29.04.1969
Neðri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

97. mál, brunavarnir og brunamál

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég minntist á það við 1. umr. málsins, að mér fyndist ástæða til að skoða, það gaumgæfilega, hvort ekki væri hægt að auka eftirlit með brunavörnum og brunamálum án þess að setja upp nýja stofnun.

Mér eru það mikil vonbrigði, að n. skuli hafa snúið sér að því að mæla með frv, í stað þess að fara inn á þá braut að koma þessu eftirliti undir einhverja aðra stofnun, sem fyrir er, og þá helzt Öryggiseftirlit ríkisins.

Ég álít, að það þurfi að auka mikið starfrækslu í þessu efni, en það muni verða ódýrara og hagfelldara að setja þetta undir slíka stofnun, sem fyrir er, en að setja upp nýja stofnun. Stofnanir hlaða utan á sig mjög kostnaði, eins og menn hafa ríka reynslu af. Ekkert af því, sem fram hefur komið frá n., hvorki í nál. né framsögunni eða þeirri ræðu, sem flutt var hér áðan málinu til stuðnings, hefur sannfært mig um, að það þurfi endilega að setja upp nýja stofnun í þessu tilliti, þó að ég endurtaki það enn einu sinni, að það er þörf á meiri starfrækslu í þessu skyni. Sýnist mér, að það hefði mátt sameina þetta Öryggiseftirlitinu. Ég mun þess vegna greiða atkv. á móti frv.