17.04.1969
Neðri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (1143)

117. mál, Háskóli Íslands

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Mér þótti dálítið forvitnilegt að fá fréttir hér úr þessum ræðustól um bréf, sem sagt var, að ég hefði staðið að að senda, og bréf, sem ég hefði fengið. Ég á sæti í menntmn., og þessi bréfaskipti hafa ekki verið rædd í n. Þetta segi ég ekki til að amast neitt við þessu frumkvæði form. n. Það er alveg sjálfsagt, en það er hans verk. Hins vegar staðfesta þessi bréf ofur einfaldlega, að málið var ekki lagt fyrir lagadeild formlega fyrr en í gær, og staðhæfingar um annað, sem við höfum heyrt hér í umr., hafa þar með ekki verið réttar.

Ég ætla ekki að lengja umr. um þetta mál, þær einkennilegu umr., sem hæstv. menntmrh. efndi hér til fyrir skömmu. Það er aðeins eitt atvik, sem mig langar til að vekja athygli á. Ég las í forystugrein í Alþýðublaðinu daginn eftir þessar umr. á þingi fordæmingu yfir stjórnarandstæðingum, eins og komizt var að orði, sem væru að gera mikið veður út af ákaflega ómerkilegu máli, og í gær heyrði ég hæstv. menntmrh. fara að tala um þetta einnig í sambandi við umr. um málefni iðnnema, að þetta væri furðuleg stjórnarandstaða, sem leyfði sér að vera með löng ræðuhöld af jafnómerkilegu tilefni. Nú er ég í sjálfu sér sammála, bæði hæstv. ráðh. og Alþýðublaðinu um það, að þetta frv. er ómerkilegt, en þetta er ekki frv., þar sem stjórnarandstaðan er að deila við ríkisstj. Slíkur málatilbúnaður er alger fjarstæða. Þetta mál á ekkert skylt við, hvernig menn skiptast í stjórnmál á Íslandi. Það er alger firra að tala um þetta mál sem eitthvert ágreiningsmál milli ríkisstj. og stjórnarandstöðu. Það er gert of mikið af því hér á þingi að gera mál, sem í eðli sínu eru algerlega ópólitísk, að pólitískum málum á þennan hátt, og það er viðhorf, sem menn eiga að venja sig af.

Hins vegar veit ég fullvel, hvað á bak við þetta er. Á bak við þetta er það, að hæstv. menntmrh. veit fullvel, að mikill meiri hluti alþm. telur þetta frv. vera algera fjarstæðu. Hann veit, að eina vonin til að koma því fram er, að hann geti hagnýtt flokkahandjárn, að stjórnarflokkarnir telji það skyldu sína að fylgja þessu máli, líka menn, sem eru andvígir því. Flokkahandjárn eru stundum nauðsynleg, en það er alger afskræming á þingstörfum að ætla að beita þeim í sambandi við mál eins og þetta, og það er mjög misskilið sjálfsálit, ef hæstv. menntmrh. telur, að honum sé það til minnkunar, þó að frv. eins og þetta félli. Það er ekki nokkur minnsta minnkun. Hæstv. ráðh. á að vera reiðubúinn til þess að bera mál eins og þetta á frjálslegan hátt fyrir þm. og láta það ráðast, hvað þeim sýnist.

Ég hef áður sagt, að mér finnist þetta mál vera Alþ. til lítils sóma, en ef einnig á að afgreiða það með flokkahandjárnum, þá held ég, að Alþ. setji ofan í vitund almennings, og er þó naumast á mannorð Alþ. bætandi á því sviði.