05.05.1969
Neðri deild: 88. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (1047)

195. mál, Háskóli Íslands

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Ég kem hérna upp í ræðustólinn vegna fjarvistar hv. form. menntmn., en hann hafði verið kjörinn frsm. fyrir nál. menntmn., sem er á þskj. 628. Það var tekið eftir því, að það eru leiðinlegar prentvillur í nál., en þær verða leiðréttar og ráðstafanir hafa verið gerðar til þess, að þskj. verði prentað upp.

Menntmn. hélt aðeins einn fund um þetta mál, og ástæðan til þess, að hún hraðaði afgreiðslu málsins, var hvort tveggja sú, að rektorskjör mun eiga að fara fram nú um miðjan þennan mánuð og ætlazt er til, að það kjör fari fram samkv. þessu frv., ef það verður að lögum. Og einnig var ástæðan til þess, að menntmn. hraðaði afgreiðslu málsins, sú, að málið var flutt í hv. Ed. og hafði verið afgreitt þaðan með nokkrum breytingum ágreiningslaust. Eins og öllum hv. þm. er kunnugt, fjallar frv. fyrst og fremst um stjórn Háskóla Íslands og skipulagsmál Háskólans, m.a. er ætlazt til, að starfssvið háskólaritara verði aukið, en telja má, að veigamestu breytingarnar við frv. séu um kjör rektors og skipan háskólaráðs. Samkv. þessu frv., ef það verður að lögum, fá stúdentar við Háskólann í fyrsta skipti aðild að kjöri háskólarektors, og enn fremur er til þess ætlazt, að þeir fái tvo fulltrúa í háskólaráði, en þar höfðu þeir áður einn. Ég sé ástæðu til þess að fagna þessu, og ég veit, að við, sem undirritum þetta nál., og öll menntmn. fagnar þessari breytingu, og við treystum því vissulega, að stúdentar séu verðir þess trausts, sem þeim er sýnt með þessu, og við vitum, að þeir eru það. Það kemur fram í þeirri grg., sem fylgdi frv. og er raunar endurprentuð hér í nál., að háskólaráð greinir frá því, að þátttaka stúdenta í stjórn Háskólans hafi gefið mjög góða raun, og eins og ég sagði, er því treyst og ég er viss um, að svo verður, að sú aukna aðild, sem stúdentum er veitt með þessu frv., aðild að stjórn Háskólans, verður til góðs, og það er fagnaðarefni, að þessi breyting skuli gerast með góðu samkomulagi. Að vísu höfðu stúdentar óskað þess að fá meiri aðild að stjórn Háskólans og kjöri rektors en hér er gert ráð fyrir, en þeir geta þess þó í bréfi, sem er birt með frv., að þeir æski ekki eftir því, að Alþ. geri á þessu frekari breytingar.

Við nm. skrifuðum undir þetta nál. með því skilorði, að við hefðum rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma. Við gerðum það m.a. vegna þess hraða, sem við höfðum á afgreiðslu málsins, og það er rétt að geta þess, það stendur raunar í nál., að þeir voru fjarverandi bæði hv. 7. þm. Reykv. og hv. 6. þm. Reykv., þegar málið var afgreitt frá n. En við, sem undirritum nál., leggjum til, að frv. verði samþ.