06.03.1969
Neðri deild: 61. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (1086)

97. mál, brunavarnir og brunamál

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að ráðh. tók vel í það, að þetta yrði rækilega skoðað enn á ný, og ég vil taka það fram, að ég er ekki að benda á þetta af áhuga fyrir því að tefja málið, síður en svo. Ég held, að það mætti vel koma því heim og saman eins og hann sagði að athuga þessa hlið gaumgæfilega, en afgreiða málið samt á þessu þingi. því að mér sýnist það augljóslega rétt, sem hann hefur haldið fram og kemur fram í grg. málsins, að það þurfi að koma í lög endurbótum í þá stefnu, sem hér er ráðgert í frv. Spursmálið er eingöngu um það, hvernig eigi að koma þeirri vinnu fyrir, þannig að sem hagkvæmast verði.

Svo vil ég benda á, að þó að mönnum sýndist, að ekki væri hægt að gera mikið í sömu ferðinni varðandi eftirlit með almennum öryggisbúnaði og brunavörnum, gæti samt verið skynsamlegra að sameina þessa starfrækslu annarri stofnun, og það er vegna þess, að bara það að setja upp sérstaka stofnun til að annast eitthvert tiltekið verkefni kallar á meiri kostnað en hitt, að koma þeirri sömu vinnu í framkvæmd í annarri stofnun, sem fyrir er, t.d. í deild. Það er ekki nokkur snefill af vafa um það, að ef hægt er að setja slíka starfrækslu í deild í stofnun, sem fyrir er, þá bólgnar þetta ekki eins mikið og verða vill í nýrri stofnun. Sjálfstæðar stofnanir verða dýrari, og ég vil lýsa ánægju yfir því, að hæstv. ráðh. vill láta skoða þetta hleypidómalaust, og þótt ekki reyndist skynsamlegt að lokinni skoðun að setja þetta inn í Öryggiseftirlit ríkisins, því þá ekki að Brunabótafélag Íslands hafi þetta áfram og það verði deild hjá því, í þeirri að mörgu leyti myndarlegu stofnun, og Brunabótafélagið fái allan kostnað uppi borinn, sem við þetta verður? Það mætti vera sérstök nefnd, ef endilega þætti nauðsyn bera til þess að stýra þeirri deild, sem þetta hefði með höndum.