06.05.1969
Efri deild: 86. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í B-deild Alþingistíðinda. (1170)

117. mál, Háskóli Íslands

Frsm. meiri hl. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., fjallar um stofnun prófessorsembættis í ættfræði við Háskóla Íslands. Er embættið bundið við nafn ákveðins manns, Einars Bjarnasonar núverandi ríkisendurskoðanda, en hann er talinn færasti ættfræðingur okkar nú í dag og frábærlega að sér í þeirri grein. Starf æviskrárritara er og hefur undanfarið verið laust, en samkv. frv. er ætlunin sú, að ekki verði skipað í það starf, heldur verði ættfræðiprófessor falin störf æviskrárritara, eftir því sem nánar verður fyrir mælt af menntmrn. að fenginni umsögn háskólaráðs. Það er því ekki ætlunin með þessu frv. að fjölga ríkisstarfsmönnum, en aðaltilgangur þess er sá að skapa skilyrði til þess, að Einar Bjarnason geti að fullu helgað sig því starfi, ættfræði, sem talið er, að hann sé tvímælalaust færastur í núlifandi Íslendinga.

Þetta frv. hefur tekið nokkrum breyt. í hv. Nd. Alþ. Samkvæmt frv., eins og það var upphaflega lagt fyrir Alþ., skyldi þetta prófessorsembætti vera við heimspekideild Háskólans. Í Nd. var þessu ákvæði hins vegar breytt á þann veg, að embættið yrði við lagadeild Háskólans, og jafnframt bætt inn í frv. ákvæði um það, að um þetta embætti skyldu gilda ákvæði l. um aldurshámark ríkisstarfsmanna, sem þótti öruggara, að kæmi beint fram í l., þar sem embættið er að því leyti sérstaks eðlis, að það er bundið við nafn ákveðins manns. Eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, urðu um þetta frv. allmiklar umr. í Nd. Ég skal ekki rekja þær deilur, sem þar áttu sér stað aðallega um það, hvort ættfræði teldist vísindagrein, sem réttlætti prófessorat í þeim fræðum. Menntmn. þessarar hv. þd. hefur haft til athugunar frv. og að sjálfsögðu þær umsagnir um það, sem prentaðar eru með nál. menntmn. Nd., og enn fremur bréf lagadeildar Háskólans dags. 16. apríl, en það bréf var sent menntmn. Nd., en hefur hins vegar ekki verið prentað í þskj., og ég skal því lesa það, en bréfið hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Lagadeild hefur í dag rætt bréf menntmn. Nd. Alþ. til háskólarektors, dags. 15. apríl. Gerð var þessi ályktun:

Lagadeild fellst á, að prófessorsembætti það, sem um ræðir í bréfi menntmn., verði tengt lagadeild. Deildin tekur jafnframt fram, að hún telur lögfestingu þessa embættis, ef til kemur, óviðkomandi áætlun deildarinnar og háskólaráðs frá 1964 um fjölgun prófessorsembætta í lagadeild. Væntir hún þess, að fé verði veitt á fjárl. næsta árs til að skipað verði í prófessorsembætti það, sem lögfest var með l. nr. 27 frá 29. apríl 1967.“ Bréfið undirritar deildarforseti, Þór Vilhjálmsson prófessor.

Varðandi það atriði, að stofnun þess prófessorsembættis, sem í frv. er lagt til, skerði á nokkurn hátt áætlun lagadeildar og háskólaráðs frá 1964 um fjölgun prófessorsembætta í lagadeild, er það að segja, að það mun þegar hafa verið af hálfu hæstv. menntmrh. í umr. í Nd. gefin yfirlýsing um það, að það embætti, sem þetta frv. fjallar um, hefði ekki nein áhrif á fyrri áætlanir um fjölgun prófessorsembætta við háskóladeildina, en varðandi skipun í það prófessorsembætti, sem lögfest var með 1. frá 1967, er það að segja, að það mun að sjálfsögðu velta á fjárveitingum Alþ.

Það er rétt að láta þess getið, að nm. í menntmn. og e.t.v. hv. þdm. öðrum, um það er mér reyndar ekki kunnugt, hefur borizt bréf frá erfðafræðinefnd Háskólans. Með því bréfi fylgdi afrit af tveim bréfum frá síðasta ári, sem n. hafði sent rektor Háskólans viðvíkjandi framtíðarskipulagi erfðafræðinefndar og erfðafræðirannsókna. Þar er vikið að því, að á fót verði komið erfðafræðistofnun. Verksvið hennar ætti þá að vera að áliti nefndarinnar rannsóknir á alhliða erfðafræði, þótt fyrst um sinn verði lögð megináherzla á rannsóknir í mannerfðafræði eins og erfðafræðinefndin mun hafa gert hingað til, og loks er vikið að starfi æviskrárritara, og tekur nefndin það fram varðandi tengsl þess við væntanlega erfðafræðistofnun, að það sé nauðsynlegt, að forstöðumaður erfðafræðistofnunar sé vísindalega sérmenntaður í einhverri grein erfðafræði og að hann sé jafnframt prófessor við læknadeild eða við raunvísindadeild, en síðan segir orðrétt í bréfinu, með leyfi hæstv. forseta:

„Hins vegar fallast nm. á, að eðlilegt sé, að við stofnunina sé ættfræðideild, og gæti hún verið til stuðnings mannerfðafræðirannsóknastofnuninni. Gæti sú deild verið undir forstöðu prófessors í ættfræði við Háskólann, svipað því sem þér leggið til í niðurlagi 2. kafla bréfs yðar.“

Ég held, að það sé ekki ástæða til að rekja fleira úr þessu bréfi. Þetta, sem ég síðast nefndi, eru þau atriði, sem varða þetta frv., sem hér er til umr. en síðara bréfið, sem fylgir í afriti, er svo hljóðandi:

„Föstudaginn 6. des. s.l. var fundur haldinn í erfðafræðinefnd og eftirfarandi ályktun samþ. samhljóða: „Erfðafræðinefnd óskar að taka fram, að hún er mótfallin stofnun erfða- og ættfræðistofnunar, nema því aðeins að forstöðumaður stofnunarinnar verði erfðafræðingur eða forstöðumenn beggja greinanna verði jafnsettir að stöðuheitum og launum og að stofnunin verði undir stjórn erfðafræðinefndar.“

Orðin „beggja greina“ eiga að sjálfsögðu við annars vegar erfðafræði og hins vegar ættfræði.

Eins og fram kemur í nál. á þskj. nr. 643, hefur menntmn. ekki orðið sammála um afgreiðslu frv. Við, sem að þessu nál. stöndum, þ.e.a.s. 6 nm., leggjum til, að frv. verði samþ., en minni hl., hv. 2. þm. Austf., skilar hins vegar séráliti.