14.04.1969
Neðri deild: 76. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (1132)

117. mál, Háskóli Íslands

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ræða sú, sem hæstv. menntmrh. flutti hér áðan, gefur mér tilefni til að ætla, að hér sé eitthvað dálítið meira á seyði en efni þessa frv. Tónn hæstv. ráðh. út í Háskóla Íslands og prófessora hans var slíkur, að ég gat ekki betur heyrt en hann væri að koma hér fram einhverjum persónulegum hefndum gagnvart Háskólanum. Ég lét þess getið í ræðu minni áðan, að það væru undarlegir sambúðarerfiðleikar í ýmsum deildum Háskólans. Þeir eru ákaflega alvarlegir, menn geta ekki ræðzt við, menn geta ekki unnið saman, og ég hef heyrt því fleygt að undanförnu, að það hafi komið upp einhverjir hliðstæðir sambúðarörðugleikar milli Háskólans og hæstv. menntmrh. Ræða sú, sem hann flutti hér áðan, virðist mér benda ótvírætt til þess, að sú sé raunin.

Hæstv. ráðh. fór með stóryrði um prófessora heimspekideildar, bar upp á þá, að þeir hefðu móðgað Alþ., farið með ósannindi, framkoma þeirra væri hneyksli. Og hann kom sjálfur með hæstaréttardóm um þetta. Það var hvorki meira né minna en Salmonsens Konversations Leksikon, Bonniers leksikon og Encyclopædia Britannica. Þetta er hæstaréttardómur að mati þessa hæstv. ráðh. yfir prófessorum við Háskóla Íslands.

Ég hef sjaldan heyrt frá dómbærum manni mat eins og þetta. Heimspekideild Háskóla Íslands segir í þeim lið, sem hæstv. ráðh. var að gagnrýna, að þótt fræðigrein sú, sem hér er um að ræða, hafi nokkra sérstöðu hérlendis, þá sé hún ekki þess eðlis, að hún geti verið sjálfstæð háskólagrein. Það er alkunna, að í norrænudeild Háskólans eru starfandi vísindamenn eða fræðimenn, sem eru mjög vel að sér um ættfræði og hafa sinnt þeim verkum. En þeir líta á það sem lið í almennum fræðirannsóknum, ekki sem sjálfstæða vísindagrein. Þetta er auðvitað alveg rétt hermt hjá heimspekideildinni, og svör hæstv. ráðh. við þessu eru hreinlega útúrsnúningur, sem er algerlega ósæmandi fyrir þennan hæstv. ráðh. Tilefnið eru ekki þau orð, sem hér standa, heldur hlýtur það að vera einhver reiði af allt öðru tilefni.

Hæstv. ráðh. mótmælti því einnig, að prófessorar heimspekideildar tala um, að deildin harmi, að mál þetta skuli hafa verið borið fram, án þess að nokkurt samráð væri haft við deildina, og hann segir, að sá aðili, sem hann eigi að hafa samráð við í Háskóla Íslands, sé háskólaráð. En ég vil minna hæstv. ráðh. á það, sem segir í 12. gr. 1. um Háskóla Íslands, einmitt um tilefni eins og það, sem við erum hér að ræða um. Sú gr. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar sérstaklega stendur á, getur menntmrh. samkv. till. háskóladeildar og með samþykki háskólaráðs boðið vísindamanni að taka við kennaraembætti við Háskólann, án þess að það sé auglýst laust til umsóknar.“

Hér er verið að flytja till. um, að stofnað verði nýtt prófessorsembætti og bundið við nafn ákveðins manns. En í háskólalögunum segir, að þegar slíkt gerist, skuli það gert samkv. till. háskóladeildar. Það er skylda hæstv. ráðh. að leita til viðkomandi háskóladeildar, og ákvörðunin verður að vera í samræmi við till. hennar. Enda er það ekki neitt út í bláinn, að þegar háskóladeildin mótmælir þessu frv., sér meiri hl. menntmn. í samráði við ráðh. sér ekki annað fært en færa embættið til annarrar deildar vegna þess, að annars væri verið að brjóta í bága við háskólalögin. En ég sé raunar einnig ástæðu til að taka undir það, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði hér áðan. Ég vildi gjarnan fá samþykki lagadeildar um, að lagadeildin fallist á, að stofnað verði prófessorsembætti í ættfræði við þá deild. Þegar hæstv. ráðh. flutti þetta frv. í upphafi, staðhæfði hann, að frv. væri flutt í samráði við Háskólann, og samkv. háskólalögum hlaut maður að taka það þannig, að það væri gert í samráði við þá deild, sem átti að fá prófessorsembættið, því að þar stendur, að þetta skuli gert samkv. till. þeirrar deildar. En það kom í ljós, að þetta stóðst ekki. Deildin var á móti því, þannig að ég held, að það sé öruggara fyrir Alþ. að fá formlegt bréf um það frá lagadeild, að hún vilji taka við þessu embætti.

Annars ætlaði ég ekki að fara að blanda mér sérstaklega í þessar tilfinningadeilur hæstv. menntmrh. við Háskóla Íslands. En ég vona, að þessi undarlega ræða, sem hann hélt hér um það efni, leiði til þess, að ýmislegt skýrist í því sambandi á næstunni, því að væntanlega munu þeir menn, sem hér eru þornir sökum í þingsölunum án þess að hafa tök á því að svara hér sjálfir, svara fyrir sig á öðrum vettvangi. En á hitt vil ég leggja áherzlu, sem ég sagði áðan, að þetta mál er eins og það er borið fram núna alger fjarstæða. Það er hreinlega hlægilegt að stofna prófessorsembætti í ættfræði við lagadeild Háskóla Íslands. Það er hlægilegt frá öllum sjónarmiðum. Þó að hæstv. ráðh. leiti með logandi ljósi í Salmonsens Leksikon og Bonniers Leksikon og Eneyelopædia Britanniea, þá mun hann ekki finna dæmi þess nokkurs staðar í víðri veröld, að ættfræði sé flokkuð undir lögfræði. Þetta er alger endileysa, og ég vil skora á hæstv. ráðh. að fallast á það, sem ég beindi til hans hér áðan, að leysa þetta mál á þann hátt, sem fyrirhugað var í upphafi, með því að tengja þetta starf við erfðafræðinefnd Háskólans. Það er það eina, sem er skynsamlegt í þessu efni.

Fari hins vegar svo, sagði ráðh. áðan, að þetta frv. nái ekki fram að ganga, mun hann skipa í embætti æviskrárritara, en það verður ekki Einar Bjarnason. Ég vil lýsa yfir þeirri skoðun minni, að ég tel embætti æviskrárritara gersamlega óþarft, og ef það verður ekki tengt við erfðafræðistofnunina, eins og fyrirhugað var, ber hreinlega að leggja það embætti niður. En hitt tel ég, að alþm. eigi ekki að þola, að hæstv. menntmrh. haldi þannig á málum hér á Alþ. að leysa þau á algerlega fráleitan hátt vegna þess eins, að hann telur sig þurfa að skeyta skapi sínu á ákveðinni háskóladeild. Það er ekki forsenda. sem hægt er að viðurkenna.