14.04.1969
Neðri deild: 76. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (1138)

117. mál, Háskóli Íslands

Frsm. meiri hl. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykv. gerðist hér, eins og reyndar 6. þm. Reykv. hefur verið, allstórorður og gerði miklar kröfur í garð hæstv. ráðh. um það, að hann ætti að taka þau ummæli aftur, kallaði meðferð hans hneykslismál og annað slíkt. Ég get ekki svarað þessu á annan hátt heldur en að skora á hv. 4. þm. Reykv. að reyna að fylgjast örlítið með því, sem er að gerast í málefnum Háskóla Íslands, áður en hann stendur upp hér í sölum Alþ. og talar um þessi mál og afhjúpar þar svo að segja í hverri setningu, að hann veit ekkert, hvað er að gerast á þessu sviði. Og ég verð að gera það, sem verra er, ég verð að biðja hv. þm. að gera svo vel að reyna að fylgjast með því, sem er að gerast hér á Alþ., áður en hann ræðst með stóryrðum á ráðh. fyrir meðferð á málaflokkum þeirra.

Ég hef orðið var við það og fleiri þm., að það liggur fyrir þinginu hér í Ed. mikill lagabálkur, eða frumvarpsbálkur, um málefni Háskólans, sem fluttur er samkvæmt eindregnum óskum Háskólans sjálfs, og svo kemur þessi þm. hér upp og segir, að það eina, sem heyrist frá ríkisstj. um málefni Háskólans, sé þetta frv., sem sé svo fjarri lagi. Hv. þm. talar hér eins og hann sé með einhverja spánnýja hugmynd um, að það þurfi að taka málefni Háskólans til almennrar og algerrar yfirvegunar. Hann veit sýnilega ekki, að það er stór og fjölmenn nefnd búin að starfa í þessu í rúmlega 2 ár, og hún er sögð vera langt komin með sitt starf. Hv. þm. segir, að það eigi að gera áætlun um kennaraembætti við Háskólann, prófessorsembætti, og síðan eigi að framkvæma hana ár fyrir ár. Hann veit sýnilega ekki, að það eru þó nokkuð mörg ár síðan þessi áætlun var gerð, og núna undanfarin árabil hafa alltaf komið frv. öðru hverju frá ríkisstj., sem hann hefur tekið þátt í að afgreiða og samþykkja, því ég man ekki eftir mótatkvæðum, einmitt um fjölgun prófessorsembætta eftir áætlun, sem Háskólinn hefur gert sjálfur. Það er því algerlega út í hött, þegar hv. þm. stendur hér upp og er að ráðast á hæstv. ráðh. fyrir hluti, sem hvert mannsbarn, sem fylgist með málefnum Háskólans, veit, að ráðh. hefur verið að vinna að nú mörg undanfarin ár.

Eitt af fyrstu verkum þessa menntmrh. var að láta endurskoða háskólalöggjöfina, og síðan hefur ekki liðið það ár, að hér hafi ekki komið fleiri eða færri frv., og eins og hann sagði, þá hafa þau öll verið í fyllsta samstarfi við Háskólann og yfirvöld hans.

Ég vil undirstrika það, að það mál, sem hér er um að ræða, er tiltölulega lítið mál. Það gerist um allar jarðir, að háskólar sækjast eftir merkum fræðimönnum, sækjast eftir að fá þá inn í skólana til starfa, og það gerist um öll lönd, að til þess að þetta geti orðið, þá hagræða háskólar ýmsum smáatriðum, stofna embætti, stofna meiri eða minni stofnanir, rannsókna- og vísindastofnanir og kennslustofnanir innan háskólanna fyrir slíka menn, en það, sem er óvenjulegt við þessar umræður, er, að stjórnarandstæðingar grípa það hálmstrá, að fjórir háskólakennarar eru á móti þessu frv. og reyna að gera út úr því pólitískt moldviðri, og þessir menn, sem þykjast bera svo mikla umhyggju fyrir velferð Háskólans, ættu að íhuga það, að það er með þessu upphlaupi sínu, sem þeir eru að draga þetta mál niður í svaðið, og það er með þessu upphlaupi sínu, sem þeir eru að gera tiltölulega lítið mál að miklu deilumáli, og þeir skaða engan nema Háskóla Íslands á því.

Hv. 4. þm. Reykv. talaði um það, að ættfræðin væri ekki vísindagrein, og hann hefur auðvitað ekkert kynnt sér þetta frekar en það, hvað er að gerast í málefnum Háskólans eða hvað er að gerast í háskólamálum innan sala Alþ. Ættfræðin var lengi vel í mjög lausum böndum, og það var algengt að menn rækju ætt sína allt til Adams. Okkur þótti nú nóg að rekja ættir okkar hér á Íslandi til Noregskonunga. Það varð hreyfing á s.l. öld, komu þá upp nýir fræðimenn, sem settu ættfræðina í fastar og vísindalegar skorður, ákváðu reglur um það, hvernig vinna ætti, hvernig meta ætti heimildir, hvernig setja ætti upp ættartölur, og þetta er fullkomin vísindagrein, sem gæti verið mjög gagnleg fyrir fleiri en eina deild í Háskólanum, að væri þar kennd. Svo segir hv. 4. þm. Reykv., að það komi engin kennsla út úr þessu embætti, þar af leiðandi hafi Háskólinn enga þörf fyrir það. Hann er á svo frumstæðu stigi, að hann virðist ekki skilja það, að hálft hlutverk allra háskóla er rannsóknastarfið, svo að ég er hræddur um, að það séu ýmis fleiri störf við Háskólann og stofnanir hans, t.d. rannsóknastofnanirnar, sem færu að verða heldur lágt metnar hér á Alþ., ef þessi mælikvarði fáfræðinnar er borinn fram af stærsta stjórnarandstöðuflokknum. Og menn þykjast bera sóma af því að sýna slíkan málflutning hér á þingi. Ef þeir halda, að svona tal skaði yfirstjórn menntamálanna, þá vaða þeir villu og reyk. Það er líka út í hött að tala um, að lögfræði og ættfræði eigi ekkert sameiginlegt. Það eru til stofnanir í mörgum löndum, sem eru fyrst og fremst ættfræðistofnanir, en eru tengdar lögfræðinni, dómstólum og öðrum slíkum málefnum, og eru til sem þjónustustofnanir fyrir þessar greinar. Þetta er í sambandi við erfðarétt og margt annað. sem skiptir meira eða minna máli í hinum ýmsu löndum. Og ef menn hafa hlýtt á upplestur hæstv. ráðh. úr einum fjórum stórum alfræðiorðabókum, sem eru nú venjulega fyrstu bækur, sem menn grípa til, þegar þeir ætla að kynna sér eitthvað, sem ekki er þeirra sérstaka sérgrein, þá var í öllum tilvikunum talað um ættfræðina sem aðstoðargrein lögfræði. Hún er þess eðlis, að hún getur átt erindi í a.m.k. fjórar deildir Háskólans þess vegna. En deildirnar eru nú ekki svo sjálfstæð ríki, að ekki sé hægt að stunda rannsóknastörf eða sækja kennslu í einstökum greinum, þó að mörkin á milli þeirra komi þar á milli.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að hér væri land kunningsskapar og þetta mál mundi allt byggjast á því. Ég vil ítreka það, að með stórum þjóðum, sem ekki er hægt að kalla lönd kunningsskaparins, þá tíðkast það, að háskólar sækjast eftir góðum mönnum, og þeir gera miklu, miklu meiri hluti en hér er verið að gera til þess að fá þá til sín, og um leið er verið að skapa þessum mönnum aðstöðu til sinna fræðistarfa.

Nei, það er að sjálfsögðu ekkert hneykslanlegt við þetta mál, annað heldur en hinn furðulegi og hinn skaðlegi málflutningur stjórnarandstæðinga fyrir Háskólann.