17.04.1969
Neðri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1025 í B-deild Alþingistíðinda. (1149)

117. mál, Háskóli Íslands

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég er ekki vanur að tala mikið í skólamálum hér. Ég er heldur ekki í menntmn. og hef verið svo lánsamur að eyða ekki miklum hluta af ævinni í að sitja á skólabekkjum og er forsjóninni þakklátur fyrir það, að ég eyddi ekki orkunni í það. Ástæðan til þess, að ég tala hér í þetta skipti, er, að mér finnst þessi málflutningur dálítið skoplegur. Menntmrh. var hér að lesa í gær eða fyrradag upp úr enskri alfræðiorðabók. Þar kom í ljós, að þetta voru akademísk fræði og prófessorar víst í þeim. Það var nefnt eitt dæmi, það var í Þýzkalandi. En þetta er bara ensk alfræðiorðabók, og það virtist þess vegna ekki vera hjá Bretum og sennilega ekki víðar, fyrst Þýzkaland var sérstaklega tilgreint. Nú þurfti sú ágæta þjóð sérstaklega á þessu að halda. Þeir voru að finna Júðana til þess að geta sálgað þeim, þannig að það var eðlilegt, að þeir þyrftu — ég skil ekki annað en þeir hafi þurft marga prófessora í þessu. En þá átti nú stórveldið Ísland að fara að taka sér þetta stóra ríki og mikla menningarland til fyrirmyndar og setja líka upp prófessoraembætti, sennilega vegna þess hvað við höfum góðan fjárhag og erum stórþjóð. Mér finnst þetta dálítið skoplegt. Jafnframt hældi þessi hæstv. ráðh. sér af því, að kennurum og prófessorum við Háskólann hefði fjölgað eitthvað um 96 skildist mér, ég man það nú ekki alveg upp á víst, ég skal ekki ábyrgjast það, en það var nálægt því, úr eitthvað 46 eða um eitthvað 2/3, og hinn raunverulegi kostnaður við Háskólann hefði aukizt um 250% í hans tíð, 12 árum. Þetta er ekki svo ólaglega gert.

Ég hef komið hér oft í pontuna og varað við þessari miklu eyðslu hjá ríkisstj. og gert það ekki af neinni illkvittni og sagt þeim hreinskilnislega, að ég álíti, að gjöldin væru orðin svo há, að þjóðin risi ekki undir þeim nema í góðærum eins og 1965. Hvað kemur á daginn? Þegar hallar undan fæti — það er aldrei hægt að búast við toppári hvað snertir bæði afla og verðlag — þá er ekki hægt að rísa undir þessu, og þá er krónan lækkuð. Hún var lækkuð á einu ári um allt að því helming. Þetta er það, sem skeður. Hún var fyrst og fremst lækkuð til þess að fá fleiri krónur í ríkissjóð. Það vitum við, sem þekkjum til í atvinnulífinu, að það var hægt að bjarga sjávarútveginum á annan hátt. Út af þessari miklu eyðslu hjá ríkinu vofir yfir, ég vil ekkert fullyrða um allsherjarverkfall, en skæruhernaður a.m.k. Ég verð að segja það, að ég er á móti verkföllum og tel þau algerlega ótímabær. En mér finnst launþegar hafa sýnt bara mikla þolinmæði, og ég vil, að þær raddir heyrist. Það er ekki hægt að neita því, að þeir reyna að komast hjá því að gera skaða af útflutningsafurðum og hefja ekki allsherjarverkfall nú, þegar vertíðin stendur yfir. Það megum við vera þakklátir fyrir. Við vitum allir, að við erum orðnir stórskuldugir. Við eigum enga gjaldeyrissjóði. Það hefur verið illa haldið á fjárfestingarmálum. Annars ætla ég ekki að fara út í það í einstökum atriðum nú, en okkur veitir ekki af okkar aurum. Þá finnst mér það hálfskoplegt, að við ætlum að fara að stofna viðhótarprófessorsembætti við Háskólann í viðbót við þessi 96, sem menntmrh. er búinn að búa til á 12 árum. Og þá er aðallega vitnað í eitt stórveldi, það eru Þjóðverjar. Þeir höfðu á Hitlersdögunum eða eitthvað um það leyti prófessora í þessum fræðum. Ég er ekkert að gera lítið úr ættfræði í sjálfu sér eða skopast að henni, fjarri því. En við erum bara betur að okkur í ættfræði en nokkur önnur þjóð sennilega. Það gerir fámenni okkar. Þetta hefur verið tómstundavinna. Ætli það geti ekki bara flestallir, a.m.k. mjög margir, rakið ætt sína til landnámsmanna. Höfum við þá að gera með nokkurn sérstakan prófessor í þeim fræðum? Ég býst ekki við, þó að Einar Bjarnason sé vafalaust fær maður á þessu sviði — annars þekki ég þann mann ekkert, ég ætla ekki að gera lítið úr honum — að hann verði klókari en aðrir, þegar komið er aftur fyrir landnámstíð, að rekja réttar ættir, þannig að við fræðumst nú lítið á þessu prófessorsembætti, og ekki þarf að skapa neina sérstaka kennara í þeim fræðum. Háskólakennurunum hefur fjölgað og prófessorunum. Hefur þjónustan batnað? Ég dreg það í efa. Þegar ég var drengur, höfðum við presta nokkurn veginn. Þeim má nú líklega fækka, og hefði verið hægt að koma þeim málum betur fyrir. Við höfðum lækna úti á landsbyggðinni. Nú fást þeir ekki nægilega margir. Sýslumenn fást enn þá, raunar misvitrir. Það er af því að við höfum svo mikið af lögfræðingum, að við vitum ekkert, hvað við eigum við þá að gera. Ég held nefnilega, að menntamálin séu að fara í hreinar ógöngur. Þau eru svo ópraktísk og annað það, að það er ekki réttur andi ríkjandi í Háskólanum. Ég veit ekki betur en rektorinn sé upptekinn í alls konar störfum öðrum. Ég veit ekki betur t.d. heldur en hann sé formaður fasteignanefndar ríkisins, og sé í ótal nefndum og ráðum, þannig að hann hafi takmarkaðan tíma til að kenna. Væri ekki ráð að hafa prófessorana heldur færri, láta þá vinna betur og borga þeim, svo að þeir gætu lifað á því, en þeir ættu ekki að vera að snapa upp ótal hjáverk til þess að geta lifað? Ég held, að það væri réttara, og senda hina út á landsbyggðina og láta þá gerast þar forystumenn við útgerð og verzlun og annað slíkt. Ætli það væri ekki þarfara? Það eru sum byggðarlög þannig, að þau eru svo gersneydd því að hafa hæfa forystumenn, að atvinnulífið getur ekki gengið eðlilega þar. Það eru hér í fjölda húsa skrifstofur lögfræðinga, sem eyða orkunni í það að rukka fátæk fyrirtæki og einstaklinga, lögsækja þá og rukka og taka 10–20% af því. Ætli það væri ekki betra, að þessir menn hefðu ekki lært neina lögfræði, heldur fengju bara hæfilega menntun og væru svo nýtir menn, annaðhvort hér eða annars staðar í atvinnulífinu, iðnaði, verzlun, sjávarútvegi eða landbúnaði? Ég hygg það.

Það var verið að tala hér um iðnskóla og iðnskólamenntun í gær eða fyrradag og hún væri ekki fullkomin hér. En þetta er bara satt. Við stofnum iðnskóla, en þeir menn hafa ekki nógu tæknilega þekkingu, sem þar kenna, og iðnaðarmenn okkar eru ekki nógu tæknilega menntaðir. Ætli væri ekki réttara, að við styrktum menn til að læra iðnað hjá iðnþróuðum þjóðum, reyndum að koma þeim þar fyrir og styrkja þá til þess heldur en þeir læri einhver önnur fræði, sem aldrei koma að gagni, og mennirnir hafa ekkert við að starfa, þegar þeir koma heim og eru búnir með nám, og verða að fara til annarra landa?

Það var alveg hárrétt, sem kom fram hjá Magnúsi Jónssyni hér. Það byggist auðvitað ekki á nokkru viti að henda styrkjum í Pétur og Pál án þess að nokkuð sé um það talað. hvað hann eigi að læra, hvort það sé þarft fyrir hina íslenzku þjóð eða ekki, hvort þjóðin hafi þörf fyrir starf hans eða ekki. Þetta kom fram hér í umr., og Magnús Jónsson benti á þetta hér í vetur, og þetta er mjög skýrt og réttilega fram tekið.

Annað nám í Háskólanum okkar er ákaflega ópraktískt. Það er guðfræðin, og hún er nú lítið sótt og varla nógir prestar, og helzt vilja þeir vera hér. Það er lögfræðin, en það er orðið of mikið af lögfræðingum. Lækna þurfum við að hafa, ekki er nema gott um það að segja. Verkfræðin er engan veginn fullkomin, og það er ekki nema eðlilegt. Þeir verða að fara út, og það er í raun og veru ekki nema eðlilegt. Við erum 200 þús. manna þjóð. Hvernig í ósköpunum getum við haft jafnmargar greinar akademískar hér og aðrar þjóðir. þessi litla, fátæka þjóð? Við megum ekki miða okkur við stórveldin um þetta. Við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti, en við verðum að reyna að hafa námið praktískt, og ég hygg, að t.d. þessi lögfræðingafjöldi og þessi viðskiptafræði eða hagfræði eða hvað það er kallað, það mættu vera miklu færri í því og starfskraftar þessara manna notuðust miklu betur að styðja þá til þess að læra einhver önnur hagnýtari fræði. Ég get tekið dæmi: - Þeir eru að reyna að búa til tvöfalt gler hér á Íslandi. Það er bara það miklu verra heldur en belgíska glerið, sem er flutt inn, að þeir, sem til þekkja, telja það íslenzka ekki nothæft. Ætli væri t.d. ekki ráð, ef við værum að basla við þetta, að reyna að fá einhvern mann til að fara til Belgíu og læra þessa iðn? Svona þurfum við að taka þær iðngreinar, sem við ætlum að leggja stund á, og alveg sérstaklega, ef við ætlum að fara að keppa við aðrar þjóðir um útflutning á iðnaðarvörum. Það er ekkert áhlaupaverk að læra þetta. Ég held, að við ættum að beina menntun okkar gáfuðu manna, því Íslendingar eru greind þjóð, að hagnýtari efnum heldur en nú er. Ég hygg, að við gætum komizt af með 5–10% af þeim hagfræðingum, sem við höfum, til þess að reikna okkur á hausinn á svona 10 árum. Ég tel það alveg nóg, ef þeir væru á réttum stöðum, t.d. í bankamálum og viðskiptamálum og svo sem aðstoðarmenn hjá ríkisstj. Svo þyrpast þessir hámenntuðu menn í Seðlabankann og Efnahagsstofnunina. Mér er sagt, að þeir séu komnir um 130 í Seðlabankann, starfsfólkið sé á annað hundrað. Og ætli það séu ekki milli 20–30 í Efnahagsstofnuninni? Þessir menn hafa mikið að gera. Þeir semja ræður fyrir ráðh. og frv. og annað slíkt, því að ráðh. eru í veizlum og ferðalögum og öðru slíku. Það væri ef til vill rétt að hafa þá heldur færri og ráðh. ferðuðust heldur minna, því að ég efast um, að þeir lifi nokkuð lengur fyrir þetta flakk sitt. Mér finnst þetta því dálítið skoplegt, að þessi stóra og efnaða þjóð, Íslendingar, eigi allt í einu að vera frumkvöðlar í alheiminum eða allt að því, eftir því sem lesið var upp úr ensku alfræðiorðabókinni, að stofna hér prófessorsembætti í ættfræði. Er ekki hægt að láta þennan Einar Bjarnason hafa eitthvað til að dútla við í Þjóðskjalasafninu eða einhvers staðar, og ef hann er svona ákaflega vel að sér, maðurinn, hverjum á hann að kenna þarna í Háskólanum? Á að setja upp 20 manna deild þarna, til að láta hann halda ræður um ættfræði yfir þeim? Eða á þetta að vera rannsóknarstarf? Getur hann ekki gert eitthvað annað? Ef maðurinn veit þetta allt saman, getur hann þá ekki dundað við þetta á kvöldin sér til ánægju? Þetta er orðinn aldraður maður. Hann hefur ekkert að gera á Hótel Sögu eða einhverjum næturklúbb hér. Það er gott fyrir hann að hafa þetta verk sem nokkurs konar aukastarf og láta hann þá líta eftir einhverju þarna í Þjóðskjalasafninu. Ég er ekki að gera lítið úr manninum. En ég held, að það væri ráð að fækka þessum herrum, sem eru að kenna þessi fræði, sem við höfum ekkert með að gera, og hafa þessa styrki til námsmanna, sem fara til annarra landa, skynsamlegri, verja þeim á hagkvæmari hátt heldur en gert hefur verið, og ég tek þar undir með þeirri hugmynd, sem kom fram hjá Magnúsi Jónssyni í umr. fyrr í vetur. Ég man ekki, í hvaða sambandi það var. Ég held, að við höfum yfirleitt engin efni á að haga okkur jafnglópslega og við höfum gert.