21.04.1969
Efri deild: 76. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í B-deild Alþingistíðinda. (1105)

169. mál, lækningaleyfi o.fl.

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Aðalefni þessa frv., sem er frv. til l. um breyt. á l. um lækningaleyfi o.fl., er í því fólgið að heimila að veita erlendum ríkisborgurum tímabundið lækningaleyfi hér á landi, þegar tiltekin skilyrði eru fyrir hendi, en þau eru upp talin í 2. gr. frv., m.a. þau, að viðkomandi læknir hafi lokið prófi í læknisfræði frá viðurkenndum háskóla og hafi nægilega kunnáttu í töluðu og rituðu íslenzku máli að dómi landlæknis, enda sé um að ræða tiltekið læknisstarf, sem enginn íslenzkur læknir hefur fengizt til að gegna.

Í öðru lagi felast þær breytingar í frv., að heimilt er að skylda lækna til að halda skrá yfir ávísanir á ávana- og fíknilyf, ef landlæknir telur ástæðu til, og einnig heimild til að svipta lækni leyfi til að ávísa slíkum lyfjum. Þetta frv. er undirbúið á vegum landlæknisembættisins, og þetta frv. var, áður en það var fullsamið, einnig sent til umsagnar Læknafélagi Íslands, og stjórn þess hefur mælt með því, en gerði tiltekna brtt., sem tekin var upp í frv. áður en endanlega var frá því gengið og hefur sem sagt mælt með frv. í þeim búningi, sem það er nú.

Í þriðja lagi felst það reyndar í þessu frv., að það er breytt um heiti á þessum lögum, og þau skulu eftirleiðis heita „læknalög“. Skrifstofa Alþingis hefur vakið athygli mína á því eftir að n. afgreiddi þetta mál, að það færi betur á því að bæta þarna við ákvæði um það, að þegar þessi lög hafa hlotið staðfestingu, skuli fella meginmál þeirra ásamt meginmáli l. nr. 8 frá 15. febr. 1964 inn í l. nr. 47 frá 23. júní 1932 og gefa þau út þannig breytt, og leiðir þetta fyrst og fremst af því, að hér er breytt um heiti á l., og geri ég ráð fyrir, að n. taki þetta atriði til meðferðar á milli 2. og 3. umr. En þetta mál var fyrir heilbr.- og félmn., og varð n. sammála um að mæla með því, að frv. yrði samþykkt.