14.04.1969
Neðri deild: 76. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í B-deild Alþingistíðinda. (1139)

117. mál, Háskóli Íslands

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki tefja tímann mikið úr þessu, enda hef ég litlu við að bæta. Það er rétt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að það liggur fyrir Ed. frv., sem snertir Háskóla Íslands, en það fjallar ekki um þau atriði, sem við erum að ræða um hér, um aukna kennslukrafta við Háskóla Íslands, en það er að sjálfsögðu það mál, sem við ræðum fyrst og fremst um hér. Samkv. því er ekki lagt til að auka neitt kennslukrafta við Háskóla Íslands, það fjallar um allt önnur mál. Það fjallar um skipulag hans og aukna þátttöku nemenda í stjórn Háskólans o.s.frv., en það er óviðkomandi þeim efnum, sem við erum að tala um hér, sem snýst um það, hvaða embætti á að ganga fyrir, þegar bætt er við nýjum embættum við Háskóla Íslands, og það er það, sem við höfum rætt hér, en í því frv., sem liggur fyrir Ed., er ekki verið neitt að fjalla um það atriði, svo að hér er um hreinan útúrsnúning að ræða hjá hv. ræðumanni.

Annars er það orðið mjög skrýtið að hlusta á þessa tvo meðmælendur þessa frv., því þeir segja orðið dálítið sitt á hvað. Hæstv. menntmrh. hélt því t.d. mjög ákveðið fram, að hann teldi það vera miklu réttara, að þetta embætti fylgdi heimspekideildinni, og sagðist veia mjög undrandi yfir því, að háskólaráð væri á annarri skoðun, og hann sagði, að öll ríkisstj. væri þessa sama sinnis. Nú vitum við það, að formaður ríkisstj., einn af okkar beztu lögfræðingum, virðist samkvæmt þessum upplýsingum hæstv. menntmrh. vera þeirrar skoðunar, að lögfræði og ættfræði eigi ekki neitt sérstaklega saman, vegna þess að það hefur verið hans tillaga, að þetta embætti hyrfi undir heimspekideildina, svo að hér stangast alveg á skoðun hæstv. 5. þm. Vesturl. og ríkisstj. Þetta er lítið dæmi um það, sem hér er um að ræða. Annars er niðurstaðan sú, hvort sem menn ræða þetta lengur eða skemur, að eina embættið við Háskólann, sem þetta Alþ. stofnar sérstaklega samkv. till. ríkisstj., er þetta embætti. Öll önnur, sem Háskólinn hefur farið fram á og talin eru miklu nauðsynlegri, eru látin bíða.

Hv. 5. þm. Vesturl. talaði eins og ég hefði ekki fylgzt með því, að við höfum á undanförnum árum samþ. lög um fjölgun prófessorsembætta. Ég vitnaði einmitt í það í þeim ræðum, sem ég hef haldið, að við höfum á undanförnum þingum veitt Háskólanum heimild til þess að stofna til nýrra kennsluembætta eða prófessorsembætta, en þó með því skilyrði, að þau yrðu ekki veitt fyrr en fjárveiting væri veitt í því skyni. Þar af leiðandi er ástandið þannig nú, að í gildandi l. er heimild til þess að stofna fjölmörg prófessorsembætti, sem Háskólinn telur vera mjög aðkallandi, en fær þó ekki að ráða menn í, vegna þess að sérstök fjárveiting er ekki veitt til þess. Og það gefur auga leið, að ef sú lausn væri viðhöfð, sem hér er lagt til, þá yrði þeim launum, sem þessi maður fengi, bætt við þær launagreiðslur, sem eru reiknaðar Háskólanum, og yrðu tvímælalaust til þess, eins og kennararnir benda á, að tefja fyrir því, að veitt yrði í önnur embætti, sem Alþ. er þó búið að veita heimild til, með þeim fyrirvara, sem ég minntist á hér áðan, og ég hef aldrei skilið það, og hæstv. ráðh. hefur aldrei gefið neina skýringu á því, að það sé ekki hægt að fullnægja þörfum eða fullnægja því máli, að Einar Bjarnason geti gefið sig sérstaklega að erfðarannsóknum, öðru vísi heldur en að stofna fyrir hann prófessorsembætti. Það er upplýst, að það er laust embætti æviskrárritara, sem einmitt hentaði slíkum manni sem Einari Bjarnasyni, og það mætti þá athuga í sambandi við launakjör, hvort það væri ekki fullnægjandi lausn, ef þau standa þar í veginum. En þessi aðferð er ekki viðhöfð. Af hverju? Það hefur engin fullnægjandi skýring komið á þessu. Það er alveg augljóst, að það er einhver persónulegur metnaður, einhverjar persónulegar ástæður, sem valda því, að þessi leið er farin, sem augljóslega mun hafa í för með sér, að það gengur út yfir Háskóla Íslands og verður til að tefja fyrir, að önnur nauðsynlegri embætti verði sett þar á stofn.

Mér er nákvæmlega sama, hvaða ummæli ráðh. og hv. 5. þm. Vesturl. viðhafa um okkur, sem höfum mótmælt þessu frv., en ég held, að þegar menn athuga þetta óhlutdrægt, hvort heldur er nú eða síðar, þá verði það hæstv. ríkisstj. til lítils sóma, að þetta er eina embættið við Háskólann, sem hún hefur stofnað til á þessu þingi og er látið ganga fyrir mörgum öðrum, sem eru tvímælalaust miklu nauðsynlegri, og bæði háskóladeildir og stúdentar sérstaklega á móti, en það er ekki minnzt á það t.d. í þessu sambandi, að stúdentar hafa sérstaklega mótmælt þessu frv. Stúdentar eru þeir aðilar í Háskólanum, sem kannske finna enn þá betur til þess en kennararnir, hvar kennslunni er ábótavant. Þeir hafa farið fram á það, að kennsla verði aukin í ýmsum fræðigreinum við Háskólann og telja það nauðsynlegt, til þess að þeir fái betri skilyrði til náms. Þess vegna er það, sem þeir hafa mótmælt þessu frv. Það eru ekki stjórnarandstæðingar, sem eru einir um þessi mótmæli. Þau koma einnig frá þeim mönnum, sem njóta kennslu við Háskólann og gerst þekkja til, hvar skórinn kreppir að. Það er verið að bera okkur á brýn, mér og hv. 6. þm. Reykv., að við séum að mótmæla þessu frv. af einhverjum pólitískum ástæðum, einhverjum furðulegum ástæðum, einhverjum óskiljanlegum ástæðum. Hvað vilja þá menntmrh. og 5. þm. Vesturl. segja um mótmæli stúdentanna? Stafa þau af einhverjum annarlegum hvötum? Nei, þau stafa af því einu, að þessir menn, stúdentarnir, sem stunda nám við Háskóla Íslands, þeir þekkja miklu betur til þessara mála heldur en bæði 5. þm. Vesturl. og hæstv. menntmrh., og það er vegna þess, að þeir hafa þekkinguna á þessum málum, sem þeir mótmæla frv., en ekki vegna þess, að þeir stjórnist af annarlegum persónulegum hvötum, eins og þessir tveir þingmenn.