06.03.1969
Neðri deild: 61. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

97. mál, brunavarnir og brunamál

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hef síður en svo á móti því, að þessi hlið málsins, sem hv. 1. þm. Austf. benti hér á, verði rannsökuð ýtarlega af n. og það kannað, hvort hægt muni að koma þessum málum annars staðar betur fyrir. En ég vil skýra frá því jafnframt, að þetta varð ein meginástæðan til þess, að málið náði ekki fram að ganga á s.l. ári, að menn töldu ekki ólíklegt, væri kannske réttara að segja, að þessu eftirliti mætti með sama árangri koma fyrir í öðrum stofnunum og þá sérstaklega með í huga Öryggiseftirlit ríkisins. En eftir allmiklar umr. um málið í n. í Nd. varð það sannfæring þeirra manna þar, að þessu yrði ekki við komið nema í svo sárafáum atriðum, að það réttlætti ekki að stöðva málið enn á ný. Það var talið af nm. hálfu, að eftirliti í einstaka tilfellum á þessu tvennu, þ.e.a.s. öryggisútbúnaði á vinnustöðvum, vinnupöllum og öðru slíku, mætti koma við, sérstaklega þar sem um stór fyrirtæki væri að ræða. Þar mætti hafa sameiginlega eftirlitsmenn, sem væru að hluta til á launum hjá báðum þessum stofnunum, en öll meginverkefnin, sem um væri að ræða, væru svo óskyld, að það yrði ekki sameinað nema þá með tvöföldu starfsliði og þá væri enginn vinningur að sameiningunni orðinn. Það er rétt, eins og hv. þm. benti á, að hingað til hefur það óréttmæti gilt, að á Brunabótafélag Íslands hafa verið lagðar þær kvaðir að standa undir kostnaði við brunavarnaeftirlit ríkisins. Þess vegna er Brunabótafélagið núna einn helzti hvatamaður þess, með tryggingafélögin hin með sér öll, að ég hygg, að óska eftir framgangi þessa frv. Enda er það, eins og hann tók réttilega fram, í alla staði óeðlilegt, að einni stofnun í kerfinu séu falin verkefni, sem eiga að berast uppi af öllum tryggingafélögunum, eins og lagt er til í þessu frv.

Sem sagt, um leið og ég legg áherzlu á, að málið nái fram að ganga nú, er það alls ekki vegna þess, að ég vilji ekki gefa þeirri hv. n., sem málið fær hér til meðferðar. tíma til þess að kanna þessa hluti til hlítar. Ég er því fyllilega samþykkur, en niðurstöður manna eftir langar og miklar umr. um þessi mál, sem ég hef leitað til og tel, að þekki þessi mál gerst, og niðurstaða n. í Ed. var einróma sú að leggja til, að málið næði fram að ganga með þeim breytingum, sem þeir fengu samþykktar á frv. Ég sem sagt leyfi mér að draga í efa, að þessi sameining sé möguleg. Ég er því hjartanlega samþykkur, að það á ekki að unga út fleiri stofnunum en brýna nauðsyn ber til og gæta þess vandlega, að það sé full nauðsyn á þeim stofnunum, sem settar eru á stofn. Ég er hins vegar sannfærður um það eftir að hafa haft þetta mál milli handanna nú um tveggja ára skeið, að hér er brýn þörf á, að úr verði bætt, og hef síður en svo á móti því, að þessari hv. d. gefist eðlilegur tími til að afgreiða málið, en ég tel mikla nauðsyn á, að það fái endanlega afgreiðslu á þessu þingi, þó að nægur tími sé gefinn til þess að kanna málið frá öllum hliðum.