessar hækkanir yrði benzínverðið hér á landi ekki hærra en það er í nágrannalöndunum. Ég ætla mér ekki að rengja þær tölur, sem hv. ráðh. nefndi þessu til staðfestingar. Ég geri ráð fyrir, að þær séu réttar, og þá verður benzínverðið hér svipað og það er í næstu nágrannalöndum. En það er margt fleira, sem kemur til greina, þegar verið er að gera út bifreið en það eitt, hvað eldsneytið kostar. Þá er það fyrst og fremst kaupverðið. Og hvað skyldi kaupverð á bifreiðum hér vera miklu hærra en gerist í þessum löndum, sem hv. ráðh. nefndi og gat um benzínverðið í? Ég hef ekki útreikninga um það, en ég veit, að það er miklu hærra vegna þeirra háu leyfisgjalda, sem við höfum af bifreiðum og renna beint í ríkissjóð. Á borði mínu lá hér áðan eitt eintak af blaðinu Degi á Akureyri frá 6. apríl s.l. Þar er þessi klausa, en ég ábyrgist ekki, að hún sé rétt. Það verður þá hægt að vefengja það, ef svo er ekki, en hún er svona: Toyota Corona fob. í Danmörku kostar 60.608.00 ísl. kr. Kominn á götu í Reykjavík kostar hann 219.117.00 kr. Af þeirri upphæð fær ríkið 127.373.00 kr. Þetta er dæmi af þeirri skattheimtu, sem ísl. bílakaupendur þurfa að greiða, og sumum þykir álagningin mikil. Eins og ég sagði, þá les ég þetta hér — upp úr blaði. Ég hef ekki haft neinar ástæður til þess að kanna réttmæti þessarar fullyrðingar, en allir vita, að leyfisgjöldin eru há.

Hv. ráðh. upplýsti það hér áðan, að leyfisgjöldin væru 100%, og þóttist anzi góður að hafa þó getað lækkað þau, en 100% eru þau. Þetta kaupverð hefur vissulega sitt að segja í bílaútgerð hér, svo að það er ekki benzínið eitt, sem bílrekandinn þarf að reikna. Þar að auki vil ég segja, að bifreiðar séu hér enn nauðsynlegri en jafnvél í þeim löndum, sem hv. ráðh. nefndi. Fjarlægðir eru hér miklar milli staða og lítið um önnur samgöngutæki, járnbrautir t.d. engar, þannig að í öðrum löndum verður þá jafnframt að taka tillit til þess, að útgerð bifreiða verði ekki svo dýr, að hún verði óhagstæð í samanburði við önnur samgöngutæki, sem menn eiga völ á. Slíks þarf ekki að gæta hér. Við eigum engra annarra kosta völ en nota þessar bifreiðar, og mér finnst, að þrátt fyrir ástandið á vegunum, eins og það er, þá sé ekki fært að leggja þessa skatta á umferðina, meðan ríkissjóður hefur jafnmiklar tekjur af bifreiðaeigendum og umferðarmálum og raun ber vitni.

Ég hygg, að það hafi verið Félag ísl. bifreiðaeigenda, sem lét fyrir nokkru reikna það út, hverjar ríkistekjurnar væru af leyfisgjöldum af bifreiðum o.þ.h. sem renna beint í ríkissjóð; þær væru 590 millj. kr., og er þá söluskatturinn óreiknaður. Þess vegna má búast við því, að þegar áhrif þessarar síðustu gengislækkunar eru komin fram, þá verði þessi tala miklu hærri — menn hafa látið sér detta í hug 800–900 millj. kr. í þessu sambandi. Ég skal ekki fullyrða, hvernig þeir útreikningar eru undirbyggðir, en vafalaust verður talan miklu hærri en þessi tala, sem FÍB nefndi.

Hv. ráðh. sagði, að það væri ekki raunhæft að taka það fjármagn af ríkissjóði, sem þyrfti að fara til annarra nota, en ég segi, og það er mín bjargföst skoðun, að það er ekki raunhæft að leggja nýja skatta á almenning í því árferði, sem hv. ráðh. var að lýsa. Það er nýbúið að framkvæma hér gengisfellingu og hækka erlendan gjaldeyri um 33% í verði, en á sama tíma hafa kjör verið skert þannig, að aðeins þeir, sem hafa 10 þús. kr. mánaðarlaun eða lægri, fá verðhækkun vísitölunnar uppi borna í kaupi, og mér finnst, að það sé ekki hægt að setja þessar nýju álögur á, hversu mikil þörf, sem vegunum er á nýju fjármagni, og þar vil ég vissulega ekki draga úr því, sem hv. ráðh. sagði. En það er mín skoðun, að það verði að sjá til þess, að meiri hluti af álögum á umræddar vörutegundir, þ.e. bifreiðar, benzín og annað slíkt, gangi til Vegasjóðs en verið hefur samkv. gildandi reglum. Mér er ljóst, að það verða nokkurð mikil vandkvæði á því að gera það á þessu ári, vegna þess að það er búið að ganga eitthvað þrisvar sinnum frá fjárl. fyrir þetta ár, og ég ætla ekki að fara að gerast sérstakur talsmaður þess, að þau verði endurskoðuð einu sinn enn, þótt sjálfsagt mætti þar ýmsu breyta og lækka ýmsa pósta enn þrátt fyrir það, sem gert hefur verið í því efni. Þess vegna finnst mér, að það sé ekki óskynsamlegt þrátt fyrir það, sem hv. ráðh. hafði um þá till. að segja, að hugsa sér að gera þá breytingu á fjárl. næsta árs og næstu ára, að meiri hluti þessara tekna renni til Vegasjóðs en nú er ráðgert. Það má segja, að þessi tilhögun yrði til þess að tefja aðgerðir sem við megum illa við, að verði frestað, og ég hygg að það sé einmitt þess vegna, sem stjórnarandstæðingar í hv. Nd. hafi hugsað sér að leysa málið á þessu ári með lántökum. Mér finnst það ekki óskynsamlegt, og mér finnst það ekkert óraunhæft að hugsa sér að gera þessa breytingu. Ég er ekki á sömu skoðun og hv. ráðh. um það.

Hv. ráðh. var hér með hugleiðingar um t.d. 5 ára framkvæmdaáætlun um gerð hraðbrauta. Það er vissulega tímabært og þarf að gera þessa áætlun, en ég sé ekki að þessi áætlun sé í frv. Þetta voru hugleiðingar hv. ráðh. um framtíðarskipan þessara mála. Í frv. er aðeins gert ráð fyrir að ráðstafa með tilteknum hætti þeim tekjum, sem Vegasjóður fær nú á þessu ári, en mér finnst, að það hefði gjarnan mátt setja í frv. eitthvað svipað því, sem hv. ráðh. var hér að bollaleggja, því að vitnalega eiga alþm. rétt á því og ber raunar skýlda til þess líka að ákveða ráðstöfun þess fjármagns, sem þeir eru að leggja á þjóðina í formi skatta.

Ég skal svo, herra forseti, ekki vera að lengja þennan lestur að sinni. Þetta mál verður athugað í hv. samgmn. og það gefst tækifæri síðar til þess að gera aths. við það og brtt. um það, en ég vildi aðeins láta það koma fram nú strax, hver afstaða mín a.m.k. er til þessa frv.