24.03.1969
Neðri deild: 68. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (1019)

21. mál, fjallskil o.fl.

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta mál hefur legið nokkuð lengi fyrir landbn. og er flutt sem stjfrv. N. hefur leitazt við að kanna þetta viðamikla mál, fjallskil og afréttamál, sem allra bezt, og hefur verið góð samstaða í n. um það. Upphaflega er frv. samið af stjórnskipaðri nefnd, sem hefur lokið störfum fyrir alllöngu, en síðan hefur það farið um hendur margra aðila, þ. á m. landbrn. Búnaðarþing hefur fjallað um það, og það hefur verið sent öllum sýslunefndum og bæjarstjórnum til athugunar og hefur því tekið ýmsum breytingum síðan það var upphaflega samið. Þetta er raunar nýsmíði að því leyti, að hér hefur ekki verið áður sett heildarlöggjöf um fjallskil, og fram á þennan dag hefur verið stuðzt við hin fornu Jónsbókarákvæði sem grundvallaratriði varðandi fjallskil, en sveitarstjórnir og héraðsstjórnir haft að öðru leyti nokkuð óbundnar hendur um þessi mál, og hafa því skapazt venjur, sem eru dálítið breytilegar frá einum stað til annars í landinu, vegna þess að aðstæður og kringumstæður allar eru ólíkar.

n., sem samdi frv., setti sér það stefnumið að sníða það sem rammalöggjöf, sem fjallskilasamþykktir gætu rúmazt innan, svo að ekki yrðu byltingar í þessum málum, heldur sveigjanleg löggjöf eftir staðháttum. Landbn. hefur orðið sammála um að leggja til nokkrar breytingar við þetta frv., og vil ég rekja þær helstu í stuttu máli.

Í fyrsta lagi gerir n. till. um, að niður falli þrjár greinar úr frv. Er þar fyrst að nefna 15. gr., sem fjallar um það nýmæli, sem n., sem samdi frv. upphaflega, telur vera, en það er það að leggja nokkurt fé frá ríkissjóði til ræktunar á afréttum með áburðardreifingu. Landbn. lítur svo á, að ákvæði um þetta séu þegar komin inn í lög um gróðurvernd og því sé þarflaust og raunar ekki viðeigandi að hafa þessi ákvæði, sem eru í greininni, enda voru ákvæði um gróðurverndina ekki til, er frv. var samið upphaflega.

Í öðru lagi leggur n. til, að niður falli 19. gr., en hún fjallar um það, hvernig að skuli fara, ef jarðir verða naumast byggilegar vegna þess, að frá þeim sé tekið land eða möguleikar til notkunar á landi vegna ítölu. Um þetta atriði eru þegar komin önnur lög, þar sem eru lögin um jarðakaup ríkisins, og teljum við því þessa gr. ekki nauðsynlega.

Svo er í þriðja lagi, að lagt er til, að niður falli 69. gr. frv., en hún fjallar um það, sem er algert nýmæli, að komið sé upp markadómi, er hafi vald til að skera úr um ágreining, er út af mörkum kunni að verða. Gert er ráð fyrir, að þetta sé þriggja manna dómur og sitji stöðugt og sé launaður af ríkissjóði. Þetta álítum við, að sé ekki nauðsynlegt að lögfesta og megi hafa svipaðan hátt á og áður hefur verið um það, ef ekki er samkomulag um mörk. Þeim málum hefur hér til verið ráðið til lykta í héraði af til völdum mönnum, og gerir frv. einnig ráð fyrir því, að slíkir menn verði hér eftir sem hingað til, til staðar í héraði.

Þá hefur n, lagt til, að gerð verði breyting á nokkrum öðrum gr., og er mestur hluti þeirra annað tveggja orðalagsbreytingar eða þá að kveða nánar á heldur en gert er í gr., og í þriðja lagi til þess að fylgja enn betur eftir stefnu þeirrar n., er samdi frv., að hafa þetta meira sem rammalöggjöf, sem fjallskilasamþykktir rúmist innan. Þó eru í nokkrum gr. smávægilegar efnisbreytingar, og vil ég minnast á nokkrar þeirra. Þar má nefna í fyrsta lagi 30. gr., sem n. taldi nauðsynlegt að breyta frá því, sem var. Hún fjallar um það, er ágangur búfjár verði á heimahaga, hvaða ráð skuli þá upp taka. Okkur þótti gr. vera of þröng að þessu leyti og umsömdum hana því.

Við 37. gr. er orðalagsbreyting, sem ekki veldur neinni efnisbreytingu, ef samþ. verður. Þá er einnig breyting við 38. gr., og er það sama um hana að segja, að öðru leyti en því, að lagt er til, að ákvæði 8. gr., sem fjalla um það að skylda eigendur eyðilanda til að kosta smalanir, nái ekki til þeirra eyðilanda, þar sem svo standi á, að eigendum sé meinað að nota þau vegna ákvæða annarra gr. og einnig vegna þess, að búfjárveikivarnir banni þeim hreinlega að nota sín lönd, enda séu um þetta nánari ákvæði í fjallskilasamþykkt. Í 39. gr. er einnig sú breyting, að undanþiggja megi að einhverju eða öllu leyti fénað fjallskilum, sem gengur í öruggum girðingum eða á eyjum. En þetta verði aðeins fjallskilasamþykktarákvæði, sem þetta heimili, og verði því ekki bindandi nema þar sem heima fyrir eru þær kringumstæður, að þetta þyki eðlilegt. Við 41. gr. er sú breyting ein að efni til, að frv. gerir ráð fyrir, að fjallskil séu lögð jöfnum höndum á fjallskilaskylt fé og landverð jarða, eftir því sem nánar sé kveðið á í fjallskilasamþykkt. Víðast hvar hefur þessi háttur verið hafður á að leggja bæði á landverðið og féð þennan kostnað, en sums staðar og líklega víðar er eingöngu lagt á féð. Við gerum ráð fyrir því, að það verði leyft að leggja að nokkru leyti fjallskilakostnað á landverðið, þó ekki nema á hið eiginlega beitiland, ekki á hlunnindi eða ræktun.

Við 42. gr. er sú breyting, að niður falli ein mgr., sem við teljum óþarfa.

Við 45. gr. er einnig sú breyting, að gert er ráð fyrir því, að sveitarstjórnum sé heimilt að leggja meiri eða minni hluta fjallskilakostnaðar á sveitarsjóð beint eða um það sé ákvæði í fjallskilasamþykkt.

Í 46. gr. er sú breyting, að reynt er að tryggja það, að göngur fari fram samhliða, þar sem lönd eru þannig, að þau eru ekki aðskilin hvert frá öðru með girðingum, vötnum eða fjallgörðum. Um þetta voru ekki ákvæði í frv. Að öðru leyti er ekki efnisbreyting við gr., en nokkur orðalagsbreyting.

Við 47. gr. er einnig lagt til að breyta orðalaginu, og er efnisbreyting hennar ekki önnur en sú, að ef undanþága frá ákvæðum fjallskilasamþykktar um frestun gangnadaga eða að flýta göngum, er veitt, þá sé það ekki leyft, nema tryggt sé, að saman fari, að flýtt sé eða seinkað í þeim löndum samtímis, sem saman liggja, svo að ekki renni á milli. Þetta teljum við nauðsynlegt.

Við 55. gr. eru smáorðalagsbreytingar, en naumast efnisbreytingar.

Við 56. gr. eru nokkrar orðalagsbreytingar, en hún fjallar um það, að ef fé lendir í ógöngum þar sem illt sé að ná því, kostnaðarsamt, hættulegt eða of dýrt, þá er skylt að skjóta kindurnar til þess að forða þeim frá sveltu. Í gr. eru nokkrar orðalagsbreytingar til þess að tryggja þetta enn betur.

Við 59. gr. er aðeins sú breyting að auglýsa skuli óskilafé fyrir desemberlok í stað nóvemberloka í frv., en við teljum, að það sé of stuttur frestur, og leggjum til, að í staðinn komi árslok.

Við 63. gr. er tekin upp ein viðbót, ákvæði um skil og mörkun á hrossum, þar sem ástæða þykir til.

Í 67. gr. er gert ráð fyrir, að fjallskilaumdæmi geti sameinazt um útgáfu markaskrár, og mun ósk um það hafa komið frá Sambandi ísl. sveitarfélaga.

Í 68. gr. er gert ráð fyrir, að burt falli nokkur orð, sem lúta að því, ef settur verður upp markadómur samkv. 49. gr., en þar sem við leggjum til, að sú grein falli burt, er þessi breyting gerð á gr. til samræmis.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð lengri, en segi aðeins að lokum, að ég tel þetta talsvert merkilegt mál og viðamikið og mikla nauðsyn á að vanda þau lög, sem nú verða væntanlega sett um það, og vildi óska, að þó að við séum búin að fara mjög nákvæmlega gegnum þetta frv., verði það enn gert áður en umr. lýkur í þeirri d., sem það fer væntanlega næst til, því að vel má vera, að yfir eitthvað hafi okkur enn sézt, en ég held, að við höfum þó lagað frv. að ýmsu leyti með þeirri athugun, sem n. hefur gert á því.