17.03.1969
Efri deild: 59. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

169. mál, lækningaleyfi o.fl.

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um breyt. á l. um lækningaleyfi er eins og fram kemur í aths. samið af landlækni eða embætti hans, og aðalefni þess er, eins og þar segir einnig, eða aðalefnið er í tvennu lagi: Annars vegar heimild til þess að veita erlendum ríkisborgurum tímabundið lækningaleyfi hér á landi, þegar nánari tiltekin skilyrði eru fyrir hendi, og í öðru lagi heimild til þess að skylda lækna til þess að halda skrá yfir ávísanir á ávana- og fíknilyf, ef landlæknir telur ástæðu til, og einnig heimild til að svipta lækni leyfi til þess að ávísa slíkum lyfjum.

Af þessari síðari brtt. leiðir, að í stað þess, sem áður var, ef lækni varð eitthvað á í störfum sínum, þá var ekki nema eitt ráð tiltækt, ef svo þótti mikið þurfa við, þ.e.a.s. svipta lækningaleyfi, en það mundu verða þrjú stig með þessu móti til aðgerða og þá í fyrsta lagi skráningarskylda á fíknilyfjum og læknir heldur réttindum sínum, en honum ber að gera ráðh. nákvæma grein fyrir ávísunum á ávana- og fíknilyf, og annað skilyrði svipting slíks leyfis til þess að ávísa á ávana- og fíknilyf, en önnur réttindi læknisins yrðu óskert.

Og svo yrði þriðja stigið og það síðasta eins og nú er, ef á yrðu slíkar misfellur, að svipta lækni algerlega lækningaleyfinu, og þá yrði það væntanlega sú ráðstöfun, sem síðast yrði gripið til.

Þetta frv. er eins og ég sagði samið af landlækni og í samráði við læknadeild Háskólans og einnig í samráði við Læknafélag Íslands, og er talið, að þessi breyting frá því, sem áður hefur verið, gæti að vissu leyti stefnt til góðra áhrifa, og yrði kannske hægt að koma í veg fyrir meiri misfellur með því að byrja þegar að grípa til smærri ráðstafana eða aðgerða heldur en þeirra að svipta lækni beinlínis læknaleyfinu. Þetta er aðalefni málsins, herra forseti, og leyfi ég mér að leggja til, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.