29.04.1969
Neðri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

97. mál, brunavarnir og brunamál

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það var aðeins til að segja það út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að ég kannast við þessa tegund af röksemdafærslu, sem beitt er af svokölluðum sérfræðingum í þessu efni til þess að koma þarna upp nýrri stofnun. Ég þekki áráttu manna í þá átt að búa þannig út af fyrir sig og heimta nýjar stofnanir. Ég er þessu mjög kunnugur, og það sannfærir mig ekki í þessu, sem hann hafði eftir þeim, sem þarna eiga hlut að máli. Ég er alveg sannfærður um, að það er hægt að samræma þetta Öryggiseftirlitinu þannig að vel fari og hafa í þessu öllu samt nægilegan kraft.

Við vitum, að það er algengast, að þeir, sem fjalla um ýmsa málaflokka, vilja vera algerlega út af fyrir sig, óháðir og horfa þá ekki í kostnaðinn í því sambandi. Þetta er ekkert óeðlilegt sjónarmið frá hálfu þeirra manna, sem fara með málin. Það er ákaflega ríkt í mannlegu eðli að vera ekki undir neinn gefinn, nema þá í mesta lagi ráðh. o.s.frv., að vera t.d. ekki deildarstjóri í annarri stofnun. Þetta er ekkert nema mannlegt, en það er einmitt þetta sjónarmið, sem hv. alþm. verða að mínu viti að meta rétt og standa gegn þessu, þar sem ástæða er til, því að annars er enginn endir á þessu, hvernig þetta þenst út.