17.04.1969
Neðri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í B-deild Alþingistíðinda. (1151)

117. mál, Háskóli Íslands

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki svara ásökun hv. 5. þm. Vesturl. um það, að við stjórnarandstæðingar höfum gert okkur seka um móðursýki í þessum umr. Ég held, að þeir, sem á þessar umr. hafa hlustað, geri sér fullkomlega grein fyrir því, að ef nokkuð hefur komið fram í þessum umr., sem hefur nálgazt móðursýki, þá voru það þau ummæli, sem hæstv. menntmrh. hafði yfir fjarstadda háskólakennara. Ég man ekki eftir því, að það hafi verið höfð harðari og ég vil segja óviðurkvæmlegri ummæli um fjarstadda menn heldur en þau, sem hæstv. menntmrh. viðhafði hér, þegar hann hóf umr. um þetta mál.

En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs nú að þessu sinni, var að bera af mér nokkrar sakir, sem á mig höfðu verið bornar við umr. málsins hér í fyrradag. Ég hafði látið þá svo ummælt, að það frv., sem hér lægi fyrir, væri eina frv., sem fyrir þessu þingi lægi af hálfu hæstv. ríkisstj., þar sem gert væri ráð fyrir bættri kennsluaðstöðu eða auknu mannahaldi við Háskólann. Hv. 5. þm. Vesturl. sagði, að þetta bæri vott um mína fáfræði, vegna þess að fyrir Ed. lægi sérstakt frv. um Háskóla Íslands, sem afsannaði þessa fullyrðingu mína.

Það er alveg rétt, að fyrir Ed. liggur sérstakt frv. um Háskóla Íslands, og í 23. gr. þess frv. eru talin upp þau prófessorsembætti, sem lagt er til, að verði við Háskólann. Og um þessa 23. gr. frv., sem liggur fyrir Ed. segir svo í aths. frv.:

„Við 1. mgr. er þess að geta, að hér eru talin upp þau prófessorsembætti ein, sem nú hafa verið lögfest, þar á meðal nokkur embætti, sein frestað hefur verið lögum samkvæmt að veita.“

Þetta sýnir það, að það er fullkomlega rétt, sem ég staðhæfi. Eina till., sem liggur fyrir Alþ. af hálfu hæstv. ríkisstj. um stofnun nýs embættis við Háskólann og bætta kennsluaðstöðu þar, er þetta frv., sem hér liggur fyrir. Af þeim mörgu óskum, sem háskóladeildirnar hafa borið fram um aukningu starfsmanna, er ekki fallizt á neina, en hins vegar borið fram frv. um þetta embætti, sem Háskólinn hefur alls ekki farið fram á. Eins og kemur fram í þeirri umsögn um 23. gr. l., sem ég las hér upp, er enn hvergi nærri veitt í öll prófessorsembætti, sem Alþ. hefur stofnað til og ákveðið, að skuli vera starfrækt. Ég hef reynt að afla mér upplýsinga um það, og mér skilst á upplýsingum, sem ég hef fengið frá skrifstofu rektors, að þá sé nú óveitt í ein 7–8 prófessorsembætti, sem Alþ. hefur ákveðið, að skuli vera, sem eru ákveðin lögum samkvæmt. Að vísu mun vera hafinn undirbúningur að því að veita sum af þessum embættum, en ekki öll, alls ekki öll. Þetta finnst mér rétt að upplýsa til að sanna það, að það, sem ég fullyrti hér við upphafsumr. þessa máls, er rétt, að þetta frv. er eina till., sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram á þessu Alþ. um aukið mannahald við Háskóla Íslands, þrátt fyrir það, að háskóladeildirnar hafi óskað eftir allt öðrum störfum heldur en þessu.

Ég vil svo að síðustu minnast á það, sem þeir hafa fullyrt hér mikið, bæði fyrst hæstv. menntmrh. og svo hæstv. forsrh., að ættfræði væri sérstök vísindagrein og viðurkennd vísindagrein og væri viðurkennd það við marga háskóla. Þeir eru nú báðir gamlir prófessorar og ættu þess vegna að þekkja vel til í þessum efnum, og ég vil þess vegna svona til þess að upplýsa þetta mál betur spyrja þá um það, undir hvaða háskóladeildir við erlenda háskóla flokkast ættfræði? Það væri mjög fróðlegt að fá vitneskju um það, áður en við afgreiðum þetta frv. Mér er nú sagt, að slík embætti séu ekki til nema í Þýzkalandi og hafi verið á þeim tíma, þegar viss stjórn þar lagði sérstaka stund á ættfræði. En það kann að vera misskilningur. En ég vildi spyrja um það, þar sem þeir telja, að slík embætti séu til eins og þetta, sem hér var stofnað, við hvaða deild við erlenda háskóla er venjan að hafa þau? Er það við lagadeild? Er það við læknadeild? Er það við heimspekideild? Eða er það jafnvel eins og einhver þm. komst að orði, jafnvel við verkfræðideild, af því að það heyrir kannske á vissan hátt undir verkfræði að fjölga mannkyninu?