29.04.1969
Neðri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í B-deild Alþingistíðinda. (1090)

97. mál, brunavarnir og brunamál

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Lengi má bæta pinkli á gömlu Skjónu. Hér er á ferðinni frv. um nýja stofnun, mikla, sem á að heita Brunamálastofnun, og brunamálastjóri sérstakur á auðvitað að veita henni, forstöðu, og síðan á hann að ráða starfsmenn stofnunarinnar í samráði við rn. o.s.frv., og svo fylgir auðvitað með skattur á almenning til þess að standa undir þessu öllu saman. Ég tel engan vafa leika á því, að það væri hægt að koma þessu betur fyrir með öðru móti, eftirliti með brunavörnum, t.d. með því að semja við Brunabótafélag Íslands um að annast þetta, sem það hefur reyndar gert að nokkru undanfarið, eða þá að fela stofnun, sem til er, sem heitir Öryggiseftirlit ríkisins, að annast þetta. Og mér skildist á hv. frsm. heilbr.- og félmn., að hann telji, að það hefði verið æskilegt að geta losnað við það að setja á fót þessa sérstöku stofnun. En hins vegar virtust rökin fyrir því, að n. leggur til, að það sé gert, vera þau aðallega, að hv. Ed. hefði talið rétt að samþykkja þetta. Nú er það alkunnugt, að Nd. tekur oft aðra afstöðu í málum heldur en hv. Ed. og Ed. hefur einnig stundum aðrar skoðanir á málunum heldur en Nd.

Það var ráðh. úr Alþfl., sem fylgdi þessu stjfrv. úr hlaði, þegar það var lagt hér fram. Vel getur verið, að einhver maður finnist enn í hans flokki, sem ekki hefur fengið stöðu hjá því opinbera, og kannske eru einhverjir fleiri þar, sem gjarnan vildu verða undirmenn við þetta nýja fyrirtæki. En hefði ekki verið möguleiki að útvega þeim mönnum atvinnu við eitthvað annað? Nú eru menn að fara til Svíþjóðar til að vinna þar í skipasmiðju. Líklega hefðu þeir ekki getað komizt þar að, því að trúlega eru þeir ekki smiðir, og sennilega fýsir þá heldur ekki að fara til Grænlands í byggingarvinnu, en þangað fara nú íslenzkir allmargir. En spurning er, hvort hæstv. ráðh. hefði ekki getað útvegað þessum mönnum eitthvað að gera utanlands á öðrum stöðum. því að þeir eru víða kunnugir, þekkja menn þar og eru oft í förum landa á milli.

Ég tel þetta vera óþarft mál, eykur aðeins kostnað og fyrirhöfn ýmsra. Það er t.d. ákveðið í þessu frv., að þeir, sem ætla að reisa nýbyggingar hvar sem er á landinu eða framkvæma meiri háttar breytingar á mannvirkjum, skuli senda Brunamálastofnuninni í Reykjavík uppdrætti og fá hennar samþykki til þess að gera þetta, og engri byggingarnefnd er heimilt að afgreiða slíka uppdrætti eða láta hefja framkvæmdir nema Brunamálastofnunin hafi áður samþykkt uppdrættina.

Ég varð reyndar ekkert furðu lostinn yfir því, þó að hæstv. ríkisstj. legði svona frv. fram. En hitt þykir mér merkilegra, að heil þn. skuli mæla með þessu.