14.04.1969
Neðri deild: 76. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

117. mál, Háskóli Íslands

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. komst þannig að orði í ræðu sinni hér áðan, að ef þessar umr., sem hér hafa farið fram, yrðu síðar lesnar, mundu þær þykja okkur stjórnarandstæðingum, sem hér höfum talað, til lítils sóma. Ég er nú miklu hræddari um, að þetta fari á aðra leið. Ég er hræddur um, að þetta mál verði einmitt hæstv. ráðh. til lítils sóma.

Eins og heyrist í þeim ræðum, sem hér hafa verið haldnar, er aðbúnaður Háskólans nú mjög ófullkominn hvað kennslu snertir í mörgum deildum. Það er a.m.k. mat hans sjálfs, að hann fullnægi hvergi nærri þeim kröfum, sem æskilegt væri, að hann gæti fullnægt. Alþ. hefur viðurkennt þetta með því að heimila stofnun ýmissa prófessorsembætta, en þó með því skilyrði, að ekki yrði sett í þessi embætti eða skipaðir menn í þessi embætti fyrr en fé hefði verið veitt til þess á fjárl. Og þannig eru nú fjölmargar heimildir ónotaðar. Auk þess hafa bæði háskólaráð og ýmsar háskóladeildir farið fram á aukna kennslukrafta umfram það, sem Alþ. hefur samþ. En hæstv. ríkisstj. sér ekki ástæðu til þess að verða við neinum af þessum óskum. Eina málið, sem hún leggur fram varðandi Háskólann á þessu þingi, fjallar um stofnun þessa embættis, sem sú deild, sem átti að taka við því, vill alls ekki við taka, og ríkisstj. ætlar líka að beygja sig fyrir því. Og það vita líka allir, að það verður engin sérstök kennsla í ættfræði, þó að þetta embætti verði sett á stofn, og Háskólinn hefur þess vegna enga þörf fyrir þetta, og ég fullyrði, að það er fyrst og fremst af persónulegum ástæðum, einhverjum metnaðarástæðum, að þetta embætti er sett á stofn við Háskólann, en mál Einars Bjarnasonar ekki leyst á annan hátt. Eðlilegasta lausnin á málum hans væri sú, ef ætti að gefa honum aðstöðu til þess að helga sig ættfræði það, sem eftir er ævinnar, að fela honum starf æviskrárritara, sem nú mun vera laust, og það mætti þá kannske búa þannig, ef það væri eitthvað í sambandi við launakjör, sem hann sætti sig ekki við, um hnútana, að það mál yrði leyst. Það væri fullkomlega eðlileg lausn þessa máls. En af einhverjum persónulegum ástæðum, hvort sem þar er um metnað að ræða eða eitthvað annað, þykir þetta ekki fullnægjandi lausn, heldur verður að búa til prófessorsembætti við Háskólann. Og það vita allir, að þó að því sé haldið fram, að þetta verði ekki til þess að koma í veg fyrir, að önnur embætti séu stofnuð við Háskólann, þá verður niðurstaðan eigi að síður sú. Það er fullkomlega rétt, sem málfræðingarnir, eða 4 af kennurunum við heimspekideildina, segja í sínu áliti, með leyfi hæstv. forseta, en það er á þessa leið:

„Verði þetta embætti stofnað, er að áliti deildarinnar ekki vafi á, að talið verður, að prófessorum hafi verið fjölgað um einn og fjárveitingar til Háskólans hafi aukizt um sem svarar fullum prófessorslaunum. Telur deildin því einsýnt, að frá sjónarmiði Háskólans muni stofnun þessa embættis hafa sömu áhrif á fjárhagsaðstöðu hans og hver önnur embættisstofnun.“

Hvað sem hæstv. menntmrh. segir um þetta nú, verður þetta áreiðanlega niðurstaðan, þegar búið er að færa þetta embætti, sem er í raun og veru embætti æviskrárritara, yfir á Háskólann. Þegar fjmrh. fer að reikna út framlögin til Háskólans, verður það reiknað þannig, að búið sé að bæta við einu nýju prófessorsembætti, útgjöldin til Háskólans hafi hækkað þetta mikið. Það verður til þess að tefja fyrir stofnun annarra nauðsynlegri embætta við Háskólann.

Nei, ég held, að niðurstaðan verði sú, að ef okkar eftirkomendur eyða tíma sínum til þess að lesa þessar umr., þá verði framkoma ríkisstj. í málum Háskólans á þessu þingi henni til harla lítils sóma. Af öllum þeim mörgu þörfum Háskólans, sem þarf að fullnægja, sér ríkisstj. ekki ástæðu til að gera annað heldur en það að stofna til embættis, sem Háskólinn hefur tvímælalaust enga sérstaka þörf fyrir og vill miklu heldur, að aðrar þarfir verði leystar á undan. En þetta er ekkert óeðlilegt. Það er þetta skilningsleysi á málum kennslustofnana þjóðarinnar, sem einkennir störf hæstv. ríkisstj. um þessar mundir. Ef hún hreyfir sig til þess að gera eitthvað, er það oft og tíðum vegna þess, að hún þarf að svala einhverjum persónulegum metnaði, hún þarf að koma einhverjum sérstökum manni að í embætti, og þá er rokið til að stofna þau, þá eru nógir peningar fyrir hendi, en þegar á að gera eitthvað, sem stofnanirnar sjálfar hafa farið fram á og talið er nauðsynlegt, þá eru engir peningar, og þá er ekki hægt að gera neitt, og þá er dregið von úr viti að verða við þeim óskum, sem fram eru bornar. Og ég endurtek þess vegna það, sem ég sagði hér áðan, að ég álít, að þetta mál sé hreint hneykslismál, að með tilliti til allra þeirra þarfa, sem Háskólinn þarf að fá leyst úr, þá skuli þeim vera svarað með því, að ríkisstj. flytur þetta eina mál hér á þinginu varðandi málefni hans. Háskólinn er slík stofnun, að hann verðskuldar sannarlega af hálfu Alþ. aðra meðferð heldur en þetta frv. ber vitni um af hálfu ríkisstj.

Hæstv. ráðh. var að segja, að það hefði orðið einhver fjölgun á kennurum við Háskóla Íslands á undanförnum árum, og það mátti næstum halda af hans ummælum, að honum fyndist þetta a.m.k. nógu mikið og jafnvel of mikið. Ég veit ekki, mér kemur þetta nú dálítið spánskt fyrir sjónir, vegna þess að hæstv. ráðh. hefur, eins og ég og margir fleiri, dálítið gaman af því að ferðast og fer nokkuð víða um. Og ef hann hefur kynnt sér, hvað er að gerast við háskóla úti í löndum í þessu sambandi, þá hefur aldrei átt sér stað önnur eins fjölgun á kennsluliði þeirra eins og núna seinasta áratuginn, svo að það væri undarlegt, ef ekki hefði fjölgað neitt kennurum hér við Háskóla Íslands, þar sem líka stúdentum hefur mjög fjölgað og þess vegna þörf fyrir miklu fleiri kennslukrafta. Hins vegar er ástandið þannig nú, að það er kannske að verða of fullt í sumum þeim deildum, sem eru við Háskólann, en það þarf að koma þar á fót öðrum deildum, sem kenna ýmis verkleg efni, og þar bíður okkar mjög mikið verkefni, og þess vegna hlýtur að verða mjög ör og mikil fjölgun á starfsliði Háskólans á næstu árum, ef við ætlum að fullnægja þeim þörfum, sem við höfum fyrir aukna þekkingu í sambandi við okkar atvinnuvegi á komandi árum.

Ég get ekki látið hjá líða að minnast enn á þau ummæli, sem hæstv. ráðh. viðhafði hér um nokkra háskólakennara í fyrri ræðu sinni eða fyrstu ræðu sinni. Hann dró að vísu nokkuð úr þeim núna, en ég verð að segja það, að ég minnist þess ekki, að ráðh. hafi haft jafnsterk orð um undirmenn sína eins og hæstv. ráðh. hafði. Og hann byggir þau meira og minna á útúrsnúningi, eins og hv. 6. þm. Reykv. benti á, því að í þessari tilvitnun sinni, sem hann las upp úr einhverri enskri alfræðiorðabók, kom það hvergi fram, að ættfræði væri sjálfstæð háskólagrein. En það er aðalfullyrðingin í umsögn þessara háskólakennara, sem ráðh. taldi sig vera að hnekkja. Það má vel vera, að það séu til heiðursembætti í ættfræði við einhverja háskóla og það sé það, sem þarna er átt við. En það kemur hvergi fram í þessum upplýsingum eða neinum þeim öðrum, sem ráðh. hefur minnzt á, að ættfræði sé til sem sjálfstæð háskólagrein. Og þess vegna er ég alveg hissa á því, að hæstv. ráðh. skyldi vera með aðrar eins fullyrðingar og þær, að þessir háskólamenn hefðu gefið Alþ. algerlega rangar og villandi upplýsingar, því að þessar umr. hafa einmitt leitt það í ljós, að þeirri meginfullyrðingu eða staðhæfingu, sem kemur fram í þeirra umsögn og ráðh. vitnaði til, er óhrundið enn. Og vegna þess að ráðh. taldi sig leggja svo mikla áherzlu á það, að það væri góð sambúð milli hans og Háskólans, sem ég skal ekkert segja um, ég hef ekki þekkingu til að dæma um það, þá álít ég, að hann ætti nú að ljúka þessum umr. með því að gera bragarbót og taka það aftur, sem hann hefur sagt of mikið um þessa háskólamenn.

Ég vil svo endurtaka þau tilmæli hv. 1. þm. Vestf. til forseta, að þessari umr. verði frestað, þangað til fyrir liggur það álit lagadeildar, sem hæstv. ráðh. sagði, að lægi hér fyrir, þ.e. að deildin óskaði sérstaklega eftir stofnun þessa embættis og teldi, að það ætti að ganga fyrir öðrum embættum, sem hún mun hafa farið fram á að yrðu sett á stofn þar. Þetta álit hefur enn ekki borizt menntmrn., og mér finnst, áður en hún afgreiðir það endanlega, að þá væri mjög gagnlegt að fá það. Það gæti kannske orðið til að upplýsa þetta mál betur og þá jafnframt, hvaða kennsla það væri, sem þessi verðandi ættfræðiprófessor ætti að hafa með höndum. Það er eiginlega mjög fróðlegt að fá vitneskju um það. Ég satt að segja teldi líka, að það væri gott að fá álit háskólaráðs sjálfs um það, hvort það áliti, að með þeim takmörkuðu fjárráðum, sem ríkið getur nú veitt til aukinnar kennslu við Háskólann, eigi stofnun þessa embættis að ganga fyrir öllum öðrum, sem háskólaráð hefur farið fram á, að séu sett á stofn við Háskólann. Og mér finnst, að deildin geti ekki tekið endanlega afstöðu til málsins fyrr en þetta liggur fyrir, því að ef við viljum sýna Háskólanum þá virðingu, sem hann verðskuldar sem æðsta menntastofnun þjóðarinnar, þá á Alþ. ekki að leysa hans kennslumál með þeim hætti, að vegna persónulegra duttlunga, persónulegs metnaðar sé rokið til þess að stofna embætti, sem mjög takmörkuð þörf er fyrir eða engin þörf fyrir, en látið bíða að fullnægja öðrum miklu meira aðkallandi þörfum í sambandi við kennslumál hans. Það á að reyna að gera um þetta skipulagða heildaráætlun og framfylgja henni. Það eitt er samboðið þessari meginstofnun þjóðarinnar í menntamálum, en ekki að höfð séu slík vinnubrögð eins og þetta mál ber merki um.