14.04.1969
Neðri deild: 76. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (1134)

117. mál, Háskóli Íslands

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég held, að þetta mál sé nú eitt af þeim, sem sýni eða sanni það, sem oft hefur verið sagt, að við lifum í landi kunningsskaparins, því að ég hygg, að það verði niðurstaðan alveg óhjákvæmilega, ef menn íhuga þetta mál rólega og taka utan af því allar þær umbúðir, sem það er vafið í. að það sé fyrst og fremst tilgangurinn með frv. að koma ákveðnum manni að sem prófessor við Háskóla Íslands. fyrst og fremst af persónulegum ástæðum og kunningsskap við hann. Ég get vel tekið undir það, að það geti verið eðlilegt að skapa Einari Bjarnasyni, vegna þess að hann er slíkur fræðimaður, sérstaka aðstöðu til þess að helga sig ættfræðirannsóknum það, sem eftir sé ævinnar, og það verði heppilegri lausn, að annar maður taki við því starfi, sem hann gegnir nú. En mér sýnist, að það sé ekki til annars heldur en vera að fullnægja misskildum metnaði að tengja slíka lausn málsins sérstaklega við Háskóla Íslands. Þetta er nú sannleikurinn um þetta mál, ef hann er sagður umbúðalaust. Og þetta kom alveg greinilega fram í þeirri ræðu, sem hæstv. menntmrh. flutti hér áðan. Hann rakti þar ákaflega mikinn raunaferil, eða hvernig hann hefði með ýmsu móti hugsað sér að leysa þetta mál. Ég reyndi að fylgjast með því, en mér tókst það ekki, hvað ráðh. hafði snúizt oft í þessu máli um það, hvernig ætti að leysa það. Fyrst vildi hann leysa þetta svona, svo vildi hann leysa þetta á hinn veginn, og svo vildi hann leysa þetta á annan veg, og niðurstaðan varð sú — ég gat ekki skilið það betur — að það séu allt aðrir en hann, sem ættu hugmyndina að þessari lausn, sem hér væri endanlega fundin. Nú í seinustu ræðu sinni endurtók hann það, að bæði hann og öll ríkisstj. væru þeirrar skoðunar, að þetta embætti ætti eiginlega ekki heima við lagadeild Háskólans. Nei, þetta er allur gangur þessa máls. Hann sýnir það, að hér er verið að fullnægja persónu- og vináttusjónarmiðum, en ekki stefnt að einhverri eðlilegri lausn þessa máls eða nokkuð verið að hugsa um hag Háskólans í þessu sambandi.

Það, sem var þess mest valdandi, að ég kvaddi mér hér hljóðs, voru þau ummæli, sem hæstv. ráðh. hafði um nokkra kennara við heimspekideild Háskóla Íslands. Mér virtist nú hæstv. ráðh. fara rangt með hér í ræðu sinni áðan, þegar hann hélt því fram, að það væru aðeins fjórir prófessorar eða starfsmenn við heimspekideildina, sem hefðu mótmælt þessu frv. Mér sýnist, að það séu þeir allir, báðir helmingarnir, sem hafa sent álit sitt til menntmn., sem mótmæla frv. Þeir gera það að vísu með mismunandi hætti. Annar helmingurinn gerir þetta alveg afdráttarlaust, en hinn helmingurinn tekur það fram, að hann álíti þetta embætti ótímabært og það séu mörg önnur embætti, sem meiri þörf sé á við heimspekideildina eða Háskólann heldur en þetta, svo að ég get ekki betur séð, þó að hæstv. ráðh. sé þarna að reyna að kljúfa heimspekideildina í tvennt, en hún sé sammála um það meginatriði, að þetta embætti sé ótímabært og eigi ekki að stofna við heimspekideildina að sinni.

Hæstv. ráðh. fór hér alveg furðulegum orðum um annan helming heimspekideildarinnar og vildi halda því fram, að hún hefði farið með fullkomlega rangt mál eða staðhæfingar í sínu áliti. Það er nú þegar búið að svara þessu af hv. 6. þm. Reykv., því að hæstv. ráðh. byggir hneykslunardóm sinn um þessa prófessora á algerlega röngum forsendum. Þeir segja það — sem hann hefur ekki getað hrakið, þó að hann hafi lesið hér upp úr alþjóðabókum — að þess séu ekki dæmi, að ættfræði sé tekin upp sem sjálfstæð háskólakennsla eða kennsla við háskóla. Og ég held, að megi segja það, að hún geti ekki verið sjálfstæð háskólagrein. Ég held, að í því, sem hæstv. ráðh. las hér upp úr alfræðibókinni, hafi hvergi komið fram, að hér sé um sjálfstæða háskólagrein að ræða, svoleiðis að það er hæstv. ráðh., sem hefur farið hér með staðlausa stafi, en ekki þeir prófessorar, sem hann telur sig vera að andmæla.

Annars get ég fullkomlega gert þau ummæli, sem hæstv. ráðh. reyndi að leggja þessum prófessorum í munn — en þeir hafa að vísu ekki sagt, að ættfræði geti ekki orðið vísindagrein — algerlega að mínum. Ég held, að það sé alveg útilokað, að hægt sé að gera ættfræði að öruggri vísindagrein, og ég vil í því sambandi rifja upp viðtal tveggja merkra látinna þm., sem mér er sagt, að hafi átt sér stað hér í hliðarherbergi einu sinni. Þeir voru Jón Þorláksson og Magnús Torfason og voru að ræða um sína forfeður, og báðir töldu sig vera komna út af mjög merkum manni, sem ég man nú ekki hver var. En báðir töldu sér mikinn sóma í því að vera komnir út af þessum heiðursmanni. En þannig stóð á, að Jón Þorláksson var kominn út af þessum manni í karllegg, en Magnús í kvenlegg, og til þess að hafa nú betur í þessari viðureign segir Jón Þorláksson: „Minn er virðulegri.“ Hann sagði, að sinn ættleggur væri virðulegri vegna þess, að hann væri kominn út af þessum manni í karllegg. En Magnús svaraði og sagði, að sinn væri vissari, og ég held, að það hljóti öllum að vera ljóst, sem hugsa þessi mál. En það er þessi skýring Magnúsar, sem veldur því, að ættfræði getur aldrei orðið örugg vísindagrein, eins og hæstv. menntmrh. var að halda fram. Og ég hygg, að bara með því að ráðh. íhugi þetta viðtal þeirra Jóns Þorlákssonar og Magnúsar Torfasonar, geri hann sér grein fyrir því, að ættfræði getur aldrei orðið örugg vísindagrein, eins og t.d. erfðafræði, þar sem er unnið að þessum málum með allt öðrum hætti. En fyrst ég er kominn hingað, vil ég ekki fara héðan án þess að segja, að frá mínu sjónarmiði er hér um að ræða hreint hneykslismál. Það stafar ekki af því, að ég sé í því sambandi neitt að ræða um persónu Einars Bjarnasonar, eða hvernig hans mál eigi að leysa, heldur hinu, hvernig þetta sýnir þann aðbúnað, sem hæstv. ríkisstj. veitir Háskólanum. Hér á Alþ. er búið að stofna með l. ýmis prófessorsembætti, sem eru þó bundin því skilyrði, að ekki eru skipaðir menn í þau nema veitt sé til þeirra fé á fjárl. Það mun vera í l. nú heimild til stofnunar allmargra slíkra prófessorsembætta. Það liggja einnig fyrir till. frá bæði háskólaráði og háskóladeildum um stofnun ýmissa prófessorsembætta, sem Alþingi hefur enn ekki veitt sitt samþykki til, og ég vil halda því fram, að ef við sýndum Háskóla Íslands þann sóma, sem þessi stofnun verðskuldar, þá ætti Alþingi að taka þessi mál öll til meðferðar í heild, gera fullkomna áætlun um það, hvaða prófessorsembætti sé nauðsynlegt að stofna við Háskólann til að gera kennsluna þar nægilega fullkomna í hinum ýmsu deildum og þá jafnframt semja lög um það, ef ekki telst hægt að stofna til þessara embætta allra í einu, í hvaða röð á að efna til þeirra. Þannig eigum við að fjalla um mál Háskóla Íslands, en að taka mál við Háskóla Íslands upp á þann hátt, að það þarf að skapa einhverjum manni aðstöðu til að stunda fræðigrein, sem ekki skiptir Háskólann neinu sérstöku máli, taka það mál eitt út úr og búa til prófessorsembætti handa honum við Háskólann, meðan öll hin embættin, sem talin eru miklu nauðsynlegri og meira aðkallandi eru látin bíða, slíka vinnuaðferð tel ég vera alveg fullkomið hneyksli. Og mér finnst, að í þessum vinnubrögðum hæstv. menntmrh. — af því að hann beitir sér fyrir því, að þannig er haldið á málum — þá felist eiginlega fullkomið virðingarleysi fyrir þessari stofnun.

Ég held, að menntmrh. mundi ekki vinna að þessum málum eins og gert er t.d. með þessu frv., ef hann bæri fulla virðingu fyrir Háskóla Íslands og því, hvernig á að leysa þessi mál hans. Þá á að sjálfsögðu að gera það á þann hátt, að þau séu endurskoðuð í heild, gerð áætlun um það, hvernig eigi að fjölga kennurum, eftir því hvað nauðsynlegir þeir eru taldir og sú áætlun framkvæmd. En það á ekki að hlaupa til af handahófi, ef leysa þarf persónulega einhvers mál og stofna ný og ný prófessorsembætti við Háskólann meira og minna út í bláinn og í algerri andstöðu við þær deildir, sem á að tengja þessi embætti við.

Ríkisstj. viðurkennir líka, eða ráðh. gerði það áðan, að hún er í hálfgerðum vandræðum með þetta embætti vegna þess, að hún verður að hola því niður í allt annarri deild heldur en hún ætlaði sér í upphafi og í deild, þar sem hún telur sjálf, að embættið eigi alls ekki heima. Það sýnir bezt, hvílíkt vandræðamál er hér um að ræða. Hæstv. ráðh. var að halda því fram, eða gefa í skyn að til þessa embættis væri stofnað að frumkvæði háskólaráðs og lagadeildarinnar. Ég held, að þetta sé fullkomlega rangt hjá ráðh. Það liggur a.m.k. hvergi fyrir hér, að lagadeildin hafi átt frumkvæði að því eða borið fram óskir um það að stofna til þessa embættis, eða vill ráðh. leggja yfirlýsingu frá lagadeildinni fram um þetta efni? Ég trúi því ekki fyrr en ég sé það svart á hvítu, að lagadeildin, sem telur þörf fyrir stofnun ýmissa nýrra embætta þar, hafi lagt áherzlu á það, að þetta embætti væri látið ganga fyrir öðrum þar, og ég tek undir það, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Vestf. — tek undir þau tilmæli til hæstv. forseta, að hann fresti þessari umr. þangað til það liggur fyrir, hvort það sé rétt, að lagadeild hafi sérstaklega óskað eftir þessu embætti, og a.m.k. álit hennar liggi hér fyrir. Ég tel það líka rétt, áður en lengra er farið, að þá beini menntmn. þessarar d. þeirri fsp. til háskólaráðs og hinna, alveg sérstaklega til háskólaráðs og líka lagadeildar, sem á að fá þetta embætti, hvort það sé virkilega ósk þessara aðila, að þetta embætti eða stofnun þessa embættis verði látin ganga fyrir öllum öðrum, sem þessir aðilar hafa óskað eftir. Og eftir því á Alþingi að sjálfsögðu að taka afstöðu til málsins. Hitt er svo annað mál, og það á að leysa öðru vísi heldur en í sambandi við Háskólann, hvort rétt þykir að tryggja Einari Bjarnasyni sérstaka aðstöðu til að gefa sig að ættfræðirannsóknum það, sem eftir er ævinnar, eða ekki. Það er mál, sem mér finnst a.m.k., að snerti ekki Háskólann á neinn hátt og eigi að leysa eftir öðrum leiðum.

Ég vil svo að síðustu beina þeirri fsp. til hæstv. menntmrh. sjálfs, sem hefur vafalaust talsverða kunnugleika af þessum málum, þó að það hafi komið hér fram í umr., bæði í þetta skipti og oft áður, að sá kunnugleiki mætti vera meiri, hvort það sé nú í raun og veru skoðun hans, að hér sé um svo nauðsynlega embættisstofnun að ræða, að hún eigi að ganga fyrir öllum öðrum prófessorsembættum, sem Alþ. hefur samþ. að efna til og sem háskóladeildir og háskólaráð hafa farið fram á, að verði efnt til. Er það virkilega skoðun hæstv. ráðh., að þetta embætti, sem þetta frv. fjallar um, sé allra nauðsynlegast af öllum þeim embættum, sem hér um ræðir, sem Alþ. hefur áður samþ. að stofna til og sem Háskólinn sjálfur hefur farið fram á. Ég óska eftir, að ráðh. gefi alveg skýlaus svör um þetta efni, hvort hann telji það virkilega og það sé einlæg sannfæring hans og velferð Háskólans velti mest á því, að stofnun þessa embættis verði látin ganga fyrir öllum öðrum, sem Háskólinn hefur farið fram á og sem sum hver Alþ. sjálft hefur samþ. að stofna til.