17.01.1968
Efri deild: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það verða aðeins örfá orð. Ég ætla ekki að ræða mikið efni þessa frv., sem hér liggur fyrir, þó að í því séu ákvæði, eins og hæstv. fjmrh. drap á, sem tvímælis geta orkað og þurfa að mínum dómi að fá betri athugun í n. Gildir það náttúrlega bæði um það atriði, sem varðar innheimtuna hér í Reykjavík, og eins þá hækkun á eignarútsvari, sem þarna er um að tefla. Að vísu munu flestir vera um það sammála að sveitarfélögunum veiti ekki af þeirri hækkun, sem þar er ráðgerð, en margir eru þeirrar skoðunar, að fyrst og fremst hefði átt að koma sveitarfélögunum til góða sú hækkun fasteignagjalda, sem sprettur af margföldun fasteignamatsins. Um það var rætt í sambandi við það mál hér á sinni tíð, þar sem ég og ýmsir aðrir voru þeirrar skoðunar, að ríkið hefði ekki átt að halda þeirri hækkun til streitu að því er varðar skattheimtu til sín, en það skal ég ekki fara frekar út í hér og ekki endurtaka það.

En það, sem ég vildi sérstaklega leggja áherzlu á, var síðasta atriðið, sem hæstv. fjmrh. vék að, og ég hafði raunar í þessu frv. þegar saknað ákvæðis um þetta efni og hafði ætlað mér að bera fram um það fsp. til hæstv. ráðh., hverju það sætti, að það efni var ekki tekið með í þessu frv., því að vitað var, að af hálfu Sambands ísl. sveitarfélaga og reyndar líka af hálfu einstakra sveitarsambanda, ef svo má segja, hefur verið lögð áherzla á það atriði, sem sé, að fellt væri niður það skilyrði úr lögum eða slakað á því a.m.k., að sveitarfélag, sem væri þannig fjárhagslega statt, að það þyrfti á að halda aukaframlagi úr jöfnunarsjóði, gæti þó ekki komið til greina, nema það legði 20% ofan á löglegan útsvarsstiga. Það er auðsætt að mínum dómi, að þetta er mjög ranglátt ákvæði. Það gefur auga leið, að þegar fjárhagsástæður eru þannig í bæjarfélagi, þá er ástandið yfirleitt þannig, að gjaldþegnar þar eru manna sízt færir um það að bæta á sig þessum 20%. Slík óhófleg gjaldheimta á þeim stað, sem á við erfiðleika að stríða, hlýtur að verða til þess að auka þau vandræði, sem þar eru fyrir, og jafnvel ýta undir brottflutning af staðnum og gera hann enn meiri. Ég held þess vegna, að það sé mjög nauðsynlegt að fella þetta ákvæði hreinlega niður, því að það er óprýði mikil að því í lögum. Menn eru að fikta við það og hafa verið að fikta við það að hafa þarna þó einhvern hemil og a.m.k. eitt ár yrði sveitarfélag að leggja á einhverja viðbót til þess að koma til greina í þessu sambandi. Það má vera, að einhver millileið sé þarna til, en ég held, að langæskilegast væri að hverfa alveg frá þessu. Ég held, að þannig sé um hnúta búið að ýmsu leyti og eftirlit félmrn. með þessum málum það gott og að það hafi svo glöggt auga í þessu efni, að það sé ekki ástæða til þess að hafa hér sérstakan hemil sem þennan. Ég held, að rn. sé um það fært og því sé treystandi til þess að meta þetta, hvort fjárhagsástæður sveitarfélags séu þannig í raun og veru, að það þurfi á aukaframlagi að halda. Og ef rn. þætti ekki til þess fært, mætti setja upp einhvern annan aðila því til aðstoðar til þess að meta þetta, t.d. aðila af hálfu Sambands ísl. sveitarfélaga. En ég veit, að þetta ákvæði hefur komið sér mjög illa á ýmsum stöðum. Sums staðar hefur þessu verið fullnægt og lögð 20% á og jöfnunarframlag þá fengizt, en ég skal ekki segja, hvort innheimta þar hefur alls staðar tekizt svo, að allt hafi náðst inn, sem lagt var á.

Á síðasta ári er mér kunnugt um það, að a.m.k. á einum stað var óskað eftir því að mega fara í þetta hámark að leggja 20% ofan á til þess að geta orðið aðnjótandi aukaframlags úr jöfnunarsjóði. Þeirri beiðni var þá synjað á þeim grundvelli, að í gildi væru stöðvunarlög, verðstöðvunarlög, þannig að þeir fengu nú ekki á þeim stað að leggja á þessi 20%, sem þeir óskuðu þá eftir. Svo koma þeir nú og sækja um aukaframlag. Þá fá þeir það svar, að þeir fullnægi ekki þessu skilyrði að leggja 20% á. Ég verð að segja, að ég held, að þetta hljóti að byggjast á einhverjum misskilningi í þessu einstaka tilfelli og muni nú leiðréttast. En samt sem áður sýnir þetta einstaka tilfelli, að það þarf almennar leiðréttingar á þessu. Þetta er óheppilegt skilyrði. Þess vegna fagna ég þeirri yfirlýsingu ráðh., að brtt. sé að vænta, hún muni verða send n. Og hann gerði ráð fyrir því, að n. mundi taka hana upp, þannig að ákvæði um þetta efni mundi komast inn í þetta frv. Því fagna ég alveg sérstaklega, en legg þá áherzlu á, að það verði helzt á þá lund, að þetta skilyrði verði fellt niður og að fundin verði önnur úrræði til þess að kanna það, hvort sveitarfélag þarf á aukaframlagi að halda, en að það sjálft leggi á sig eins konar — ja, hvað á maður að kalla það, aukaálag eða refsisekt til þess að geta orðið aðnjótandi aukaframlagsins.