09.04.1968
Efri deild: 85. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

179. mál, vegalög

Frsm. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Þingi því, er nú situr, er brátt að ljúka, svo að þm. eiga auðvelt með að gera nokkurt yfirlit um gang þeirra mála, sem afgreidd hafa verið við þinghaldið á þessum vetri. Og ef menn gera sér grein fyrir því, þá er það augljóst, að það hefur komið til kasta Alþ. að afgreiða mjög mörg og mjög sundurleit fjárhagsmálefni.

Í haust, fyrst eftir að þ. kom saman, var lagt fram af hálfu hæstv. ríkisstj. frv. um efnahagsaðgerðir. Þar var kveðið á um nýjar skattaálögur, og einn þáttur í því frv. fjallaði um það að draga úr niðurgreiðslum á vöruverði, sem áður höfðu verið inntar af hendi. Þetta hlaut að leiða af sér hækkun á ýmsum nauðsynjavörum. Síðan kemur gengisfelling, og í kjölfar hennar koma mjög miklar verðhækkanir, sem hafa áhrif á nær allt verðlag í landinu. En skömmu eftir að gengisfellingin hafði verið gerð, kemur enn til kasta þingsins að afgreiða frv., sem fela í sér stórfelldar uppbætur til útflutningsframleiðslunnar, svo að nemur a.m.k. á 4. hundrað millj. kr. Þegar þessar álögur höfðu verið ákveðnar, virtist hæstv. ríkisstj. vera farin að átta sig á því, að nú væri boginn meira en nóg spenntur. Svo að hæstv. ríkisstj. beitir sér fyrir því að gera nokkrar tilslakanir með lækkun á tollum, þó að sú lækkun væri raunverulega minni en látið hafði verið uppi fyrr í vetur. Og loks beitir ríkisstj. sér fyrir því að bera fram frv. um nokkurn sparnað á útgjöldum ríkisins. Þessi sparnaður var að nokkru leyti fenginn á þann hátt að taka lán til þeirra framkvæmda, sem gera átti samkv. fjárl. fyrir framlög úr ríkissjóði á þessu ári. En eigi að síður fólst í þessu viðurkenning á því, að álögurnar væru orðnar miklar og fullkomin þörf væri á því að stíga skrefið til baka. Það var talið, að frv. um sparnað á ríkisútgjöldum ætti sér fordæmi frá 1940. Það er út af fyrir sig rétt, en ég tel það ekki óeðlilegt, að á það sé minnt í því sambandi, að á árunum 1940 stóð yfir heimsstyrjöld, sem brauzt út 1. sept. 1939. M.a. voru siglingar til landsins í mikilli hættu og margvísleg óvænt viðhorf uppi í þjóðfélaginu. Svo að það þarf svo sannarlega að seilast nokkuð langt til samanburðar og fordæmis, þegar nú eftir næstum 9 ára viðreisnartímabil svokallað þarf að vitna til styrjaldarástands.

En þm. höfðu búizt við, að nú væri hæstv. ríkisstj. með sparnaðarfrv. búin að ganga þessa braut til enda, hringnum væri lokað og ekki væri von á nýjum skattaálögum á þessum síðustu dögum þingsins. En rétt í þann mund, er verið var að leggja síðustu hönd á hið svokallaða sparnaðarfrv. hér í þessari hv. d., urðu þm. þess áskynja, að í undirbúningi mundi vera frv. um stórfelldar nýjar álögur. Og þetta frv. er nú til 2. umr. á þessum fundi d. Þetta frv. felur í sér fyrirmæli um nýjar álögur, sem eiga að nema 109 millj. kr. á þessu ári, en gert er ráð fyrir, að muni nema 180–190 millj. kr. á næsta ári, ef tillit er tekið til aukningar á bílakosti landsmanna, sem áætlað er, að eigi sér stað á þessum tíma.

Skýringarnar, sem hv. ríkisstj. og fylgismenn hennar hafa gefið í sambandi við hina ýmsu þætti efnahagsmála, eru þær, að vegna verðfalls og aflabrests hafi kreppt svo að atvinnuvegum þjóðarinnar, að sérstakra ráðstafana sé þörf. Því má raunar ekki gleyma í þessu sambandi, þó að það sé rétt út af fyrir sig, að verðfall og aflabrestur hafi orðið, að Meira kemur hér við sögu, ekki sízt stefna hæstv. ríkisstj., en ég skal ekki fara út í almennar umr. um það í sambandi við þetta frv. En þess verður að gæta, að það kreppir ekki einungis að atvinnuvegum þjóðarinnar — framleiðslufyrirtækjunum, heldur kemur sá samdráttur á aflabrögðum og atvinnu fram í efnahag eða tekjumissi heimilanna sjálfra. Og þessu verður að gefa gætur, þegar ákveða á stórfelldar nýjar álögur. Það verður að gefa gætur gjaldþoli sjálfra skattþegnanna.

Nú kann einhver að segja, að það sé upplýst eða fram tekið í sambandi við þetta mál, að benzínverðið t.d. muni þrátt fyrir þá hækkun, sem hér er ráðgerð, ekki vera hærra en dæmi eru um í nágrannalöndum okkar. Af því kynnu menn að draga þá ályktun, að viðreisnarálögurnar á undanförnum árum hafi í minna mæli náð til þeirra tekjustofna, sem hér er fjallað um, heldur en ýmissa annarra tekjustofna, sem ríkissjóður nýtur góðs af. En þessu er nú ekki þannig farið. Þessi hækkun á benzínskatti, innflutningsgjaldi af hjólbörðum og þungaskatti af bifreiðum er þriðja hækkunin, sem hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir á þessum tekjustofnum á s.l. fjórum árum. Og samgmn., sem hefur fjallað um þetta frv., hefur fengið í sínar hendur skrá yfir það, hvert benzínverð hefur verið á undanförnum árum. Þessi skrá sýnir, að frá 1958 hefur benzínverðið meira en þrefaldazt miðað við það verðlag, sem nú á að ákveða á grundvelli þessa frv. Og þessi skrá sýnir enn fremur, að hækkanir á benzíni hafa verið miklar og með skömmu millibili á undanförnum árum, t.d. hefur benzínverðið hækkað þrisvar á árinu 1967.

Samgmn. barst erindi frá landssambandi vörubifreiðastjóra, en þeir hafa vegna starfs síns mjög góða þekkingu á því, hvernig þessir skattar snerta rekstur bifreiða í landinu. Þeir segja m.a. um þessar skattahækkanir, með leyfi hæstv. forseta:

„Samtök þau, sem standa að þessari grg. og aths., hafa lýst því yfir og gera enn, að þau telja eðlilegt, að tæki meðlima sinna séu skattlögð vegna varanlegrar vegagerðar í landinu — þ.e. vegna hins bráðnauðsynlega verkefnis, sem fjallað var um hér að framan. En að sjálfsögðu þarf skattlagningin að vera innan skynsamlegra marka, og hún má ekki vera í því óhófi, að heil og nauðsynleg þjónustugrein í þjóðfélaginu sé þurrkuð út eða lömuð svo, að fullkomlega er óvíst um framhald hennar. Það er álit samtakanna, byggt á ýtarlegum rannsóknum, að skattlagning sú, sem þegar var fyrir hendi, áður en þetta frv. kom fram, samfara hinum gífurlegu hækkunum, sem gengislækkunin hafði í för með sér á rekstursútgjöldum bifreiða, hafi verið í algeru hámarki.“

Ef þetta mál er athugað betur, þá getur það ekki dulizt neinum, að það eru ekki bifreiðaeigendur einir, sem verða að taka á sig auknar byrðar í sambandi við þær álögur, sem þetta frv. kveður á um. Hjá því mun ekki verða komizt, að afleiðingarnar verði þær, að verðhækkanirnar, sem hér er stofnað til, fari út í verðlagið og snerti þannig almenning, áður en varir.

Ég leyfi mér að benda á, að fyrir fáum dögum var lagt á borð þm. nýútkomið hefti Hagtíðinda. Þar er grg. og yfirlit um hinn nýja vísitölugrundvöll, sem kauplagsnefnd hefur ákveðið, en grunntala hinnar nýju framfærsluvísitölu er látin vera útgjaldaupphæð — 10 þús. kr. í janúarbyrjun 1968. Í þeirri sundurliðun, sem Hagtíðindin boða á hinum nýja vísitölugrundvelli, þá kemur það í ljós, að kostnaður við eigin bifreið og fargjöld og þess háttar eru hvorki meira né minna en full 10% af vísitölugrundvellinum — þ.e. 1050 kr., sem þetta er metið til samkv. grundvellinum. Og það eru aðeins þrír liðir í hinum nýja vísitölugrundvelli, sem vega meira en þessi liður um rekstur eigin bifreiða, fargjöld og þvíumlíkt. Þessir þrír liðir eru: 1) Matvörur, 2) föt og skófatnaður og 3) lestrarefni, hljóðvarp, sjónvarp, skemmtanir o. fl., en það er þó mjög lítill munur á síðasta liðnum, sem ég taldi, og liðnum um bifreiðakostnað.

Mér finnst þetta vera ótvíræð sönnun þess, að þær álögur, sem á að ákveða samkv. þessu frv., hljóti fyrr en síðar að segja til sín í vísitölunni og þá um leið í verðlagningu og að nokkru leyti í kaupgjaldinu — a.m.k. að svo miklu leyti sem samið hefur verið um, að vísitalan skuli vera greidd á laun. Þess ber enn fremur að gæta í þessu sambandi, að bifreiðin er nú þegar orðin almennings eign hér á landi og hvert heimili, sem hefur bifreið í rekstri, mun ekki komast hjá því að bera aukin útgjöld sem afleiðingu af þessu frv. Þessar nýju álögur, sem hér á að ákveða, hljóta og að hafa áhrif á kostnað við vörudreifinguna í landinu. Það getur ekki hjá því farið, að kostnaður við rekstur vörubifreiðanna, sem eru alveg óhjákvæmileg hjálpartæki í sambandi við framleiðsluna og í rauninni alla starfsemi landsmanna, vaxi við þær nýju álögur, sem hér á að ákveða. Og ég held, að það sé ótvírætt, að þessir skattar nái til strætisvagnanna, t.d. gúmmígjaldið, og má þess þá vænta, að í kjölfar þess komi enn ný hækkun á strætisvagnagjöldum, sem hafa þó verið hækkuð, að ég ætla, fyrir eigi löngu síðan. Þannig munu afleiðingar af þessu frv. óhjákvæmilega koma fram í verðlagningu og snerta hinn almenna þegn í landinu meira eða minna.

Ég leyfi mér enn, með leyfi hæstv. forseta, að minna á, hvað Landssamband vörubifreiðastjóra hefur um þetta að segja, en þar eru vitanlega menn, sem hafa mikla þekkingu, eins og ég sagði áðan, á þessum þætti málsins. Hér segir svo í þeirra grg.:

„Alkunna er, að „umferðin“, þ.e. eigendur bifreiða, hefur verið skattlögð ríflega á undanförnum árum. Tolla-, skatta- og aðflutningsgjaldatekjur af umferðinni hafa numið hundruðum millj. kr. árlega, en aðeins lítill hluti þess fjár farið til varanlegrar vegagerðar, heldur gengið að mestu til annarra þarfa í ríkisrekstrinum. Því hefur ávallt verið haldið fram af samtökum bifreiðastjóra og bifreiðaeigenda, og á það er hér lögð þung áherzla, að þá fyrst megi vænta árangurs af framkvæmdum í vegamálum, að allar þær tekjur, sem teknar eru af umferðinni, fari óskiptar til vegamála.

Þetta er meginsjónarmið okkar um fjárhagshlið þessa mikla verkefnis, sem að framan er getið, a.m.k. að því er lýtur að fjáröflun innanlands.“

Og á öðrum stað í þessari grg. er komizt þannig að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Það vekur furðu okkar, hvernig frv. þetta er byggt upp og hverjum er ætlað að bera þyngstu byrðarnar. Vörubifreiðarnar þjóna atvinnuvegunum og hinum dreifðu byggðum, hvað aðdrætti snertir, og eru því flutningatæki, sem bráðnauðsynlegt er fyrir þjóðina, að séu starfrækt. Þessi tæki eru hins vegar með frv. þessu skattlögð svo, að algert einsdæmi er, og það þótt um víða veröld væri leitað.“ Þetta eru orð Landssambands vörubifreiðastjóra.

En þetta mál hefur vissulega fleiri hliðar en þá, sem ég hef nú um sinn gert að umræðuefni. Hv. þm. hefur um mörg ár verið það ljóst, að mikið skortir á, að vegakerfið í landinu sé svo fullkomið sem vera þarf og kröfur eru gerðar um. Það má segja, að þetta gildi að meira eða minna leyti um landið allt, en þó er það nokkuð misjafnt eftir landshlutum og eftir héruðum, hvernig ástatt er í þessum efnum. Fyrir nokkrum árum beittu þm. Framsfl. úr Vestfjarðakjördæmi og Austurlandskjördæmi sér fyrir því, að aflað yrði nokkurs lánsfjár til vegaframkvæmda í þessum landshlutum. Þeim var að sönnu kunnugt af eigin sjón og raun, að vegagerð hafði dregizt aftur úr í þeim landshlutum miðað við það, sem er í ýmsum öðrum héruðum. En þeir fengu þetta staðfest með línuritum, skýrslum og grg. frá vegamálastjóra, og var það að nokkru leyti grundvöllur þess, að þessir þm., sem ég minntist hér á, tóku að beita sér fyrir þessu máli. Í þessum frv., sem flutt voru á fjórum þingum samfellt, var farið mjög hóflega í sakirnar. En þá var viðhorf þingmeirihluta hv. stjórnarflokka þannig, að þeir sáu sér ekki fært að samþykkja þessa hóflegu till. um nokkurt lánsfé til vegaframkvæmda á Vestfjörðum og á Austurlandi. Þá var það ekki talið raunhæft, enda var yfirskriftin á frv. með nöfnum þm. úr stjórnarandstöðuflokki. Ekki mátti leggja vegi fyrir lánsfé, af því að þeir skiluðu ekki beinum arði og vegi yrði að kosta af samtímatekjum. Með þessum rökum var þessum hóflegu till. af hálfu Vestfirðinga og Austfirðinga vísað á bug. En á skammri stund skipast veður í lofti. Það munu ekki hafa liðið nema tæp 2 ár frá því, að þessum till., sem ég nú minni á, var vísað endanlega á bug af hv. þingmeirihluta, þangað til tekin var upp sú stefna að taka lán til vegagerðar. Og nú á síðustu árum hafa verið tekin lán til nokkurra framkvæmda í vegagerð- og ekki einungis innlend lán, heldur m.a. erlend lán, sem háð eru gengisbreytingu og ég hef það fyrir satt, að svo langt hafi verið gengið, að sumt af hinum innlendu lánum, sem tekin hafa verið til vegagerða, hafi verið af svonefndu spariskírteinafé og séu með vísitöluákvæði. Hér kemur það til m.a., að þessar ráðstafanir íþyngja nú mjög Vegasjóði, þó að framkvæmdirnar hafi út af fyrir sig verið nauðsynlegar.

Þessi málefni horfa því þannig við nú, að því er ég fæ bezt séð: 1) Vegakerfið er ófullnægjandi og svarar ekki þeim kröfum, sem jafnvel líðandi stund og náin framtíð gerir til þess. 2) Vegal. kveða á um, að vissir kaflar í þjóðvegakerfinu skuli vera hraðbrautir, en fjármagn til hraðbrauta er nær ekkert í vegáætluninni. 3) Samkv. vegáætluninni fyrir þetta ár eru framlög til hraðbrauta, þ.e. nýbyggingafé til hraðbrauta, þjóðbrauta og landsbrauta, samtals 57.5 millj. kr., en afborganir og vextir af föstum lánum, sem búið er þegar að taka til vegagerða, munu nema á þessu ári 64.8 millj. kr. M.ö.o., nýbyggingaféð á vegáætluninni til hraðbrauta, landsbrauta og þjóðbrauta samsvarar ekki því, sem þarf að greiða af vegalánum á þessu ári. 4) Verðbólgan, sem er afleiðing stjórnarstefnunnar og fylgir ríkisstj., rýrir ár frá ári framkvæmdamátt þess fjár, sem aflað er til vega- og brúagerða. 5) Verðbólgan, sem er afleiðing stjórnarstefnunnar, hefur þau áhrif, að áætlanir standast ekki nema örstuttan tíma í senn og m.a. ekki vegáætlunin, sem endurskoðuð var í aprílmánuði 1967, þ.e. fyrir einu ári. Töluverðs hluta af þessum tekjum, sem afla á á þessu ári, þarf að afla til þess að standa straum af því, að verkin hafa farið fram úr áætlun vegna aukinnar verðbólgu og að nokkru leyti vegna gengisfellingarinnar, sem gerð var í vetur. Meðan þannig er haldið á málum, eru áætlanir gerðar af mönnum með góða þekkingu ekki svo traustur grundvöllur að standa á í þessum efnum sem vera skyldi. Þegar málefni eru með þessum hætti, eru vissulega góð ráð dýr. Hæstv. ríkisstj. mun þykja þetta góð ráð, sem hún ber fram í því frv., sem hér er fjallað um, en þau ráð verða dýr. Þau verða dýr bifreiðaeigendum, og þau verða óðar en varir dýr öllum almenningi í landinu. Og í sambandi við þetta má enn taka það fram, að í raun og veru er einn þáttur af þessu stóra máli að undirbúa það að taka enn erlend lán í miklum mæli — lán, sem háð eru gengisbreytingu, og allar slíkar breytingar hljóta að segja til sín í sambandi við vegáætlunina og framkvæmd að vegamálum ekkert síður en á öðrum sviðum.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að fjárl. ríkisins hafa hækkað mjög ört og í stórum skrefum á undanförnum árum. Fyrir einum áratug voru fjárl. ríkisins að heildarupphæð aðeins innan við einn milljarð kr., en fjárl. ársins 1968 eru um rúmir 6 milljarðar kr. Það virðist í fljótu bragði, að það ætti að vera rúm fyrir allmiklar framkvæmdir í samgöngumálum, sem kostaðar væru með hinum miklu fjármunum, sem ríkissjóður innheimtir árlega. En svo er nú komið málum, að umferðin er látin greiða stórfé til ríkissjóðs til almennra þarfa til viðbótar því, sem fer til Vegasjóðs. Það er fróðlegt að gera sér grein fyrir því, hvernig þetta hefur verið á undanförnum árum. Það er að sönnu mikið rannsóknarefni, hve mikill hluti af fjárl. hvers árs á liðnum tíma hefur farið til vegagerðar og hvort umferðin hefur verið skattlögð á hverjum tíma meira en sem samsvarar framlögum til vegamála. En það vill nú svo til, að það er til nokkuð traust heimild einmitt um þennan þátt málsins, sem tekur yfir visst árabil.

Því er þannig varið, að fyrrv. vegamálastjóri, Geir Zoëga, gerði slíkt yfirlit og birti í Fjármálatíðindum fyrir nokkrum árum. Þar sýnir hann fram á, hvernig þessu hefur verið háttað um nokkurt árabil, og birtir þá niðurstöðu, að segja má, bæði í máli og myndum. Og niðurstaðan er sú, að tekjur, sem innheimtar voru af umferðinni, og framlög til vegamála stóðust nokkurn veginn á samkv. fjárl. ríkisins um alllangt árabil. En þegar sérstakt gjald — hið svokallaða togaragjald —var á lagt 1954, þá raskaðist þetta hlutfall þannig, að það, sem lagt var á umferðina, varð nokkuð meira, ef togaragjaldið er reiknað með, en það, sem það ár var greitt til vegamálanna. En niðurstaðan er sú, að á því árabili, sem þetta tekur til, kemur í ljós, að gjöld til vegamála á sex ára tímabili nema samtals aðeins 5.1 millj. kr. umfram greindar tekjur, þ.e. þær tekjur, sem umferðin sjálf skilaði. M.ö.o., á því tímabili lagði ríkissjóður vegagerðinni lítið eitt meira heldur en umferðarsköttum nam. Svona var haldið á málum á þeim tíma, þegar Framsfl. sat í ríkisstj. með hæstv. núv. samgmrh. En á síðari árum hinu svonefnda viðreisnartímabili — hefur þetta hlutfall snúizt gersamlega við, þannig að það er ótvírætt — ég vil ekki staðhæfa neinar ákveðnar tölur í því sambandi — að tekjur af umferðinni í landinu nema svo hundruðum millj. kr. skiptir umfram það, sem rennur til framkvæmda samkv. vegáætluninni.

Þegar vegal. voru sett 1963, var mikið um það rætt bæði í umr. á þingi, í samgmn. og í viðræðum við hæstv. ráðh., að tekjuöflun til veganna þyrfti og ætti að hvíla á breiðara grunni en þeim tekjustofnum einum, sem fjallað er um í þessu frv. Með tilliti til þess var sett í vegal. 89. gr., sem mælir svo fyrir, að til viðbótar þeim tekjum, sem fást af þessum tilteknu tekjustofnum, skuli ákveðið framlag á fjárl. hverju sinni renna til vegagerðar. Og hæstv. samgmrh. mun hafa tekið svo djúpt í árinni í umr. að segja, að þörfin fyrir vegagerð í landinu væri svo mikil, að það væri alveg óhugsandi eða útilokað, að þetta framlag ríkisins yrði lækkað eða niður fellt. En það, sem hefur gerzt, er það, að á fjárl. þriggja síðustu ára hefur þetta sérstaka framlag verið numið burt. Ef það hefði verið lagt fram eins og vegal. gera ráð fyrir, væri hagur Vegasjóðs miklum mun betri nú en raun ber vitni um.

Minni hl. samgmn. vill því gera það að till. sinni, að málið verði afgr. á svipuðum grundvelli og vegalögin sjálf leggja til, þ.e. að þeir tekjustofnar, sem þetta frv. fjallar um, verði ekki einir látnir standa straum af þeim kostnaði, sem Vegasjóður þarf að bera, heldur verði í þess stað tekjuöflun til handa Vegasjóði færð á nokkuð breiðari grundvöll. Þessu mætti að sönnu koma fyrir á þann hátt að verja beint á fjárl. hverju sinni, eins og vegal. mæla fyrir um, tiltekinni fjárhæð til Vegasjóðs, en við teljum tryggara og á allan hátt eðlilegt, að sá tekjustofn, sem er leyfisgjald af innfluttum bifreiðum, verði látinn renna í Vegasjóð. Með því er lagður fram tekjustofn, sem umferðin sjálf leggur til eða stendur straum af, og jafnframt er nokkur vissa fyrir því, ef hér er um fastan tekjustofn að ræða, að það fé, sem fæst árlega í þessu skyni, nemi svipaðri fjárhæð og talið er í þessu frv., að þörf sé á. Hins vegar er okkur það ljóst, að það er búið að ganga frá fjárl. fyrir árið 1968 og það er erfitt um vik að breyta þeim.

Þess vegna gerum við, sem skipum minni hl. samgmn., það að till. okkar, að ríkisstj. verði heimilað að taka lán til greiðslu á kostnaði Vegasjóðs af framkvæmdum í vegamálum 1967 og 1968 allt að 109 millj. kr. Ég minni enn á það, sem ég tók fram fyrr í þessari ræðu, að meiri hluti af því fé, sem innheimta á 1968, fer til þess að standa straum af áföllnum greiðslum, vegna þess að framkvæmdir hafa farið fram úr áætlun vegna aukins viðhalds, náttúruhamfara eða annars þvíumlíks. Og ég minni enn fremur á, að þessi till. um lán á þessu ári er í fullu samræmi við það, sem hæstv. ríkisstj. leggur sjálf til í mörgum greinum, m.a. í hinu svonefnda sparnaðarfrv. um ýmsa útgjaldaliði þar. Þetta hlýtur að grundvallast á því, að menn séu svo bjartsýnir, að þeir búist við betri tímum fram undan og þá verði hægara að greiða þann kostnað, sem framkvæmdir á þessu ári hafa í för með sér. Við leggjum því til, sem skipum minni hl. samgmn., að frv. verði gerbreytt á þennan hátt, og afstaða okkar til málsins í heild mun fara eftir því, hvort þessar till. verða samþykktar eða ekki.