11.03.1968
Efri deild: 68. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. 1. minni hl. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta um breyt. á l. frá 10. júní 1964, um tekjustofna sveitarfélaga, er flutt samkv. eindregnum tilmælum Sambands íslenzkra sveitarfélaga. Efni frv. er í meginatriðum eftirfarandi:

1) Að setja gleggri ákvæði um aðstöðugjaldstofn til hagsbóta fyrir sveitarfélögin.

2) Að gera strangari kröfur til skila á frádráttarbærum útsvarsgreiðslum.

3) Að bæta úr annmörkum á sameiginlegri innheimtu opinberra gjalda.

4) Að færa álagningu eignarútsvars til samræmis við álagningu eignarskatts.

5) Að framlengja heimild til að víkja frá ákvæðum skattalaga um frádrátt við álagningu útsvara.

Með frv. átti auk þess að rýmka rétt sveitarfélaga til aukaframlaga úr jöfnunarsjóði, en till. um þetta efni, sem félmrn. hafði í smíðum, var ekki tilbúin, þegar frv. var lagt fram, en hún var afhent heilbr.- og félmn., eftir að málið kom til nefndar.

Frv. þessu var vísað til heilbr.- og félmn. N. hefur rætt þetta vel á mörgum fundum og reynt að kryfja það til mergjar eftir föngum. Ýmsir sérfróðir menn á því sviði komu á fund n. til að ræða málið og veita upplýsingar, en það voru ráðuneytisstjórinn í félmrn., fulltrúi frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, forstjóri Gjaldheimtunnar í Reykjavík og borgarstjórinn í Reykjavík.

Þetta mál er í rauninni fjölþætt og flókið og hverri einstakri gr. frv. má víkja til á ýmsan hátt um inntak og orðalag, sem leiðir af því, að á sérhverju úrlausnarefni þessa frv. eru margar hliðar. Það var ríkjandi skoðun innan n., að nauðsynlegt væri að koma til móts við sjónarmið sveitarfélaganna í ýmsum greinum, en frv. gengi of langt í þessu efni, einkum væri hlutur gjaldendanna ekki nægilega vel tryggður. Fram hjá því verður þó ekki gengið, að hagsmunir gjaldenda og sveitarfélags fara um margt saman, þegar dýpra er skyggnzt, og það er síður en svo ávinningur fyrir gjaldendur, ef sveitarfélag þeirra á fjárhagslega í vök að verjast. Nm. voru sammála um, að gera þyrfti margvíslegar lagfæringar og breytingar á ákvæðum frv., en náðu hins vegar ekki samstöðu um það, hversu langt þyrfti að ganga í hverju einstöku tilfelli. Um það voru mjög skiptar skoðanir, og klofnaði n. í fjóra minni hl., og segja fróðir menn, að það hafi ekki skeð á Alþingi í marga áratugi, að n. klofni í svo marga hluta. Að vísu hygg ég, að meiri hl. sé til innan n., ef afstaða væri tekin til hverrar frvgr. sérstaklega, en sá galli er á gjöf Njarðar, að þar er ekki um samstæðan meiri hl. að ræða, því að nm., sem er innan meiri hl. í afstöðu til einnar gr. frv., getur verið í minni hl., þegar á næstu gr. er litið.

Ég hef ásamt hv. 2. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Sunnl. samstöðu um afgreiðslu þessa máls. Við höfum gefið út sameiginlegt nál. á þskj. 316 og flytjum sameiginlega fimm brtt. við frv. á þskj. 317. Það er fyrst og fremst í þessum brtt., sem afstaða okkar birtist, og mun ég skýra þær hér á eftir. Ég tel það ekki ofmælt, að allir nm. álíti allar okkar brtt. til bóta frá ákvæðum frv., þótt sumir nm. sætti sig ekki við þær og vilji ganga lengra og í stöku tilfellum svo langt að afnema einstakar gr. frv. með öllu.

Ákvæði tekjustofnalaganna um aðstöðugjald og álagningu þess eru mjög stuttorð og laus við skýringar. Þau eiga sér ekki heldur langa sögu að baki. Því er ekki að undra, þótt ýmiss konar álitamál hafi risið við framkvæmd þessara lagaákvæða, einkum að því er snertir álagningu á gjaldendur með fjölþættan atvinnurekstur, og að nú sé fram komin nauðsyn á endurskoðun þessara lagaákvæða í ljósi reynslunnar. Þegar um fjölþættan atvinnurekstur er að ræða hjá einum og sama gjaldanda, hafa skattyfirvöld og sveitarstjórnir talið sér heimilt við álagningu aðstöðugjalds að líta svo á, að hjá hverjum þætti atvinnurekstrarins út af fyrir sig skapaðist sjálfstæður aðstöðugjaldsstofn, þar með talið andvirði verðmæta, sem flutt eru á milli atvinnuþátta. Þetta verður bezt skýrt með dæmi, og er þá eðlilegast að halda sér við það dæmi, sem nú fyrir skömmu varð tilefni til málaferla. Einn og sami gjaldandi rak bæði húsgagnaverkstæði og húsgagnaverzlun. Við álagningu aðstöðugjaldsins voru rekstrarútgjöld verkstæðisins og verzlunarinnar lögð saman, en með rekstrarútgjöldum verzlunarinnar var talið andvirði þeirra húsgagna, sem verzlunin fékk til sölu hjá eigin verkstæði. Var verðmæti þeirra metið af skattyfirvöldum, þar eð það var ekki sérstaklega tilgreint í bókhaldi fyrirtækisins. Deilan, sem reis út af þessari álagningu fyrir dómstólunum, var fyrst og fremst um það, hvort heimilt væri að telja það verðmæti, er flutt var frá verkstæðinu til verzlunarinnar, sem aðstöðugjaldsstofn eða ekki, eða með öðrum orðum sagt var sú spurning, er svara þurfti, hvort verðmæti þeirra húsgagna, sem verzlunin tók við frá eigin verkstæði, ætti að teljast til rekstrarútgjalda hjá verzluninni. Bæði undirréttur og hæstiréttur svöruðu þessari spurningu neitandi, og tapaði sveitarfélagið málinu. Töldu dómstólarnir skorta lagaheimild til slíkrar álagningar.

Þennan dóm, sem hefur grundvallarþýðingu, telja sveitarfélögin áfall fyrir sig og vilja nú með ákvæðinu í 3. mgr. 1. gr. frv. afla sér þeirrar lagaheimildar, sem dómstólarnir sögðu að skorti. Hér er vissulega um flókin lögfræðileg og skattfræðileg atriði að tefla, og þegar þetta mál er skoðað, má ekki hugsa um það fyrst og fremst að rétta hlut sveitarfélaganna á Alþingi að því leyti, sem hallað hefur á þau fyrir dómstólum landsins, heldur verður að beina huganum að því að skapa sanngjarna reglu, sem komi í veg fyrir óeðlilegt misræmi við álagningu aðstöðugjalds á atvinnufyrirtæki eftir því, hvort atvinnureksturinn er einþættur eða margþættur. Sveitarfélögin halda því fram með nokkrum rétti, að standi l. óbreytt og verði þau framkvæmd eftirleiðis í samræmi við hæstaréttardóminn, sem vitanlega bæri að gera, mundi margþættur atvinnurekstur greiða minna fyrir sömu aðstöðu en ef hver þáttur hans væri rekinn af sjálfstæðum aðila og þar með væri gjaldendum mismunað. Dómurinn sýnir því, að l. eru ófullkomin, og þeim verður að breyta. Á hinn bóginn gengur breyting sú, er sveitarfélögin krefjast í 3. mgr. I. gr. frv., of langt að dómi okkar, sem myndum 1. minni hl. Væri þessi mgr..samþykkt óbreytt, fengju skattyfirvöld nær ótakmarkaða heimild til að meta, hvað væri sérstakur þáttur í atvinnurekstri og hvaða verðmæti, sem flutt yrðu á milli, teldust aðstöðugjaldsstofn.

Við leggjum því til, að gerðar verði breytingar á þessari mgr., og er það 1. brtt. á þskj. 317. Breytingin er á þá leið, að aðstöðugjaldsskyld eru aðeins þau verðmæti, sem flutt eru á milli atvinnugreina hjá sama gjaldanda, en hugtakið atvinnugrein er mun þrengra en hugtakið atvinnurekstrarþáttur. Með atvinnugrein er fyrst og fremst átt við fiskveiðar, iðnað, verzlun, siglingar, landbúnað og þjónustustarfsemi. Ef brtt. okkar yrði samþykkt, mundi það þýða, að aflaverðmæti, sem bátur leggur upp í frystihúsi, yrði aðstöðugjaldsstofn, þótt sama fyrirtæki ræki bátinn og frystihúsið. Sama gilti, ef eitt fyrirtæki ræki matvöruverzlun og hótel og verðmæti í vörum væru látin hótelinu í té úr verzluninni. Dæmi úr fjölþættum atvinnurekstri, þar sem milliflutt verðmæti yrðu hins vegar ekki aðstöðugjaldsstofn, er þegar verðmæti eru flutt á milli heildverzlunar og smásöluverzlunar og milli ullarverksmiðju og saumastofu. Skilsmunurinn liggur í því, að í þessum síðargreindu dæmum tilheyra atvinnurekstrarþættirnir sömu atvinnugreininni, þ.e. í öðru tilfellinu verzlun og hinu tilfellinu iðnaði. En í þessari brtt. okkar felst meira. Því er bætt við ákvæði frv., að verðmæti, sem flutt eru á milli, þurfa að vera á tilgreindu verði. Í flestum tilfellum mundi þessu skilyrði væntanlega verða fullnægt. T.d. er ljóst, að þegar hraðfrystihús tekur við afla úr eigin báti, er um opinbert verð að ræða. Svipað má segja um það, þegar hótel tekur matvöru úr eigin verzlun. Helzt yrði vafi um þetta, þegar verðmæti er flutt á milli verkstæðis og verzlunar. Þá má hafa hliðsjón af því, hvort skylt er að tilgreina verðmætið eftir bókhaldslögum, hvort verkstæðið selur framleiðsluvöru sína til annarra verzlana, sem reknar eru af öðru fyrirtæki. Við túlkun þessa ákvæðis ræður það ekki úrslitum, hvort verðið er tilgreint í skattframtali gjaldanda eða ekki, heldur hitt, hvort millifærsla verðmætisins er þess eðlis, að jafna megi henni við kaup- og söluviðskipti milli tveggja sjálfstæðra fyrirtækja. Það er fjarri lagi, að brtt. þessi leysi öll lögfræðileg vandamál, sem upp kunna að koma við álagningu aðstöðugjalds, en af samþykkt hennar risi væntanlega nauðsyn þess að breyta gildandi reglugerð um álagningu aðstöðugjalds. Gæfist þá tækifæri til að fylla og skýra þessar reglur.

Áður en ég skil við þessa brtt., vil ég benda á, að skv. 10. gr. tekjustofnalaganna er hámarksaðstöðugjaldsprósentan æði misjöfn eftir því, um hvaða tegund atvinnurekstrar er að ræða, eða frá 1/2% og upp í 2%. Ef l. yrði ekki breytt og aðstöðugjald lagt á fjölþættan atvinnurekstur án þess að líta á milliflutt verðmæti, hlyti að skapast torleyst vandamál við ákvörðun þeirrar prósentu, sem nota ætti hverju sinni. Brtt., sem grundvallast á aðgreiningu milli atvinnugreina, leysir þennan vanda allvel, þótt hún syndi ekki fyrir öll sker í þeim efnum. Í reynd mundi samþykkt brtt. þýða það, að réttur sveitarfélaganna til að leggja aðstöðugjald á fyrirtæki með fjölþættan atvinnurekstur mundi rýrna nokkuð frá því, sem þau hafa iðkað á undanförnum árum, en aukast miðað við það, sem nú er ljóst að þeim er heimilt skv. áðurgreindum hæstaréttardómi.

Hinn lögboðni útsvarsstigi er, svo sem alkunnugt er, frávíkjanlegur til hækkunar og lækkunar. Aldrei má þó álag útsvarsstigans fara fram yfir 20%, og dugi það álag ekki til þess, að sveitarfélag fái nægilegar útsvarstekjur, ber jöfnunarsjóði að taka við og greiða aukaframlag. Nokkur sveitarfélög á Norðurlandi, þar sem atvinnuástandið hefur verið lakast á undanförnum árum, hafa notið þessa aukaframlags og það jafnvel ár eftir ár. Forráðamenn þessara sveitarfélaga kvarta réttilega undan því, að skilyrði tekjustofnalaganna til þess að njóta þessa aukaframlags séu ákaflega ströng, þar sem krafizt sé 20% álags á útsvarsstigann. Þar sem önnur sveitarfélög gefa yfirleitt nokkurn afslátt af útsvarsstiganum, þýðir þetta í raun og veru, að sveitarfélag getur ekki fengið aukaframlag, nema útsvörin þar séu 25–30% hærri en almennt gerist. Afleiðingin fyrir sveitarfélag, sem þarf á hámarksálagningu að halda og það stundum ár eftir ár, vegna rýrnandi atvinnutekna gjaldendanna, verður sú, að hinir tekjuhærri gjaldendur flytjast á brott og setjast að í öðrum sveitarfélögum, þar sem útsvörin eru lægri. Þannig vaxa örðugleikarnir stig af stigi og sveitarfélagið nær sér aldrei á strik til þess að komast út úr vítahring þungbærrar álagningar. Þetta vandamál hefur verið rætt á þingum Sambands ísl. sveitarfélaga, og félmrn. hefur einnig haft þetta til athugunar. Sú hugmynd hefur komið fram að heimila greiðslu aukaframlags úr jöfnunarsjóði án þess að ganga svo langt að krefjast 20% álags á útsvarsstigann. Á þessum grundvelli byggist till. til breyt. á þessu frv., sem félmrn. lagði fyrir heilbr.- og félmn. Rn. lagði til, að d-liður 15. gr. tekjustofnalaganna hljóðaði svo, ég ætla að leyfa mér að lesa það hér, með leyfi forseta:

„Að greiða aukaframlag til þeirra sveitarfélaga, sem ekki fá nægileg útsvör álögð skv. 34. gr. Þó er heimilt að greiða aukaframlag, ef frávik til hækkunar hefur verið meira en meðaltalsfrávik á öllu landinu frá útsvarsstigum árið á undan að viðbættum 20%. Meðaltalsfrávik hvers árs er summan af margfeldi hundraðstölufráviks og íbúatölu í hverju sveitarfélagi, deilt með íbúatölu landsmanna 1. des. árið á undan. Meðaltalsfrávik skal vera heil tala, þannig að broti, sem er minna en hálfur, skal sleppt, en ella hækkað upp.“

Þetta hljómar sennilega í eyrum manna sem flókin stærðfræðileg formúla, en inntakið í till. er að miða 20% hækkunina við meðalútsvör á öllu landinu, sem gáfu töluna 90 árið 1967, þegar lagt er til grundvallar, að hinn lögboðni útsvarsstigi án frávika gefi töluna 100. M.ö.o.: meðaltalsfrávik á öllu landinu árið 1967 var 10% afsláttur. Skv. þessari till. og þeim skýringum, sem henni fylgdu, væri heimilt að veita sveitarfélagi aukaframlag á árinu 1968, ef það notaði 10% álag á útsvarsstigann, því að rn. leggur töluna 20 við töluna 90 og fær þá að sjálfsögðu út töluna 110, en reiknar ekki 20% af 90 og leggur það síðan við töluna 90, sem gæfi útkomuna 108. Við, sem myndum 1. minni hl. n., teljum of skammt gengið með þessu, þótt við föllumst á að leggja meðaltalsútsvörin, sem gáfu töluna 90 á s.l. ári, til grundvallar. Við teljum augljóst, að þessi tala hækki á næstu árum af ýmsum orsökum, svo sem vegna minnkandi atvinnutekna, sem veldur því, að sveitarfélögin hafa síður ráð á að veita afslátt frá útsvarsstiganum. Kemur hér einnig til, að sveitarfélögunum var á s.l. ári bannað að hækka útsvörin vegna verðstöðvunarl., en þar við bætist svo, að heimild sveitarfélaganna til að víkja frá frádráttarreglum skattal. verður væntanlega skert.

Allt þetta mun leiða til þess, að sveitarfélögin munu á næstu árum nota hærri álagningarstiga. Því gæti svo farið, að heimildin til að veita aukaframlag eftir tillögu rn. yrði afar lítils virði eftir fáein ár.

Við leggjum til, að þessari till. verði breytt, og koma sjónarmið okkar fram í 2. brtt. við frv. á þskj. 317. Við rýmkum heimildina að því leyti, að við leggjum 15% ofan á meðalútsvarsstiga hvers árs, en það gefur útkomuna 103.5 fyrir árið 1968, því að 90 að viðbættum 15% af þeirri tölu gerir 103.5. Samkvæmt þessu getur sveitarfélag, sem leggur 3.5% álag á hinn lögboðna útsvarsstiga á árinu 1968, sótt um aukaframlag að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Í till. okkar er sett það skilyrði fyrir þessu sérstaka aukaframlagi, að tekjur gjaldenda hafi rýrnað í viðkomandi sveitarfélagi eða fólksfækkun hafi átt sér stað. Er alkunnugt, að útgjöld sveitarfélaga minnka ekki að sama skapi og fækkun íbúanna segir til um. Að okkar dómi er ástæðulaust að veita sérstaka heimild til aukaframlags úr jöfnunarsjóði til sveitarfélags, þar sem hvorki er um minnkandi atvinnu né fólksfækkun að tefla. Í okkar till. er skilgreiningin á útreikningi meðalútsvarsstigans gerð einfaldari en hjá rn., en gefur sömu útkomu, þ.e.a.s. töluna 90 fyrir árið 1967. Þar sem í till. er notað hugtakið „hundraðstala útsvarsstigans“ í hverju sveitarfélagi, er, svo dæmi sé nefnt, átt við töluna 92 í sveitarfélagi, sem gefur 8% afslátt, og það þarf ekki frekari skýringa við.

Það skal undirstrikað, að hér er aðeins um heimildarákvæði að ræða, enda er mjög takmarkað fé fyrir hendi að greiða frekari aukaframlög en skylt hefur verið til þessa. Eftir sem áður stendur sú skylda jöfnunarsjóðs óhögguð að greiða aukaframlag til þeirra sveitarfélaga, sem leggja 20% ofan á útsvarsstigann, en fá ekki nægilegar útsvarstekjur með þeim hætti.

Samkvæmt 47. gr. tekjustofnalaganna gilda tvær reglur um gjalddaga útsvara. Önnur reglan segir, að helming útsvars skuli greiða fyrir 15. júní, en hinn helminginn fyrir 15. október. Hin reglan er á þá lund, að sveitarstjórn geti krafizt fyrirframgreiðslu á útsvari á 5 gjalddögum, þ.e.a.s. 1. febr., 1. marz, 1. apríl, 1. maí og 1. júní, og innheimt þannig hjá hverjum gjaldanda fjárhæð jafnháa helmingi þess útsvars, sem lagt var á gjaldanda næsta ár á undan, en það, sem eftir stendur af álögðu útsvari, þegar fyrirframgreiðslan er frá dregin, á gjaldandi síðan að greiða með 5 jöfnum afborgunum með gjalddögum 1. ágúst, 1. sept., 1. okt., 1. nóv. og 1. des.

Þessi síðari regla, sem byggist á fyrirframgreiðslu á hluta útsvars og 10 gjalddögum alls yfir árið, er sú regla, sem mest er notuð í Reykjavík og í kaupstöðum landsins. Við álagningu útsvars ber samkv. 31. gr. tekjustofnalaganna að draga útsvör s.l. árs frá hreinum tekjum, ef þau hafa verið greidd að fullu fyrir áramót næst á undan niðurjöfnun. Gjaldendur eru m.ö.o. verðlaunaðir fyrir það að standa full skil á útsvari sínu fyrir lok álagningarársins. Þeir geta því notið þessara verðlauna, þótt þeir séu vanskilamenn skv. 47. gr. tekjustofnal. og hafi ekki staðið í skilum með útsvarsgreiðslur sínar á réttum gjalddögum, aðeins ef vanskilin fara ekki fram úr því marki að vera skuldlaus um áramót. T.d. nægir gjaldandanum í þessu efni að borga alla útsvarsskuld sína í vikunni milli jóla og nýárs, eins og sumir notfæra sér. Það er eðlilegt, að sveitarfélögin, sem hafa fulla þörf fyrir að fá útsvörin greidd á réttum gjalddögum, séu ekki alls kostar ánægð með þetta fyrirkomulag. Því er lagt til í 2. gr. frv., að útsvarið sé ekki frádráttarbært, þótt það hafi verið greitt upp fyrir áramót, nema staðin hafi verið full skil á fyrirframgreiðslu eigi síðar en 30. júní álagningarárið í þeim tilfellum, þar sem heimild til að krefjast fyrirframgreiðslu hefur verið notuð.

Í þessu sambandi er rétt að taka fram, að gjaldandi, sem er launþegi, hefur staðið full skil á útsvarsgreiðslu, þegar fjárhæðin hefur verið tekin af kaupi hans og atvinnurekandinn fengið honum kvittun í hendur. Að vísu er það svo, sem betur fer, að meiri hluti gjaldenda innir af hendi fyrirframgreiðslur sínar á réttum tíma. Hinir eru þó allt of margir, sem vanrækja það og hugsa um það eitt að greiða útsvörin fyrir áramótin. Reglan í 2. gr. frv. er sett fram til þess að ná betri tökum á þessum mönnum og tryggja sveitarfélögunum greiðari innheimtu, enda er ákjósanlegt, að menn fái aukið aðhald í því að greiða á réttum tíma, áður en staðgreiðslukerfið kemur.

Þótt framangreint ákvæði 2. gr. frv. sé á allgóðum rökum reist, álítum við, sem að þessu nál. stöndum, samt sem áður rétt að gera nokkrar lagfæringar á því. Þær koma fram í 3. brtt. á þskj. 317 og felast í því að undirstrika það, að hér sé aðeins um heimild að tefla sveitarstjórnunum til handa. Jafnframt er lúkningardagur fyrirframgreiðslu færður aftur um 1 mánuð og settur 31. júlí í stað 30. júní.

Þá er einnig í brtt. bætt inn ákvæði um það, að hafi gjaldandi eigi staðið í skilum á fyrirframgreiðslu hinn 31. júlí, en greiðir síðan allt útsvarið upp fyrir áramót, þá skal helmingur útvarsins dreginn frá hreinum tekjum við næstu álagningu. Verður að telja það sanngjarnt, að gjaldendur missi ekki af allri umbun, þótt þeir skili ekki fyrirframgreiðslunni fyrir 31. júlí, og þeir, sem þannig er ástatt um, hafi til nokkurs að vinna, ef þeir borga upp fyrir áramót.

Í 2. gr. frv. felst einnig annað nýmæli, sem hljóðar þannig:

„Sé innheimta gjalda til ríkis og sveitarfélags sameiginleg, skv. ákvæðum I. nr. 68 27. apríl 1962, um heimild til sameiginlegrar innheimtu opinberra gjalda, er það enn fremur skilyrði, að öll gjaldfallin opinber gjöld, sem hin sameiginlega innheimta tekur til, séu að fullu greidd fyrir ofangreind tímamörk.“

Enn sem komið er hefur gjaldheimtukerfinu hvergi verið komið á nema í Reykjavík. Gjaldheimtan innheimtir útsvar, tekjuskatt, almannatryggingagjald, sjúkrasamlagsgjald og fleiri opinber gjöld.

Til að skýra þetta nýmæli 2. gr. frv. er rétt að taka dæmi af manni, sem á gjaldheimtuseðli er krafinn um gjöld samtals að fjárhæð 60 þús. kr. Segjum, að hæsti liðurinn á seðlinum sé útsvar til Reykjavíkurborg fær ekki þessar 40 þús. kr. í sínar borgar maðurinn 40 þús. kr. fyrir áramót, en skuldar 20 þús. kr. Þá er litið svo á, að hann hafi greitt útsvarið að fullu og fær frádrátt skv. því. En Reykjavíkurborg fær ekki þessar þús. kr. í sínar hendur. Borgin fær aðeins 2/3 hluta af hinni greiddu fjárhæð, þar sem reglur um gjaldheimtuna mæla svo fyrir um, að eðlilegt er, að innheimtufé skiptist hlutfallslega jafnt milli hinna einstöku gjaldaliða. Að þessu leyti geldur Reykjavíkurborg þess að búa við gjaldheimtukerfi og er þannig verr sett en önnur sveitarfélög.

Áðurnefndum nýmælum 2. gr. er ætlað að bæta úr þessu með því að gera það að skilyrði fyrir útsvarsfrádrætti, að ekki einungis útsvarið, heldur öll gjaldheimtugjöldin séu að fullu greidd fyrir áramót.

Sá hængur er að vísu hér á, að með þessum hætti eru strangari kröfur gerðar til gjaldenda í Rvík en annars staðar, því að Reykvíkingar yrðu að greiða öll sín gjöld fyrir áramót til þess að fá útsvarsfrádráttinn, en annars staðar nægir að greiða útsvarið eitt. Því er ekki að neita, að hér er stofnað til nokkurs misréttis. En á fleira er að líta. Tilvera Gjaldheimtunnar er í húfi, og það væri Reykvíkingum ekki hagkvæmt, ef leggja þyrfti þessa stofnun niður, sem tryggir greiðvirkari og ódýrari innheimtu og skapar gjaldendum margvíslegt hagræði, sem þeir ella mundu missa af. Tekjuskattur og önnur gjöld, sem standa þarf skil á skv. niðurlagi 2. gr. frv., á sömu tímamörkum og útsvarinu, eru fyrir löngu gjaldfallin á þessum tímamörkum, og því er hér ekki um nýja kvöð að ræða fyrir skilvísa gjaldendur. Því verður heldur ekki neitað, að ríkið, almannatryggingarnar og sjúkrasamlagið hafa sjálfsagt svipaða þörf og Reykjavíkurborg á því að fá gjöld sín greidd á eðlilegum tíma.

Þó að hér sé fyrst og fremst talað um Reykjavík, má ekki gleymast, að heimilt er að koma á gjaldheimtukerfi hvar sem er á landinu, ef samningar takast um það milli ríkisins og sveitarfélaganna. Er því skynsamlegt að sníða af gjaldheimtukerfinu þá agnúa, sem reynslan hér í Reykjavík hefur leitt í ljós, til þess að auka líkurnar á því, að þetta kerfi verði einnig tekið upp annars staðar.

Þegar öllu er á botninn hvolft, álítum við, sem skipum 1. minni hl. heilbr.- og félmn., að nýmæli það, sem fólgið er í niðurlagi 2. gr. frv., eigi rétt á sér, og því er það tekið upp óbreytt í 3. brtt. okkar á þskj. 317. Með kröfunni um full skil til hinnar sameiginlegu innheimtu, svo að allt útsvarið verði frádráttarbært, er að sjálfsögðu átt við það, að gjaldandi sé skuldlaus við Gjaldheimtuna hinn 31. júlí og 31. des. ár hvert, og hálft útsvarið fær hann ekki dregið frá nema vera skuldlaus við Gjaldheimtuna hinn 31. desember.

Þegar l. um tekjustofna sveitarfélaga voru upphaflega sett á árinu 1962, fylgdi þeim bráðabirgðaákvæði, þar sem segir, að við álagningu útsvara á árunum 1962–1967 sé heimilt að víkja frá ákvæðum skattalaga um frádrátt að því er varðar frádrátt vegna atvinnutekna eiginkonu, sjómannafrádrátt, varasjóðstillög félaga, flutning á tapi í atvinnurekstri milli ára og gjafir til menningar- og líknarmála. Þótti ekki fært í upphafi að fella alveg saman frádráttarreglur gagnvart tekjuskatti annars vegar og útsvari hins vegar, þótt að því marki bæri að stefna. Því var þetta bráðabirgðaákvæði sett og sveitarfélögum þar með veitt 5 ára aðlögunartímabil.

Í 4. gr. frv. er lagt til, að þetta 5 ára tímabil, sem nú er útrunnið, verði framlengt í önnur 5 ár. Ef þessi krafa næði fram að ganga, væri það spor aftur á bak. Æskilegt er að samræma sem mest reglur um frádrátt við álagningu tekjuskatts og útsvars til þess að gera skattaálagninguna einfaldari og koma í veg fyrir, að staðgreiðslukerfi það, sem nú er í undirbúningi, verði of þungt í vöfum. Sveitarfélögin höfðu enga ástæðu til að ætla, að framangreind frádráttarheimild yrði framlengd, enda hafa flest hinna stærri sveitarfélaga á síðari árum veitt fullan frádrátt vegna atvinnutekna eiginkonu, svo og sjómannafrádrátt, eða a.m.k. gengið langt í þeim efnum.

Niðurstaða okkar, sem stöndum að nál. á þskj. 316, var því sú í þessu efni að leggja til, að heimildin til að víkja frá reglum skattal. um frádrátt verði takmörkuð við tapsfrádrátt, varasjóðstillög og gjafir til menningar- og líknarmála og heimildin verði aðeins framlengd í 2 ár. Það er þetta, sem felst í 4. brtt. okkar á þskj. 317. Af þessu leiðir, ef till. verður samþykkt, að öll sveitarfélög verða við útsvarsálagningu í ár og eftirleiðis að veita fullan sjómannafrádrátt og frádrátt vegna atvinnutekna eiginkonu.

Að hinu leytinu skal það fram tekið, að hvorki í frv. né brtt. við það felst nein skerðing á heimild sveitarfélaganna til að undanþiggja bætur almannatrygginganna útsvarsálagningu og til að lækka útsvör gjaldenda, sem eru orðnir 65 ára að aldri, enda var þar ekki um bráðabirgðaákvæði að ræða.

5. og síðasta brtt. á þskj. 317 þarfnast ekki mikilla skýringa. Þar er berum orðum fram tekið, að l. komi til framkvæmda við álagningu útsvara og aðstöðugjalda og greiðslu aukaframlaga á árinu 1968. Jafnframt er tekið fram í till., að ákvæði um frádrátt á greiddu útsvari komi þó ekki til framkvæmda fyrr en við útsvarsálagningu á árinu 1969, enda var það aldrei meiningin, að menn, sem hafa greitt útsvar sitt að fullu fyrir síðustu áramót, nytu ekki fulls frádráttar við álagninguna á árinu 1968. Reglan um skil á fyrirframgreiðslu eigi síðar en 31. júlí kæmi því til framkvæmda á yfirstandandi ári og hefði áhrif á útsvarsfrádráttinn við álagningu útsvara á árinu 1969, og sama er að segja um gjaldheimturegluna.

Við 3. gr. frv. hafa engar brtt. komið fram. Með ákvæðum hennar er lagt til, að eignarútsvar verði sama og eignarskattur. Mun þetta hafa í för með sér tekjuaukningu fyrir sveitarfélögin. Til skýringar á þessari gr. nægir að vísa til grg. með frv.

Herra forseti. Hér að framan hef ég gert grein fyrir öllum brtt. okkar, sem skipum 1. minni hl. heilbr.- og félmn., og lýst afstöðu okkar til frv. í heild. Nú vænti ég þess, að sem flestir hv. þdm. geti fallizt á sjónarmið okkar, svo að tryggðar verði haldgóðar og raunsæjar endurbætur á l. um tekjustofna sveitarfélaga. Að lyktum vil ég vitna til þess, að nú fyrir skömmu var haldinn fulltrúaráðsfundur Sambands ísl. sveitarfélaga, en þegar þessi fundur var haldinn, hafði heilbr.- og félmn. afgreitt þetta frv. og allar brtt. voru komnar fram. Á þessum fundi var samþ. shlj. að una við brtt. 1. minni hl. eða eins og segir í samþykktinni: „að gefnu tilefni tekur fulltrúaráðið fram, að það getur sætt sig við brtt. á þskj. 317 frá 1. minni hl. heilbr.- og félmn.