17.04.1969
Neðri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (1155)

117. mál, Háskóli Íslands

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil geta þess, að það er ótvírætt, að Háskóli Íslands hefur talið ættfræði vera vísindagrein þegar af því, að á sínum tíma var Hannes Þorsteinsson, sem var mestur ættfræðingur að afköstum á sínum tíma, gerður þar heiðursdoktor. Hannes Þorsteinsson var ekki sérlegur sagnfræðingur, hann var fyrst og fremst ættfræðingur, og rannsóknir hans í ættfræði, sem fyrst og fremst lýsa sér í Sýslumannaævum og síðan í hinum miklu ættfræðiritum og lærðra manna sögum, sem Páll Eggert lagði til grundvallar sinni ævisagnaskrá Íslendinga, voru þau afrek, sem gerðu það að verkum, að Háskólinn gerði hann að heiðursdoktor. Það er svo allt annað mál, og ég tel norrænudeild sannast sagt það til lítils sóma, að hún af allt öðrum og annarlegum ástæðum vill nú ekki viðurkenna ættfræði sem vísindagrein eða vill ekki taka við manni, sem eigi að koma inn í deildina með þessum hætti. Það getur verið mannlega skiljanlegt, og ég skal ekkert fara að deila á þá góðu menn fyrir það. Þeir hafa sínar skoðanir, en þótt lærðir séu, breyta þeir áreiðanlega ekki sannfæringu Íslendinga um það, að ættfræði og ættvísindi eru þau fræði og þau vísindi. sem Íslendingum eru kærust og vilja helzt í heiðri hafa.