25.04.1969
Neðri deild: 81. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

189. mál, eyðing refa og minka

Bjartmar Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. það, sem hér er til umr., með fyrirvara og sá fyrirvari er varðandi brtt., sem n. gerir við frv. Ég gat ekki fyrir mitt leyti bundið mig við að styðja hana. Þegar þessi breyting var gerð fyrir 5 árum á l. um eyðingu refa og minka, beitti ég mér nokkuð fyrir því, að hún yrði gerð með tilliti til þess að reyna að vernda þá fáu erni, er voru í landinu og eru enn, frá aleyðingu. Ég held, að reynslan hafi sýnt, að þetta var vel ráðið, því að arnarstofninn hefur a.m.k. ekki minnkað eða örnum fækkað á þessu tímabili, heldur virðast athuganir, sem gerðar hafa verið á því efni, sýna, að örnum hafi eitthvað örlítið fjölgað, svo nokkrar líkur séu til þess, að hægt sé að varðveita hann frá því að deyja út. Og þegar nú þetta eiturbann er framlengt um 5 ár, eins og hér er gert ráð fyrir, er ég því algerlega samþykkur, og ég tel, að mjög mikið hafi unnizt á við það að afnema 11. gr. þessara l., sem lagði þá skyldu hreint og beint á sveitarstjórnir, að það ætti að eitra á öllum þeirra umráðasvæðum á hverjum vetri, sem ég taldi mjög slæma lagagr. og hættulega. En að því er snertir þessa brtt., get ég viðurkennt það, að það muni ekki vera teljandi hætta á því, að fuglar komist í það æti, sem kann að verða eitrað inni í grenjum, og engin hætta, ef það er gert nógu vandlega og það falið nógu vandlega inni í holunum. En eitrunaraðferðin er að mínu áliti ákaflega óaðgengileg aðferð til þess að eyða dýrum og kvalafull, þar sem er um stryknin að ræða, og þar af leiðandi tel ég, að ekki eigi að nota hana nema í brýnustu þörf. Og sannast að segja hef ég ekki mikið orðið var við raddir um það, og þó hef ég haft tal af mörgum grenjaskyttum, að það væri nauðsyn á því að eitra inni í grenjum, þó það gæti stytt þann tíma, sem fer í það að vinna grenið. En það, sem ég er hræddari við, er það, að ef þetta er leyft, verður þetta hættulega efni í höndum margra manna og miklu meiri hætta á því, að það sé notað í öðrum tilgangi en þessum. Sem sagt, ég er mjög eindregið meðmæltur að framlengja þetta eiturbann eins og hæstv. ríkisstj. hefur lagt til með þessu frv., en mun ekki greiða atkvæði með brtt.