06.03.1969
Neðri deild: 61. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

97. mál, brunavarnir og brunamál

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það er aðeins bending. Með þessu frv. er gert ráð fyrir að setja á fót nýja ríkisstofnun, og við þekkjum það af reynslunni, að það hefur talsverðan kostnað í för með sér að koma nýjum stofnunum á fót. Í hvert skipti, sem kemur til mála að setja á fót nýja stofnun, er vafalaust skynsamlegt að velta því fyrir sér, hvort það væri hugsanlegt að fá þau verk unnin, sem stofnuninni er ætlað að koma í framkvæmd, með hagfelldara móti, til að mynda með því að fela einhverri stofnun, sem fyrir er, verkin, en venjulega mundi það verða ódýrara í framkvæmdinni, ef hægt væri að sameina verkin einhverri starfrækslu, sem áður er með höndum höfð, ef hún er líks eðlis, og jafnvel þannig, að hægt væri að sameina að einhverju leyti þá vinnu. sem til greina kemur.

Ég mundi nú vilja beina því til hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, og hæstv. ráðh., hvort ekki væri hægt að fá þau verk unnin, sem ráðgerð eru í frv., án þess að koma á fót nýrri stofnun og þá fyrst og fremst með þetta sjónarmið í huga, sem ég lýsti. Því að þó að ekki sé gert ráð fyrir, að ríkissjóður sjálfur eða þegnarnir með sköttum standi undir kostnaði við þá stofnun, sem hér er ráðgert að koma upp, þá verður kostnaðurinn greiddur samt raunverulega af almenningi í gegnum þau iðgjöld og aðrar greiðslur, sem menn inna af höndum til tryggingafélaganna. Og þannig kemur þetta nokkuð niður í einn stað að lokum.

Ég vil biðja hæstv. ráðh. að líta ekki á þetta sem neina meinbægni í hans garð á nokkurn hátt, því að við þekkjum það svo mætavel, að mönnum kemur það oft fyrst í hug, að það muni vera heppilegast að hafa hvert verkefni skilgreint út af fyrir sig í sérstakri stofnun, og það er sótt á það víða í ríkiskerfinu að koma því þannig fyrir, og því er ekkert undarlegt, þó að þetta frv. sé komið fram. En ég vildi benda mönnum á þetta sjónarmið og fara fram á það, að þetta verði rækilega skoðað. Ég treysti mér ekki til þess að gera brtt. um þetta, en ég vil kasta því fram, hvort ekki væri hugsanlegt, að Brunabótafélag Íslands hefði þessa starfrækslu með höndum, sem hér er ráðgerð, en það hefur með höndum það almenna brunaeftirlit samkv. því, sem gert er grein fyrir í grg. frv., en fengi að sjálfsögðu kostnaðinn borinn uppi að sanngjörnum hluta af öðrum tryggingafélögum, því það er alveg rétt, sem bent er á í grg. þessa frv., að það er ekki sanngjarnt, að Brunabótafélag Íslands, sem starfar sem eins konar samkeppnisaðili við önnur tryggingafélög, hafi með höndum sérstakt brunaeftirlit, sem öllum kemur að gagni, án endurgjalds frá öðrum. Þá kasta ég líka fram, hvort það væri ekki hugsanlegt, ef það telst ekki fært að hafa þetta áfram hjá Brunabótafélagi Íslands, að hafa þetta sem einhvers konar deild í Öryggiseftirliti ríkisins, og gæti þá kannske komið í ljós, að nota mætti að einhverju leyti sömu starfskrafta, til að mynda til þess að ferðast út um land í erindum þess almenna öryggiseftirlits brunavarnanna um leið. Ég vildi beina því til hæstv. ráðh. og n., að þetta verði rækilega skoðað, því að ég held, að við eigum að hugsa okkur um oftar en tvisvar í hvert skipti. sem til greina kemur að setja á fót nýja stofnun, og það m.a. vegna þess, að okkur vantar margar stofnanir, sem við ekki höfum treyst okkur til að koma á fót vegna kostnaðar og sem þyrftu að komast á fót. Ég fer ekki að nefna þær stofnanir hér. Nefni þó ýmsar stofnanir í félagsmálum og heilbrigðismálum, sem okkur væri lífsnauðsyn að koma á fót, en sem við þorum ekki að leggja í vegna kostnaðar, og einmitt þetta gerir það enn meira aðkallandi, að í hvert skipti, sem kemur til greina að setja upp nýja stofnun, sé það ekki gert nema af ríkri nauðsyn. Telji menn sér fært að setja upp nýja stofnun, eru það einmitt þessar stofnanir, sem fyrst og fremst þarf að taka fram fyrir. Hér verður að raða verkefnum skynsamlega niður, þannig að í þau verkefni sé ráðizt, sem brýnust eru. Ég dreg alls ekki í efa, að það þurfi að vinna þau verk, sem gert er ráð fyrir í frv. Ég vil biðja menn að misskilja það ekki. Ég dreg alls ekki í efa, að það verði að vinna þau verk, sem sé að efla stórlega þessa starfrækslu, brunaeftirlit og brunavarnir. Spurningin er aðeins, hvort ekki væri hægt að koma framkvæmdinni hagkvæmar fyrir en gert var ráð fyrir í frv.