17.04.1969
Neðri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (1150)

117. mál, Háskóli Íslands

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Þegar málið var til umr. s.l. mánudag, þótti mér hæstv. menntmrh. fara allhörðum orðum um nokkra prófessora heimspekideildar Háskólans, þar sem hann lýsti því, að þeir færu með ósannindi, og af því tilefni fór ég fram á það við hæstv. forseta, að málinu yrði frestað, svo að menntmn. gæfist kostur á að sannreyna, hvort þær væru réttar þessar ásakanir. Jafnframt gat hæstv. ráðh. þess, að það lægi fyrir samþykkt lagadeildarinnar fyrir því, að hún væri ásátt um, að þetta prófessorsembætti væri stofnað við þá deild. Ég gat þess, að menntmn. hefði enga vitneskju fengið um það, og spurði hann beint: Liggur þessi samþykkt fyrir? Og ég hef hér þessi orðaskipti, og eru þau þannig samkv. segulbandi:

„Þá vil ég spyrja hæstv. ráðh., því að mér er ekki kunnugt um það, hefur það verið lagt fyrir lagadeild, hvort hún vill taka við þessum prófessor? — Menntmrh.: Já, hún hefur samþykkt það.“

Þetta stendur í ræðunni. „Hún hefur samþykkt það.“

Hæstv. forseti varð við þessum tilmælum mínum, og málinu var frestað án þess að slíta umr. Síðan gerist það, sem hér hefur komið fram, að hv. formaður menntmn. hefur skrifað lagadeildinni bréf daginn eftir að þessar umr. fóru fram, á þriðjudaginn. Og eins og hv. 6. þm. Reykv. sagði hér áðan, höfum við ekki séð þetta bréf, við, sem eigum sæti í menntmn. Ég spurði hv. þm. að því áðan, hvort hann væri með það. En hann sagði, að það væri úti í Þórshamri. Ég segi alveg það sama og hv. 6. þm. Reykv., að ég hef ekkert við það að athuga, að form. n. skrifi bréf, en betur kynni ég við það, að hann lofaði okkur að sjá uppkastið af bréfinu, áður en það er sent, ef það á að vera í nafni n. Við höfum ekki falið honum að skrifa þetta bréf. Við höfum óskað eftir því, að Háskólinn segði álit sitt á málinu, en svo er mér tjáð — ég held, að ég hafi það rétt eftir form., að hann hafi spurt Háskólann um það, — hann hafi leitað staðfestingar Háskólans á því, að hann samþykkti þessa prófessorsskipan, m.ö.o., staðfestingar á því, sem hæstv. ráðh. var að segja. En lagadeildin staðfestir það ekki, heldur gerir hún í fyrsta sinn í gær þessa samþykkt, svo að þetta lá ekki fyrir á mánudaginn.

Nú má segja, að þetta sé aukaatriði, því að þessi samþykkt frá lagadeild er komin. Og þó að ég hafi ekki heldur séð svarið, þá hef ég heyrt það lesið hjá hv. þm., og þar heyrist mér, að sé tekið fram, að nefndin fallist á þessa skipun prófessors, en það breyti engu um óskir deildarinnar um þá prófessora, sem hún vill fá. M.ö.o., ég get ekki séð, að þetta sé þá ósk deildarinnar að fá þennan prófessor, heldur hafi deildin óskað eftir öðrum prófessorum og það fyrir alllöngu. Og sú ósk stendur í fullu gildi. Þetta embætti er algerlega utan við það allt saman. Þó að lagadeildin hafi fallizt á þennan prófessor, held ég, að það sé ofmælt hjá hæstv. ráðh., eins og hann orðaði það hér áðan í ræðu sinni, að þetta embætti sé sett á stofn samkv. beiðni Háskólans. Við höfum ekki orðið vör við þessa beiðni Háskólans. Við höfum orðið varir við mótmæli Háskólans, en ekki beiðni, og nú fáum við vitneskju um, að lagadeild samþykkir það. Það er ekki frumkvæði frá Háskólanum að fá ættfræðiprófessor við lagadeildina, það kemur ekki til mála. En látum þetta gott heita, og ekki skal ég gera aths. frekar við það, fyrst lagadeildin samþykkir þetta. Hún um það. En hitt þykir mér undarlegt, að þeir telji sig hafa eitthvert tilefni til þess, hæstv. ráðh., hv. 5. þm. Vesturl. og hæstv. forsrh., að telja þessar umr. ómerkilegar og ekkert annað en pólitíska áreitni og annað þess háttar. Ætli þeim finnist það ekki um allar umr., sem ekki eru þeim að skapi? Og þá verður að búa þessum dómum einhvern búning og skrifa um það í Alþýðublaðið, eins og gert hefur verið að undanförnu. En hæstv. forsrh. minnti þó á það hér áðan, að fyrir 50 árum hefðu orðið harðar deilur á Alþ. um stofnun prófessorsembættis Guðmundar Finnbogasonar. Þá urðu harðar umr. já, af því að menn höfðu misjafnar skoðanir á því, hversu nauðsynlegt embættið var. En þá hafa vafalaust engar ásakanir komið fram um það, að það væri móðursýki þar á ferðinni. Eða ætli þeim finnist ekki móðursýki alls staðar, ef eitthvað er andað á þeirra eigin till.?

Ég skal ekki blanda mér inn í þau vísindi, sem mér sýnast komin hér á dagskrá annars vegar milli hv. 4. þm. Reykv. og hæstv. forsrh., hvort ættfræði er vísindagrein. En ef hún er vísindagrein, sem tilheyrir lagadeild, þá dettur mér í hug, hvort það sé ekki aðallega vegna þess, að það þurfi að undirbúa laganema að dæma í barnsfaðernismálum eða eitthvað svoleiðis og vísindin beinist þá að því. Önnur vísindi, hvað snertir lagadeild, held ég, að komi varla til greina í sambandi við þetta prófessorsembætti. Það er ekkert nýtt fyrirbrigði á Íslandi né annars staðar, að faðerni manna sé vefengt og ef faðernið er nú rangt, þá veit ég ekki á hverju vísindin standa. Ég sé því helzt þá glóru í þessu embætti í lagadeild, að það sé með þetta í huga sem embættið er stofnsett. Annars held ég, að það sé alveg óþarfi hjá þessum stjórnarsinnum að vera með nokkrar vítur, þó að menn hafi mismunandi skoðun á máli, sem liggur fyrir þinginu, og rjúka upp með móðursýkisásakanir, það er ekki sæmandi.