25.04.1969
Neðri deild: 81. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1034 í B-deild Alþingistíðinda. (1159)

117. mál, Háskóli Íslands

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls gerðust þau tíðindi, að hæstv. menntmrh. réðst næsta harkalega á nokkra kennara í heimspekideild Háskólans, bar þeim á brýn ósannindi og móðgun við Alþ. og sitthvað fleira af þessu tagi. Ég lét þess getið við þá umr., að mér þættu þessi ummæli hæstv. ráðh. næsta hæpin hér á þessum stað, þar sem þessir háskólakennarar hefðu ekki tök á að svara. Nú hafa háskólakennararnir sent bréf til hæstv. menntmrh. og til hv. menntmnm., og ég tel hlýða með leyfi hæstv. forseta að lesa þetta bréf upp hér, svo að það verði að finna í þingtíðindum ásamt árás hæstv. ráðh. Bréf háskólakennaranna er svo hljóðandi:

„Vegna ummæla menntmrh. við 2. umr. þessa máls viljum við undirritaðir koma á framfæri við hið háa Alþ. eftirgreindum aths. til skýringar og leiðréttingar:

1) Í heimspekideild hafa 17 deildarmenn atkvæðisrétt. Við afgreiðslu þessa máls á deildarfundi 28. janúar s.l. sátu tveir hjá, en þrír voru fjarverandi. Tóku því 12 deildarmenn þátt í afgreiðslu málsins. Ályktunartill. okkar fjórmenninganna hlaut 8 atkv. og var því samþ. sem ályktun deildarinnar, svo sem greint er frá í bréfi deildarforseta, sem prentað er með nál. meiri hl. menntmn. Nd. En sagnfræðikennararnir fjórir lögðu fram sérálit. Í báðum álitsgerðunum er gert ráð fyrir, á lítið eitt mismunandi forsendum, að umræddu prófessorsembætti verði hafnað, og var það því samhljóða afstaða heimspekideildar.

2) Okkur fjórum var ekki kunnugt um, að við nokkurn háskóla væri prófessorsembætti í greininni, þ.e. ættfræði, né sérstök kennarastaða af öðru tagi. Í umr. á fundi heimspekideildar kom ekki fram, að nokkrum deildarmanni væri kunnugt um slíkt embætti eða stöðu við nokkurn háskóla. Í ályktun heimspekideildar er hins vegar ekki fjallað um vísindalega stöðu þessarar greinar, né eru bornar brigður á fræðilegt gildi hennar sem hjálpargreinar fyrir aðrar fræðigreinar, t.d. sagnfræði, heldur er aðeins það álit látið uppi, að þessi fræðigrein sé ekki þess eðlis, að hún geti verið sjálfstæð háskólagrein með sérstöku prófessorsembætti.

3) Menntmrh. vitnaði í alfræðibók til stuðnings því, að prófessorsembætti væru í ættfræði við þýzka háskóla, en nefndi þó engan sérstakan háskóla í því sambandi. Gerðum við því athugun á kennsluskrám frá háskólunum í Hamborg, Kiel, Rostock, Göttingen, Miinster, Köln, Bonn, Frankfurt, Heidelberg, Mainz, Stuttgart, Tiibingen, Marburg, Giessen, Würzburg, Jena, Halle, Leipzig og München, svo og Humbolt-Universität í Berlín og Freie Universität í Berlín. Var þessi athugun í hverju tilviki byggð á nýjustu kennsluskrá, sem völ var á, í flestum tilvikum frá þessu háskólaári eða næstu tveimur árum á undan. Athugunin leiddi í ljós, að við engan þessara háskóla er prófessorsembætti í ættfræði né nokkur kennarastaða annars konar. Í ljós kom hins vegar, að undanfarin 6 ár hefur landsskjalavörður í Westfalen, dr. Jósef Prinzs, verið heiðursprófessor, ekki í ættfræði sérstaklega, heldur í ættfræði og skjaldarmerkjafræði við háskólann í Münster í Westfalen. Þess skal getið, að dr. Prinzs hefur verið mikilvirkur fræðimaður og rithöfundur miðalda og nýju aldar sagnfræði, (sjá Kürsehners Deutscher Gelehrten-Kalender, 9. útgáfa, Berlín 1961, bls. 1583). Þess skal einnig getið, að ekki mun sú skipan óalgeng við þýzka háskóla, að t.d. safnverðir séu jafnframt heiðursprófessorar, þannig er t.d. landsskjalavörðurinn í Hannover heiðursprófessor í sögu Neðra- Saxlands við háskólann í Göttingen. Loks skal þess getið, að ofangreind athugun nær ekki til allra þýzkra háskóla, þar sem kennsluskrár voru ekki fyrir hendi, og hún nær til heimspekideildanna einna.

Reykjavík 22. apríl 1969.

Helgi Guðmundsson,

Hreinn Benediktsson,

Matthías Jónasson,

Sveinn Skorri Höskuldsson.“

Einnig hefur menntmnm. borizt bréf frá erfðafræðinefnd Háskólans, þar sem lögð er áherzla á það, að skipan þessa embættis í ættfræði við lagadeild sé ekki í samræmi við óskir og þarfir erfðafræðinefndarinnar.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál, sem hlýtur að hafa orðið öllum til leiðinda, sem að því standa, bæði þeim ágæta manni, sem upphaflega var sagt, að ætti að heiðra, hæstv. ríkisstj. og þeim alþm., sem ætla að veita þessari furðulegu lausn brautargengi.