29.04.1969
Neðri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (1091)

97. mál, brunavarnir og brunamál

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til áréttingar, einkum til þess að lýsa því yfir, að ég er algerlega á öndverðri skoðun við hv. síðasta ræðumann. Þetta mál er orðið mjög brýnt. Þessi mál eru komin í mikinn ólestur hjá okkur og langt á eftir tímanum. Eins og bent er á í grg., leiðir samanburður á brunatjónum á Íslandi og í nágrannalöndum okkar það í ljós, að meðaltjón á íbúa er hér tvöfalt til þrefalt hærra en þar. Og þar að auki er auðvelt að sýna fram á það, að einmitt þetta mikla og geigvænlega brunatjón, sem við höfum orðið vitni að hvað eftir annað nú upp á síðkastið, má einmitt rökstyðja með of litlu eftirliti í þessum efnum, og er ekki að undra, þar sem Brunavarnaeftirlitið hefur aðeins haft núna um langan tíma einum eftirlitsmanni á að skipa. Þetta er orðið svo alvarlegt mál, að ég hygg, að aðrar þjóðir, sem endurtryggja, séu farnar að líta okkur mjög óhýru auga út af þessum málum. Það hefur verið talað um, að hér væri verið að setja á fót nýtt bákn eða nýja stofnun, kostnaðarmikla, en á það má benda, að sá kostnaður, sem af þessu leiðir, á að greiðast af tryggingarfélögum, eins og kemur fram í frv. sjálfu, og hvar ætti hann frekar að koma niður heldur en á þeim aðilum, sem taka á móti iðgjöldum og eiga að hafa hönd í bagga með, að þessum málum sé vel skipað? Ég vil því lýsa því yfir, að ég tel mjög brýna nauðsyn á því, að þetta mál nái fram að ganga og það þegar á þessu þingi.